Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Íþróttamaður ársins 2021

29.12.2021

Samtök íþróttafréttamanna tilkynntu í kvöld, í beinni útsendingu á RÚV, niðurstöðu í kjöri íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2021.  Samtökin hafa staðið fyrir kjörinu frá 1956 og í ár voru það 29 íþróttafréttamenn í fullu starfi frá átta fjölmiðlum sem greiddu atkvæði. Þau tíu sem höfnuðu í efstu sætunum í kjörinu voru: Aron Pálmarsson handknattleiksmaður, Bjarki Már Elísson handknattleiksmaður, Júlían J.K. Jóhannsson kraftlyftingamaður, Kári Árnason knattspyrnumaður, Kolbrún Þöll Þorradóttir fimleikakona, Kristín Þórhallsdóttir kraftlyftingakona, Martin Hermannsson körfuknattleiksmaður, Ómar Ingi Magnússon handknattleiksmaður, Rut Arnfjörð Jónsdóttir handknattleikskona og Sveindís Jane Jónsdóttir knattspyrnukona. 

Það var svo Ómar Ingi Magnússon handknattleiksmaður sem varð efstur í kjörinu og hlaut þann eftirsótta titil, Íþróttamaður ársins 2021. Ómar Ingi keppir með Magdeburg í Þýskalandi. Hann var valinn í lið ársins í Þýskalandi. Í haust hefur Ómar Ingi verið mikilvægur fyrir Magdeburg, sem trónir taplaust á toppi þýsku deildarinnar enda meðal markahæstu og bestu leikmanna í deildinni. Magdeburg vann Evrópudeildina í handknattleik og heimsmeistaramót félagsliða þar sem liðið vann Barcelona í úrslitum. Þetta var í fyrsta sinn sem Ómar Ingi er meðal tíu efstu í kjörinu til Íþróttamanns ársins.

Í kjöri um Lið ársins 2021 voru íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum, meistaraflokkur kvenna í handknattleik hjá KA/Þór og meistaraflokkur karlaí knattspyrnu hjá Knattspyrnufélaginu Víkingi. Það var kvennalandsliðið í hópfimleikum sem tók titilinn að þessu sinni en það vann langþráðan Evrópumeistaratitil í Portúgal í nóvember síðastliðnum, eftir harða keppni við sigursælt lið Svíþjóðar.

Í kjöri um Þjálfara ársins 2021 voru Arnar Bergmann Gunnlaugsson knattspyrnuþjálfari karlaliðs Knattspyrnufélagsins Víkings, Vésteinn Hafsteinsson kastþjálfari í frjálsíþróttum og Þórir Hergeirsson þjálfari kvennaliðs Noregs í handknattleik. Sigur úr býtum bar Þórir Hergeirsson. Hann gerði Noreg að Evrópumeisturum í desember 2020, bronsverðlaunahafa á Ólympíuleikunum í Tókýó og að heimsmeisturum 2021 nú í desember 2021. Þórir hefur stýrt Norðmönnum til sigurs á átta stórmótum, fjórum sinnum á EM, þrisvar á HM og einu sinni á ÓL.

ÍSÍ óskar ofangreindum innilega til hamingju með afrekin og árangurinn á árinu 2021.

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Kristín Þórhallsdóttir er Íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2021

18.01.2022

Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB) hefur kosið Kristínu Þórhallsdóttur kraftlyftingakonu, Íþróttamann Borgarfjarðar 2021.

Kristín byrjaði að stunda klassískar kraftlyftingar 2019 en fyrir hafði hún æft frjálsíþróttir frá fimm ára aldri til tvítugs.

Kristín varð þrefaldur Íslandsmeistari í -84 kg flokki kvenna árið 2021. Hún varð stigahæsti keppandinn í kvennaflokki annað árið í röð og er nú stigahæsti Íslendingurinn í íþróttinni óháð kyni, þyngdar- og aldursflokki.
Kristín setti fjölmörg Íslandsmet á árinu. Hún bar sigur úr býtum á Reykjavíkurleikunum í janúar.

Kristín er fyrsti Íslendingurinn til að ná Evrópumeistaratitli á þrílyftumóti innan kraftlyftinga. Á Evrópumeistaramótinu náði hún sínum besta árangri á árinu, þar sem hún fékk gull í fjórum greinum, ásamt því að setja fjögur Íslandsmet og tvö Evrópumet.

Auk þess að vera íþróttamaður Borgarfjarðar var hún valin íþróttamaður Akranes og lenti í þriðja sæti í kjöri Íþróttamanns ársins 2021.

Magnað ár hjá Kristínu, ÍSÍ óskar henni innilega til hamingju.

Nánari upplýsingar um verðlaunaafhendingu UMSB má finna hér.

Mynd: umsb.is

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Engir almennir áhorfendur á ÓL í Peking

17.01.2022

Í dag var tilkynnt að engir almennir áhorfendur verða á Vetrarólympíuleikunum í Peking í Kína nú í febrúar.
Þetta er gert til að vernda íþróttafólkið og þátttakendur í leikunum og sporna við frekari kórónuveirusmitum í Kína. Áður hafði verið tilkynnt að engir áhorfendur utan Kína yrðu leyfðir á leikunum.

Mögulega verður ákveðnum boðsgestum í smærri hópum, sem uppfylla allar kröfur varðandi sóttvarnir, boðið að vera viðstaddir viðburði leikanna eftir því sem því verður komið við. Þetta verða því aðrir Ólympíuleikarnir í sögunni sem fara fram í nánast tómum mannvirkjum.

Miklar kröfur eru gerðar um sóttvarnir á leikunum í Peking og flækir það málin að Ólympíuþorpin eru þrjú, þ.e. eitt í Pekingborg og tvö í fjöllunum upp af Peking. Það verða því nokkur sóttvarnarsvæði sem verður að vernda og gæta að því að samgangur sé í lágmarki á milli svæða.

Þegar Sumarólympíuleikarnir voru settir í Peking árið 2008 þá voru 91.000 áhorfendur viðstaddir setningarhátíðina í Hreiðrinu (Bird’s Nest) og stemningin eftir því. Fyrir þá sem hafa upplifað Ólympíuleika fyrir fullu húsi er erfitt að sjá fyrir sér viðburði á Ólympíuleikum í tómum mannvirkjum.

Meðfylgjandi mynd er tekin á setningarhátíð leikanna í Peking 2008.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Samkomutakmarkanir hertar á miðnætti

14.01.2022

Á miðnætti verður hert á samkomutakmörkunum í ljósi fjölda smita í samfélaginu og álaginu á heilbrigðiskerfið.

Helstu reglur er varða íþróttastarf eru eftirfarandi: 

  • Almennar fjöldatakmarkanir eru 10 manns og á það við um börn og fullorðna.
  • Á æfingum og í keppnum hjá börnum og fullorðnum er heimilt að hafa 50 manns í hverju rými.
  • Áhorfendur eru bannaðir á íþróttaviðburðum en heimilt er að hafa fjölmiðlafólk á staðnum og gilda þá almennar fjöldatakmarkanir og reglur um sóttvarnir.
  • Áfram ber að sótthreinsa sameiginleg áhöld milli hópa og lofta vel út.
  • Á líkamsræktarstöðvum, skíðasvæðum og sund- og baðstöðum er heilmilt að taka á móti allt að 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi.
  • Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu og börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin nálægðartakmörkunum en almennt gildir 2 metra regla í samfélaginu.

Sem fyrr hvetur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands alla til þess að gæta vel að persónubundnum sóttvörnum og að huga að eigin heilsu með því að hreyfa sig reglulega, gæta að nægum svefni og huga að því að næra sig vel á bæði líkama og sál.

Hér er hægt að sjá reglugerð heilbrigðisráðherra sem gildir frá 15. janúar – 2. febrúar.
Hér er hægt að lesa minnisblað sóttvarnalæknis frá 13. janúar.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin