Hagstofan

Launavísitala hækkaði um 3,7% í janúar

Laun hækkuðu að jafnaði um 3,7% á milli mánaða í janúar 2021 samkvæmt launavísitölu. Hækkunina má að mestu rekja til launahækkana samkvæmt kjarasamningum sem náðu til meirihluta launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Algengustu kjarasamningshækkanir sem komu til framkvæmda þann 1. janúar 2021 voru 15.750 króna almenn hækkun mánaðarlauna fyrir fullt starf og hækkun kauptaxta um 24.000 krónur.

Frá fyrra ári, eða frá janúar 2020, hefur launavísitalan hækkað um 10,3%. Árið 2019 komu svokallaðir lífskjarasamningar til framkvæmda á almennum vinnumarkaði sem kváðu meðal annars á um krónutöluhækkanir í apríl 2020 og janúar 2021 auk styttingu vinnuvikunnar. Sambærilegir kjarasamningar voru gerðir árið 2020 hjá meirihluta opinbers starfsfólks og fólu þeir í sér tvær kjarasamningshækkanir á árinu 2020, vegna ársins 2019 og 2020, þar sem samningar höfðu verið lausir frá fyrri helmingi árs 2019. Í þeim samningum var einnig kveðið á um hækkun 1. janúar 2021 og því um að ræða þrjár kjarasamningshækkanir hjá þeim hópum sé horft til 12 mánaða tímabils.

Breytingar launavísitölu janúar 2020 til janúar 2021
  Frá fyrri mánuði, % Frá fyrra ári %
2020    
Janúar 0,7 4,9
Febrúar 0,1 4,8
Mars 0,3 4,9
Apríl 3,3 6,8
Maí 0,3 6,4
Júní 0,2 6,7
Júlí -0,1 6,3
Ágúst 0,2 6,4
September 0,8 6,7
Október 0,7 7,1
Nóvember 0,4 7,3
Desember 0,2 7,2
2021    
Janúar 3,7 10,3
Skýring: Launavísitala er reiknuð og birt skv. lögum nr. 89/1989. Vísitalan miðast við reglulegt tímakaup í hverjum mánuði.

Stytting vinnuvikunnar og áhrif á launavísitölu
Í lögum um launavísitölu kemur fram að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans skuli ekki hafa áhrif nema um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga. Slík ákvæði um styttingu vinnutíma er að finna í kjarasamningum sem gerðir voru á árunum 2019 og 2020. Þar sem verð vinnustundar hækkar þegar færri vinnustundir eru að baki launa hafa þessar breytingar áhrif til hækkunar á launavísitölu. Mismunandi útfærslur styttingar hafa sömu áhrif á launavísitölu og skiptir ekki máli hvort útfærslan felist í daglegri styttingu, styttri vinnudegi einu sinni í viku eða hvort styttingu er safnað upp í lengri frí, þar sem heildarstytting er ávallt sú sama.

Fjallað var um vinnutímabreytingar sem þegar hafa komið til framkvæmda á almennum vinnumarkaði og áhrif á launavísitölu í frétt Hagstofu Íslands frá 22. maí 2020. Þar kom fram að í sumum kjarasamningum er kveðið á um styttingu vinnutíma á ákveðnum tímasetningum en aðrir samningar kveða á um heimild starfsfólks og stjórnenda á einstökum vinnustöðum til þess að semja um styttingu vinnutíma, þá oft samhliða niðurfellingu á fastákveðnum kaffitímum, og koma þá sveigjanleg neysluhlé í stað þeirra. Vinnutímastytting sem er tilkomin vegna niðurfellingar á neysluhléum eða samþjöppun hefur ekki áhrif á launavísitölu þegar einungis er um að ræða breytingu á viðveru.

Í kjarasamningum á opinberum markaði er kveðið á um styttingu vinnuvikunnar um 13 mínútur á dag frá 1. janúar 2021 hjá launafólki á mánaðarlaunum í dagvinnu. Sú stytting telst sem ígildi launabreytinga og hefur áhrif til hækkunar á launavísitölu. Ákvæðin um styttingu má finna í fylgiskjali með kjarasamningum fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar við aðildarfélög ASÍ, BSRB og BHM. Undanskilin eru Félag prófessora við ríkisháskóla og Prestafélag Íslands innan BHM. Sambærilegt ákvæði er að finna í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla. Breytingin nær einnig til félaga innan Verkfræðingafélags Íslands, Stéttarfélag byggingarfræðinga, Félags skipstjórnarmanna, Félags starfsmanna Alþingis og Starfsmannafélags ríkisendurskoðunar í starfi hjá ofantöldum aðilum. Auk vinnutímastyttingar er kveðið á um heimild til niðurfellingar á matar- og kaffihléum og upptöku á stuttum, sveiganlegum neysluhléum á forræði vinnuveitanda. Útfærsla á heimildinni er enn á tilraunastigi og hefur því ekki áhrif á launavísitölu. Hagstofa Íslands mun fylgjast með útfærslu heimildar til þess að meta hvort í framkvæmdinni felist stytting á vinnutíma umfram breytta viðveru.

Áhrif vinnutímastyttingar í kjarasamningum sem gerðir voru árin 2019 og 2020 og eru talin ígildi launabreytinga komu fyrst fram í launavísitölu í nóvember 2019. Áhrif styttingar frá þeim tíma til nóvember 2020 eru metin um 0,8 prósentustig. Endanlegt mat á áhrifum vinnutímastyttingar á launavísitölu frá nóvember 2019 til janúar 2021 verður birt 23. apríl næstkomandi samhliða birtingu á niðurbroti launavísitölu fyrir janúar. Fyrsta mat af áhrifum vinnutímastyttingar í janúar 2021 á launavísitölu er um 0,4 prósentustig.

Fyrirséð er að stytting vinnutíma hafi frekari áhrif á launavísitölu á næstu mánuðum. Stytting vinnutíma hjá vaktavinnufólki, sem kemur til framkvæmda 1. maí næstkomandi samkvæmt ofangreindum kjarasamningum, mun til að mynda hafa áhrif á launavísitölu.

Um launaþróun
Til þess að gefa skýrari heildarmynd af launum og launabreytingum birtir Hagstofan einnig aðra mælikvarða en launavísitölu. Má þar nefna vísitölu heildarlauna, sem varpar ekki einungis ljósi á verðbreytingu einingarverðs greiddra stunda eins og launavísitala heldur tekur hún einnig til annarra breytinga svo sem á samsetningu vinnutíma, vinnuafls og óreglulegra greiðslna. Enn aðra mynd gefur summa staðgreiðsluskyldra launa sem gefur tímanlega vísbendingu um launatekjur einstaklinga. Almennt dregst launasumma saman þegar fjöldi starfandi einstaklinga og vinnustundum fækkar sem hefur verið tilfellið eftir að kórónuveirufaraldurinn (Covid-19) skall á. Þær breytingar á vinnumarkaði hafa hins vegar ekki áhrif á launaþróun samkvæmt launavísitölu sem mælir verðbreytingu á vinnustund hjá þeim sem eru í vinnu. Á milli nóvember 2019 og nóvember 2020 dróst launasumma á íslenskum vinnumarkaði saman um 1,6% á verðlagi hvers mánaðar á meðan launavísitalan hækkaði um 7,3% á sama tímabili.

Launavísitala mælir breytingar reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma, hvort sem um er að ræða greidda dagvinnu eða vaktavinnu. Í reglulegum launum er tekið tillit til hvers konar álags- og bónusgreiðslna, svo sem fasta/ómælda yfirvinnu, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Tilfallandi yfirvinnugreiðslur eru ekki hluti reglulegra launa né aðrir óreglulegir launaliðir, eins og eingreiðslur eða leiðréttingar, sem ekki eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda. Niðurstöður launavísitölu byggja á launagögnum Hagstofunnar. Nánari upplýsingar um aðferðir launavísitölu má finna í lýsigögnum um launavísitölu.

Talnaefni

Hagstofan

Aflaverðmæti 148 milljarðar króna árið 2020

Heildaraflaverðmæti fyrstu sölu landaðs afla var rúmlega 148,3 milljarðar króna árið 2020 sem er 2% aukning frá fyrra ári. Heildaraflamagn íslenskra skipa var 1.021 þúsund tonn sem er 3% minni afli en árið 2019.

Afli og aflaverðmæti árin 2019 og 2020
Tonn/Milljónir króna Aflamagn, janúar-desember Aflaverðmæti, janúar-desember
  2019 2020 % 2019 2020 %
Samtals 1.047.568 1.021.020 -3 145.076 148.341 2
Eftir mánuðum
janúar 46.345 35.740 -23 10.703 7.459 -30
febrúar 73.960 51.533 -30 11.177 11.987 7
mars 118.374 93.292 -21 14.357 14.857 3
apríl 112.955 88.736 -21 13.695 12.729 -7
maí 122.148 125.567 3 14.049 13.044 -7
júní 31.559 61.971 96 7.780 10.926 33
júlí 95.341 89.604 -6 14.222 12.926 -9
ágúst 113.442 130.727 15 14.472 16.952 17
september 109.049 119.849 10 12.510 13.868 11
október 91.581 86.637 -5 12.107 12.741 5
nóvember 69.418 63.788 -8 11.326 11.250 -1
desember 63.397 73.577 16 8.678 9.603 11
Eftir fisktegund
Botnfiskur 508.350 488.191 -4 112.310 113.417 1
Þorskur 272.989 277.511 2 69.950 75.860 8
Ýsa 57.747 54.214 -6 14.429 13.259 -8
Ufsi 64.681 50.450 -22 10.430 7.651 -27
Karfi 53.380 51.947 -3 12.110 12.176 1
Annar botnfiskur 59.553 54.069 -9 5.392 4.471 -17
Flatfiskafli 22.187 22.994 4 9.318 9.872 6
Uppsjávarafli 534.372 529.423 -1 21.578 23.803 10
Síld 137.930 134.163 -3 5.905 6.804 15
Loðna 0 0 0 0
Kolmunni 268.357 243.725 -9 7.181 7.038 -2
Makríll 128.084 151.534 18 8.491 9.960
Annar uppsjávarafli 1 1 -43 0 0
Skel- og krabbadýraafli 14.956 5.843 -61 1.870 1.249 -33
Humar 259 194 -25 267 206 -23
Rækja 2.920 3.127 7 1.053 885 -16
Annar skel- og krabbadýrafli 11.778 2.522 -79 550 158 -71
Annar afli 3 5 70 0 0
Eftir tegund löndunar
Bein viðskipti 788.301 768.910 -2 77.319 80.736 4
Á fiskmarkað 87.578 87.577 0 22.206 23.142 4
Sjófrysting 132.606 122.450 -8 37.815 36.605 -3
Í gáma til útflutnings 23.017 21.503 -7 6.286 6.184 -2
Önnur löndun 16.450 20.580 123 1.232 1.675 75

Afli botnfisktegunda var um 488 þúsund tonn á síðasta ári sem er 4% minna en árið 2019. Aflaverðmæti botnfisks jókst örlítið frá fyrra ári og var rúmir 113 milljarðar króna. Magn uppsjávarafla var tæp 530 þúsund tonn en var 534 þúsund tonn árið 2019 eða 1% meira. Verðmæti uppsjávarafla jókst hins vegar um 10%, úr tæpum 21,6 milljörðum króna árið 2019 í 23,8 milljarða árið 2020. Flatfiskafli var tæplega 23 þúsund tonn sem er 4% meira en árið 2019 og verðmæti flatfisks jókst úr 9,3 milljörðum króna í 9,8 milljarða. Skelfiskafli dróst saman um 61% og aflaverðmætið varð rúmir 1,2 milljarðar króna.

Rúm 600 þúsund tonn af sjávarafurðum voru flutt út árið 2020 samkvæmt bráðabirgðatölum sem er 2,5% minna en árið áður. Verðmæti þess útflutnings var um 270 milljarðar króna sem er 3,7% aukning frá árinu 2019. Þar af var útflutningsverðmæti þorskafurða tæpir 132 milljarðar króna sem er 12,2% aukning frá árinu áður.

Útflutningur og útflutningsverðmæti fimm verðmætustu tegunda 2019-2020
2019 2020
Fisktegund Afurð Tonn Milljónir
króna
(fob)
Tonn Milljónir
króna
(fob)
Mism.
Magn
%
Mism.
Verð
%
Allar tegundir 619.433 260.371 604.083 269.917 -2,5 3,7
Þorskur Allir afurðaflokkar 132.174 117.521 140.026 131.877 5,9 12,2
-Frystar afurðir 53.098 41.780 51.726 46.577 -2,6 11,5
-Saltaðar afurðir 23.654 20.511 25.238 23.187 6,7 13,0
-Ísaðar afurðir 40.621 47.943 46.925 54.535 15,5 13,7
-Hertarafurðir 12.126 5.735 11.985 5.893 -1,2 2,8
-Mjöl/lýsi 2.492 1.476 2.208 1.607 -11,4 8,9
-Annað 137 75 1.944 79 1319,0 4,7
Ýsa Allir afurðaflokkar 24.375 18.213 23.825 19.735 -2,3 8,4
Ufsi Allir afurðaflokkar 32.360 13.581 26.899 11.184 -16,9 -17,7
Karfi Allir afurðaflokkar 38.032 13.706 33.232 12.922 -12,6 -5,7
Makríll Allir afurðaflokkar 94.368 19.074 86.476 18.169 -8,4 -4,7

Af útfluttum þorski voru tæp 52 þúsund tonn fryst, 47 þúsund tonn ísuð og rúm 25 þúsund tonn söltuð. Útflutningsverðmæti var hæst vegna ísaðs þorsks eða tæpir 55 milljarðar króna sem er 13,7% aukning frá árinu 2019.

Af öðrum útfluttum afurðum voru flutt út rúm 86 þúsund tonn af makríl að útflutningsverðmæti 18 milljarðar króna. Útflutt ýsa nam tæpum 24 þúsund tonnum að andvirði 19,7 milljarðar. Útflutningsverðmæti karfa var tæplega 13 milljarðar króna og ufsa rúmir 11 milljarðar.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Vöruviðskipti óhagstæð um 12 milljarða í febrúar 2021

Fluttar voru út vörur fyrir 52,6 milljarða króna í febrúar 2020 og inn fyrir 64,5 milljarð cif (59,5 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í febrúar, reiknuð á fob/cif verðmæti, voru því óhagstæð um tæpa 12 milljarða króna.

Til samanburðar voru vöruviðskiptin reiknuð á fob/cif verðmæti óhagstæð um 9,3 milljarða króna í febrúar 2020 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruviðskiptajöfnuðurinn í febrúar 2021 var því 2,7 milljörðum óhagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Vöruviðskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 149,5 milljarða króna sem er 38,9 milljörðum hagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Verðmæti útflutnings jókst um 2,6% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruútflutnings í febrúar 2021 jókst um 6,5 milljarða króna, eða um 14,0%, frá febrúar 2020, úr 46,1 milljarði króna í 52,6 milljarða. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 4,7 milljarða króna, eða 22,1% samanborið við febrúar 2020, og útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um 1,7 milljarða (8,4%).

Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá mars 2020 til febrúar 2021, var 629,6 milljarðar króna og hækkaði um 16,0 milljarða króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 2,6% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 49% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánaði og var verðmæti þeirra 1,5% meira en á tólf mánaða tímabili þar á undan. Sjávarafurðir voru 43% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 5,3% á milli tólf mánaða tímabila. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 14,6% á sama tímabili.

Verðmæti vöruinnflutnings dróst saman um 2,9% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruinnflutnings nam 64,5 milljörðum króna í febrúar 2021 samanborið við 55,4 milljarða í febrúar 2020. Verðmæti skipainnflutnings nam 1,3 milljörðum króna í febrúar 2021 en var óverulegt fyrir ári síðan. Verðmæti fjárfestingavara utan flutningstækja jókst um 33,0% samanborið við febrúar 2020.

Verðmæti vöruinnflutnings síðustu tólf mánuði var 779,1 milljarður króna og lækkaði um 22,9 milljarða miðað við tólf mánuði þar á undan eða 2,9% á gengi hvors árs fyrir sig. Mestu munar um samdrátt í innflutningi á eldsneyti.

Vert er að hafa í huga að hér er um bráðabirgðatölur að ræða. Niðurstöður gætu breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar einkum í innflutningi með viðbótargögnum frá Skattinum.

Verðmæti út- og innflutnings á tólf mánaða tímabili
Milljarðar króna á gengi hvors árs Mars 2019 – febrúar 2020 Mars 2020 – febrúar 2021 Breyting frá fyrra tímabili (%)
Útflutningur alls 613,6 629,6 2,6
Sjávarafurðir 257,0 270,6 5,3
Landbúnaðarafurðir þ.m.t. fiskeldi 31,8 36,7 15,5
Iðnaðarvörur 300,8 305,4 1,5
Aðrar vörur 24,0 17,0 -29,4
Innflutningur alls 802,0 779,1 -2,9
Matvörur og drykkjarvörur 78,9 81,9 3,8
Hrávörur og rekstrarvörur, ót.a. 229,5 240,9 4,9
Eldsneyti og smurolíur 98,4 46,2 -53,0
Fjárfest.vörur (þó ekki flutn.tæki) 169,5 179,5 5,9
Flutningatæki 112,0 94,5 -15,6
Neysluvörur ót.a. 113,3 135,6 19,7
Vörur ót.a (t.d. endursendar vörur) 0,4 0,6 36,6
Vöruskiptajöfnuður -188,4 -149,5

Breytt framsetning
Hagstofa Íslands hefur samkvæmt hefðum innanlands birt vöruviðskiptajöfnuð út frá fob-verðmætum.1 Við birtingu á gögnum fyrir árið 2021 verður breyting þar á í samræmi við alþjóðlega staðla um vöruviðskipti. Vöruviðskiptajöfnuður verður reiknaður út frá fob-verðmætum útflutnings og cif-verðmætum2 innflutnings. Umfjöllun í fréttatilkynningum um vöruviðskipti munu því breytast í samræmi við breyttar áherslur. Ný tafla er aðgengileg á vef Hagstofu Íslands undir heitinu Verðmæti út- og innflutnings eftir mánuðum 2011-2021 (FOB/CIF) (UTA06001.px) og kemur hún í stað taflnanna: Verðmæti út- og innflutnings eftir mánuðum 2010-2020 (UTA06004.px) og Vöruviðskipti við útlönd, bráðabirgðatölur mánaðar (UTA01100.px) Á nýju ári verður einnig tekin upp sú nýbreytni að mánaðarleg birting bæði lokatalna og bráðabirgðatalna verður miðuð við breytingu síðustu tólf mánaða. Í þessari frétt er tólf mánaða tímabilið mars 2020 til febrúar 2021 borið saman við tímabilið mars 2019 til febrúar 2020. Jafnframt verður gerður samanburður á milli sömu mánaða eins og verið hefur.

1 FOB (free on board): Seljandi ber kostnað af því að koma vörunni til hafnar og um borð í flutningaskip. Þar tekur kaupandi við henni og greiðir meðal annars fyrir að flytja hana með skipinu og raunar allan kostnað sem fellur til eftir að varan er komin um borð í skip.
2 CIF (cost, insurance, freight): Seljandi ber kostnað af því að koma vörunni til tiltekinnar hafnar og að tryggja hana á leiðinni en kaupandi tekur þar við vörunni og greiðir meðal annars innflutningsgjöld ef einhver eru.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Birtingu fréttar um aflaverðmæti árið 2020 frestað

Birtingu á frétt um aflaverðmæti fyrir árið 2020, sem birta átti í dag miðvikudaginn 3. mars 2021, hefur verið frestað til föstudagsins 5. mars næstkomandi.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin