Connect with us

Stjórnarráðið

Íslenskir friðargæsluliðar í öllum Eystrasaltsríkjunum

Published

on

Fulltrúar Íslensku friðargæslunnar eru nú við störf hjá fjölþjóðaliði Atlantshafsbandalagsins í öllum þremur Eystrasaltsríkjunum. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir aukna þátttöku Íslands í samstöðuaðgerðum á svæðinu fagnaðarefni. 

Ísland hefur undanfarin ár tekið þátt í samstöðuaðgerðum Atlantshafsbandalagsins við Eystrasalt undir merkjum eFP – enhanced Forward Presence. Framan af voru borgaralegir sérfræðingar á sviði upplýsingamiðlunar að störfum í Tallinn í Eistlandi og Rukla í Litáen en í nýliðnum mánuði bættist við staða sérfræðings í Ríga í Lettlandi. 

„Samband Íslands og Eystrasaltsríkjanna er náið og stendur auk þess á sögulegum grunni og því er ánægjuefni að nú starfi íslenskir sérfræðingar á okkar vegum í þeim öllum. Framlag Íslands í samstöðuaðgerðum Atlantshafsbandalagsins á svæðinu er bæði gagnlegt og sýnilegt framlag til öryggis í okkar heimshluta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Björn Malmquist starfar nú fyrir hönd Íslensku friðargæslunnar í Tallinn í Eistlandi, Magnús Geir Eyjólfsson í Riga í Lettlandi og Sveinn Helgason er í Rukla í Litháen. Sem fyrr segir starfa þeir við upplýsingamiðlun enda með bakgrunn og reynslu á því sviði. Þremenningarnir hittust í Riga á samráðsfundi fyrr í mánuðinum og heimsóttu einnig við það tækifæri öndvegissetur Atlantshafsbandalagsins á sviði upplýsingamála sem er í borginni.

Hin norrænu ríkin í Atlantshafsbandalaginu leggja einnig sitt af mörkum því Danir eru hluti af fjölþjóðlega liðinu í Eistlandi og liðsmenn norska hersins eru í Litáen. Íslensku friðargæsluliðarnir eru eðli málsins samkvæmt borgaralegir starfsmenn.

Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, heimsótti í byrjun september norsku hermennina sem nú eru í Rukla. „Það er mikilvægt að hin norrænu aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sýni samstöðu með Eystrasaltslöndunum líkt og við væntum þess að þau og önnur aðildarríki bandalagsins standi við okkar hlið,“ sagði norski forsætisráðherrann eftir að hún hafði fylgst með stuttri æfingu norsku Telemark-herdeildarinnar „Framlag norrænu ríkjanna skiptir máli – þau og Eystrasaltslöndin eiga margvíslegra sameiginlegra hagsmuna að gæta í öryggismálum og við stöndum þétt saman,“ sagði Erna Solberg við þetta tækifæri í samtali við fulltrúa Íslands í Rukla.

Continue Reading

Innlent

Atvinnulífið sái þróunarfræjum

Published

on

Í Kína er hitaveita sem byggð var að hluta á íslenskri verkþekkingu og iljar nú milljónum manna. Áður voru kol notuð til húshitunar á svæðinu, en þau eru nú óþörf. Samdrátturinn í útblæstri gróðurhúsalofttegunda vegna hitaveitunnar nemur öllum útblæstri frá Íslandi, og gott betur. Þetta er gott dæmi um hvernig íslensk þekking hefur nýst til framþróunar í öðrum ríkjum, heiminum öllum til hagsbóta. 

Sagan hefur kennt okkur að þegar kreppir að efnahagslega leysast oft á tíðum úr læðingi einstakir kraftar nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Þetta gerðist í síðustu kreppu og við erum strax farin að sjá merki um sama sköpunarkraft í þeirri óvissu sem atvinnulífið býr nú við vegna heimsfaraldursins. Þennan kraft vildum við sækja og virkja í þróunarsamvinnu. 

Utanríkisráðuneytið hefur nú, í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Tækniþróunarsjóð, sett á fót nýjan styrktarflokk, Þróunarfræ, en tilgangur hans er að hvetja íslenskt atvinnulíf og einstaklinga til að taka þátt í þróunarsamvinnu. Tækniþróunarsjóður hefur tekið að sér að annast umsýslu Þróunarfræs, sem lýtur svipuðum reglum og svokallaðir FRÆ styrkir Tækniþróunarsjóðs. Um er að ræða forkönnunarstyrki sem munu renna til verkefna sem hafa það að markmiði að draga úr fátækt og skapa atvinnu í fátækari ríkjum heims, einkum með tilliti til nýsköpunar á tímum COVID-19.

Við munum öll þurfa að glíma við eftirköst veirunnar í mörg ár, en faraldurinn hefur komið hvað verst við íbúa í þróunarríkjum. Fjöldi starfa hefur tapast og atvinnuleysi geisar sem aldrei fyrr, þeim fjölgar sem búa við sárafátækt og þá hefur faraldurinn haft neikvæð áhrif á menntun, einkum stúlkna. 

Samstarf við atvinnulífið er nauðsynlegt ef við ætlum að takast á við þessi aðkallandi verkefni í kjölfar COVID-19 og ég veit að íslenskt atvinnulíf býr yfir þekkingu og drifkrafti til að takast á við þau með okkur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. febrúar 2021

Continue Reading

Innlent

Tæpir átta milljarðar greiddir í tekjufallsstyrki

Published

on

Um 1.400 rekstraraðilar hafa fengið um 7,8 milljarða króna greidda í tekjufallsstyrki vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Tekjufallsstyrkir nýtast rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli í heimsfaraldrinum og er markmiðið að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja þau fyrirtæki og einyrkja þar sem tekjufall er meira en 40%.

Alls hafa tugir milljarða verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins sem eru á annan tug talsins – styrkir, lán, gjaldfrestir og annað – sem á fjórða tug rekstraraðila og tugþúsundir einstaklinga hafa nýtt sér. Sem dæmi hafa verið greiddir nærri 2 milljarðar króna í lokunarstyrki, sem koma til móts við rekstraraðila sem gert hefur verið að stöðva starfsemi sína, auk þess sem um 5,6 milljarðar króna hafa verið endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti (VSK) vegna margs konar framkvæmda en endurgreiðslurnar nýtast einkum einstaklingum og félögum á borð við sveitarfélög, almannaheillafélög og íþróttafélög . Þá mun Skatturinn byrja að taka á móti umsóknum um viðspyrnustyrki á allra næstu dögum. Þeim styrkjum er ætlað að koma til móts við vanda rekstraraðila og gera samfélagið betur viðbúið því sem tekur við þegar heimurinn opnast að nýju.

Minni fyrirtæki í meirihluta þeirra sem nýttu úrræði

Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem nýttu sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins árið 2020 voru með tíu launamenn eða færri. Þannig voru þau um 82% þeirra sem nýttu úrræðin, alls rúmlega 2.500 fyrirtæki. Markmið stuðnings við fyrirtæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir.

Continue Reading

Innlent

Umsóknarfrestur sérstakra íþrótta- og tómstundastyrkja framlengdur til 15. apríl

Published

on

Vegna Covid-19 faraldursins hefur félags- og barnamálaráðherra sett af stað sérstakt verkefni þar sem börn tekjulægri heimila eiga rétt á sérstökum íþrótta- og tómstundarstyrk á skólaárinu 2020-2021. Styrkurinn er veittur grunnskólabörnum sem fædd eru á árunum 2005-2014 og búa á heimilum þar sem heildartekjur framfærenda, einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks, voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júlí árið 2020. Umsóknarfrestur vegna þessara styrkja hefur verið framlengdur til 15. apríl 2021.

Styrkurinn er að hámarki 45.000 krónur fyrir hvert barn sem stundar skipulagt tómstunda- og/eða íþróttastarf undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda. Athugið að hægt er að koma með kvittanir fyrir íþrótta- og tómstundastarfi sem greitt var fyrir í upphafi skólaárs, eða frá hausti 2020.

Frekari upplýsingar er að finna á Ísland.is en þar er líka hægt að sækja um styrk.

Continue Reading

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin