Innlent

Kaupmáttur allra hópa aukist og allir nema tekjuhæstu greiða lægri skatt

Síðustu árin hafa heildartekjur allra tekjuhópa hækkað og kaupmáttur aukist. Allir tekjuhópar greiða nú minni tekjuskatt en áður, nema þeir sem allra hæstar tekjur hafa. 83% af nettótekjum hins opinbera koma frá tekjuhærri helmingi skattgreiðenda.

Þetta kemur fram í greiningu ráðuneytisins á álagningu opinberra gjalda eftir tekjutíundum út frá skattframtölum. Í tekjutíund felst að búið er að skipta einstaklingum í 10 jafn stóra hópa þar sem sú fyrsta er með lægstu tekjurnar og sú tíunda með þær hæstu.

Mikil aukning kaupmáttar

Undanfarin áratugur hefur einkennst af mikilli kaupmáttaraukningu þar sem tekjur hafa hækkað á sama tíma og verðbólga hefur haldist tiltölulega lág. Meðalhækkun heildartekna frá 2010 nemur 38% á verðlagi ársins 2021 og nær til allra tekjutíunda. Árið 2021 hækkuðu tekjurnar um 4,4% að raunvirði, en í raunvirði felst að leiðrétt er fyrir verðlagshækkunum.

Heildartekjur auk bóta að frádregnum opinberum gjöldum mynda ráðstöfunartekjur einstaklinga. Árið 2021 hækkaði kaupmáttur ráðstöfunartekna að meðaltali um 5,1% og náði sú aukning yfir allar tekjutíundir. Myndin hér að neðan sýnir breytingu á miðgildi kaupmáttar ráðstöfunartekna frá árinu 2020 til 2021, en í miðgildi felst að skoða þær tekjur sem eru í miðju hverrar tekjutíundar.

Minni skattbyrði lág- og millitekjufólks

Tekjuskattsbreytingar undanfarinna ára hafa dregið úr skattbyrði þeirra sem hafa lágar- og meðaltekjur, í samræmi við stefnu stjórnvalda þar um. Þær breytingar eiga stóran þátt í því að tekjuskattbyrði hefur lækkað frá 2019. Ekki sést breyting hjá lægstu tekjutíundinni, sem skýrist af því að þær tekjur eru undir skattleysismörkum, en kaupmáttur þeirrar tekjutíundar jókst verulega líkt og sjá má á fyrri mynd.

Lægri tekjuskattgreiðslur lág- og millitekjufólks 2021

Lág- og millitekjufólk greiddi árið 2021 lægra hlutfall í tekjuskatt þrátt fyrir að tekjur þeirra hafi hækkað sem stafar af samspili tekjuskattsbreytinga og hærri launa. Ef miðað er við 7% hækkun launa árið 2021 má sjá að tekjur eftir skatt hækkuðu umfram 7% launahækkunina vegna lægri greiðslu tekjuskatts hjá lág- og millitekjufólki.

Tekjuhærri greiða 83% álagðra gjalda

Heildartekjur einstaklinga árið 2021 voru 2.256 milljarðar króna. Á þær tekjur voru lagðar 523 milljarðar króna í formi tekjuskatts, útsvars og fjármagnstekjuskatts. Á efstu tekjutíundina, sem fær 29% af heildartekjunum, er álagður skattur 36% af heildarskatttekjum og borgar sú tíund að meðaltali 3,0 m.kr. í tekjuskatt, 2,2 m.kr. í útsvar og 1,2 m.kr. í fjármagnstekjuskatt. Neðstu fimm tekjutíundirnar borga 13% af heildarútsvari og 4% af öllum tekjuskatti og því samtals 17% af heildarskatttekjum.

Nánar um forsendu greiningar ráðuneytisins á álagningu opinberra gjalda eftir tekjutíundum:

Miðað er við alla framteljendur 18 ára og eldri sem hafa tekjur, álögð gjöld eða fá bætur í kjölfar álagningar opinberra gjalda. Framteljendur sem ekki fá hefðbundna álagningu, svo sem vegna áætlaðs framtals, eru ekki hafðir með. Tekjur miðast við heildartekjur sem eru samtala allra tekna áður en tekið er tillit til skatta og bóta. Grunneiningin er einstaklingur og því er fjármagnstekjum deilt jafnt á milli hjóna og sambúðaraðila. Þessar forsendur samrýmast að miklu leyti þeim forsendum sem Hagstofa Íslands notast við í greiningum á tekjutíundum.

Innlent

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 13. – 14. júní 2022

01. júlí 2022

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndin ræddi stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika og helstu áhættuþætti, svo sem þróun efnahagsmála, áhættu fjármálafyrirtækja og fjármálakerfis, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðuna á fasteignamarkaði og eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja. Jafnframt ræddi nefndin um öryggi og skilvirkni fjármálainnviða og mikilvægi þeirra fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. Nefndin fékk upplýsingar um skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka og um gerð opinberrar stefnu um fjármálastöðugleika sem Fjármálastöðugleikaráð vinnur að.

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85% en að halda hlutfallinu fyrir aðra kaupendur óbreyttu í 80%. Nefndin ákvað jafnframt að setja viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Viðmiðið er að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána. Nefndin ákvað jafnframt að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár. Fjármálastöðugleikanefnd ákvað við ársfjórðungslegt endurmat á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi hans óbreyttu en samkvæmt ákvörðun nefndarinnar í september sl. mun hann hækka úr 0% í 2% í lok september 2022.

Þá áréttaði nefndin mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar.

Sjá fundargerðina í heild hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 13. -14. júní 2022 (13.fundur). Birt 1. júlí 2022.

Sjá hér nánari upplýsingar um nefndina og störf hennar

Halda áfram að lesa

Innlent

Tiltekinn fjöldi tapaðra tanna ekki eina forsenda þátttöku sjúkratrygginga vegna slyss

 

Í lögum um sjúkratryggingar er ekki kveðið með tæmandi hætti á um hvaða rétt fólk hefur til fjárhagslegrar aðstoðar vegna tannréttinga. Sama gegndi um reglugerðarákvæði þar að lútandi. 

Halda áfram að lesa

Innlent

Utanríkisráðherra ávarpar sérstaka umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan

Mikilvægi þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum kvenna og stúlkna bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í sérstakri umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan í dag. Ráðherra tók þátt í gegnum fjarfundabúnað. 

„Síversnandi staða mannréttinda kvenna og stúlkna í Afganistan er gífurlegt áhyggjuefni. Ekkert ríki í alþjóðasamfélaginu neitar stúlkum um grunnskólamenntun með aðeins einni undantekningu, Afganistan,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ávarpi fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þá lagði hún áherslu á að alþjóðasamfélagið haldi áfram að styðja við afgönsku þjóðina og hvatti til stofnsetningu réttmæts kjörins stjórnvalds sem fulltrúi þjóðarinnar sem virðir jafnframt mannréttindi allra, þar með talið kvenna og stúlkna. 

Ávarp sem utanríkisráðherra flutti á fundinum í dag má lesa í heild sinni hér.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin