Samtök Atvinnulífsins

Íþyngjandi sóttkví

Nú þegar rúm tvö ár eru liðin frá því heimsfaraldurinn gerði fyrst vart við sig má fullyrða að fáa hefði grunað að áhrifin myndu vara jafn lengi. Baráttan við kórónuveiruna hefur verið kostnaðarsöm og valdið jafnt atvinnulífinu, ríkissjóði og mörgum heimilum þungum búsifjum. Þegar þetta er skrifað eru 9.125 einstaklingar í einangrun með jákvætt smit og 7.525 einstaklingar í sóttkví, eða samtals um fimm prósent þjóðarinnar.

Á Íslandi eru allir einstaklingar sem hafa verið í návígi við smitaðan einstakling settir í lögbundna sóttkví. Ef litið er til nágrannaríkja gilda almennt vægari reglur um sóttkví. Í Danmörku er ekki í gildi lögbundin sóttkví en mælt er með því að óbólusettir einstaklingar fari í sóttkví. Ef börn eru í návígi við smitaðan einstakling mega þau mæta í skólann en ráðlagt að fara í skimun.

Í Noregi og Bretlandi er í gildi lögbundin sóttkví líkt og hér en reglurnar ekki eins víðtækar. Þá eru læknafyrirmæli um sóttkví í Svíþjóð, en þar líkt og í Noregi gildir aðeins sóttkví gagnvart heimilisfólki eða öðrum sem eru í nánum samskiptum við þann smitaða. Börn eru því ekki skipuð í sóttkví nema þau búi á sama heimili og hinn smitaði.

Í Noregi eru þeir sem eru þríbólusettir eða hafa greinst smitaðir síðustu þrjá mánuði undanskildir sóttkví. Í Bretlandi eru aðeins óbólusettir einstaklingar skipaðir í lögbundið sóttkví, börn undir 18 ára aldri eru undanþegin.

Almannavarnir hafa varað við því að lungi Íslendinga megi gera ráð fyrir að lenda í sóttkví eða einangrun næstu vikurnar. Þá hafa kennarar stigið fram og varað við fjölgun barna í sóttkví og lokun skóla. Óþarfi er að fjölyrða um hversu gríðarlegur samfélags- og efnahagslegur kostnaður fellur til, ef fer fram sem horfir. Kostnaður sem við öll berum. Undarlegt er að ekki sé horft til nágrannaríkja í þessum efnum.

Samtök Atvinnulífsins

Kjarasamningur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Samtaka atvinnulífsins uppfærður

Samkomulag hefur verið gert um uppfærslu á kjarasamningi SA og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Breytingar varða einkum vinnutímaákvæði sem og uppfærslu á ýmsum réttindaþáttum kjarasamningsins. Með breytingunni eru vinnutímaákvæði samningsins aðlöguð að vinnutímaákvæðum kjarasamninga skrifstofufólks á almennum vinnumarkaði en í framkvæmd hefur dagvinnutími víða verið samræmdur milli þeirra starfsmanna sem starfa eftir kjarasamningi þessum og þeirra sem starfa eftir kjarasamningum skrifstofufólks.

Vinnutímastytting kemur einungis til framkvæmda þar sem virkur vinnutími (sá tími sem starfsmaður er við störf) er lengri en 35,5 stundir að jafnaði á viku. Neysluhlé og önnur hlé frá vinnu vegna ýmiss konar persónulegra erinda teljast ekki til virks vinnutíma í þessu sambandi. Vinnutímastyttingin á að koma til framkvæmda, þar sem við á, eigi síðar en 1. október nk.

Kjarasamningurinn nær til félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem starfa hjá aðildarfyrirtækjum Samtaka atvinnulífsins. Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við lögmenn Samtaka atvinnulífsins ef einhverjar spurningar vakna um kjarasamninginn sem má nálgast hér á vef Samtaka atvinnulífsins.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Taktu tvær – forðumst netsvindl

Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Neytendasamtökin hafa tekið höndum saman til að vekja athygli á því vaxandi vandamáli sem netglæpir eru. Átakið nefnist Taktu tvær.

Tilgangur verkefnisins er að hvetja fólk til umhugsunar um hegðun á netinu. Netglæpir kosta samfélagið hundruði milljóna króna á ári og allir geta orðið fyrir barðinu á netglæpamönnum; einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök og opinberar stofnanir.

Efni tengt átakinu mun birtast á fjölda staða á næstunni en nánar er hægt að kynna sér málið á vef átaksins www.taktutvær.is

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Áform um rýni á erlendum fjárfestingum ekki tímabær

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra hafa tekið til umsagnar áform um lagasetningu um rýni á erlendum fjárfestingum vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Um er að ræða mikilvæga löggjöf um grundvallarhagsmuni fullvalda ríkis sem samtökin fagna.

Samtökin gera hins vegar alvarlegar athugasemdir við áformin í núverandi mynd, sem snúa að því að skortur er á samhengi við þá löggjöf sem þegar er til staðar á réttarsviðinu og takmarkar verulega eignarhald erlendra aðila í íslenskum fyrirtækjum. Þá virðast áformin gera ráð fyrir að gengið verði lengra en í öðrum löndum þegar kemur að sambærilegri löggjöf án þess að það sé rökstutt með nokkrum hætti. Ennfremur er hvergi að finna efnislegt mat á mögulegum efnahagslegum áhrifum frumvarpsins. Þau eru að öllum líkindum veruleg og til þess fallin að hamla erlendri fjárfestingu enn frekar en núverandi regluverk, sem er afar strangt í alþjóðlegum samanburði.

Kostir beinnar erlendrar fjárfestingar eru ótvíræðir – hún er til þess fallin að auka framleiðni, áhættudreifingu, þekkingu og fjölbreytni í atvinnulífinu. Rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif beinnar erlendrar fjárfestingar á hagvöxt. Því er miður að hlutfall beinnar erlendrar fjárfestingar af landsframleiðslu skuli mælast afar lágt á Íslandi í samanburði þjóða. Ísland skipar 61. sæti af 63 hvað varðar beina erlenda fjárfestingu í úttekt IMD háskólans og hafa umsvif hennar jafnframt dregist saman á umliðnum árum. Þá hefur OECD bent á að Ísland er með einna ströngustu reglurnar þegar kemur að erlendri fjárfestingu, langt yfir meðaltali OECD, og hafa yfirvöld verið hvött til að draga úr hömlum.

Af þessu ætti að vera ljóst að áður en unnt er að leggja fram frumvarp um rýni á erlendum fjárfestingum þarf að fara fram heildstæð skoðun á því regluverki sem þegar er til staðar þar sem einnig er lagt mat á efnahagslegar afleiðingar regluverksins. Tryggja þarf að ný og heildstæð löggjöf verði í samræmi við stefnu yfirvalda um erlendar fjárfestingar. Þrátt fyrir verðug markmið laganna má það ekki verða hliðarafurð að við fórnum meiri hagsmunum fyrir minni og mögulega lokum á eða þrengjum fyrir fjárfestingar sem eru mikilvægar fyrir íslenska hagsmuni til framtíðar.

Lesa má umsögn Samtakanna í heild sinni hér

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin