Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Íþróttastarfsemi er mikilvæg fyrir lýðheilsu

21.06.2022

Ánægjuvogin sem unnin er af Rannsóknum og greiningu (R&g) fyrir Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) er komin út. En R&g hafa lagt spurningalista fyrir nemendur í 8.-10. bekk frá árinu 1992 undir nafninu Ungt fólk. Í Ánægjuvoginni felst að spurningar sem tengdar eru íþróttum og íþróttaiðkun er bætt við spurningalistana, en þetta er í fjórða sinn sem Ánægjuvogin er birt.

ÍSÍ og UMFÍ hafa fengið að setja inn í spurningalistann nokkrar spurningar til að kanna ánægju þeirra sem stunda íþróttir með íþróttafélagi. Hversu ánægð/ánægður ertu með íþróttafélagið, þjálfarann og aðstöðuna og helstu áhersluatriði þjálfarans í starfinu. Einnig eru skoðuð tengsl íþróttaiðkunar við aðra þætti eins og vímuefnaneyslu, neyslu orkudrykkja, notkun nikótínpúða, andlega og líkamlega heilsu, sjálfsmynd og svefn.

Kynning á Ánægjuvoginni fór fram í húsakynnum UMFÍ í dag, en Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá R&g vann skýrsluna og sá um kynninguna. Niðurstöðurnar eru almennt mjög jákvæðar fyrir íþróttahreyfinguna þó að sannarlega séu líka áskoranir til staðar. Helstu áskoranir eru að gera íþróttastarfið aðgengilegra fyrir kynsegin ungmenni og að sinna þörfum barna af erlendum uppruna enn betur en nú er gert, en þátttaka þessara hópa í íþróttastarfi er talsvert minni en í öðrum hópum. 

Í máli Margrétar Lilju kom fram að þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi er besta forvörnin á Íslandi. „Okkur hefur tekist að draga úr neyslu vímuefna hjá börnum og ungmennum og þar hafa íþróttir og allt skipulagt starf í rauninni spilað mjög stórt hlutverk“ segir Margrét Lilja. Hún segir jafnframt; „Við sjáum að börn sem eru virk í skipulögðu starfi upplifa sig hamingjusamari, upplifa andlega og líkamlega heilsu sína betri og upplifa sig síður einmana og þeim líður þar af leiðandi betur. Börn og ungmenni sem taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru síður líkleg til að neyta vímuefna, nota nikótínpúða og orkudrykki og þau sofa betur, en börn og ungmenni sem ekki taka þátt.“ 

Margrét Lilja segir að verðmæti niðurstöðu Ánægjuvogarinnar felast í því að hún staðfestir forvarnargildi og mikilvægi skipulagðs íþróttastarfs.

ÍSÍ og UMFÍ hafa fengið í hendur heildarskýrslu fyrir allt landið, ásamt landshlutaskýrslum og stöðu ákveðinna þátta hjá yfir 50 íþróttafélögum. Á næstunni fer fram áframhaldandi kynning á niðurstöðum Ánægjuvogarinnar. 

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Keppnisbann yfirvofandi ef starfsskýrslu er ekki skilað!

01.07.2022

Skil á starfsskýrslum til ÍSÍ fóru i ár fram í nýju skilakerfi ÍSÍ og UMFÍ. Almennt hafa skil gengið vel og þakkar ÍSÍ þeim sem þegar hafa staðið í skilum kærlega fyrir skilin, þolinmæðina og jákvæð viðbrögð. Nýja kerfið hefur virkað vel en eins og alltaf er með ný kerfi þá þarf að fínpússa ýmislegt í ferlinu eftir þetta fyrsta rennsli skila. Verður farið í þá úrbótavinnu eftir sumarið.

Enn eiga þó 35% eininga innan ÍSÍ eftir að ljúka starfsskýrsluskilum. Úrvinnsla á gögnum sem skilað er inn í starfsskýrslum er orðin aðkallandi en um er að ræða mikilvægar tölfræðiupplýsingar sem notaðar eru á margvíslegan hátt í starfsemi ÍSÍ og UMFÍ. Heimild er í lögum ÍSÍ um beitingu keppnisbanns vegna vanskila á starfsskýrslum, sjá 8. grein laga ÍSÍ.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ ákvað því á fundi sínum í gær, 30. júní, að þau félög sem ekki hafa skilað inn starfsskýrslu til ÍSÍ fyrir þann 15. ágúst nk. verði sett í keppnisbann frá og með þeim degi og þar til skýrslu verður skilað.

ÍSÍ hvetur þá sem ekki hafa gengið frá skilum nú þegar að gera það sem allra fyrst svo komist verði hjá ofangreindum refsiaðgerðum. Keppnisbann hefur áhrif á iðkendur viðkomandi einingar og þátttöku þeirra í mótum sérsambanda ÍSÍ.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Undirbúningsfundur fyrir Íþróttaviku Evrópu 2022

27.06.2022

Hrönn Guðmundsdóttir sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs og Linda Laufdal verkefnastjóri sóttu undirbúningsfund fyrir Íþróttaviku Evrópu, #BeActive 2022, í Lille í Frakklandi 15. júní sl.

Markmið fundarinns var að samstilla framkvæmdaraðila Íþróttaviku Evrópu, #BeActive, sem fram fer 23. – 30. september 2022 í flestum löndum Evrópu. Eftir tveggja ára fundarhlé sökum heimsfaraldur var afar gagnlegt fyrir hópinn að koma saman aftur og bera saman bækur sínar, skiptast á góðum hugmyndum og fá innsýn í áherslur ársins og markaðsefni.

Í ár verður Íþróttaviku Evrópu ýtt úr vör í Prag í Tékklandi þann 23. september næstkomandi og kynnti Ólympíunefnd Tékklands bæði sig og dagskrá opnunarhátíðarinnar.  Góður tími gafst í vinnuhópum að ræða alls kyns góðar hugmyndir við framkvæmd Íþróttavikunnar og fleiri málefni. Aðilar frá fyrirtækinu BCW kynntu áherslur Íþróttaviku Evrópu, #BeActive 2022. Þau fóru yfir hlutverk sín og verkefni og kynntu áherslur þeirra í markaðsmálum. Fengu gestir sýnishorn af þeim áherslum sem verða í ár og efninu sem skipuleggjendur fá í hendurnar til að vinna með. Að dagskrá lokinni bauð Ólympíunefnd Frakklands í skoðunarferð um Pierre Mauroy Stadium. Gaman er að geta þess að hjá Ólympíunefnd Frakklands starfar Íslendingurinn Emil Karlsson og var skemmtilegt fyrir starfsmenn ÍSÍ að kynnast honum og heyra um hans störf í Frakklandi. Starfsmenn ÍSÍ komu heim úr þessari ferð með fullt af hugmyndum í farteskinu og tilhlökkun til að hefja undirbúning fyrir Íþróttaviku Evrópu, #BeActive 2022.

Á meðfylgjandi mynd eru starfsmenn ÍSÍ með Emil Karlssyni, starfsmanni Ólympíunefndar Frakklands.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Frétt frá EU Sport Forum

24.06.2022

Evrópuráðstefnan „EU Sport Forum” var haldið í ár í Lille í Frakklandi dagana 16. og 17. júní. Fundinn sóttu fyrir hönd ÍSÍ þær Hrönn Guðmundsdóttir, sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs og Linda Laufdal, verkefnastjóri. Áður en formleg dagskrá hófst var haldin kynning á Erasmus+ styrkjakerfinu. 

Dagskrá viðburðarins var fjölbreytt, fróðleg og skemmtileg. Mariya Gabriel – framkvæmdastjóri nýsköpunar, menningar, menntunar og æskulýðsmála hjá framkvæmdastjórn ESB bauð gesti velkomna og setti ráðstefnuna formlega ásamt Damien Castelain, forseta Métropole Européenne de Lille. Fyrst á dagskrá var samstaða með Úkraínu, svokallað „framlag frá íþróttum”. Vadym Huttsait, ráðherra ungmenna og íþrótta í Úkraínu og Sergei Bubka, forseti Ólympíunefndar Úkraínu fóru yfir stöðuna og mikilvægi samstöðu Evrópu við Úkraínu á meðan á stríði stendur og ekki síður eftir að því lýkur. Mikil óvissa er um framtíð íþrótta, stöðu íþróttamannvirkja og ýmissa annarra þátta vegna ástandsins. Að erindunum loknum sýndu ráðstefnugestir samstöðu sína með miklu lófataki.

Í pallborðsumræðum var til umræðu annars vegar; íþróttir í Evrópu: Sanngirni (fair), inngilding (inclusive) og hæfni til framtíðar (fit for the future) og hins vegar; sjálfbærni í íþróttum og umhverfi þeirra: Skil á evrópska græna samningnum og nýja evrópska „Bauhaus“ (Sustainable sport: delivering on European Green Deal and the New European Bauhaus). Að panel loknum tók við kynning frá Métropole Européenne de Lille (MEL) fyrir Ólympíuleikana, Ólympíuleika fatlaðra 2024 ásamt HM í ruðningi 2023 á MEL svæðinu. 

Á dagskrá voru erindi um lykilþættir og gildi evrópsks íþróttalíkans (Key principles and values of a European Sport Model) og eflingu íþróttafólks (Empowering athletes), hvernig stuðla megi að jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu í íþróttum (Drive equality, diversity & inclusion in sport) og hlutverk íþrótta við að verja og koma á framfæri evrópskum grundvallargildum (Parallel session: The role of sport in defending and promoting European fundamental values). Einnig kynnti Laurent Petrynka, forseti Alþjóðlegu skólaíþróttasamtakana samtökin og hvernig skólaíþróttir geta eflt unga fólkið til langs tíma litið.  

Til að loka EU Sport Forum 2022 stigu á svið Amélie Oudéa-Castéra, íþróttamálaráðherra í Frakklandi (Minister of Sport and Olympic and Paralympic Games of France), Filip Neusser, forseti íþróttamálaskrifstofu Tékklands (President of the National Sports Agency of the Czech Republic) og Viviane Hoffmann, Deputy Director General of DG EAC, European Commission.

 

 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin