Stjórnarráðið

Kynnti aðgerðir til að stytta boðunarlista

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra kynnti í dag aðgerðir til að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga. Starfshópur skipaður af ráðherra hefur skilað skýrslu þar sem finna má tillögur til úrbóta.

Mikil uppbygging hefur verið síðastliðin ár í fangelsiskerfinu á Íslandi, en þrátt fyrir það er staða mála óviðunandi sérstaklega lengd boðunarlista. Árið 2009 voru 213 einstaklingar á boðunarlista til afplánunar refsinga en eru nú í ár 638. Ástæða þess er einkum fjölgun og lenging óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga, fjölgun gæsluvarðhaldsfanga og ekki nægt fjármagn til nýtingar afplánunarrýma að fullu.

Fram kom í máli ráðherra að afleiðingar af löngum boðunarlista séu að óskilorðsbundnar refsingar hafi verið að fyrnast síðustu ár – þó þeim hafi fækkað í fyrra vegna sérstaks átaksverkefnis Fangelsismálastofnunar. Ef ekki verði brugðist við megi leiða líkum að því að fjöldi fyrninga gætu orðið yfir 30 á þessu ári. Það sé óásættanlegt með tilliti til varnaðaráhrifa refsinga.

Ráðherra fagnaði tillögum starfshópsins. „Vegna þessarar stöðu skipaði ég starfshóp um boðunarlistann til að móta tillögur til aðgerða sem stytta eiga boðunarlista til afplánunar refsinga. Starfshópurinn hefur nú skilað tillögum sínum og hef ég tekið ákvörðun um ráðast í allar aðgerðirnar. Samstilltar og fjölbreyttar aðgerðir geta gert það að verkum að boðunarlistinn verður mun styttri, refsingar fyrnast síður og að einstaklingar þurfi ekki að bíða jafn lengi eftir að afplána dóm sinn,“ sagði dómsmálaráðherra

Í stuttu máli eru tillögur starfshópsins eftirfarandi:

1. Lagt er til að heimild til að fullnusta refsidóma með samfélagsþjónustu verði rýmkuð á þann veg að hægt verði að fullnusta allt að tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi með samfélagsþjónustu.

2.         Heimildir ákærenda til að ljúka málum með sáttmiðlun verði rýmkaðar. Sáttamiðlun verði fest í sessi í lögum. Lagt er til að sérstök nefnd verði skipuð til að halda utan um sáttamiðlun og stuðla að framþróun úrræðisins.

3.         Lagt er til að skilorðsbundin ákærufrestun verði ekki bundin við tiltekin aldurshóp.

4.         Starfshópurinn leggur til að fjármagn verði aukið til málaflokksins þar sem nýting afplánunarrýma hefur ekki verið nægjanlega góð síðustu ár þar sem rekstrarumhverfi fangelsismála hefur kallað á mjög strangt aðhald.

5.         Starfshópurinn leggur til að reglum um reynslulausn verði breytt á þann veg að meginreglan verði reynslulausn eftir helming refsitímans fyrir þá sem afplána ekki refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, eða tilraun til slíks brots.

6.         Starfshópurinn telur þörf á að skýra betur málsmeðferð varðandi fullnustu skilorðsbundinna dóma með sérskilyrðum þar sem slíkt úrræði geti í vissum tilvikum verið árangursríkara en óskilorðsbundin refsivist og verið til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á boðunarlistann.

7.         Að mati starfshópsins kemur til álita að veita þeim sem eru búnir að vera lengur en 3 ár á boðunarlista, hafa verið dæmdir fyrir minniháttar brot og eiga ekki ólokin mál í refsivörslukerfinu skilorðsbundna náðum.

Her má lesa skýrslu starfshópsins

 

Halda áfram að lesa

Innlent

Frumvarp til innleiðingar á hringrásarhagkerfi lagt fram á Alþingi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi sem felur í sér innleiðingu Evróputilskipana sem er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. Tilgangurinn er að ýta undir bætta endurvinnslu úrgangs, draga úr myndun hans og draga stórlega úr urðun. Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald.

Markmiðið með hringrásarhagkerfi er að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur. Þannig eru fullnægjandi úrgangsforvarnir og úrgangsstjórnun mikilvægur hluti þess sem til staðar þarf að vera í virku hringrásarhagkerfi. Ljóst er að tækifæri eru til bættrar úrgangsstjórnunar hér á landi. Endurvinnsla heimilisúrgangs var einungis 28% árið 2018 en markmiðið var 50% árið 2020 samkvæmt gildandi löggjöf. Á komandi árum verður markmiðið hækkað í 65% og því ljóst að bregðast þarf strax við með bættri úrgangsstjórnun hér á landi. Með frumvarpinu er ætlunin að stíga mikilvæg skref í átt að hringrásarhagkerfi.

Með frumvarpinu er komið á skyldu til flokkunar og söfnunar fleiri úrgangstegunda en í núgildandi lögum og samræmdum flokkunarmerkingum á landsvísu. Jafnframt að skylt verði að flokka byggingar- og niðurrifsúrgang.

Skerpt er á þeirri skyldu í lögunum að sveitarfélög og fyrirtæki sem safna flokkuðum úrgangi komi honum sannanlega til endurvinnslu. Þá eru lagðar til breytingar sem varða heimildir sveitarfélaga til innheimtu gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs.

Í frumvarpinu er lögð til framlengd framleiðendaábyrgð fyrir allar umbúðir, sem felur í sér að framleiðendur og innflytjendur bera ábyrgð á vöru þegar hún er orðin að úrgangi. Úrvinnslugjald er lagt á vöruna til þess að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af meðhöndlun viðkomandi úrgangs og Úrvinnslusjóður sér um framkvæmdina. Þá er lagt til að framleiðendaábyrgð gildi einnig um plastvörur og veiðarfæri úr plasti.  

„Innleiðing hringrásarhagkerfisins er eitt af stóru áherslumálunum mínum. Við höfum þegar gripið til ákveðinna aðgerða varðandi plastmengun, mótun nýrrar stefnu um meðhöndlun úrgangs er á lokametrunum og sama gildir um aðgerðaáætlun um að draga úr matarsóun. Í þessu frumvarpi eru stjórntæki úrgangsmála styrkt til muna, þjónusta við almenning aukin og frekari kröfur gerðar til flokkunar úrgangs og meðhöndlunar hans, ekki síst að draga stórlega úr urðun sem er stórt loftslagsmál. Þá er kveðið á um að samræma flokkunarmerkingar á öllu landinu. Ég bind miklar vonir við að þetta frumvarp verði að lögum í vor og að það muni leiða til þess að við náum markmiðum okkar í úrgangsmálum sem fyrst,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum
um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald (EES-reglur, hringrásarhagkerfi).

Halda áfram að lesa

Innlent

Ráðherra undirritar Bratislava yfirlýsingu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag s.kBratislava yfirlýsingu er hann tók þátt í fundi Forest Europe, en fjöldi ráðherra skógarmála í Evrópu sátu fundinn. Forest Europe er samstarf ráðherra á því sviði í álfunni sem hefur það markmið að efla og samhæfa, vernd, ræktun og nýtingu skóga í Evrópu.

Bratislava yfirlýsingin sem ráðherrarnir undirrituðu felur meðal annars í sér að stefnt er að því að stöðva eyðingu líffræðilegrar fjölbreytni í skógum, endurheimt skóga og að hlutverk skóga í jarðvegsvernd sé að fullu viðurkennt. Jafnframt felur hún í sér staðfestingu á  að skógar leiki stórt hlutverk við að sjálfbærni nái fram að ganga þ.á.m. í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Einnig er viðurkennt að hagaðilar hafi mikilvægu hlutverki að gegna í leiðinni að sjálfbærni sem og mikilvægi rannsókna í skógrækt og kynning á vísindalegri þekkingu.

Með undirritun sinni staðfestu ráðherrarnir einnig áframhaldandi vinnu og samstarf um þætti skógræktar á borð við gerð landsáætlana fyrir skógrækt, aðlögun skóga að loftslagsmálum og stuðning við hringrásarhagkerfið.

„Með þessari yfirlýsingu erum við að efla samstarf í Evrópu á sviði skóga, skógverndar, endurheimtar skóga og nýskógræktar. Þetta er mikilvægur liður í að styðja við stefnu um náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum þar sem á sama tíma er horft til loftslagsmála, endurheimtar líffræðilegrar fjölbreytni og að sporna gegn landeyðingu með samhæfingu þessara stóru umhverfismála að leiðarljósi, en ég hef lagt ríka áherslu á þessa nálgun í ráðherratíð minni. Það var jafnframt ánægjulegt að heyra hversu víða hefur komið í ljós síðasta árið hvað skógar sem útivistarsvæði geta haft jákvæð áhrif á heilsu og lífsgæði fólks,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Halda áfram að lesa

Innlent

Öll þingmál heilbrigðisráðherra komin til nefndar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn