Félag atvinnurekenda

Hvað kjósa atvinnurekendur?

4. maí 2022

Reykjavík leggur á hæsta fasteignaskattinn á atvinnuhúsnæði af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 4. maí 2022.

Í sveitarstjórnarkosningum er nærþjónustan við íbúa gjarnan efst á blaði í kosningabaráttunni; almenningssamgöngur, leik- og grunnskólar og önnur opinber þjónusta. Starfsumhverfi atvinnurekstrar er ekki mikið til umræðu fyrir kosningarnar sem fara fram síðar í mánuðinum.

Atvinnurekendur, fólk sem stendur í rekstri af einu eða öðru tagi, er hins vegar drjúgur kjósendahópur. Á Íslandi eru tæplega tuttugu þúsund launagreiðendur. Ætla má að um það bil helmingur þeirra séu einyrkjar, í vinnu hjá sjálfum sér. Drjúgur meirihluti af hinum helmingnum eru lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki þar sem líklega líta fleiri á sig sem atvinnurekendur en sá sem skráður er fyrir kennitölu launagreiðandans.

Stjórnmálaflokkarnir ættu þess vegna kannski að leggja meira á sig til að kynna stefnu sína varðandi starfsumhverfi fyrirtækjanna. Til að halda þeim við efnið höfum við hjá Félagi atvinnurekenda boðið oddvitum helztu framboða fyrir borgarstjórnarkosningarnar í viðtöl í þættinum Kaffikróknum, sem við birtum á YouTube og Spotify. Flokkarnir sem mynda meirihluta í borgarstjórn taka nefnilega ákvarðanir, sem skipta miklu um hversu aðlaðandi umhverfi borgin býður fyrirtækjum.

FA gerir reglulega kannanir á meðal félagsmanna um hvert eigi að vera helzta baráttumál félagsins. Lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði lendir þar iðulega í efstu sætunum. Reykjavíkurborg er komin í sérkennilega stöðu hvað þá skattheimtu varðar. Skatturinn er sá hæsti á höfuðborgarsvæðinu, 1,6% af fasteignamati miðað við t.d. 1,4% í Hafnarfirði. Síðustu sex ár hafa fasteignaskattar fyrirtækja í Reykjavík hækkað um milljarð á ári að jafnaði, nánar tiltekið um 71% frá 2015 til 2021. Þetta skaðar augljóslega stöðu borgarinnar í samkeppni við önnur sveitarfélög um fyrirtæki sem skapa störf, verðmæti og skatttekjur.

Annað umkvörtunarefni atvinnurekenda í Reykjavík er borgarkerfið sjálft, sem er gamaldags, óskilvirkt og þungt í vöfum. Borgin má eiga það að í nýrri atvinnu- og nýsköpunarstefnu hennar segir að þjónusta borgarinnar eigi að vera „auðskilin, skilvirk, stafræn og fyrirsjáanleg“. Þetta er einmitt algjör andstæða þess hvernig mörg fyrirtæki upplifa þjónustuna nú; þeim finnst hún flókin, hæg og óskilvirk, það þarf að keyra á milli staða og fylla út eyðublöð með gamla laginu í stað þess að hægt sé að nota stafrænar lausnir og það liggur oft alls ekki fyrir hversu langan tíma borgarkerfið tekur sér í að afgreiða mál.

Félagsmaður í FA þurfti að færa stóra þvottavél á milli hæða í atvinnuhúsnæði. Það reyndist vera sjö mánaða ferli að fá öll tilskilin leyfi hjá borginni. Hann þurfti að keyra á þriðja hundrað kílómetra bara til að fá uppáskriftir iðnmeistara á teikningar í stað þess að hægt væri að afgreiða málið á einum stað á netinu. Annar þurfti að fá endurnýjun á rekstrarleyfi; það tók líka um hálft ár og samtals þurfti hátt í 30 tölvupósta, símtöl og vettvangsskoðanir borgarstarfsmanna áður en leyfið fékkst. Borgarstarfsmenn gleymdu að senda nauðsynleg eyðublöð og gleymdu að mæta í lokaúttekt á húsnæði. Þetta er þjónusta sem ekkert einkafyrirtæki yrði stolt af. Þarna eru augljóslega risavaxin tækifæri til umbóta í þjónustu, sem er ekkert síður mikilvæg en grunnþjónustan við íbúana.

FA hefur aðstoðað nokkra félagsmenn við leit að lóðum þar sem þeir ættu varanlegan samastað og möguleika til stækkunar. Niðurstaðan af þeirri vinnu er að skortur er á hentugum atvinnulóðum í Reykjavíkurborg, á sama tíma og nágrannasveitarfélögin leggja sig mörg hver fram um að mæta þörfum fyrirtækja. Mest lýsandi dæmið fyrir skort á atvinnulóðum er líklega að borgarfyrirtækið Malbikunarstöðin Höfði, sem þarf að víkja fyrir íbúðabyggð, leitaði fyrst fyrir sér um lóð í Mosfellsbæ en endaði svo á að kaupa lóð í Hafnarfirði.

Augljóslega er margt hægt að bæta í umgjörð atvinnurekstrar í Reykjavík. Hinn stóri hópur atvinnurekenda hlýtur að fylgjast vel með því hvað framboðin til borgarstjórnar hafa að bjóða öflugu atvinnulífi.

Félag atvinnurekenda

Fordæmi forstjóranna

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 11. ágúst 2022.

Framundan eru erfiðar kjaraviðræður. Vaxandi verðbólga, afleiðing ytri áfalla, ógnar kaupmætti launafólks. Hækkandi húsnæðiskostnaður hefur sömu áhrif. Margir stjórnendur minni og meðalstórra fyrirtækja, sem eru uppistaðan í Félagi atvinnurekenda – og í íslenzku atvinnulífi – hafa miklar áhyggjur af komandi misserum. Þeir hafa síðustu mánuði leitað allra leiða til að hagræða og komast hjá því að velta hækkun á nánast öllum aðföngum út í verðlagið, á sama tíma og þeir þurfa að takast á við tvær kjarasamningsbundnar hækkanir á launum.

Það er rétt hjá hagfræðingum sem unnu skýrslur fyrir þjóðhagsráð að svigrúmið til launahækkana er lítið sem ekkert. Það er gömul saga og ný að nafnlaunahækkanir, sem ekki byggjast á aukinni framleiðni atvinnulífsins, kynda undir verðbólgu en slá ekki á hana. Samningar sem gengju út á slíkar hækkanir myndu gera illt verra og skerða kaupmátt.

Undanfarin ár hafa verið tími mikillar kaupmáttaraukningar. Við sem tölum máli atvinnurekenda höfðum gjarnan til ábyrgðar stéttarfélaga og hvetjum forystumenn þeirra til að gera skynsamlegar kröfur sem stuðla að því að varðveita árangurinn en stofna honum ekki í hættu. Við verðum líka að gera kröfur til sjálfra okkar og forðast að ala á reiði, sundrungu og misklíð á vinnumarkaði. Fréttir af því að forstjórar stærstu fyrirtækja landsins hækki í launum um margföld mánaðarlaun verkafólks og að kaupaukakerfi og ríflegir bónusar, sem hurfu eftir hrun, hafi verið endurreist hafa vakið slík viðbrögð hjá verkalýðshreyfingunni. Afleiðingarnar eru líklegar til að bitna harðast á litlu og meðalstóru fyrirtækjunum.

Fleiri slík axarsköft væru ein stærsta ógnin við farsæla niðurstöðu kjaraviðræðna. Stjórnir stærstu fyrirtækjanna gætu gert margt vitlausara en að lækka forstjóralaunin í aðdraganda kjarasamninga og setja bónusum og arðgreiðslum hófleg mörk.  Kraftar atvinnulífsins verða nú um stundir að beinast að stöðugleika, bæði hvað varðar verðlag, hagnað og laun.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Fólkið sem ber ábyrgð á þriggja milljarða skattahækkun

26. júlí 2022

Það er undir borgarstjórn Reykjavíkur komið hvort skattar á fyrirtæki í borginni hækka um 1,5 milljarða á næsta ári vegna hækkunar fasteignamats.

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 21. júlí 2022.

Óhætt er að segja að mörgum atvinnurekendum hafi brugðið í brún í lok maí, þegar fasteignamat fyrir árið 2023 var gert opinbert. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu öllu hækkar um 10,2% frá mati ársins 2022. Samkvæmt útreikningum Félags atvinnurekenda þýðir það um þriggja milljarða króna skattahækkun á fyrirtækin í landinu.

Frá því að núverandi tekjumatsaðferð var tekin upp við útreikning fasteignamats atvinnuhúsnæðis fyrir árið 2015 og fram til síðasta árs hækkaði álagður fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði á landinu úr tæplega 17 milljörðum króna á ári í um 28,8 milljarða, eða um tæplega 70%. Það gerist þrátt fyrir breytingar sumra sveitarfélaga á álagningarprósentu til að bregðast við hækkandi fasteignamati.

Öllum ætti að vera ljóst hversu fráleit þessi þróun er. Á sama tíma hækkaði verðlag í landinu þannig um tæplega 17%. Fasteignaskatturinn er vondur skattur, sem leggst á eigið fé fyrirtækja alveg óháð því hvort rekstrarafkoma þeirra – og þar með getan til að standa undir hækkandi skattgreiðslum – hefur tekið breytingum.

Félag atvinnurekenda sendi öllum sveitarfélögum í landinu áskorun um að lækka álagningarprósentu fasteignaskattsins til að bregðast við hækkun matsins. Þar sagði meðal annars:

„Að mati FA verður ekki við þessa þróun unað. Mörg fyrirtæki eru að rétta úr kútnum eftir kórónuveirukreppuna. Gífurlegar hækkanir á aðföngum gera fjölda fyrirtækja erfitt fyrir og þau þurfa að leita allra leiða til að velta þeim ekki út í verðlag. Engu að síður er verðbólgan sú hæsta í mörg ár. Framundan eru afar erfiðar kjaraviðræður. Þriggja milljarða skattahækkun sveitarfélaganna er ekki það sem atvinnulífið þarf á að halda við þessar aðstæður. 

Stjórn FA telur að hér verði hvert og eitt sveitarfélag að sýna ábyrgð og gera breytingar á sinni álagningarprósentu þannig að hækkanir á fasteignasköttum skaði ekki atvinnulífið í landinu meira en orðið er. Sveitarstjórnarmenn geta ekki firrt sig ábyrgð og látið „sjálfkrafa“ hækkanir á sköttum renna umræðulaust í sjóði sveitarfélaganna.“

Þetta var ekki fyrsta áskorunin af þessu tagi sem FA hefur sent á sveitarfélögin að undanförnu, en viðbrögðin hafa þó verið meiri en undanfarin ár. Þannig hafa sveitarfélög á borð við Kópavog, Mosfellsbæ og Hveragerði brugðizt afdráttarlaust við og lýst því yfir að þau muni lækka álagningarprósentuna til þess að álögur á fyrirtækin fari ekki úr böndunum.

Þau viðbrögð eru fagnaðarefni, en um leið er afstaða stærsta sveitarfélagsins – eða eigum við að segja afstöðuleysi – mikil vonbrigði. Reykjavíkurborg innheimtir um helming allra fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði í landinu. Um helmingur þeirrar þriggja milljarða króna skattahækkunar sem stefnir í að óbreyttu á næsta ári er þannig í Reykjavík; þar munu fasteignaskattar af atvinnuhúsnæði hækka um tæplega 1,5 milljarða króna án aðgerða. Reykjavíkurborg hefur dregið lappirnar í lækkun skatthlutfallsins í samanburði við nágrannasveitarfélögin og innheimtir nú hæsta fasteignaskattinn á atvinnuhúsnæði af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, 1,6% af fasteignamati samanborið við t.d. 1,4% í Hafnarfirði.

Í kosningabaráttunni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí töldu tveir af flokkunum, sem nú mynda nýjan meirihluta í Reykjavíkurborg, Framsóknarflokkurinn og Viðreisn, að of langt hefði verið gengið í hækkunum fasteignaskatta og ástæða væri til að lækka skattprósentuna. Í samstarfssáttmála meirihlutans kemur hins vegar fram að lækka eigi skattana „í lok kjörtímabilsins“. Það er eftir þrjú ár og gerist augljóslega of seint fyrir fyrirtæki, sem glíma nú við miklar hækkanir á launakostnaði og aðföngum.

Sveitarstjórnarmenn virðast stundum vona að hækkun fasteignamatsins, sem er yfirleitt tilkynnt um mánaðamót maí og júní, sé gleymd við afgreiðslu fjárhagsáætlana í árslok. Það er ekki sízt hlutverk þeirra sem borga fasteignaskatta að halda þeim við efnið og minna þá á að ábyrgðin er þeirra. Ef þeir gera ekkert, er milljarða króna skattahækkun á fólk og fyrirtæki á þeirra ábyrgð.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Lokað vegna sumarleyfa

Kæru atvinnurekendur og aðrir viðskiptavinir! Vegna sumarleyfa verður skrifstofan okkar lokuð dagana 18.-22. júlí. Njótið sumarsins!

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin