Félag atvinnurekenda

Léttvínsflaskan væri 37% ódýrari með dönskum sköttum

6. desember 2021

Smellið á myndina til að stækka hana.

Áfengisgjald hækkar um 2,5% samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022. Ekkert virðist ógna Evrópumeti Íslands í áfengissköttum, samkvæmt nýjum samanburði á skattlagningu áfengis í ríkjum álfunnar, þótt áfengisframleiðendur víða erlendis hafi kvartað undan hækkunum á áfengisgjöldum.

Á myndinni hér til hliðar má sjá hversu stóran hluta ríkisvaldið tekur til sín af útsöluverði nokkurra flokka áfengra drykkja, miðað við tilteknar forsendur um áfengismagn og stærð umbúða. Til ríkisins rennur áfengisgjaldið, virðisaukaskattur, skilagjald og álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Mest fær ríkið í sinn hlut af verði vodkaflösku, eða 93,6%, þá af verði bjórflösku (81,6%) en heldur minna af léttvínsflösku (62,6%), og léttvínskassa (72,2%).

Áfengisgjöld eru margfalt Evrópumeðaltalið
Eins og áður sagði eru áfengisgjöld á Íslandi þau langhæstu í Evrópu. Evrópusamtök áfengisframleiðenda, Spirits Europe, safna reglulega gögnum um skattlagningu áfengis í Evrópuríkjum. Samkvæmt nýjasta samanburðinum, sem er frá því í október, eru áfengisgjöld á sterkt áfengi á Íslandi 387% yfir meðaltali allra Evrópuríkjanna 36 í samanburðinum. Ef horft er á léttvín eru gjöldin 584% yfir Evrópumeðaltalinu (hátt í sjöföld skattlagning). Talan fyrir styrkt vín (t.d. púrtvín og sérrí) er 621% og fyrir bjór 345%.

Á myndinni hér að ofan hefur ríkjum í Austur-Evrópu, sem eru með lægstu áfengisskatta álfunnar, verið sleppt og þess í stað valin ríki í Norður- og Vestur-Evrópu, sem Ísland ber sig fremur saman við í ýmsu tilliti. Það breytir ekki myndinni að ráði; Ísland er með langhæstu áfengisskattana og ekkert ríki kemst með tærnar þar sem Ísland hefur hælana nema Noregur hvað skattlagningu á bjór varðar.

Smelltu á myndina til að stækka hana

Ísland leggur 11% virðisaukaskatt á áfengi eins og aðrar drykkjarvörur, en flest Evrópuríki leggja hærri virðisaukaskatt á áfenga drykki, allt að 25% í tilviki norrænu ríkjanna. Til að fá sanngjarnan samanburð var farin sú leið að reikna út hvað áfengir drykkir myndu kosta á Íslandi, ef þeir væru skattlagðir með sama hætti og í samanburðarríkjunum í Norður- og Vestur-Evrópu. Skoðað var sérstaklega hvernig dæmið liti út gagnvart skandinavísku ríkjunum, Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Við þennan útreikning voru gefnar þær forsendur að smásöluálagning sé sú sama og í ÁTVR, að skilagjald sé í öllum tilvikum eins og á Íslandi og að heildsali eða framleiðandi áfengisins fái sömu krónutölu í sinn hlut og í útreikningnum á áfengisgjöldum á Íslandi hér að ofan. Að þessum forsendum gefnum er ekki víst að út úr dæminu komi raunverulegt verð viðkomandi vöru í öðru landi, enda geta markaðsaðstæður verið mjög ólíkar á milli landa, heldur er skoðað hvernig það hefði áhrif á verð hér á landi að beita sömu sköttum og í samanburðarlöndunum. Munurinn á raunverulegu útsöluverði á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum er líklega meiri en fram kemur í dæmunum hér að neðan, enda kemur fram í nýlegum samanburði Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, að áfengi sé 139% dýrara hér á landi en í Evrópusambandsríkjunum að meðaltali. Í þessum útreikningum er hlutur framleiðanda eða heildsala hlutfallslega minni á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum, þrátt fyrir að flutningskostnaður sé oftast hærri.

Smelltu á myndina til að stækka hana

Vodkinn væri 39% ódýrari með sænskum skatti
Niðurstöðurnar úr útreikningi FA má sjá á myndunum hér til hliðar. Úr þeim má lesa ýmislegt áhugavert. Eina dæmið sem finnst um að vara hér á landi yrði dýrari ef hún væri skattlögð eins og í öðrum Evrópuríkjum, er um bjór með norskum sköttum – hann yrði 41 krónu dýrari, enda áfengisgjald nánast það sama í löndunum og virðisaukaskattur hærri í Noregi. Norsk skattlagning á léttvíni og sterku áfengi slagar upp í þá íslensku.

Í öllum öðrum tilvikum yrðu vörurnar mun ódýrari ef þær væru skattlagðar í takt við það sem gerist í löndunum sem Ísland ber sig helst saman við. Svo dæmi sé tekið yrði léttvínsflaska, sem kostar tæplega 2.100 krónur í Vínbúðinni, rúmlega 37% ódýrari með dönskum sköttum og myndi kosta 1.318 krónur. Bjórflaska, sem kostar 369 krónur á Íslandi, myndi kosta 262 krónur með dönskum sköttum (29% minna), eða 310 krónur með sænskum sköttum (19% minna).

Bitnar á kjörum neytenda, innlendri framleiðslu og ferðaþjónustu
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að þessi samanburður sýni vel út í hvílíkar öfgar skattlagning á áfengi sé komin á Íslandi. „Ekkert Evrópuríki, ekki einu sinni Noregur, leggur jafnfáránlega skatta á áfenga drykki og Ísland. Þrátt fyrir að heims- og Evrópumetin falli ár eftir ár halda áfengisskattar áfram að hækka í hverju fjárlagafrumvarpinu á fætur öðru. Það hlýtur einhvers staðar að verða að segja stopp,“ segir Ólafur.

Smelltu á myndina til að stækka hana

Hann bendir á að hinir háu skattar komi illa niður á innlendri áfengisframleiðslu, sem sé hratt vaxandi atvinnugrein. „Það má til dæmis benda á að áfengisgjald á bjór, sem er framleiddur af fjölda íslenskra fyrirtækja, er talsvert hærra en á léttvíni sem ekkert íslenskt fyrirtæki framleiðir. Skattur á sterkt áfengi er svo sérkapítuli og algjörlega út úr korti í samanburði við öll nágrannalönd,“ segir Ólafur.

Þá líður ferðaþjónustan fyrir háa áfengisskatta. „Hóflegri skattlagning áfengis myndi gera íslenska ferðaþjónustu mun samkeppnishæfari. Svo fást aldrei svör frá stjórnmálamönnum við spurningunni um það hvað hinn íslenski neytandi hafi gert til að verðskulda að borga hátt í tvöfalt meira fyrir borðvínið sitt en neytendur í öðrum Norður- og Vestur-Evrópuríkjum að meðaltali,“ segir Ólafur.

Félag atvinnurekenda

FA hvetur til umræðu um fleiri kosti til að halda faraldrinum í skefjum

18. janúar 2022

Félag atvinnurekenda hefur sent Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra erindi þar sem settar eru fram sex spurningar til ráðherra um hvaða valkostir hafi verið til skoðunar áður en tekin var ákvörðun um að herða sóttvarnaaðgerðir stórlega í lok síðustu viku. FA hvetur til þess að fram fari opinská umræða um fleiri valkosti en þá sem stillt var upp í minnisblaði sóttvarnalæknis og telur ekki vænlegt að útiloka aðgerðir sem gripið hefur verið til í nágrannalöndum okkar, svo sem að gera bólusetningu að skyldu eða gera bólusetningarvottorð að skilyrði fyrir aðgangi að ýmsum opinberum stöðum og þjónustu.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis, sem lá ákvörðun stjórnvalda um hertar aðgerðir til grundvallar, voru settir fram þrír valkostir; um óbreytt ástand, herðingu á þeim nótum sem síðan var ákveðin eða mjög harðar takmarkanir og lokanir í skamman tíma. Markmið sóttvarnalæknis er að koma í veg fyrir of mikið álag á heilbrigðiskerfið með mögulegu neyðarástandi.

Sex spurningar
Í erindi FA, sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri undirritar, segir: „Félag atvinnurekenda telur ástæðu til að spyrja hvort fleiri valkostir hefðu átt að koma til skoðunar er ráðherra tók ákvörðun um hertar sóttvarnaaðgerðir, m.a. ýmsar aðgerðir sem gripið hefur verið til í öðrum Vestur-Evrópulöndum. Félagið beinir því eftirfarandi spurningum til ráðherra:

  1. Var lagt mat á kostnað atvinnulífsins og eftir atvikum ríkissjóðs af þeim sóttvarnaaðgerðum sem ákveðið var að ráðast í? Ef ekki, hvers vegna ekki?
  2. Ýmis vestræn ríki hafa gengið mun lengra í viðbúnaði heilbrigðiskerfisins við faraldrinum en hér hefur verið gert, m.a. með mikilli fjölgun gjörgæzlurýma. Var sá kostur tekinn til skoðunar að ráðast í mun stærra átak til að efla Landspítalann og aðrar heilbrigðisstofnanir en lýst er í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 14. janúar síðastliðnum? Ef ekki, hvers vegna ekki?
  3. Var kostnaður af slíku átaki borinn saman við þann kostnað, sem atvinnulífið og ríkissjóður bera af hertum sóttvarnaráðstöfunum? Ef ekki, hvers vegna ekki?
  4. Ítrekað hefur komið fram að óbólusettir einstaklingar valdi hlutfallslega miklu stærri hluta af álagi á heilbrigðiskerfið vegna kórónuveirusmita en bólusettir. Var lagt mat á þann kost að fara t.d. svipaða leið og gert hefur verið í Austurríki; að heimila óbólusettum eingöngu að yfirgefa heimili sitt til að sækja vinnu og kaupa inn nauðsynjar? Ef ekki, hvers vegna ekki?
  5. Var lagt mat á þann kost að gera bólusetningu að skyldu nema læknisfræðilegar ástæður mæli á móti því, t.d. fyrir einstaklinga sem náð hafa tilteknum aldri, sbr. lagasetningu um slíkar aðgerðir í t.d. Austurríki og á Ítalíu? Ef ekki, hvers vegna ekki?
  6. Var lagt mat á þann valkost að gera framvísun bólusetningarvottorðs að skilyrði fyrir inngöngu í t.d. skóla, veitingastaði og menningarstofnanir, almenningssamgöngur og til að nota þjónustu þar sem veitt er þjónusta sem krefst nándar við viðskiptavini, líkt og gert hefur verið í Danmörku? Ef ekki, hvers vegna ekki?“

Félagið segir mikilvægt að stjórnvöld horfi til allra þeirra valkosta í baráttunni við faraldurinn sem dregið geti eins og hægt er úr líkum á því að neyðarástand skapist í heilbrigðiskerfinu, um leið og leitast sé við að lágmarka hinn efnahagslega skaða af sóttvarnaraðigerðum og halda atvinnulífinu gangandi eins og framast sé kostur.

Aðgerðir beinist fremur að smærri hópum
„Að mati FA hlýtur að koma til skoðunar að beita aðgerðum sem snerta fremur smærri hópa en allan þorra almennings og fyrirtækja, að því gefnu að þær geti skilað sama eða betri árangri í glímunni við faraldurinn,“ segir í erindi FA „Þegar takmarkandi ráðstöfunum er beitt til að ná lögmætu markmiði er það í samræmi við skilyrði meðalhófsreglu að beita slíkum ráðstöfunum aðeins að því marki sem þær mæta þeim markmiðum sem að er stefnt. Sé það t.a.m. svo að verið sé að vinna gegn innlögnum tiltekins hóps einstaklinga er það andstætt sjónarmiðum meðalhófsreglunnar að beina takmarkandi ráðstöfunum að hinum breiða fjölda, en ekki fyrst og fremst einstaklingum sem falla innan þess hóps. Eftir því sem sóttvarnaaðgerðir verða meira íþyngjandi fyrir einstaklinga og atvinnulíf verður að gera strangari kröfu um gagnsemi þeirra og að þær nái því markmiði sem stefnt er að. Þannig verður að gera þá skilyrðislausu kröfu að beint orsakasamband sé á milli þeirra aðgerða sem gripið er til og þess markmiðs sem stefnt er að. Stjórnvöld hljóta ævinlega að taka þann kost sem nær markmiðinu án ónauðsynlegs kostnaðar fyrir samfélagið í heild.“

Erindi FA til heilbrigðisráðherra

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Bann við blóðmerahaldi utan marka meðalhófs

17. janúar 2022

Félag atvinnurekenda telur að bann við blóðmerahaldi, sem viðbrögð við myndböndum sem sýna brot á dýravelferð, væri utan marka alls meðalhófs. Félagið leggst því eindregið gegn samþykkt frumvarps Ingu Sæland og fleiri þingmanna, þar sem lagt er til að banna töku blóðs úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vörur til sölu.

Í umsögn FA til atvinnuveganefndar Alþingis er farið yfir þann ramma regluverks og eftirlits sem er í gildi varðandi blóðtöku úr hryssum og er mun strangari en varðandi flesta aðra hagnýtingu dýra í landbúnaði. Jafnframt er fjallað um viðbrögð Ísteka ehf., sem vinnur lyfjaefni úr hrossablóði, við brotum sem sýnd voru á myndskeiðum í heimildarmynd dýraverndunarsamtakanna AWF/TSB (Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich). Fyrirtækið hefur m.a. sagt upp samningum við hrossabændur sem uppvísir urðu að brotum og sett af stað viðamikla umbótaáætlun til að bæta fræðslu meðal hrossabænda og eftirlit með starfseminni. Þá er vikið að rannsókn Matvælastofnunar á málinu og vinnu starfshóps, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur sett á fót til að fjalla um blóðtöku úr fylfullum hryssum, regluverk og eftirlit í kringum starfsemina.

Dýravelferð og hagnýting vel samræmanleg
FA ítrekar í umsögninni þá afstöðu sína að mikilvægt er að hugað sé vel að dýravelferð í öllum landbúnaði. „Hagnýting afurða lifandi dýra er vel samræmanleg dýravelferð ef rétt er á haldið. Skýrar reglur og skilvirkt eftirlit eru að sjálfsögðu lykilatriði í slíkri starfsemi. Það væri hins vegar jafnfráleitt að ætla að banna blóðmerahald eins og það leggur sig vegna þeirra tveggja tilvika, sem sýnd eru í áðurnefndri heimildarmynd, og að ætla að banna kúa- eða sauðfjárbúskap, eggjabúskap eða svínarækt, vegna afmarkaðra tilvika á einstökum bæjum, þar sem farið er illa með skepnur. Eftirlit kemur ekki í veg fyrir slík tilvik, en hindrar hins vegar að þau séu látin óátalin eða endurtaki sig án afleiðinga,“ segir í umsögn FA.

Atvinnuréttindi stjórnarskrárvarin
Í umsögninni segir ennfremur: „Það er því óbreytt mat FA að næði frumvarpið fram að ganga væri verið að ganga af mikilvægri búgrein dauðri og hindra arðbæra útflutningsstarfsemi, sem skilar verulegum verðmætum til þjóðarbúsins. Slík framganga löggjafans væri langt utan marka alls meðalhófs, enda atvinnuréttindi manna stjórnarskrárvarin. Fráleitt væri að Alþingi samþykkti frumvarpið áður en fyrir liggur hvaða tillögur áðurnefndur starfshópur ráðherra kann að gera um breytingar á regluverki um og eftirliti með blóðtöku úr hryssum. FA leggst því eindregið gegn samþykkt frumvarpsins.“

Umsögn FA um frumvarpið

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Niðurgreidd samkeppni í skjóli brots á þrískiptingu ríkisvaldsins

14. janúar 2022

Félag atvinnurekenda hefur sent umboðsmanni Alþingis beiðni um að embættið hefji frumkvæðisrannsókn á stjórnsýslu eftirlitsstofnana vegna pakkagjaldskrár Íslandspósts, sem var í gildi frá ársbyrjun 2020 til 1. nóvember síðastliðins. Að mati félagsins var gjaldskráin ólögmæt, enda gekk hún gegn skýru ákvæði póstlaganna um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli miða við raunkostnað við að veita þjónustu, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Gjaldskrá Póstins var hins vegar gróflega undirverðlögð.

Póst- og fjarskiptastofnun úrskurðaði fyrirtækinu á annað hundrað milljóna króna í styrk frá skattgreiðendum vegna undirverðlagningarinnar og lýsti því að sögn yfir við samgönguráðuneytið að lagaákvæðið um raunkostnað væri ekki að fullu virkt. Byggðastofnun, sem tók við eftirliti með póstmálum í nóvember síðastliðnum, tekur undir þessa túlkun PFS. Að mati FA eru stjórnsýslustofnanir ekki þess umkomnar að lýsa lög óvirk og grafa yfirlýsingar sem þessar með ósvífnum hætti undan grundvallarreglu stjórnskipunarréttarins um þrískiptingu ríkisvaldsins.

Undirverðlagning gróf undan rekstri keppinauta
Hin undirverðlagða gjaldskrá Póstsins gróf undan samkeppnisstöðu póst- og vörudreifingarfyrirtækja, sem rekin eru víða um land. Hún var tekin upp eftir að Alþingi bætti í póstlögin ákvæði um að gjaldskrá fyrir alþjónustu skyldi vera sú sama um allt land. Pósturinn lækkaði þá verð fyrir pakkadreifingu á öllum svæðum niður í það verð sem gilti fyrir sendingar innan höfuðborgarsvæðisins. Í því felst skýr undirverðlagning. FA hefur áður kvartað undan stjórnsýslu Póst- og fjarskiptastofnunar, sem úrskurðaði ríkisfyrirtækinu hálfan milljarð af fé skattgreiðenda vegna ársins 2020, þar af 126 milljónir vegna hinnar ólögmætu gjaldskrár, og nefndi í ákvörðun sinni aldrei ákvæðið um raunkostnað.

Ráðuneytið vísar á PFS…
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið lýsti því yfir í skriflegu svari, sem birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2021, að ráðuneytið teldi áðurnefnt lagaákvæði um að gjaldskrár taki mið af raunkostnaði „ekki að öllu leyti virkt“. FA gerði í erindi til ráðuneytisins athugasemdir við þessa afstöðu og benti á að það væri ekki á valdi ráðuneytisins að úrskurða lög virk eða óvirk. Í svarbréfi, sem FA barst í lok mars, sagði: „Þegar ráðuneytinu barst fyrirspurn frá Morgunblaðinu á dögunum, óskaði ráðuneytið eftir efnivið frá stofnuninni [PFS] til að geta svarað spurningum blaðsins. Ef svar ráðuneytisins til Morgunblaðsins er lesið í heild og samhengi kemur í ljós að ekki er um að ræða afstöðu ráðuneytisins til þess hvort 3. mgr. sé að öllu leyti virkt.“ Ráðuneytið gaf þannig til kynna að það væri afstaða PFS að lagaákvæðið væri óvirkt.

… og Byggðastofnun vísar á ráðuneytið
Í desember síðastliðnum birtist svo frétt í Morgunblaðinu þar sem haft var eftir Hjalta Árnasyni, yfirlögfræðingi Byggðastofnunar, að stofnunin hefði í undirbúningi að úrskurða Íslandspósti sambærilegt framlag úr sjóðum skattgreiðenda fyrir árið 2021 og fyrirtækið fékk 2020. Hjalti sagði að Byggðastofnun tæki undir túlkun PFS og ráðuneytisins varðandi óvirkni lagaákvæðisins um raunkostnað: „Þessu ákvæði [um sama verð um allt land] var breytt með lögum nr. 76/2021 en varð þess valdandi á meðan það var í gildi að ákvæði 3. mgr. sömu greinar var ekki fyllilega virkt eins og kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn ykkar [á Morgunblaðinu] í mars á þessu ári […] Byggðastofnun og Póst- og fjarskiptastofnun taka undir þetta sjónarmið ráðuneytisins,“ segir Hjalti.

Engin mótsögn í lögunum
FA bendir í erindi sínu til umboðsmanns á að engin mótsögn sé á milli ákvæðisins um sama verð um allt land og ákvæðisins um að gjaldskrár taki mið af raunkostnaði, sem geti valdið því að síðarnefna ákvæðið sé ekki virkt. „Í þessu sambandi er vert að taka fram að ákvæði þágildandi 2. og 3. mgr. 17. póstlaga eru ekki ósamræmanleg. Gjaldskrá fyrir bréfapóst innan alþjónustu er til að mynda sú sama um allt land og Íslandspóstur hefur ekki séð vandkvæði á að miða hana við raunkostnað,“ segir í erindi FA.

„Stjórnvöldum er ekki heimilt að ákveða upp á sitt einsdæmi að gildandi lagaákvæði sé óvirkt,“ segir í niðurlagi erindis FA til umboðsmanns. „Opinberar yfirlýsingar stjórnvalda um að þau telji lög óvirk grafa með ósvífnum hætti undan grundvallarreglu stjórnskipunarréttarins um þrískiptingu ríkisvaldsins. Ákvarðanir, byggðar á slíkum rangtúlkunum, brjóta gegn formreglu lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sem felur í sér að ákvarðanir stjórnvalda megi ekki vera í bága við lög.“

FA gætir hagsmuna fyrirtækja sem eru í beinni samkeppni við Íslandspóst og hefur umkvörtunarefnið því mikil áhrif á hagsmuni þeirra. Félagið fer því þess á leit við umboðsmann að hefja frumkvæðisathugun á framangreindri ákvörðun PFS nr. 1/2021 sem og yfirlýsingum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Byggðastofnunar.

Erindi FA til umboðsmanns

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin