Hagstofan

Launavísitala hækkaði um 0,3% í ágúst

Laun hækkuðu að jafnaði um 0,3% í ágúst 2021 frá fyrri mánuði samkvæmt launavísitölu. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um 7,9%. Frá ársbyrjun 2021 og fram í ágúst hækkaði launavísitala um 5,7%.

Mest hækkaði vísitalan í janúar á þessu ári þegar laun hækkuðu um 3,7% en þá hækkun má að mestu rekja til ákvæða kjarasamninga sem náðu til meirihluta launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Á árinu 2021 hefur gætt áhrifa vegna styttingar vinnuvikunnar til hækkunar launavísitölu en einungis hjá opinberum starfsmönnum.

Áhrif vegna ákvæða kjarasamninga koma fram á ólíkum tíma
Frá janúar 2019 til júní 2021 hafa laun samkvæmt launavísitölu hækkað um 16,8% á almennum vinnumarkaði, 19,2% hjá ríkisstarfsmönnum og 25,2% hjá starfsfólki sveitarfélaga. Á tímabilinu hafa hækkanir launþegahópa komið inn á ólíkum tíma vegna mismunandi tímasetninga í kjarasamningum og er mikilvægt að taka mið af því til að fá sambærilegan samanburð á milli hópa.

Árið 2019 komu lífskjarasamningar til framkvæmda á almennum vinnumarkaði sem kveða meðal annars á um krónutöluhækkanir og styttingu vinnuvikunnar hjá hluta launafólks. Sambærilegir kjarasamningar voru gerðir árið 2020 hjá meirihluta opinbers starfsfólks og fólu þeir í sér tvær kjarasamningshækkanir á árinu 2020, þ.e. vegna ársins 2019 og 2020 þar sem samningar höfðu verið lausir frá fyrri helmingi árs 2019.

Hlutfallsleg launahækkun starfsmanna sveitarfélaga hefur verið meiri en hjá bæði ríkisstarfsmönnum og starfsfólki á almennum vinnumarkaði frá því að kjarasamningar komu til framkvæmda árið 2020. Í því samhengi er vert að hafa í huga að kjarasamningar sem kveða á um krónutöluhækkanir fela í sér að lægri laun hækka hlutfallslega meira en hærri laun. Samanburður á launastigi launaþegahópa sýnir að laun starfsfólks sveitarfélaga eru að jafnaði lægst sem skýrir hærri hlutfallslega hækkun launa í þeim hópi.

Á tímabilinu hafa laun opinberra starfsmanna hækkað meira að jafnaði en starfsmanna á almennum vinnumarkaði vegna styttingu vinnuvikunnar. Launaþróun samkvæmt launavísitölu byggir á verði vinnustundar og getur stytting vinnuvikunnar umfram niðurfellingu á neysluhléum verið ígildi launabreytinga. Þegar greiddum stundum fækkar en laun haldast óbreytt hækkar launavísitala.

Stytting vinnuvikunnar meiri hjá opinberum starfsmönnum
Áhrif vinnutímastyttingar í kjarasamningum sem gerðir voru árin 2019 og 2020, og talin eru ígildi launabreytinga, komu fyrst fram í launavísitölu í nóvember 2019. Stytting vinnuvikunnar var meiri hjá opinberum starfsmönnum en á almennum vinnumarkaði og náði til stærri hluta launafólks. Opinberir starfsmenn vega hins vegar minna inn í heildarvísitölu en starfsmenn á almennum vinnumarkaði eða tæplega 30%. Áhrif styttingar vinnutíma á launavísitöluna frá nóvember 2019 til júní 2021 eru metin um 1,7 prósentustig.

Horft til launaþegahópa eru áhrif styttingar vinnuviku frá nóvember 2019 til júní 2021 metin vera um 0,9 prósentustig á almennum vinnumarkaði, 2,7 prósentustig hjá ríkisstarfsmönnum og 3,0 prósentustig hjá starfsfólki sveitarfélaga. Áhrifin voru mest á almennum vinnumarkaði í janúar 2020 en þá hækkuðu laun um 1,0% á milli mánaða en án áhrifa styttingar vinnutíma hefði hækkunin verið 0,3%. Hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga voru áhrif vinnutímastyttingar til hækkunar launa mest í janúar 2021 vegna vinnutímastyttingar dagvinnufólks og maí 2021 vegna vaktafólks.

Í janúar 2021 hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 5,3% en metin hækkun hefði verið 4,0% án áhrifa vinnutímastyttingar. Starfsfólk sveitarfélaga hækkaði á sama tíma um 6,0% frá fyrri mánuði, en metin hækkun hefði verið um 4,4% án áhrifa vinnutímastyttingar. Í maí 2021 hækkuðu laun ríkisstarfsmanna hins vegar um 1,3% frá fyrri mánuði en án áhrifa vinnutímastyttingar hefðu laun verið óbreytt á milli mánaða. Laun starfsmanna sveitarfélaga hækkuðu á sama tíma um 1,5% en hækkunin hefði verið 0,2% án áhrifa vinnutímastyttingar.

Fyrirséð er að stytting vinnuvikunnar muni hafa áhrif á launavísitölu á næstu mánuðum. Þannig munu félagar í Samiðn, Félagi hársnyrtisveina, Grafíu, VM – félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Matvís og RSÍ geta tekið einhliða ákvörðun um það að hætta töku kaffitíma og stytt vinnutíma um 9 mínútur til viðbótar þann 1. janúar 2022. Með samkomulagi starfsmanna og launagreiðanda er hægt að stytta vinnutímann um allt að 13 mínútur en sú heimild tók gildi 1. apríl 2020. Nánar er fjallað um áhrif vinnutímabreytinga á almennum vinnumarkaði í frétt Hagstofunnar frá 22. maí 2020 og um vinnutímabreytingar opinberra starfsmanna í fréttum Hagstofunnar frá 23. febrúar 2021 (starfsfólk í dagvinnu) og 23. júní 2021 (vaktafólk).

Um launavísitölu
Í lögum um launavísitölu nr. 89/1989 kemur fram að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans skuli ekki hafa áhrif á vísitöluna nema um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga. Í kjarasamningum sem gerðir voru á árunum 2019 og 2020 voru ákvæði um styttingu vinnutíma sem hafa áhrif til hækkunar á launavísitölu þar sem verð vinnustundar hækkar þegar færri vinnustundir eru að baki launum. Útfærslur styttingar eru mismunandi, svo sem dagleg stytting eða styttri vinnudagur einu sinni í viku en þær hafa sömu áhrif á launavísitölu þar sem heildarstytting er sú sama.

Launavísitala mælir breytingar reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma, hvort sem um er að ræða greidda dagvinnu eða vaktavinnu. Í reglulegum launum er tekið tillit til hvers konar álags- og bónusgreiðslna, svo sem fasta/ómælda yfirvinnu, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Tilfallandi yfirvinnugreiðslur eru ekki hluti reglulegra launa né aðrir óreglulegir launaliðir, eins og eingreiðslur eða leiðréttingar, sem ekki eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda. Niðurstöður launavísitölu byggja á launagögnum Hagstofunnar.

Nánari upplýsingar um aðferðir launavísitölu má finna í lýsigögnum um launavísitölu.

Talnaefni

Hagstofan

Vöruviðskipti óhagstæð um 151,2 milljarða árið 2020 – lokatölur

Fluttar voru út vörur fyrir 620,3 milljarða króna árið 2020 og inn fyrir 771,5 milljarða króna cif (718,6 milljarða króna fob). Vöruviðskiptin 2020, reiknuð á cif verðmæti, voru því óhagstæð um 151,2 milljarða króna. Vöruskiptahallinn 2020 var 36,3 milljörðum króna minni en árið 2019 þegar vöruviðskiptin voru óhagstæð um 187,4 milljarða á gengi hvors árs. Vöruskiptahallinn 2020 án skipa og flugvéla nam 142,2 milljörðum samanborið við 174,7 milljarða halla árið áður.

Verðmæti útfluttra sjávarafurða jókst um 3,7% á milli ára
Verðmæti vöruútflutnings árið 2020 var 21,6 milljörðum lægra en árið 2019 sem jafngildir lækkun um 3,3% á milli ára.. Iðnaðarvörur voru 48,1% alls útflutningsverðmætis á síðasta ári en verðmæti þeirra dróst þó saman um 2,9% samanborið við árið 2019.

Útflutningur á áli og álafurðum átti stærsta hlutdeild í útflutningi á iðnaðarvörum árið 2020 eða 33,5% af heildar útflutningsverðmæti. Verðmæti útfluttra sjávarafurða var 43,5% af heildar útflutningsverðmæti og jókst um 3,7% frá fyrra ári. Stærstu hlutdeild í útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2020 áttu ferskur fiskur (13,0% af heild) og fryst flök (11,2%). Stærstu viðskiptalönd í vöruútflutningi árið 2020 voru Holland, Spánn og Bretland en 69% alls útflutnings fór til ríkja innan EES.

Minna flutt inn af eldsneyti og flutningatækjum
Árið 2020 var verðmæti vöruinnflutnings 57,8 milljörðum króna lægra en árið 2019 eða 7,0% á gengi hvors árs. Mestu munaði um innflutning á eldsneyti og flutningatækjum. Stærstu hlutdeild í innflutningsverðmæti áttu hrá- og rekstrarvörur (30,5%) og fjárfestingarvörur (22,2%). Stærstu viðskiptalönd í vöruinnflutningi árið 2020 voru Þýskaland, Noregur og Kína. Verðmæti innflutnings frá ríkjum innan EES nam 58% alls innflutnings árið 2020.

Verðmæti útflutnings og innflutnings janúar-desember 2019 og 2020
  Millj. kr. á gengi hvors árs Breytingar frá
fyrra ári
á gengi hvors árs
% jan-des
Janúar-desember
  2019 2020
Útflutningur alls fob 641.859,7 620.287,7 -3,3
Sjávarafurðir 260.370,9 269.918,1 3,7
Landbúnaðarvörur 30.819,0 35.317,2 14,8
Iðnaðarvörur 307.540,1 298.481,1 -2,8
Aðrar vörur 43.129,7 16.571,4 -60,9
Innflutningur alls fob 829.285,7 771.454,2 -7,0
Matvörur og drykkjarvörur 78.895,8 82.116,2 4,1
Hrávörur og rekstrarvörur, ót.a. 238.724,1 235.505,4 -1,3
Eldsneyti og smurolíur 97.574,3 50.485,1 -48,3
Fjárfest.vörur (þó ekki flutn.tæki) 177.099,5 171.506,8 -3,1
Flutningatæki 124.206,8 98.634,0 -20,6
Neysluvörur ót.a. 112.318,5 132.627,2 18,0
Vörur ót.a (t.d. endursendar vörur) 466,7 579,6 23,5
Vöruviðskiptajöfnuður -187.425,9 -151.166,5

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Starfandi einstaklingum í ágúst fjölgaði um 3,9% á milli ára

Flýtileið yfir á efnissvæði