Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Íslenski hópurinn á ÓL í Peking

20.01.2022

Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur staðfest val á keppendum og öðrum þátttakendum á Vetrarólympíuleikana í Peking í Kína en leikarnir fara fram 4.- 20. febrúar nk.

Samkvæmt gögnum frá Alþjóðaskíðasambandinu (FIS) hefur Ísland fengið úthlutað kvóta fyrir einn keppanda í alpagreinum karla, einn keppanda í alpagreinum kvenna, einn keppanda í skíðagöngu kvenna og tvo keppendur í skíðagöngu karla. Alls er því um fimm keppendur að ræða og hefur verið staðfest við FIS að Ísland muni nýta þann kvóta að fullu. Úthlutun kvóta byggir á lágmörkum og árangri íslenskra keppenda á alþjóðlegum mótum og formlegum listum FIS útgefnum þann 17. janúar 2022.

Eftirtaldir keppendur verða fulltrúar Íslands á XXIV Vetrarólympíuleikunum í Peking 2022:

  • Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, alpagreinar kvenna – svig, stórsvig og risasvig
  • Sturla Snær Snorrason, alpagreinar karla – svig og stórsvig
  • Kristrún Guðnadóttir, skíðaganga kvenna – sprettganga
  • Snorri Einarsson, skíðaganga karla – 15 km F (frjáls aðferð), 30 km skiptiganga, 50 km C Mst (fjöldastart, hefðbundin aðferð), liðakeppni í sprettgöngu
  • Isak Stianson Pedersen, skíðaganga karla – sprettganga og liðakeppni í sprettgöngu

Aðrir þátttakendur verða:

Andri Stefánsson aðalfararstjóri, Líney Rut Halldórsdóttir aðstoðarfararstjóri, Dagbjartur Halldórsson flokksstjóri skíðamanna, Örnólfur Valdimarsson læknir, Patrick Renner þjálfari alpagreina, Anders Petter Robertsson þjálfari alpagreina, Erla Ásgeirsdóttir þjálfari alpagreina, Vegard Karlström aðalþjálfari skíðagöngu, Thorstein Hymer aðstoðarþjálfari skíðagöngu, Erlend Skippervik Sætre aðstoðarþjálfari/sjúkraþjálfari skíðagöngu.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Bjarni Th. Bjarnason formaður Skíðasambands Íslands verða viðstaddir setningarhátíð leikana og fyrstu keppnisdagana.

Upplýsingasíða ÍSÍ um leikana.

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Ársþing DSÍ

23.05.2022

Ársþing Dansíþróttasambands Íslands (DSÍ) 2022 var haldið þann 18. maí sl. í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Valdimar Leó Friðriksson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ var þingforseti og Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ ávarpaði þingið.

Atli Már Sigurðsson var kjörinn nýr formaður DSÍ til  eins árs og tekur við af Bergrúnu Stefánsdóttur sem hefur verið formaður sambandsins síðastliðin þrjú ár.

Aðalmenn í stjórn sem kjörnir voru til tveggja ára voru Kara Arngrímsdóttir og Helga Björg Gísladóttir.
Aðalmenn í stjórn sem fyrir voru til eins árs voru Ólafur Már Hreinsson og Magnús Ingólfsson.
Varamenn sem kjörnir voru til eins árs voru Jóhann Gunnar Arnarsson og Ragnar Sverrisson.

Veittar voru heiðranir þeim Örvari Möller og Kjartani Birgissyni fyrir óeigingjarnt starf í þágu dansíþróttarinnar.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Fyrirlestur um anabólíska stera

22.05.2022

Mánudaginn 23. maí mun Ingunn Hullstein, annar af forstöðumönnum vísinda á norsku WADA-rannsóknarstofunni í Osló, halda fyrirlestur undir yfirskriftinni: Anabólískir sterar. Fyrirlesturinn fer fram í húsakynnum ÍSÍ, Engjavegi 6 í Laugardal (D-sal – 3. hæð) og hefst kl 17:00. Áætluð lengd er u.þ.b. 30 mínútur.

Ingunn er einnig yfirmaður NAPMU (Nordic Athlete Passport Management Unit) sem sjá um svokölluð „vegabréf íþróttamanna. Tilgangur „vegabréfs íþróttamannsins“, Athlete Biological Passport (ABP), er að fylgjast með ákveðnum líffræðilegum breytum hjá íþróttafólki sem gætu bent til eða staðfest lyfjamisferli. Lyfjaeftirlit um allan heim notast við ABP til þess að betur tímasetja lyfjapróf og „target testa“ íþróttafólk.

Fyrirlesturinn verður á mannamáli og er sniðinn að þeim aðilum sem hafa á einhvern hátt, beint eða óbeint, með lyfjamál og/eða fræðslumál að gera hjá sérsamböndum/nefndum innan ÍSÍ sem og íþróttafólki. Að sjálfsögðu eru auk þess allir velkomnir sem hafa áhuga á.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Samstarfssamningur ÍF og KRAFT

20.05.2022

Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) og Kraftlyftingasamband Íslands (KRAFT) hafa gert með sér samstarfssamning. Gott samstarf hefur verið milli sambandanna um nokkurra ára skeið, en með samningnum er samstarfið formgert og er það von beggja að samningurinn muni auka enn á fagmennsku við æfingar, keppni og mótahald og um leið bæta aðstöðu fatlaðra til að iðka kraftlyftingar.

Kraftlyftingar er kjörin íþrótt fyrir alla, ekki síst íþróttamenn sem búa við fötlun. Þegar frá líður er vonin að fatlaðir kraftlyftingamenn og -konur geti tekið þátt á mótum KRAFT innanlands og IPC og IPF á alþjóðavettvangi, til viðbótar við mót ÍF. Sett verður á laggirnar samstarfsnefnd sem skipuleggur framþróun samstarfs sambandanna framvegis.

Þeir sem vilja vita meira um málið geta leitað upplýsinga hjá ÍF og KRAFT. Nýja samninginn undirrituðu þeir Jóhann Arnarson varaformaður ÍF og Hinrik Pálsson varaformaður KRAFT í tengslum við Íslandsmót ÍF í kraftlyftingum fór fram í CrossFit á Selfossi.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin