Innlent

Íslenskt hugvit í brennidepli á ráðstefnu um loftslagsmál í Washington DC

Íslenskt hugvit á sviði grænna lausna var í brennidepli á ráðstefnu um loftslagsmál og sjálfbæra orkunýtingu sem fram fór í Washington DC í gær. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra voru á meðal þeirra sem tóku þátt í viðburðinum.

Markmið ráðstefnunnar Our Climate Future: US-Iceland Clean Energy Summit var að vekja athygli á íslensku hugviti og grænum lausnum sem geta nýst í baráttunni gegn loftslagsvánni á heimsvísu og skapa vettvang til að deila þekkingu og reynslu. Auk forsætisráðherra og utanríkisráðherra tóku þátt í ráðstefnunni lykilaðilar á sviði orkumála og grænna lausna á Íslandi og frá Bandaríkjunum. Sendiráð Íslands í Washington, Grænvangur og hugveitan Atlantic Council Global Energy Center stóðu fyrir viðburðinum. 

Ráðstefnan hófst á lokuðum morgunverðarfundi sem forsætisráðherra leiddi þar sem hlutverk og mikilvægi valdeflingar kvenna í orkuskiptum og baráttunni við loftslagsbreytingar voru í brennidepli. Á fundinum komu saman sérfræðingar á ýmsum sviðum, svo sem þróunarsamvinnu, jafnréttis- og orkumála.

Forsætisráðherra tók þátt í umræðum við upphaf ráðstefnunnar. Þar ræddi hún m.a. mikilvægi þess að stjórnvöld og atvinnulífið vinni saman að aðgerðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum.

„Þar þarf að huga að aðgerðum sem nýtast öllum hópum. Loftslagsbreytingar bitna með ólíkum hætti á ólíkum hópum. Við þurfum sérstaklega að huga að stöðu viðkvæmra hópa, kvenna og barna. Grænu umskiptin verða að vera réttlát umskipti,“ sagði forsætisráðherra.

Utanríkisráðherra flutti ávarp í umræðum orkuöryggi og loftslagsbreytingar þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu þegar kæmi að því að sporna við hlýnun jarðar.

„Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir eru hvorki af völdum yngri kynslóða né fátækari þjóða heimsins. Engu að síður verður gjörvallt mannkyn að taka höndum saman um að leysa þær. Hvort sem okkur líkar betur eða verr og hvort sem við eigum það skilið eða ekki kemur það í hlut leiðtoga okkar tíma og framtíðarinnar að takast á við þennan sameiginlega veruleika,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir í ávarpinu.

Eftir að ráðstefnunni lauk hélt sendinefnd úr íslenska orkugeiranum til Pittsburgh til að sækja orkumálaráðstefnuna Global Clean Energy Action Forum og eiga fundi með fulltrúum orkumálaráðuneytis Bandaríkjanna.  

Í gærmorgun átti utanríkisráðherra fund með þingkonunni Chellie Pingree frá Maine, en hún lagði fyrr á þessu ári fram svokallað Íslandsfrumvarp (Iceland Act) í fulltrúadeild þingsins. Markmið Íslandsfrumvarpsins er að auðvelda íslenskum fjárfestum að fara milli Íslands og Bandaríkjanna í því skyni að eiga viðskipti þar í landi.

Hagstofan

Vísitala neysluverðs hækkar um 0,09% á milli mánaða

Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í september 2022, er 555,6 stig (maí 1988=100) og hækkar um 0,09% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 460,0 stig og hækkar um 0,09% frá ágúst 2022.

Verð á fötum og skóm hækkaði um 4,6% (áhrif á vísitöluna 0,15%) og verð á raftækjum til heimilsnota hækkaði um 5,4% (0,10%). Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði um 17,9% (-0,42%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 9,3% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 7,0%.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í september 2022, sem er 555,6 stig, gildir til verðtryggingar í nóvember 2022. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 10.970 stig fyrir nóvember 2022.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Almannavarnir

Hættustigi aflýst á Austurlandi og Suðurlandi

Ríkislögreglutjóri í samráði við lögreglustjóra á Austurlandi og Suðurlandi aflýsir hættustigi almannavarna vegna veðurs sem fór yfir umdæmin 24.-26. september.  Engar veðurviðvaranir eru í gildi.

Halda áfram að lesa

Innlent

Vefútsending á morgun vegna yfirlýsingar fjármálastöðugleikanefndar og útgáfu Fjármálastöðugleika

27. september 2022

Fjármálastöðugleikanefnd. Frá vinstri eru Guðrún Þorleifsdóttir, Rannveig Sigurðardóttir, Axel Hall, Ásgeir Jónsson formaður, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kr. Tómasson, Unnur Gunnarsdóttir og Gunnar Jakobsson.
Fjármálastöðugleikanefnd. Frá vinstri eru Guðrún Þorleifsdóttir, Rannveig Sigurðardóttir, Axel Hall, Ásgeir Jónsson formaður, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kr. Tómasson, Unnur Gunnarsdóttir og Gunnar Jakobsson.

Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar verður birt á vef Seðlabankans kl. 8.30 á morgun 28. september. Ritið Fjármálastöðugleiki verður birt á vefnum kl. 8.35. Klukkan 9.30 hefst vefútsending frá kynningunni vegna yfirlýsingar nefndarinnar. Á kynningunni gera Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika, grein fyrir yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og kynna efni ritsins Fjármálastöðugleika.

Nánari upplýsingar um fjármálastöðugleika má finna sérstakri síðu, sjá hér.

Hér má finna tengla á útgefin rit, m.a. Fjármálastöðugleika.

Vefútsending verður aðgengileg hér (tengill settur hér von bráðar).

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin