Samherji

Landslag, nýtt útilistaverk Brynhildar Þorgeirsdóttur við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík

Brynhildur Þórarinsdóttir listakona / myndir Þórhallur Jónsson/samherji.is

Brynhildur Þórarinsdóttir listakona / myndir Þórhallur Jónsson/samherji.is

Útilistaverk eftir listakonuna Brynhildi Þorgeirsdóttur hefur verið sett upp við fiskvinnsluhús Samherja hf. á Dalvík. Verkið nær yfir þrjú beð og mynda eina heild sem ber titilinn Landslag. Brynhildur segir líklega einsdæmi að einkafyrirtæki láti gera eins viðamikið listaverk og Landslag er.

Hvalbak þungamiðja verksins

Brynhildur Þorgeirsdóttir hefur á löngum ferli sínum sem listakona skapað sitt eigið steinaríki og verk hennar eru í flestum söfnum landsins auk safna í ýmsum löndum austan og vestan hafs. Hún vinnur mikið með sandsteypt gler sem lýtur sömu lögmálum og hraunrennsli og eru verkin oftast lífrænir skúlptúrar, sem bera sterk einkenni höfundar. Brynhildur leitar gjarnan til japanskrar garðamenningar við gerð útilistaverka sinna en þar er lögð áhersla á að skapa jafnvægi og kyrrð, þar sem grunnurinn byggir á formi þríhyrnings og píramíta.

Hvalbak kemur ítrekað fyrir í listsköpun Brynhildar. Hvalbak er í jöklafræði klöpp, sem skriðjökull hefur sorfið þannig að hún líkist helst baki á hval. Hvalbak er einmitt þungamiðjan í nýja útilistaverkinu á Dalvík.

Stærra en til stóð í upphafi

„Ég er komin með um fjörutíu ára starfsreynslu, þannig að reynslubankinn er orðinn nokkur digur, skulum við segja,“ segir Brynhildur er hún var spurð um þetta nýjasta listaverk sitt.

„Á teikningum fiskvinnsluhússins gerir Fanney Hauksdóttir arkitekt ráð fyrir útilistaverki og það var síðan Helga Steinunn Guðmundsdóttir, sem er í stjórn Samherja hf., sem hafði samband við mig og óskaði eftir minni aðkomu að gerð útilistaverks sem á endanum varð reyndar mun stærra og umfangsmeira en til stóð í upphafi. Það er ögrandi að takast á við svona stórt verkefni utanhúss og á vel við mig, enda má segja að ég hafi alla tíð verið tengd landslagi í minni listsköpun. Við þrjár náðum strax vel saman og útkoman er sem sagt að líta dagsins ljós þessar vikurnar.“

Melgresið tekið úr sjávarkambinum skammt frá fiskvinnsluhúsinu

Útilistaverkið nær yfir þrjú beð við fiskvinnsluhúsið og inniheldur þrjú fjöll, sjö steina, klett og sex form sem þakin eru melgresi, sem óx skammt frá húsinu. Saman mynda þessi listaverk eina heild.

„Hryggjarstykkið í listaverkinu er hvalbak, ljós skúlptúr sem brýst upp úr steinöldunni og stefnir í suðaustur og á haf út. Hvalbakið fæðir svo af sér lögun melgresisformana. Fjöllin sem eru nokkuð áberandi eru sett saman úr átta einingum og tindarnir eru úr plastefni, ljós kviknar svo á þeim er skyggja tekur. Steinabeðið við inngang hússins sem rammar sig inn með fíngerðari möl er einskonar skrautbeð í þessum skúlptúrgarði en steinarnir þar eru steyptir í sandmót með sömu aðferð og gler er steypt í sand og innfelld í steinana eru form úr plastefni. Í beðunum vex einungis ein gróðurtegund, sem er melgresi, en það á sér langa og merkilega sögu hér á landi. Starfsmenn Steypustöðvarinnar á Dalvík sáu um alla jarðvinnu og aðstoðuðu mig við að hlaða upp sandformin, melgresið var tekið í sjávarkambinum skammt frá sjálfu fiskvinnsluhúsinu. Útkoman er lifandi mynd sem á eftir að vaxa og dafna hérna, en auðvitað þarf að hugsa vel um melgresið og hjálpa því að róta sig í manngerðum sandhólunum. Samstarfið við starfsmenn Steypustöðvarinnar á Dalvík var einstakt og sömuleiðis var allt starfsfólk fiskvinnsluhússins alltaf boðið og búið til að rétta fram hjálparhönd.“

Speglarnir stór landslagsmynd

„Já, ég er mikil hálendismanneskja, þannig að það kom aldrei til greina að hafa mikinn gróður, heldur tengja saman fjöruna og hálendið.

Framhlið hússins er líka skemmtileg, stórir gluggarnir spegla umhverfið. Í raun má segja að framhliðin sé stór landslagsmynd og fyrir innan er matsalur starfsfólksins. Þegar skyggni er lítið eða myrkur úti, er alltaf útsýni til fjallanna tveggja með upplýstum demantstindum og úr fjarlægð má svo sjá fljótandi fjallahringi.“

Góður staður til að staldra við og hugleiða

„Ég er ánægð með verkið og þetta er stór pakki. Það er í raun einstakt að einkafyrirtæki leggi í svona stórt verkefni. Flest láta sér nægja að kaupa málverk sem er komið fyrir á skrifstofum og göngum. Þetta listaverk er algjörlega sér á báti. Fyrir mér er þessi skúlptúrgarður skemmtileg viðbót við athafnarsvæðið hér á Dalvík og verður vonandi góður staður til að staldra við og hugleiða,“ segir Brynhildur Þorgeirsdóttir.

Á næstunni verða sett upp upplýsingaskilti við fiskvinnsluhúsið, þar sem sagt er frá útilistaverkinu.

Samherji

Makrílvertíðin: Stærsta holið 660 tonn

Hjörtur Valsson skipstjóri í brúnni á Vilhelm Þorsteinssyni í morgun/ myndir; Samherji.is/Stefán Pét…

Hjörtur Valsson skipstjóri í brúnni á Vilhelm Þorsteinssyni í morgun/ myndir; Samherji.is/Stefán Pétur Hauksson

Uppsjávarskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, er á leiðinni til Neskaupstaðar með 1.580 tonn af makríl. Stærsta holið var um 660 tonn, sem er jafnframt hið stærsta á vertíðinni. Hjörtur Valsson skipstjóri segir ómögulegt að áætla hvernig vertíðin þróast, makríllinn syndi hratt til norðurs.

Landað var úr skipinu í Færeyjum síðasta sunnudag og haldið var aftur áleiðis á miðin um kvöldið. Þau eru norður af Jan Mayen, siglingin var um 600 sjómílur. Hjörtur Valsson segir að veiðarnar hafi gengið vel og hráefnið gott til vinnslu.

Innan við sólarhring að fylla skipið

„Fyrsta holið skilaði okkur um 260 tonnum eftir að hafa dregið í fjóra tíma. Við köstuðum þrisvar sinnum, auk þess sem dælt var yfir til okkar einu holi úr Beiti NK. Þetta er ágætis fiskur eða um 480 grömm. Síðasta holið var mjög stórt, 660 tonn. Samtals vorum við nítján klukkustundir á veiðum í þessum túr. Allur búnaður í skipinu er öflugur og vel gekk að dæla hráefninu í tankana og kæla, þannig að það haldist sem best til vinnslu.“

Makríllinn á hraðferð

„Veiðin hefur verið ágæt síðasta hálfa mánuðinn en það er með öllu ómögulegt að sjá fyrir sér hvernig vertíðin þróast. Makríllinn er á hraðferð norður, færir sig um 30 til 50 mílur á sólarhring. Miðin eru austan við Jan Mayen, norðan við 72. gráðu, þannig að siglingin á miðin lengist í raun með hverjum deginum sem líður. Ég held að flotinn hafi aldrei áður sótt svona norðarlega. Þetta þýðir að megnið af túrunum fer í að sigla fram og til baka en á móti kemur að veiðin er nokkuð góð, svo og hráefnið.“

Unnið alla verslunarmannahelgina í Neskaupstað

„Það er blíða þessa stundina og sléttur sjór en ég býst við mótvindi á leiðinni. Siglingin til Neskaupstaðar er um 550 sjómílur og við löndum á föstudaginn, sem þýðir að það verður unnið alla verslunarmannahelgina í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Mér skilst að það taki hátt í tvo sólarhringa að vinna hráefnið sem við komum með.“

Strax á miðin að lokinni löndun – Mikilvægi öflugs flota

„Það er alltaf gaman þegar vel gengur eins og núna. Siglingin á miðin er löng og þá er líka eins gott að flotinn sé öflugur, vel búinn og skili góðu hráefni. Olíukostnaðurinn hefur hækkað mikið og þá kemur sér vel að hafa skip sem nýtir afl vélanna sem best. Við erum átta í áhöfn, allt saman hörku karlar. Skipið er frábært og við erum að landa góðu hráefni. Á vertíð eins og þessari er ekkert verið að spá í verslunarmannahelgina, við höldum á miðin strax að lokinni löndun,“ segir Hjörtur Valsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11.

Halda áfram að lesa

Samherji

Ákvað snemma að feta í fótspor forfeðranna

Hreinn Egget Birkisson í brúnni á Björgu EA 7. Myndir/samherji.is/einkasafn/Björn Steinbekk

Hreinn Egget Birkisson í brúnni á Björgu EA 7. Myndir/samherji.is/einkasafn/Björn Steinbekk

„Já, það má klárlega segja að sjómennska sé í blóðinu og þá sérstaklega skipstjórn. Pabbi er skipstjóri, annar afi minn stundaði sjóinn í nokkur ár og hinn var skipstjóri, einnig langafar og frændur sem voru skipstjórar og einn vélstjóri þannig að ég er á vissan hátt að feta í fótspor forfeðranna í Bolungarvík,“ segir Hreinn Eggert Birkisson fyrsti stýrimaður á Björgu EA 7, togara Samherja.

Sex ára og hauga bræla

„Fyrsti túrinn minn var með Guðmundi frænda skipstjóra á frystitogaranum Baldvin Þorsteinssyni EA. Við vorum tveir, ég sex ára gutti og frændi minn Heiðmar Guðmundsson, níu ára, sem fengum að fara með og þetta var náttúrulega heilmikið ævintýri fyrir okkur. Pabbi var þá á öðru skipi Samherja, Þorsteini EA, og vorum við ferjaðir yfir til hans eftir viku úthald með Guðmundi og hans áhöfn. Ég man ágætlega eftir þessum túr, varð sjóveikur og í minningunni var hauga bræla sem ég er nú ekki viss um að hafi verið kórrétt.“

Framtíðin ákveðin

Árin liðu og sautján ára var Hreinn munstraður sem háseti á Baldvin Þorsteinsson. Þar var stefnan varðandi framtíðina ákveðin. Sjómennskan heillaði sem sagt.

„Þegar ég hafði verið tvö sumur á sjó fann ég að sjómennskan átti ágætlega við mig. Góðu heilli stóðu foreldrar mínir með mér og úr varð að ég fór í Skipstjórnarskólann, sem síðar breyttist í Tækniskólann. Þaðan útskrifaðist ég svo með full skipstjórnarréttindi. Þau sögðu heillavænlegast að ég menntaði mig í sjómennsku, fyrst ég vildi fara á þessa braut í lífinu.“

Valinn maður í hverju rúmi

Hreinn hefur aðallega verið á Björgu frá því togarinn kom nýr til landsins, fyrir um fimm árum síðan. Fyrst sem annar stýrimaður og síðustu árin sem fyrsti stýrimaður.

„Já, ég náði í skipið til Tyrklands. Það eru viss forréttindi að taka við nýju skipi, móta og þróa alla verkferla um borð í samvinnu við áhöfnina. Öll sú vinna hefur gengið ótrúlega vel enda vanir menn í hverju rúmi. Það hjálpaði mér klárlega að hafa verið annar stýrimaður í upphafi, þannig náði ég að kynnast öllum þáttum á millidekkinu í þaula. Í raun má segja að togarinn sé fljótandi tölvuver, sjálfvirknin er ansi mikil sama hvert litið er. Allur aðbúnaður er góður, sjóhæfnin er gríðarleg og skipið fer vel með mannskapinn. Skoðanir um skrokklagið eru nokkuð skiptar en sjálfum finnst mér það fallegt enda belgurinn á stefninu hrein snilld.“

Ekki einhver stráklingur

Hreinn er í yngri hluta áhafnar Bjargar. Reyndar er það svo að einn í áhöfninni var einmitt á Þorsteini EA þegar þeir frændur fóru á milli skipa í sínum fyrsta túr.

„Þetta er ekkert vandamál í mínum huga enda er sjómennska fyrst og fremst sameiginlegt verkefni allra í áhöfninni, þar sem traustið er í forgrunni. Nei, ég verð ekkert var við að það sé litið á mig sem einhvern strákling, síður en svo. Áhöfnin er einstaklega samheldin enda hafa flestir verið hérna frá upphafi og það segir sína sögu.“

Gott heilræði

Hreinn segist ekki hafa komið sér upp alvöru hjátrú, kannski gerist eitthvað slíkt með tíð og tíma. Birkir Hreinsson, faðir Hreins, gaf honum heilræði fyrir fyrsta túrinn sem fyrsti stýrimaður.

„Hann hefur reyndar gaukað að mér nokkrum góðum og hagnýtum ráðum í gegnum tíðina. Hans fyrsta heilræði þegar ég fór fyrst í brú var að yfirgefa aldrei brúna nema þar væri einhver til að taka við stjórn. Þetta er gott ráð,“ segir Hreinn Eggert Birkisson fyrsti stýrimaður á Björgu EA 7.

Halda áfram að lesa

Samherji

Ársuppgjör Samherja 2021: Góð afkoma af rekstri og sölu eigna

Fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Í forgrunni er nýtt listaverk Brynhildar Þorgeirsdóttur,

Fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Í forgrunni er nýtt listaverk Brynhildar Þorgeirsdóttur, „Landslag“

Hagnaður af starfsemi Samherja hf. eftir skatta (án áhrifa og söluhagnaðar hlutdeildarfélaga) nam 5,5 milljörðum króna en árið á undan var hagnaðurinn 4,5 milljarðar króna.

Á árinu voru hlutabréf í Síldarvinnslunni hf. seld og nam söluhagnaður auk hlutdeildar í afkomu síðasta árs samtals 9,7 milljörðum króna.

Söluhagnaður og hlutdeild Samherja hf. í afkomu annarra hlutdeildarfélaga en Síldarvinnslunni hf. nam samtals 2,6 milljörðum króna.

Hagnaður samstæðunnar árið 2021 var í heild 17,8 milljarðar króna í samanburði við 7,8 milljarða árið 2020.

Þetta kom fram á aðalfundi Samherja hf. sem haldinn var á Dalvík 19. júlí s.l.

Samherji hf. stundar útgerð, fiskvinnslu, fiskeldi, sölu- og markaðsstarfsemi á sviði sjávarútvegs og annan skyldan rekstur.

Í ræðu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf., kom fram að miklar fjárfestingar væru fyrirhugaðar í fiskeldi á komandi árum, allt að 60 milljarða króna.

Við hjá Samherja höfum mikla trú á landeldi en öll uppbygging er gríðarlega fjárfrek. Þess vegna skiptir höfuðmáli að félagið sé fjárhagslega öflugt nú sem áður. Ársreikningur samstæðunnar sýnir að svo er. Aðalfundur félagsins ákvað að greiða ekki arð og beina fjárfestingarstyrk félagsins inn í ný verkefni á sviði sjávarútvegsins,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson.

Lykiltölur úr uppgjörinu

Seldar afurðir Samherja voru 52,8 milljarðar króna og að meðtöldum öðrum rekstrartekjum námu rekstrartekjur alls 56,7 milljörðum króna á árinu 2021. Hagnaður af rekstri samstæðunnar nam 17,8 milljörðum króna í samburði við 7,8 milljarða króna árið á undan.

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var níu milljarðar króna, sem er nánast sama EBITDA-afkoma og árið á undan. Á árinu voru hlutabréf í hlutdeildarfélögum seld og nam bókfærður hagnaður 7,1 milljarði króna. Þyngst vegur sala á 12% hlut í Síldarvinnslunni hf. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga hafði einnig jákvæð áhrif hagnað ársins.

Fjöldi ársverka á árinu var 807 sem er svo að segja óbreyttur fjöldi miðað við árið á undan.

Heildarlaunagreiðslur á síðasta ári námu samtals 10,5 milljörðum króna og hækkuðu um tæplega 10% milli ára.

31% starfsmanna eru konur og 69% karlar. Hlutfall kvenna í stjórn félagsins er 40% og karla 60%.

Eignir í árslok námu 128 milljörðum króna og eigið fé var í árslok 94,3 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í árslok var því 73,6%, miðað við 72% árið á undan, sem undirstrikar að efnahagur félagsins er traustur.

Upphæðir í rekstrarreikningi eru umreiknaðar í íslenskar krónur á meðalgengi ársins 2021 og upphæðir í efnahagsreikningi á lokagengi ársins 2021.

Metnaður og trúmennska starfsmanna.

„Við tókumst á við margar áskoranir á árinu 2021 eins og á hverju ári en samt verð ég að segja að það sem stendur upp úr eins og ævinlega er endalaus metnaður, dugnaður og útsjónarsemi starfsfólks Samherja. Á því byggist þessi góða afkoma. Ég er þakklátur fólkinu okkar fyrir framlag þess og óbilandi trúmennsku við Samherja,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri.

„Af einstökum þáttum er skráning Síldarvinnslunnar á almennan markað mikilvæg. Við höfum verið hluthafar þar frá aldamótum og stigum nú það skref að minnka hlut okkar eins og fleiri hluthafar. Við það gafst almenningi tækifæri á að koma til liðs við félagið og tók því sannarlega fagnandi, því um 6.500 nýir hluthafar bættust strax í hópinn. Þá eru ótaldir lífeyrissjóðirnir sem gæta hagsmuna tugþúsunda landsmanna. Þannig varð stór hluti þjóðarinnar þátttakandi í þessari mikilvægu atvinnugrein á fáeinum dögum. Það er afar ánægjulegt og felur í sér mikið traust fyrir þau sem hafa byggt félagið upp.“

Þorsteinn Már nefnir sérstaklega nýtt skip, Vilhelm Þorsteinsson EA11 sem bættist í flotann í apríl: „Samherji hefur lagt höfuðáherslu á að fjárfesta í nýjum skipum, tækni og búnaði til sjós og lands. Við höfum varið til þess um 35 milljörðum á síðustu fimm árum. Við lítum svo á að með þessum hætti sé unnt að standast alþjóðlega samkeppni og bjóða upp á áhugaverð og krefjandi störf hér á landi.“

Miklar fjárfestingar í landeldi

Fram hefur komið að Samherji hefur hafið undirbúning að umtalsverðu landeldi á Reykjanesi.

„Það er sannarlega eitt af stóru málunum frá síðasta ári,“ segir Þorsteinn Már.

„Dótturfélagið Samherji fiskeldi hf. undirbýr að byggja upp á næstu árum allt að 40 þúsund tonna landeldi á laxi, sem verður nálægt Reykjanesvirkjun. Heildarfjárfestingin er áætluð hátt í 60 milljarða króna og hefur stjórn Samherja hf. ákveðið að leggja til fjármagn til fyrsta áfanga verkefnisins á Reykjanesi með því að auka hlutafé Samherja fiskeldis hf. um allt að 7,5 milljarða króna. Unnið er að stækkun landeldisstöðvar Silfurstjörnunnar í Öxarfirði, um leið og allur tækjakostur verður bættur. Tvöfalda á eldisrými og framleiðslu, þannig að unnt verði að framleiða allt að þrjú þúsund tonn á ári. Þar verður sömuleiðis byggð ný seiðaeldisstöð. Segja má að stækkunin í Öxarfirði sé nokkurs konar undanfari uppbyggingarinnar á Reykjanesi. Þessar framkvæmdir kosta um fjóra milljarða króna. Í haust hefjast framkvæmdir við nýja seiðaeldisstöð á Stað við Grindavík, áætlaður kostnaður við hana er áætlaður um einn milljarður króna.“

Hækkandi olíuverð

„Olíukostnaðurinn hefur rokið upp úr öllu valdi en olía er næst stærsti kostnaður í útgerðinni á eftir launum. Hvernig verðið þróast í framtíðinni er með öllu óvíst og margir utanaðkomandi þættir hafa þar áhrif. Olíukostnaðurinn við útgerð Vilhelms Þorsteinssonar hækkar líklega um 300 milljónir króna á ársgrundvelli, svo dæmi sé tekið.“

Rannsókn á erlendri starfsemi

„Eins og alþjóð veit er starfsemi tengd dótturfélögum í Namibíu til rannsóknar. Mikilvægt er að halda því vandlega til haga að engir starfmenn á okkar vegum hafa verið ákærðir, ekki hefur verið óskað framsals á neinum okkar starfsmanna og í raun erum við ekki aðilar að refsimálinu sem rekið er gegn aðilum í Namibíu. Þeir hafa hins vegar setið í fangelsi í tvö og hálft ár án dóms. Rannsókn hér á landi hefur einnig staðið yfir í tvö og hálft ár án þess að nokkuð hafi komið fram sem gefur tilefni til að stimpla einstaka starfsmenn Samherja hf. sakborninga. Félagið hefur brugðist við þessum málum með ýmsum hætti og mun halda áfram að verja sakleysi sinna starfsmanna sem ég er sannfærður um að verða hreinsaðir að öllum ásökunum þegar upp er staðið. Í þessu sambandi er ánægjulegt að geta undirstrikað að samstarfsaðilar okkar um allan heim hafa haldið tryggð við okkur,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri meðal annars í ræðu sinni á aðalfundinum á Dalvík.

Arður ekki greiddur

Á aðalfundinum var ákveðið að greiða ekki út arð vegna síðasta árs og er þetta þriðja árið í röð sem arður er ekki greiddur.

Stjórn til næsta árs var kjörin á aðalfundinum. Í stjórn Samherja hf. eru:

Eiríkur S. Jóhannsson (formaður), Óskar Magnússon (varaformaður), Dagný Linda Kristjánsdóttir, Helga Steinunn Guðmundsdóttir og Kristján Vilhelmsson.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin