Innlent

Innköllun og sölubann á leikföngum hjá Eyrnes

09.09.2021

FréttamyndNeytendastofa hefur fyrirskipað innköllun og bannað sölu og afhendingu á tjaldhúsi fyrir börn og ungbarnaleikteppi með píanói sem voru seld hjá Hópkaup.is. Eyrnes ehf. er innflytjandi varanna. Tjaldhúsið er samsett úr ýmsum smáum hlutum ásamt stórri ábreiðu sem börnin byggja sér hús úr. Ungbarna leikteppið er hins vegar útbúið rafhlöðuknúnu píanói með áföstum ramma og hangandi munum.

Neytendastofa fékk ábendingu um að verið væri að selja leikföng sem gætu verið hættuleg fyrir börn þar sem þau væru ekki CE merkt. Í kjölfarið óskaði stofnunin eftir gögnum frá Eyrnes sem gætu staðfest að leikföngin væru örugg.

Gögn sem stofnunin fékk afhent frá Eyrnes reyndust ófullnægjandi. Þá skorti jafnframt á upplýsingagjöf um framleiðanda leikfanganna á eða með leikföngunum. Taldi stofnunin að Eyrnes hafi ekki sýnt fram á að leikföngin uppfylltu lágmarkskröfur um öryggi sem leikföng þurfa að uppfylla svo heimilt sé að markaðssetja þau hér á landi. Strangar kröfur eru gerðar til hönnunar og framleiðslu leikfanga fyrir börn og þá sérstaklega fyrir börn yngri en 3 ára til dæmis hvort smáir munir gætu valdið köfnunarhættu, hvort ákveðnar einingar séu brothættar, aðgengi að rafhlöðum eða hvort auðvelt sé að klemmast á milli eininga.

Í ljósi framangreinds taldi Neytendastofa nauðsynlegt að banna alla sölu og afhendingu leikfanganna, og að nauðsynlegt væri að innkalla vörurnar af markaði vegna áhættuþátta í garð ungra barna.

Neytendastofa skorar á alla þá sem keypt hafa umrædd leikföng að hætta notkun þeirra og skila þeim til Eyrnes gegn endurgreiðslu eða að farga þeim.

Neytendastofa vill ítreka að það má ekki selja leikföng nema að þau séu CE merkt. Merkið þýðir að varan hafi verið prófuð miðað við ætlaða notkun og þann aldurshóp sem varan er framleidd fyrir. Ef varan er í lagi og stenst allar prófanir ásamt því að allar merkingar og leiðbeiningar séu í lagi má setja CE merkið á vöruna.

Ákvörðunina má lesa hér

Innlent

Fimm í gæsluvarðhaldi

23 Maí 2022 16:20

Fimm sitja í gæsluvarðhaldi eftir aðgerðir Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn skipulagðri brotastarfsemi, sem ráðist var í fyrir helgina. Lagt var hald á umtalsvert magn af marijúana, eða um 40 kg, en leitir voru framkvæmdar á allmörgum stöðum, bæði í húsum og ökutækjum. Um var að ræða aðgerðir gegn framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna, auk peningaþvættis, en lögreglan tók einnig í sína vörslu ökutæki, peninga og tölvubúnað. Nokkrir tugir lögreglumanna tóku þátt í aðgerðunum, en við þær naut embættið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurlandi. Alls voru tíu manns handteknir í þágu rannsóknarinnar og fimm úrskurðaðir í gæsluvarðhald eins og áður sagði, en varðhaldið er til tveggja vikna.

Rannsókn málsins miðar vel.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ákvarðanir leiðréttar í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns

Stjórnvöld leiðrétta reglulega ákvarðanir sínar í tilefni af fyrirspurnum umboðsmanns Alþingis. Kunna spurningar hans þá t.d. að varpa nýju ljósi á mál eða gefa tilefni til að endurskoða fyrri afstöðu. Á árinu 2021 lauk til að mynda 48 málum með leiðréttingu stjórnvalds og 9 með endurupptöku eftir umboðsmaður spurðist fyrir vegna kvartana sem honum bárust. Þetta var 10% heildarfjölda kvartana í fyrra.

Halda áfram að lesa

Innlent

Framfylgd þingsályktunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni í góðum farvegi

Stýrihópur um framfylgd þingsályktunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir árin 2021-2025 telur framgang áætlunarinnar í heildina litið í góðum farvegi.

Í október 2021 voru tíu verkefni enn á byrjunarstigi en eru fjögur núna. Tíu verkefni eru hafin og sex verkefni komin vel á veg en eitt verkefni var í þeim flokki við síðustu uppfærslu í október 2021.

Stýrihópurinn fundar  að jafnaði mánaðarlega og fer yfir stöðu aðgerða. Í byrjun maí fundaði stýrihópurinn með tengiliðum og ábyrgðaraðilum verkefna og í kjölfarið var mælaborðforvarnaráætlunarinnar uppfært í samræmi við stöðu aðgerða.

Í stýrihópnum sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, Jafnréttisstofu, Menntamálastofnunar, Barna- og fjölskyldustofu,  Embættis landlæknis, mennta- og barnamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin