Félag atvinnurekenda

Hraðpróf fyrir hundruð milljóna keypt án útboðs

27. janúar 2022

Svo virðist sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi keypt hraðpróf til að skima fyrir kórónuveirunni fyrir hundruð milljóna króna án þess að bjóða kaupin út í samræmi við lög um opinber innkaup. Heilsugæslan hefur ekki svarað fyrirspurnum Félags atvinnurekenda um málið. Framkvæmdastjóri FA segir um grafalvarlegt mál að ræða.

Forsaga málsins er sú að í september síðastliðnum, þegar fyrir lágu áform stjórnvalda um að heimila fjölmenna viðburði að uppfylltum skilyrðum um að gestir tækju hraðpróf, sendu Ríkiskaup og Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu út boð til fyrirtækja um að taka þátt í rafrænu gagnvirku innkaupakerfi vegna hraðprófa. Innkaupin gætu numið allt að fimm milljörðum króna á fimm ára gildistíma innkaupakerfisins. Hinn 8. nóvember fengu níu fyrirtæki staðfestingu þess að þau hefðu verið valin til þátttöku í innkaupakerfinu, m.a. á grundvelli gæða þeirra hraðprófa, sem þau buðu fram og voru metin af erlendum óháðum aðila í útboðsferlinu.

Engin innkaup í kerfinu 
Samkvæmt 41. grein laga um opinber innkaup skulu allir bjóðendur, sem fullnægt hafa skilyrðum útboðs, eiga rétt á aðild að gagnvirku innkaupakerfi. Innkaup viðkomandi vöru fara síðan fram í kerfinu, með því að kaupandinn gefur fyrirtækjunum kost á að leggja fram tilboð fyrir einstök innkaup sem fara fram í kerfinu. Gefa á fyrirtækjunum minnst tíu daga til að leggja fram tilboð innan kerfisins og skal kaupandinn „grundvalla val tilboðs á hagkvæmasta tilboði samkvæmt forsendum fyrir vali tilboðs sem fram komu í útboðslýsingu innkaupakerfisins.“

Er frá leið fóru fyrirtæki, sem valin höfðu verið til þátttöku í innkaupakerfinu, þar með taldir félagsmenn í FA, að furða sig á því að engin innkaup færu fram í kerfinu, á sama tíma og tugir þúsunda manna fóru í hraðpróf, en ætla má að kostnaður við prófin hafi numið numið á annað hundrað milljóna króna hið minnsta.

Ríkiskaup sjá ekki að keypt hafi verið inn samkvæmt löglegu ferli
Fyrr í þessum mánuði sendi FA Ríkiskaupum fyrirspurn vegna málsins. Ríkiskaup svöruðu daginn eftir og greindu frá því að af fyrirliggjandi upplýsingum hjá stofnuninni yrði ekki séð að Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefði keypt SARS-CoV-antigen hraðpróf í hinu gagnvirka innkaupakerfi. Heilsugæslan væri kaupandi hraðprófanna og ætti að hafa frumkvæði að kaupum innan kerfisins. „Þegar kaupandi notar innkaupakerfið við kaup á vörum sem falla þar undir, hér SARS-CoV-2 antigen hraðpróf, ber honum að fylgja þeim reglum sem greinir í fyrrnefndri 41. gr., líkt og réttilega er bent á í erindi Félags atvinnurekenda,“ segir í svari Ríkiskaupa.

Ríkiskaup tóku hins vegar fram að þau færu ekki með eftirlitshlutverk gagnvart stofnunum ríkisins og FA yrði að beina fyrirspurnum að Heilsugæslunni.

Í framhaldi af því sendi FA Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins erindi, dags. 21. janúar sl., og óskaði upplýsinga um hvernig hefði verið staðið að innkaupum á  hraðprófum vegna COVID-19, hvers vegna útboð á grundvelli gagnvirka innkaupakerfisins hefði ekki farið fram, af hvaða fyrirtækjum prófin hefðu verið keypt, á hvaða samningsgrundvelli og hvort lögum um opinber innkaup hefði verið fylgt við innkaupin. Þessu erindi hefur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ekki svarað.

Nota próf sem Landspítalinn „mælir sérstaklega með“
Í Morgunblaðinu 24. janúar var haft eftir Sigríði Dóru Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að stofnunin notaði hraðpróf frá „tveimur framleiðendum sem Landspítalinn hefur mælt sérstaklega með.“ Sérfræðingar Landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins hafa hins vegar samþykkt formlega nokkrar tegundir hraðprófa, auk þess sem öll fyrirtækin sem valin voru til þátttöku í gagnvirka innkaupakerfinu skiluðu inn upplýsingum um próf sem metið var að stæðust kröfur útboðsins.

Grafalvarlegt mál
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að hér sé um grafalvarlegt mál að ræða. „Opinberum aðilum leyfist ekki að kaupa inn vörur fyrir aðrar eins fjárhæðir án þess að fara í formlegt útboðsferli. Af svörum Ríkiskaupa verður ekki annað ráðið en að Heilsugæslan hafi látið hjá líða að fylgja hinu lögformlega ferli. Lögin um opinber innkaup gegna mikilvægu hlutverki; þau ýta undir samkeppni á markaði og að skattgreiðendur njóti kosta þeirrar samkeppni með því að ríkið kaupi af þeim fyrirtækjum sem bjóða lægst verð, að gæðakröfum uppfylltum. Lögin um opinber innkaup tryggja sömuleiðis opið og gegnsætt innkaupaferli og koma þannig í veg fyrir spillingu. Okkur þykir stórundarlegt að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins lýsi því yfir opinberlega að hún noti hraðpróf sem einhverjum á Landspítalanum þykja henta, en gefi ekki fyrirtækjum færi á að bjóða í innkaupin, sem bjóða hraðpróf sem hafa sætt ströngu gæðaeftirliti og eru samþykkt af opinberum og óháðum aðilum. Það er ekki ábyrg meðferð á fjármunum skattgreiðenda. Þá þykir okkur ekki síður furðulegt að stofnunin svari ekki fyrirspurnum um málið ef hún hefur skýringar á reiðum höndum,“ segir Ólafur.

Félag atvinnurekenda

Ráð gegn innfluttri verðbólgu

17. maí 2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Fréttablaðinu 17. maí 2022.

Svokölluð innflutt verðbólga, þ.e. hækkanir á innfluttum vörum vegna mikilla verðhækkana á alþjóðlegum mörkuðum, er áhyggjuefni margra, ekki sízt vegna áhrifa á matarverð. Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins komst þó að þeirri áhugaverðu niðurstöðu að innlend matvæli, til dæmis mjólkurvörur og kjöt, hefðu hækkað mun meira en innfluttar vörur undanfarið og nefndi hagfræðingur ASÍ skort á samkeppni sem eina skýringuna á því.

Innlend búvöruframleiðsla nýtur þess að háir verndartollar eru lagðir á innfluttar búvörur. Heimildir til að flytja inn búvörur á lægri eða engum tolli, svokallaðir tollkvótar sem samið er um í alþjóðasamningum, eru takmarkaðar. Auk þess fer íslenzka ríkið þá leið að bjóða upp kvótana og slagar verðið, sem innflytjendur greiða fyrir þá, stundum upp í fullan toll á vörunni. Allt takmarkar þetta samkeppni.

Stjórnmálamenn hafa velt upp leiðum til að milda áhrif hækkandi matarverðs á almenning. Matvælaráðherrann sagði í viðtali að henni fyndist ekki útilokað að fella niður virðisaukaskatt á matvælum tímabundið. Sú leið hefði vissulega áhrif á verð, en þýddi um leið mikið tekjutap ríkissjóðs. Tekjur ríkisins af tollum eru hins vegar mjög litlar. Nærtækari leið væri því að lækka tolla. Ef kjúklingur hækkar til dæmis í verði um 500 krónur á alþjóðlegum mörkuðum, myndi lækkun tolla um 500 krónur þýða sömu vernd fyrir innlenda framleiðslu, í stað þess að innlendir framleiðendur geti hækkað sínar vörur í skjóli aukinnar verðverndar.

Í vikunni benti Félag atvinnurekenda á að sumir innlendir búvöruframleiðendur stunda þá vafasömu viðskiptahætti að bjóða hátt í tollkvóta fyrir vörur, sem eru fluttar inn í samkeppni við framleiðslu þeirra, fá þannig meirihluta kvótans í sinn hlut og geta ráðið verðinu. Önnur leið sem mætti fara til að lækka matarverð er að úthluta tollkvótum fyrir búvörur án endurgjalds, í stað uppboðanna. Samkeppniseftirlitið hefur mælt með slíkri leið, enda þýddi hún að alþjóðleg samkeppni veitti innlendu framleiðslunni meira aðhald.

Grein Ólafs á vef Fréttablaðsins

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Svínað á neytendum

16. maí 2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA á Vísi 16. maí 2022.

Innflutningur tollfrjálsra búvara frá ríkjum Evrópusambandsins eflir samkeppni á íslenzkum búvörumarkaði og stuðlar að lægra verði til neytenda. Eða það var að minnsta kosti meiningin, þegar þáverandi ráðherrar utanríkis- og landbúnaðarmála gerðu samning við Evrópusambandið árið 2015 um að stækka gagnkvæmar innflutningsheimildir án tolla, svokallaða tollkvóta. Ávinningur neytenda af þessum samningi hefur verið umtalsverður, en gæti verið enn meiri.

Borga skatt fyrir að fá niðurfelldan skatt
Íslenzk stjórnvöld úthluta hinum tollfrjálsu innflutningsheimildum með aðferð, sem gengur gegn bæði bókstaf og tilgangi samningsins. Tollkvótarnir eru boðnir upp og innflutningsfyrirtæki verða þannig að greiða skatt – svokallað útboðsgjald – fyrir að fá annan skatt, innflutningstollinn, felldan niður! Það þýðir að íslenzkir neytendur fá ekki að njóta ávinnings tollfrelsisins til fulls og innflutta varan hækkar í verði sem nemur útboðsgjaldinu.

Stækkun tollkvótanna samkvæmt samningnum við ESB var að mestu leyti komin til framkvæmda árið 2019. Félag atvinnurekenda hefur síðan fylgzt með framkvæmd samningsins, meðal annars niðurstöðum útboða á tollkvóta. Reynslan frá 2019 sýnir að hvað sumar búvörur varðar nýta innlendir bændur og framleiðendur kerfið, sem stjórnvöld hafa sett upp í kringum útboð á tollkvótunum, til að hindra að þeir þurfi að takast á við samkeppni frá innflutningi.

Innlendir framleiðendur með 74-91% innflutningskvótans
Á myndinni hér fyrir neðan sést hversu hátt hlutfall tollkvótans fyrir svínakjöt frá ESB innlendir bændur og afurðastöðvar hafa fengið í sinn hlut undanfarin þrjú ár og það sem af er þessu ári.  Hlutfallið er allt frá rúmlega 74% árið 2021 og upp í tæplega 91% í þeim útboðum sem fram hafa farið það sem af er árinu 2022.

Ástæðan fyrir því að innlendir svínabændur og kjötframleiðendur fá svona hátt hlutfall tollkvótans er að þeir bjóða hátt verð í hann, hærra en flestir aðrir. Á næstu mynd sjáum við þróun útboðsgjaldsins, sem innflytjendur svínakjöts hafa að meðaltali greitt fyrir að fá að flytja inn hvert kíló án tolla frá því í árslok 2018.

Þessi mynd segir sína sögu; gjaldið fer hækkandi. Þegar hún er skoðuð í samhengi við fyrri myndina fer ekkert á milli mála að það eru innlendir framleiðendur sem leiða hækkanirnar.

Hér eru stjórnmálamenn búnir að búa til kerfi sem gerir innlendum framleiðendum búvöru kleift að bjóða hátt í tollfrjálsan innflutningskvóta á sömu vöru, ná til sín megninu af kvótanum, hækka þannig verðið á innflutningnum og hindra samkeppni við sjálfa sig. Þetta heitir auðvitað að svína á neytendum og þarf meðal annars að skoðast í því ljósi að nú á tímum hækkandi matvælaverðs ættu stjórnvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna gegn verðhækkunum.

Samkeppniseftirlitið taki viðskiptahættina til skoðunar         
Samkeppnisyfirvöld hafa áður lagt til að tollar verði felldir niður á svína- og kjúklingakjöti, enda er þar um að ræða vernd fyrir iðnaðarframleiðslu sem á lítið skylt við hefðbundinn landbúnað. Samkeppniseftirlitið hefur líka lagt til að útboð á tollkvótum verði felld niður eða kvótunum úthlutað án endurgjalds. Nú virðist full ástæða til að Samkeppniseftirlitið taki þá viðskiptahætti sem viðgangast í þessu kerfi til skoðunar.

Sú þróun sem hér er lýst með tölulegum gögnum sýnir vel hvernig hagsmunaaðilum í landbúnaði hefur tekizt að nýta gallað kerfi úthlutunar tollkvóta til að koma í veg fyrir samkeppni við sjálfa sig. Hún sýnir líka vel fram á hversu vitlaust væri að láta þessa sömu hagsmunaaðila hafa undanþágur frá samkeppnislögum, eins og tillögur eru uppi um innan stjórnarliðsins. Það þarf að auka samkeppnina í innlendri búvöruframleiðslu, ekki draga úr henni.

Grein Ólafs á Vísi

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Netverslun við Kína – hvernig kem ég vörunni minni á framfæri? Morgunverðarfundur ÍKV og Íslandsstofu 24. maí

12. maí 2022

Frummælendur á fundinum. Joakim, Valdís, Ágúst, Óskar og David.

Kínverjar eru duglegir að selja Íslendingum vörur á netinu en viðskiptin í hina áttina eru ekki eins mikil. Mörg íslensk fyrirtæki telja vörurnar sínar eiga erindi við kínverska markaðinn en flestir reka sig á að málið er mun flóknara en að opna bara sölusíðu á netinu. Hvað þarf að gera til að koma vörunni sinni á framfæri við kínverska neytendur? Um það fjöllum við á morgunverðarfundi Íslandsstofu og Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins (ÍKV) sem haldinn verður í tengslum við aðalfund ÍKV þriðjudaginn 24. maí næstkomandi, kl. 8.30.

Dagskrá

8.30 Cracking the complex code – how to succeed with e-commerce in China
Joakim Abeleen, viðskiptafulltrúi og markaðsstjóri Business Sweden í Kína

9.00 Víðtæk aðstoð við vöxt erlendis – Samstarf Íslandsstofu og Business Sweden
Ágúst Sigurðarson, fagstjóri útflutningsþjónustu hjá Íslandsstofu

9.20 Er hægt að selja Kínverjum fisk á netinu?
Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Breiðar þróunarfélags og áður framkvæmdastjóri Blámars

9.40 Frá hugmynd til netverslunar í Kína
Óskar Þórðarson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Omnom Chocolate

10.00 How to make an Icelandic brand work in the China market
David Tong Li, stjórnarformaður Ísmoli Marketing Group

Fundurinn verður haldinn í fundarsal Félags atvinnurekenda á 9. hæð í Húsi verslunarinnar kl. 8.30-10.15. Léttur morgunverður er í boði. Sætafjöldi er takmarkaður og því nauðsynlegt að skrá sig hér að neðan.

Notice: JavaScript is required for this content.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin