Heilsa

Landspítali og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefja samstarf um klíníska lyfjaþjónustu

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og lyfjaþjónusta Landspítala hafa gert með sér þjónustusamning um nýjung í klínískri lyfjafræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Um er að ræða samstarfsverkefni til eins árs sem felst í því að þrír klínískir lyfjafræðingar í lyfjaþjónustu Landspítala veita skjólstæðingum Heilsugæslunnar klíníska lyfjaráðgjöf á fimm heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

Verkefni lyfjafræðinganna verður einkum að fara yfir lyfjalista hjá skjólstæðingum á mörgum lyfjum með það markmið að draga úr lyfjatengdum vandamálum sem eru oft orsök sjúkrahúsinnlagnar, valda heilsutjóni og stundum miklum kostnaði fyrir samfélagið.
Samningurinn kveður á um stöðugildi eins klínísks lyfjafræðings og taka þrír lyfjafræðingar frá lyfjaþjónustu Landspítala þátt í verkefninu, þau Elísabet Jónsdóttir, Eva María Pálsdóttir og Pétur Gunnar Sigurðsson. Lyfjafræðingarnir munu nánar tiltekið starfa einn dag í viku á Heilsugæslunum Efra-Breiðholti, Efstaleiti, Mjódd, Seltjarnarnesi og Vesturbæ og á Sólvangi. Skjólstæðingar á þessum fimm heilsugæslustöðvum geta nálgast þjónustuna gegnum sinn heimilislækni.

Anna Bryndís Blöndal, lyfjafræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins: „Rannsóknir hafa sýnt að í langflestum tilvikum hefði mátt koma í veg fyrir lyfjatengd vandamál með vandaðri lyfjayfirferð. Klínískir lyfjafræðingar geta verið lykilaðilar í að auka gæði og öryggi í lyfjamálum einstaklinga í heilsugæslu. Jafnframt munu klínísku lyfjafræðingarnir veita ráðgjöf til einstaklinga og heilbrigðisstarfsmanna og taka þátt í ýmsum gæðaverkefnum innan heilsugæslunnar. Við erum ákaflega spennt fyrir þessu verkefni.“

Arnþrúður Jónsdóttir, deildarstjóri lyfjaþjónustu hjá Landspítala: „Landspítali er framar mörgu öðru þjóðarsjúkrahús og við hjá spítalanum tökum það hlutverk okkar mjög alvarlega. Aukin samþætting íslenskrar heilbrigðisþjónustu er eitt af stærri verkefnum samfélagsins og það er fagnaðarefni að lyfjaþjónusta Landspítala geti lagt sitt af mörkum í þeim efnum. Jafnframt er frábært að með þessu geta spítalinn og heilsugæslan tekið höndum saman í að efla þjónustu við viðkvæman hóp elstu skjólstæðinga íslenskrar heilbrigðisþjónustu og halda áfram að efla lyfjaöryggi á landsvísu.“ 

Myndir frá vinstri: Elísabet Jónsdóttir,   Eva María Pálsdóttir og Pétur Gunnar Sigurðsson.

Heilsa

Forstjórapistill: Umhverfis spítalann á 80 dögum

Kæra samstarfsfólk!

Skjótt skipast veður í lofti. Eins og ykkur er kunnugt ákvað Páll Matthíasson að láta af störfum sem forstjóri Landspítala eftir átta farsæl ár. Það verður ekki auðvelt fyrir nýjan forstjóra að fylla það skarð. Fyrir hönd starfsfólks Landspítala færi ég Páli innilegar þakkir fyrir hans góðu störf á krefjandi tímum.
Þessar breytingar bar brátt að og í kjölfarið var ég beðin um að gegna starfi forstjóra til áramóta. Í dag, föstudag, var staðan auglýst laus til umsóknar og veitist hún frá 1. mars 2022.
Frá því ég tók við forstjórastarfinu og til áramóta eru um 80 dagar. Þetta tímabil mætti kalla ferð umhverfis spítalann á 80 dögum sem er tilvísun í fræga bók Jules Verne um ferðalag Phileasar Fogg og félaga umhverfis jörðina á 80 dögum.

Þetta eru mikil tímamót og viðkvæmur tími í ýmsum skilningi. Þar vega nokkrir þættir hvað þyngst; má þar fyrst nefna mönnun spítalans, nýtingu legurýma, biðlista eftir þjónustu, stöðuna í heimsfaraldrinum, útskriftarvanda og birtingarmynd hans á bráðamóttökunni. Í ytra umhverfi má nefna að það hefur ekki verið mynduð ríkisstjórn og því óljóst hver verður næsti heilbrigðisráðherra og hvaða áherslur sá ráðherra kemur til með að hafa hvað varðar spítalann. Þá er óvíst hvernig fjárheimildir til spítalans koma til með að vera á næsta ári. Allt þetta kallar á athygli, ákvarðanir og eftirfylgni.

Framkvæmdastjórn og forstöðumenn héldu sameiginlegan fund s.l. þriðjudag með það markmið að leita allra leiða til að draga úr álagi og því ástandi sem orðið er viðvarandi á bráðamóttökunni.  Þau atriði sem ég lagði sérstaka áherslu á á fundinum voru eftirfarandi:

  • Ákvarðanir sem við tökum eru fyrst og fremst út frá hagsmunum sjúklinga
  • Nýta skipurit stofnunarinnar til hins ítrasta, þar með framlínustjórnendur
  • Mikilvægi þess að horfa inn á við, á starfsemina og starfsfólkið
  • Styðja eins og kostur er við starfsfólk sem hefur starfað undir álagi mánuðum saman
  • Tryggja fjármagn til rekstrar og fullnægjandi mönnun

Á fundinum voru teknar nokkrar ákvarðanir og má þar nefna fjölgun legurýma fyrir áramót, vinna við að endurskoða læknisfræðilega ábyrgð eða tilfærslu ábyrgðar, fyrirkomulag endurkoma til bæklunarlækna, aðgengi að myndgreiningarþjónustu að nóttu og skipulag blóðtöku á legudeildum. Við munum fara betur yfir þessi verkefni sem og fleiri á fundi með stjórnendum í byrjun nóvember sem verður auglýstur síðar.

Við þurfum eins og Phileas Fogg að veðja á og trúa því staðfastlega að okkur takist ætlunarverkið. Til þess þurfum við að nota öll verkfærin og bjargráðin sem við eigum í sameiningu. Keðjan er aðeins eins sterk og veikasti hlekkurinn og því þurfum við öll að standa saman fyrir skjólstæðinga okkar, samstarfsfólk, nemendur og fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu.

Með góðri kveðju,
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir

Halda áfram að lesa

Heilsa

COVID-19 – 18. október: Staðan

Landspítali er á óvissustigi, sem er fyrsta af þremur viðbragðsstigum Landspítala. Ástæðan er faraldur COVID-19. Skilgreining óvissustigs samkvæmt viðbragðsáætlun Landspítala er eftirfarandi: Viðbúnaður vegna yfirvofandi eða orðins atburðar. Ef dagleg starfsemi ræður við atburðinn, upplýsingar um atburð eru óljósar eða ekki nægar til að virkja áætlun til fulls (grænn litur í gátlistum). 
Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta er virk og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd eftir þörfum.

Staðan kl. 9:00

3 sjúklingar liggja á Landspítala vegna COVID-19, allir fullorðnir. Enginn á gjörgæslu.  Meðalaldur inniliggjandi er 57 ár.

Nú er 501 sjúklingur, þar af 200 börn, í COVID göngudeild spítalans.

Frá upphafi fjórðu bylgju, 30. júní 2021, hafa verið 123 innlagnir vegna COVID-19 á Landspítala.

Tölur verða næst uppfærðar mánudaginn 18. október.

Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.

Halda áfram að lesa

Heilsa

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Goðafoss í 6 vikna kynningarferli

14. október.2021 | 15:37

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Goðafoss í 6 vikna kynningarferli

Unnið hefur verið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Goðafoss í Skjálfandafljóti. Goðafoss var friðlýstur sem náttúruvætti þann 11. júní 2020.

Gerð áætlunarinnar var í höndum fulltrúa Umhverfisstofnunar, Þingeyjarsveitar og landeigenda.

Tillaga að áætluninni og aðgerðaáætlun í tengslum við hana hefur nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Goðafoss er einn af vatnsmestu fossum landsins. Hann greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri. Ásýnd fossins er fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Fossinn er 9-17 m hár og um 30 m breiður.

Eins og áður segir liggja drög að áætluninni nú frammi til kynningar og er öllum frjálst að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum vegna hennar.

Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til og með 29. nóvember 2021

 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin