Hagstofan

Launafólki hjá gjaldþrota fyrirtækjum fækkaði um 54% á milli ára

Af 375 fyrirtækjum í fyrirtækjaskrá Skattsins, sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á öðrum ársfjórðungi 2021 (apríl-júní), voru 60 með virkni á fyrra ári, 54% færri en á sama tímabili árið 2020 þegar þau voru 131. Þar af voru 23 í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (28% fækkun), 5 í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum (75% fækkun), 8 í einkennandi greinum ferðaþjónustu (80% fækkun) og 24 í öðrum atvinnugreinum (37% fækkun).

Fyrirtæki sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á öðrum ársfjórðungi 2021 höfðu um 494 launamenn að jafnaði árið áður sem er um 54% fækkun frá öðrum ársfjórðungi 2020 þegar launamenn gjaldþrota fyrirtækja á fyrra ári voru 1085. Mælt í fjölda launafólks á síðasta ári voru áhrif gjaldþrota á öðrum ársfjórðungi 2021 minni en á sama ársfjórðungi árið áður í öllum atvinnugreinaflokkum. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var launafólk á síðasta ári til dæmis um 275 sem er 35% fækkun frá sama tímabili 2020 og í einkennandi greinum ferðaþjónustu var fjöldinn um 11 eða 76% færri.

Samtals voru 146 fyrirtæki sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins tekin til gjaldþrotaskipta í júní síðastliðnum. Af þeim voru 22 með virkni á síðasta ári, það er annað hvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, sem er 55% fækkun frá júní 2020.

Um gögnin
Hagstofa Íslands gefur út tölur um gjaldþrot skráðra fyrirtækja í hverjum mánuði og birtast þær að jafnaði innan 30 daga frá því að mánuði lýkur en þá hefur stærstur hluti gjaldþrotabeiðna verið skráður í fyrirtækjaskrá Skattsins í kjölfar þess að auglýsing um gjaldþrotabeiðni er birt í Lögbirtingablaðinu.

Tölur um gjaldþrot og fyrri virkni fyrirtækja eru teknar saman samkvæmt atvinnugreinaflokkunarkerfinu ÍSAT2008 fyrir atvinnugreinabálkana byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og heild- og smásöluverslun og viðgerðir á vélknúnum ökutækjum auk einkennandi greina ferðaþjónustu samkvæmt skilgreiningu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Tölur um gjaldþrot fyrir síðasta mánuð eru bráðabirgðatölur og eru birtar með fyrirvara um nýjar upplýsingar um gjaldþrotabeiðnir frá dómstólum.

Talnaefni

Hagstofan

Nýjungar í vísitölu byggingarkostnaðar frá næstu áramótum

Hagstofa Íslands undirbýr tvíþætta breytingu á útreikningsaðferð vísitölu byggingarkostnaðar sem mun koma til framkvæmda við útreikning vísitölunnar í janúar 2022.

Annars vegar mun vísitala byggingarkostnaðar miðast við verðlag án virðisaukaskatts, en hætt verður að miða við verðlag byggingaraðfanga með virðisaukaskatti. Hins vegar mun Hagstofan taka í notkun nýja gagnaheimild við mælingu á vinnulið vísitölunnar. Nýja heimildin er launarannsókn Hagstofunnar þar sem mældur er launakostnaður aðila sem starfa í byggingariðnaði. Með þessu er horfið frá mati á launum byggðum á lágmarkstöxtum úr kjarasamningum.

Um er að ræða nauðsynlegar umbætur á mæliaðferð vísitölunnar. Innleiðing nýju aðferðanna mun ekki sem slík hafa áhrif til hækkunar eða lækkunar á vísitölu byggingarkostnaðar.

Á sama tíma verður birting vísitölu byggingarkostnaðar eingöngu á útreikningstíma en birting á gildistíma, sem rekja mátti til ákvæða þeirra laga sem falla brott um áramótin, verður felld niður.

Hagstofa Íslands greindi fyrst frá þessum breytingum í frétt 20. maí 2021 en þann 11. maí 2021 voru samþykkt lög á Alþingi (43/2021) um brottfall núgildandi laga um vísitölu byggingarkostnaðar (42/1987). Núgildandi lög um vísitölu byggingarkostnaðar munu því falla úr gildi 31. desember 2021. Frá næstu áramótum mun aðferðafræði vísitölunnar falla undir lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163 frá 2007.

Hagstofa Íslands vinnur með aðilum í byggingariðnaði að kynningu á breytingunni og býður notendum sem vilja fylgjast sérstaklega með að skrá sig á póstlista með því að senda eftir því sem við á nafn tengiliðar, nafn fyrirtækis, símanúmer og netfang á [email protected].

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Hrein fjáreign innlendra aðila jákvæð um 963,6 ma.kr. 2020

Heildarfjáreignir innlendra aðila námu tæplega 31.607 milljörðum króna við árslok 2020 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum fjármálareikninga eða sem nemur 1.075% af vergri landsframleiðslu (VLF).

Heildarskuldbindingar námu um 30.643 milljörðum króna eða 1.042% af VLF. Hrein fjáreign innlendra aðila var því jákvæð um 963,6 milljarða króna í lok árs 2020 en var jákvæð um 518,7 milljarða árið áður.

Bráðabirgðatölur fyrir 2020

Fjáreignir heimilanna stóðu í tæplega 8.702 milljörðum króna og fjárskuldir í um 2.534 milljörðum í lok árs 2020, samsvarandi 296% og 86% af VLF.

Heildarfjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja námu rúmlega 4.273 milljörðum króna samkvæmt uppfærðum tölum en fjárskuldir stóðu í 8.668 milljörðum.

Fjáreignir fjármálafyrirtækja námu um 16.052 milljörðum króna í lok árs 2020 en fjárskuldbindingar voru 16.092 milljarðar.

Í lok árs 2020 námu fjáreignir hins opinbera 2.471 milljörðum króna, eða sem nemur tæplega 84% af VLF, og skuldir 3.341 milljörðum eða 114% af VLF.

Fjármálaeignir erlendra aðila stóðu í 3.506 milljörðum króna, eða 119% af VLF í árslok 2020, og skuldbindingar í 4.455 milljörðum eða 151% af VLF.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Launavísitala hækkaði um 0,3% í ágúst

Laun hækkuðu að jafnaði um 0,3% í ágúst 2021 frá fyrri mánuði samkvæmt launavísitölu. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um 7,9%. Frá ársbyrjun 2021 og fram í ágúst hækkaði launavísitala um 5,7%.

Mest hækkaði vísitalan í janúar á þessu ári þegar laun hækkuðu um 3,7% en þá hækkun má að mestu rekja til ákvæða kjarasamninga sem náðu til meirihluta launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Á árinu 2021 hefur gætt áhrifa vegna styttingar vinnuvikunnar til hækkunar launavísitölu en einungis hjá opinberum starfsmönnum.

Áhrif vegna ákvæða kjarasamninga koma fram á ólíkum tíma
Frá janúar 2019 til júní 2021 hafa laun samkvæmt launavísitölu hækkað um 16,8% á almennum vinnumarkaði, 19,2% hjá ríkisstarfsmönnum og 25,2% hjá starfsfólki sveitarfélaga. Á tímabilinu hafa hækkanir launþegahópa komið inn á ólíkum tíma vegna mismunandi tímasetninga í kjarasamningum og er mikilvægt að taka mið af því til að fá sambærilegan samanburð á milli hópa.

Árið 2019 komu lífskjarasamningar til framkvæmda á almennum vinnumarkaði sem kveða meðal annars á um krónutöluhækkanir og styttingu vinnuvikunnar hjá hluta launafólks. Sambærilegir kjarasamningar voru gerðir árið 2020 hjá meirihluta opinbers starfsfólks og fólu þeir í sér tvær kjarasamningshækkanir á árinu 2020, þ.e. vegna ársins 2019 og 2020 þar sem samningar höfðu verið lausir frá fyrri helmingi árs 2019.

Hlutfallsleg launahækkun starfsmanna sveitarfélaga hefur verið meiri en hjá bæði ríkisstarfsmönnum og starfsfólki á almennum vinnumarkaði frá því að kjarasamningar komu til framkvæmda árið 2020. Í því samhengi er vert að hafa í huga að kjarasamningar sem kveða á um krónutöluhækkanir fela í sér að lægri laun hækka hlutfallslega meira en hærri laun. Samanburður á launastigi launaþegahópa sýnir að laun starfsfólks sveitarfélaga eru að jafnaði lægst sem skýrir hærri hlutfallslega hækkun launa í þeim hópi.

Á tímabilinu hafa laun opinberra starfsmanna hækkað meira að jafnaði en starfsmanna á almennum vinnumarkaði vegna styttingu vinnuvikunnar. Launaþróun samkvæmt launavísitölu byggir á verði vinnustundar og getur stytting vinnuvikunnar umfram niðurfellingu á neysluhléum verið ígildi launabreytinga. Þegar greiddum stundum fækkar en laun haldast óbreytt hækkar launavísitala.

Stytting vinnuvikunnar meiri hjá opinberum starfsmönnum
Áhrif vinnutímastyttingar í kjarasamningum sem gerðir voru árin 2019 og 2020, og talin eru ígildi launabreytinga, komu fyrst fram í launavísitölu í nóvember 2019. Stytting vinnuvikunnar var meiri hjá opinberum starfsmönnum en á almennum vinnumarkaði og náði til stærri hluta launafólks. Opinberir starfsmenn vega hins vegar minna inn í heildarvísitölu en starfsmenn á almennum vinnumarkaði eða tæplega 30%. Áhrif styttingar vinnutíma á launavísitöluna frá nóvember 2019 til júní 2021 eru metin um 1,7 prósentustig.

Horft til launaþegahópa eru áhrif styttingar vinnuviku frá nóvember 2019 til júní 2021 metin vera um 0,9 prósentustig á almennum vinnumarkaði, 2,7 prósentustig hjá ríkisstarfsmönnum og 3,0 prósentustig hjá starfsfólki sveitarfélaga. Áhrifin voru mest á almennum vinnumarkaði í janúar 2020 en þá hækkuðu laun um 1,0% á milli mánaða en án áhrifa styttingar vinnutíma hefði hækkunin verið 0,3%. Hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga voru áhrif vinnutímastyttingar til hækkunar launa mest í janúar 2021 vegna vinnutímastyttingar dagvinnufólks og maí 2021 vegna vaktafólks.

Í janúar 2021 hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 5,3% en metin hækkun hefði verið 4,0% án áhrifa vinnutímastyttingar. Starfsfólk sveitarfélaga hækkaði á sama tíma um 6,0% frá fyrri mánuði, en metin hækkun hefði verið um 4,4% án áhrifa vinnutímastyttingar. Í maí 2021 hækkuðu laun ríkisstarfsmanna hins vegar um 1,3% frá fyrri mánuði en án áhrifa vinnutímastyttingar hefðu laun verið óbreytt á milli mánaða. Laun starfsmanna sveitarfélaga hækkuðu á sama tíma um 1,5% en hækkunin hefði verið 0,2% án áhrifa vinnutímastyttingar.

Fyrirséð er að stytting vinnuvikunnar muni hafa áhrif á launavísitölu á næstu mánuðum. Þannig munu félagar í Samiðn, Félagi hársnyrtisveina, Grafíu, VM – félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Matvís og RSÍ geta tekið einhliða ákvörðun um það að hætta töku kaffitíma og stytt vinnutíma um 9 mínútur til viðbótar þann 1. janúar 2022. Með samkomulagi starfsmanna og launagreiðanda er hægt að stytta vinnutímann um allt að 13 mínútur en sú heimild tók gildi 1. apríl 2020. Nánar er fjallað um áhrif vinnutímabreytinga á almennum vinnumarkaði í frétt Hagstofunnar frá 22. maí 2020 og um vinnutímabreytingar opinberra starfsmanna í fréttum Hagstofunnar frá 23. febrúar 2021 (starfsfólk í dagvinnu) og 23. júní 2021 (vaktafólk).

Um launavísitölu
Í lögum um launavísitölu nr. 89/1989 kemur fram að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans skuli ekki hafa áhrif á vísitöluna nema um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga. Í kjarasamningum sem gerðir voru á árunum 2019 og 2020 voru ákvæði um styttingu vinnutíma sem hafa áhrif til hækkunar á launavísitölu þar sem verð vinnustundar hækkar þegar færri vinnustundir eru að baki launum. Útfærslur styttingar eru mismunandi, svo sem dagleg stytting eða styttri vinnudagur einu sinni í viku en þær hafa sömu áhrif á launavísitölu þar sem heildarstytting er sú sama.

Launavísitala mælir breytingar reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma, hvort sem um er að ræða greidda dagvinnu eða vaktavinnu. Í reglulegum launum er tekið tillit til hvers konar álags- og bónusgreiðslna, svo sem fasta/ómælda yfirvinnu, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Tilfallandi yfirvinnugreiðslur eru ekki hluti reglulegra launa né aðrir óreglulegir launaliðir, eins og eingreiðslur eða leiðréttingar, sem ekki eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda. Niðurstöður launavísitölu byggja á launagögnum Hagstofunnar.

Nánari upplýsingar um aðferðir launavísitölu má finna í lýsigögnum um launavísitölu.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin