Félag atvinnurekenda

Húsnæðisverðið gríðarlegt hagsmunamál fyrirtækja

13. september 2021

Ólafur og Kristrún ræða saman í Kaffikróknum.

Ríkið á að beita sér á litlum hluta fasteignamarkaðarins með fjármögnun félagslegra íbúða til að stuðla að sveiflujöfnun og hindra að hækkanir á botni markaðarins hafi áhrif á hann allan. Þetta er að mati Kristrúnar Frostadóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, „risastórt hagsmunamál atvinnurekenda“ af því að hækkanir húsnæðisverðs þrýsta á launahækkanir. Kristrún var gestur Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda í Kaffikróknum hjá FA í morgun og horfa má á samtal þeirra í spilaranum hér að neðan.

Fasteignaskattar fylgja verðhækkunum á markaðnum
Ólafur spurði Kristrúnu meðal annars út í síhækkandi fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Hún benti á að þær hækkanir fylgdu hækkandi fasteignamati, sem elti stöðugar verðhækkanir á markaðnum, og væri langt umfram verðmætasköpun í þjóðfélaginu og því íþyngjandi fyrir fyrirtækin. Verðhækkanir á íbúðamarkaði hefðu áhrif á atvinnuhúsnæði og þessir markaðir tengdust. „Hvers vegna eru þessar hækkanir svona miklar? Það er einhver markaðsbrestur til staðar sem er að gera það að verkum að við sjáum núna eignabólu á hluta af fasteignamarkaðnum, sem hefur mikil áhrif á verðlag, verðbólgu og launakröfur. Þetta hefur allt áhrif á stöðu fyrirtækja,“ sagði Kristrún. „Þetta er svo miklu stærra hagsmunamál en bara fyrir einstaklingana. Þetta er stærsti einstaki kostnaðarliður flestra heimila og hefur gríðarleg áhrif í launaumræðum og launakröfum. Þetta er þriðjungur af verðbólgu í dag, þannig að hækkanirnar hafa áhrif á verðlag. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrirtækja – að það sé ákveðið akkeri á markaði sem komi í veg fyrir að þessar hækkanir leki upp allan markaðinn. Þarna er bresturinn.“

Ríkið jafni sveiflurnar
Hún sagði að ein undirrót verðhækkana væri að meira fjármagn úr bankakerfinu hefði farið á kaupendahlið markaðarins en byggingarhliðina. Samfylkingin vildi efla félagslega íbúðakerfið. „Fólk tengir oft sjálft ekki við félagslega kerfið og segir sem svo að það vilji kaupa en ekki leigja. En vandinn byrjar í grunninum, fólk kemst ekki af stað. Þeir sem komast ekki á markaðinn eru að eyða fúlgum fjár í leigu, yfirbjóða ódýrustu eignirnar og þessar hækkanir á botninum þrýsta upp öllum markaðnum.“ Kristrún sagði að veita ætti meira fé í almenna íbúðakerfið og búa þannig til grunn, sem héldi aftur af öllum markaðnum. Það þýddi ekki að allir ættu að búa í leiguíbúðum. Félagslegar íbúðir væru nú um 6% af markaðnum en hefðu fyrir aldamót verið um 11%. „Að mínu mati þarf að gefa þarna í til að hækka þetta hlutfall. Síðan á ríkið að vera með ákveðið hlutfall og fylgja eftir með byggingu húsnæðis eftir því sem við stækkum markaðinn. Það á ekki að taka yfir allan markaðinn.“

Kristrún sagði að ríkið væri í þeirri stöðu að geta aukið fjármagn á framboðshliðinni og farið á móti hagsveiflunni þegar útlán banka skryppu saman. Það væri hagfellt fyrir verktaka, enda vissu allir í byggingabransanum að sveiflur væru slæmar, m.a. af því að þeir hefðu fjárfest mikið í vélum, tækjum og fólki. „Þá erum við komin með aðra sveiflujöfnun þarna inn. Ég myndi vilja líta á þennan litla hluta af markaðnum sem part af opinberum innviðum. Þetta er bara opinber fjárfesting, sem flestir eru orðnir sammála um. Þú gefur í þegar slaknar á markaðnum, svo bakkarðu þegar það er spenna. Þetta er risastórt hagsmunamál fyrir atvinnurekendur, af því að þetta er stærsta rót launahækkana hér á landi.“

Vilja lækka álögur á minni fyrirtæki
Eitt af stefnumálum Samfylkingarinnar er einfaldara regluverk og lægri álögur fyrir einyrkja og minnstu fyrirtækin. Meðal annars er boðað svokallað frítekjumark varðandi tekjuskatt fyrirtækja. „Við vitum að það er ákveðin tilhneiging hjá litlum fyrirtækjum sem vilja lækka skattbyrðina sína þegar líður á árið að henda í alls konar rekstrarkostnað, oft í ópraktíska hluti, til að minnka skattskuldina. Að okkar mati er þetta sóun á fjármagni,“ sagði Kristrún. „Við viljum skapa svigrúm hjá fyrirtækjum til að vera með ákveðinn grunn sem er undanþeginn tekjuskatti svo lengi sem það fer í fjárfestingu í fyrirtækinu.“ Ekki væri búið að útfæra við hvaða fjárhæðir yrði miðað. „Þá ertu að örva fjárfestingu og skapa þar grundvöll til vaxtar en ef þú vilt ekki nýta þér þetta, þá þarftu ekki að nýta það. Þeir sem eru að standa sig og bæta við reksturinn sinn fá þarna hagkvæma leið til að stýra auðlindum í hagkerfinu. Ef menn vilja ekki nota þetta sitja þeir með óbreyttan hlut.“

Kristrún sagði að Samfylkingin væri ekki mótfallin breytingum á tryggingagjaldinu, en vildi leggja þar áherslu á litlu fyrirtækin þar sem sá skattur vægi hlutfallslega langþyngst, sérstaklega í launakostnaði.

Hægt er að horfa á samtal Ólafs og Kristrúnar með því að smella á spilarann hér að ofan.

Félag atvinnurekenda

Fræðum og græðum – félagsfundur 6. október

24. september 2021

Félag atvinnurekenda efnir til félagsfundar miðvikudaginn 6. október næstkomandi kl. 10, undir yfirskriftinni „Fræðum og græðum – nýtum Starfsmenntasjóð verslunarinnar til að styrkja starfsfólkið okkar í starfi“. Á fundinum munu fimm fræðslufyrirtæki innan raða FA kynna nálgun sína á fræðslu og þjálfun fyrir starfsmenn fyrirtækja. Jafnframt verða kynntir möguleikar fyrirtækja til að sækja um styrki í Starfsmenntasjóðinn samkvæmt starfsreglum hans, svo og verkefnið „fræðslustjóri að láni“.

Öll fyrirtæki þurfa að huga að þörf sinni og starfsmanna sinna fyrir endurmenntun, þjálfun og fræðslu. Með kjarasamningi árið 2000 var settur á laggirnar Starfsmenntasjóður verslunarinnar, með aðild FA, VR og Landssambands verzlunarmanna. Markmið sjóðsins er að auka hæfni og menntun starfsmanna fyrirtækjanna í FA, ásamt því að stuðla að auknu framboði af námi og námsefni sem svari þörfum atvinnulífsins á hverjum tíma. Framlag vinnuveitenda í sjóðinn er 0,3% af launagreiðslum. Stéttarfélögin greiða mótframlag sem nemur 0,05% af sama stofni.

Kannanir FA meðal félagsmanna hafa sýnt að eingöngu um þriðjungur fyrirtækjanna nýtir sér Starfsmennasjóðinn. Það þýðir að tveir þriðjuhlutar félagsmanna hafa greitt háar fjárhæðir í sjóðinn af launum starfsmanna sinna, en njóta ekki þess ávinnings sem felst í styrkjum sjóðsins til fræðslu og þjálfunar starfsmanna. Í Starfsmenntasjóði verslunarinnar eru nú um 200 milljónir króna – miklir peningar, sem FA vill koma í vinnu! Með því að nýta Starfsmenntasjóðinn til að fræða og þjálfa starfsfólkið græða allir, bæði fyrirtækin og starfsmenn þeirra.

FA fékk Attentus til að vinna fyrir félagið greiningu á fræðsluþörfum aðildarfyrirtækja og skilaði fyrirtækið skýrslu um þær. Innan félagsins eru öflug fræðslufyrirtæki og hefur FA farið þess á leit við þau að þau stilli upp námsframboði sem taki mið af þörfunum eins og þær voru skilgreindar í úttekt Attentus. Öll bjóða þessi fyrirtæki upp á fjölbreytta fræðslu og þjálfun og eru oft reiðubúin að sérsníða lausnir fyrir fyrirtæki. FA hvetur félagsmenn því til að kynna sér fræðsluframboð þeirra vel – mæting á félagsfundinn er fyrsta skrefið í því.

Við hvetjum mannauðs- og fræðslustjóra sérstaklega til að mæta, sé þeim til að dreifa í viðkomandi fyrirtæki, en fundarefnið á raunar erindi við alla stjórnendur sem vilja fá meira út úr starfsfólkinu sínu og tryggja ánægju þess og þróun í starfi.

Dagskrá fundarins:

10.00 Inngangur – Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA
10.05 Hvað styrkir Starfsmenntasjóður verslunarinnar? – Selma Kristjánsdóttir, stjórnarmaður í SV
10.20 Verkefnið fræðslustjóri að láni – Anna Kristín Kristjánsdóttir, varaformaður FA og stjórnarmaður í SV
10.30 Kynning á Þekkingarmiðlun – Eyþór Eðvarðsson, ráðgjafi og eigandi
10.40 Kynning á Gerum betur – Margrét Reynisdóttir, framkvæmdastjóri
10.50 Kynning á Dale Carnegie – Unnur Magnúsdóttir, ráðgjafi og eigandi
11.00 Kynning á Akademias- Guðmundur Arnar Guðmundsson framkvæmdastjóri
11.10 Kynning á Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum – Skúli Gunnsteinsson, framkvæmdastjóri
11.20 Kynning á Promennt – Eydís Eyland Brynjarsdóttir markaðsstjóri

Fundarstjóri er Ólafur Stephensen.

Fundurinn er haldinn í fundarsal FA á 9. hæð í Húsi verslunarinnar. Hann hefst eins og áður segir kl. 10 og er áætlað að hann standi í 90 mínútur. Mikilvægt er að skrá sig á fundinn hér fyrir neðan vegna sóttvarnaráðstafana. Fundinum verður einnig streymt á Facebook-síðu FA.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Samkeppniseftirlitið ætti að vera með útibú í Skagafirði

17. september 2021

Ólafur Stephensen og Björn Leví ræddu saman í Kaffikróknum.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður og oddviti Pírata í Reykjavík suður, segir að efla eigi Samkeppniseftirlitið og það ætti helst að vera með útibú í Skagafirði. Píratar telja að borgaralaun hvetji fólk til að vinna fremur en letji og vilja allan fiskafla á fiskmarkað. Þetta var á meðal þess sem fram kom í samtali Björns Leví og Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Kaffikróknum í morgun. Samtalið var í beinni útsendingu á Facebook og má horfa á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Borgaralaun örvi atvinnu og nýsköpun
Píratar eru með þá stefnu að taka upp borgaralaun og tryggja öllum þjóðfélagsþegnum grunnframfærslu. Ólafur vitnaði til þess að ýmsir félagsmenn FA hefðu undanfarið átt erfitt með að ráða fólk í vinnu og dregið þá ályktun að of lítill munur væri á bótum og taxtalaunum og of lítil hvatning til að þiggja vinnu. Hann spurði hvort borgaralaun þýddu að fólk þyrfti ekki að vinna frekar en því sýndist. Björn vitnaði til tilrauna með upptöku borgaralauna, sem hefðu þvert á móti aukið atvinnuþátttöku. „Að hluta til er þetta munurinn á skerðingarframfærslunni og óskertu framfærslunni. Þegar þú ert í framfærslu sem er skert af því að þú hreyfir þig, þá hreyfir þú þig ekki. En ef þú ert með óskerta grunnframfærslu, þá græðirðu á að hreyfa þig og gerir það. Þetta eru gömlu fátækragildrurnar. Þær eru inni í öllum skerðingarkerfunum okkar, hjá öryrkjum, ellilífeyrisþegum og í raun hjá námsmönnum líka.“

Björn sagði að grunnframfærsla væri grundvöllur fyrir því að hafa í sig og á. „Og svo sértu með frelsi til athafna til að gera hvað sem þú vilt í viðbót. Það hefur einmitt skilað sér í meiri nýsköpun, meiri atvinnu, af því að fólk hefur fast land undir fótum, getur alltaf farið niður í það. Ef maður ætlar til dæmis sem tölvunarfræðingur að fara út í einhverjar nýsköpunarpælingar – það er ekki séns þegar maður er kominn með þessar skuldbindingar, fjölskyldu, börn, lán og svo framvegis. Maður gæti aldrei farið í nýsköpunargírinn af því að þá þarf maður að svelta sig dálítið og lánin eru þá farin til fjandans.“

Ólafur spurði hvort reiknað hefði verið hvað það kostaði ríkissjóð að tryggja öllum grunnframfærslu og Björn Leví svaraði því til að þetta væri framtíðarmúsík, taka ætti stutt skref í upphafi með afnámi skerðinga, hækkun persónuafsláttar og gera hann útgreiðanlegan til þeirra sem nýttu hann ekki á móti tekjum. Það kostaði 70 milljarða í heild. „Til framtíðar koma borgaralaun samhliða sjálfvirknivæðingu. Þá erum við ekki í rauninni lengur með verkafólk sem er beint að vinna með höndunum í verðmætasköpuninni eða framleiðslusköpuninni og einhvers staðar þurfum við að mata hagkerfið með fjármagni til að standa undir nýsköpun.“

– Að tiltölulega breiður hópur fólks eigi að vera á launum hjá ríkinu við að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug?

„Til dæmis. Það er í rauninni bara mjög hollt þegar allt kemur til alls og eitthvað sem ýmsir aðilar í gegnum tíðina hafa talað um sem mjög áhugaverða leið til að búa til nýtt fjármagn í kerfinu. Í stað þess að bankar geri það í gegnum lánamyndunina þá sé nýsköpun peninga í gegnum svona kerfi. Það er fyrirsjáanlegt og aðgengilegt öllum.“

Vilja efla Samkeppniseftirlitið og vinna gegn einokun
Píratar segjast vilja vinna gegn einokun og fákeppni. Ólafur spurði hvort flokkurinn vildi til dæmis afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, sem búið hefur til einokunarstöðu Mjólkursamsölunnar. „Það væri fínt. Þess vegna erum við til dæmis að tala um að efla Samkeppniseftirlitið. Það á líka við um opinber fyrirtæki, það þarf stundum að huga að samkeppniseftirliti gagnvart þeim og líka þeim fyrirtækjum sem eru með einokun í krafti opinberrar verndar. Ég skil til dæmis ekki af hverju er ekki útibú Samkeppniseftirlitsins í Skagafirði, stór bækistöð sem segir heyrðu þetta er undarlegt.“

Björn Leví sagðist vel koma til greina að taka upp samkeppnismat á bæði nýrri og gildandi löggjöf. „Við viljum forðast að það komi upp fákeppni og einokun. Samkeppnisreglur eru til þess. Við þekkjum öll skaðann af því þegar fákeppnin fær að blómstra, þegar olíufélögin skiptu með sér landshlutum eins og var í gamla daga. Það er skaðlegt fyrir allt samfélagið.“

Allur fiskafli fari á markað
Innan raða FA eru margar sjálfstæðar fiskvinnslur sem kaupa allt sitt hráefni á fiskmörkuðum en hafa verið settar í erfiða samkeppnisstöðu vegna tvöfaldrar verðlagningar í sjávarútvegi, þar sem samþætt útgerðar- og vinnslufyrirtæki kaupa fisk af sjálfum sér á mun lægra verði en greitt er á fiskmörkuðum og skekkja um leið verðmyndun á markaðnum. Píratar eru með þá stefnu að allan fisk eigi að selja á fiskmarkaði og bað Ólafur þingmanninn að útlista hana nánar. „Það á að leggja niður Verðlagsstofu skiptaverðs og setja allan afla á innanlandsmarkað áður en hann er seldur eitthvert annað, þannig að menn séu ekki að fara með kannski 15 þúsund tonn í vinnslu í Póllandi eða Þýskalandi sem einhver vinnsla á Íslandi gæti séð hag sinn í að kaupa frekar og gera úr störf og verðmæti. Allar spillingarvarnir um allan heim benda á svona fyrirkomulag og segja: Hér er ójafnræði í gangi,“ sagði Björn.

Hann sagðist telja að skyldan til að setja allan afla á markað myndi standast EES-samninginn. Fiskurinn þyrfti bara að fara um innlendan markað áður en hann væri fluttur út. „Þú getur verið á skipinu og siglt út en verðmyndunin væri komin í gegnum innlenda markaðinn fyrst.“

Ólafur og Björn ræddu einnig útboðsmál, lífeyrismál, vinnumarkaðsmál, nýsköpun, skatta- og regluumhverfi fyrirtækja, ástandið á húsnæðismarkaði og fleira. Hægt er að smella á spilarann hér að ofan til að horfa á allt samtalið.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Blómlegir tollar

16. september 2021

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 16. september 2021.

Tollar á blóm fengu að sitja eftir þegar þarsíðasta ríkisstjórn afnam tolla á „öllum vörum nema matvörum“ eins og það var þá orðað. Rökin fyrir tollum á matvörur eru þau að verið sé að vernda m.a. fæðuöryggi – en það eru bara þeir með allra sérhæfðasta smekkinn sem borða blóm.

Blómatollarnir eru gríðarháir og eru meginorsök þess að verð á blómum er oft og iðulega tvö- til þrefalt hærra en í öðrum Evrópulöndum. Margt er súrt við þessa tollheimtu. Hún verndar til dæmis innan við tíu vinnustaði austur í sveitum, sem rækta innan við tíu tegundir af afskornum blómum – en bitnar á tugum blómaverzlana og heldur uppi verði á neytendavöru, sem ætti ekki að þurfa að vera lúxus.

Tollarnir eru líka lagðir á af fullum þunga þótt hinir fáu innlendu framleiðendur anni ekki eftirspurn fyrir stóra blómadaga eins og konudag og Valentínusardag. Þá neyðast blómaverzlanir til að flytja inn blóm sem eru miklu dýrari en þau þyrftu að vera. Tollarnir leggjast líka á alls konar blóm sem eru alls ekki ræktuð hér á landi og vernda þar af leiðandi ekki neitt, skaða bara verzlun og neytendur.

Fyrir tveimur árum sendi Félag atvinnurekenda, ásamt 25 fyrirtækjum, sem samanlagt standa fyrir mikinn meirihluta blómaverzlunar í landinu,  erindi á fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra og fór fram á endurskoðun á blómatollum. Í tvö ár hefur málið verið „í skoðun“ og verið að „afla gagna“. Með öðrum orðum gerist ekki neitt.

Nú eru aðstæður þannig á heimsmarkaði með blóm að kórónuveirufaraldurinn hefur hægt á uppskeru og flutningum eins og í öðrum greinum og stefnir í verulegar verðhækkanir. Enn mun því blómaverðið hækka – nema stjórnvöld taki sig saman í andlitinu og endurskoði þessa fráleitu skattheimtu.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin