Innlent

Loftslagsmál og líffræðileg fjölbreytni rædd á ráðherrafundi í Slóveníu

Nýta þarf tímann vel fram að loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna (COP26) sem haldinn verður í Glasgow í nóvember og mikilvægt er að ríki heims taki höndum saman um aukinn metnað í loftslagsmálum. Þetta kom fram í máli Guðmundar Inga, Guðbrandsonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, á óformlegum ráðherrafundi umhverfisráðherra Evrópusambandsins og EFTA ríkjanna sem fram fór í Ljúbljana í Slóveníu í gær og í dag.

Ráðherra fagnaði nýjum tillögum framkvæmdastjórnar ESB að aðgerðapakka (e. Fit for 55) vegna nýrra landsmarkmiða í loftslagsmálum. Ísland hefur uppfært markmið sín um samdrátt í losun líkt og ESB og Noregur og í samfloti ríkjanna er stefnt að 55% samdrætti í stað 40% árið 2030 miðað við 1990. Ráðherra greindi jafnframt frá samþykkt Alþingis á breytingu á loftslagslögum sem lögfesta markmið Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040.

Guðmundur Ingi ræddi mikilvægi þess að ríki heims settu sér metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum fyrir aðildarríkjafund loftslagssamningsins í haust því brýnt er að takmarka hækkun hitastigs við 1,5°C. Ráðherra lagði jafnframt áherslu á að lokið yrði samningaviðræðum um þá þætti sem enn stæðu út af vegna innleiðingar Parísarsamningsins svo hann gæti að fullu tekið gildi. 

Viljayfirlýsing með Sviss í loftslagsmálum

Í gær skrifaði ráðherra undir viljayfirlýsingu með Sviss um samstarf á sviði föngunar og förgunar kolefnis úr andrúmslofti, en mikill áhugi hefur verið á föngun og förgun kolefnis á Íslandi, bæði af hálfu innlendra og erlendra aðila.

 

 

Friðlýsingaátak og náttúrumiðaðar lausnir

Líffræðileg fjölbreytni var einnig á dagskrá ráðherrafundarins, sérílagi fyrstu drög að rammasamkomulagi um hnattrænar aðgerðir á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika.

Ráðherra lagði áherslu á stuðning Íslands við metnaðarfull markmið og aðgerðir, bæði hvað varðar verndarsvæði á landi og í hafi, endurheimt vistkerfa og samlegðaráhrif í aðgerðum sem geti stutt við markmið í loftslagsmálum, líffræðilegri fjölbreytni og í að vinna á landhnignun, allt á sama tíma. Náttúrumiðaðar lausnir eins og endurheimt skóga og votlendis eru dæmi um aðgerðir með slík samlegðaráhrif sem Íslandi hafi lagt stóraukna áherslu á síðastliðin ár, meðal annars með meira en tvöföldun aðgerða í skógrækt og landgræðslu og tíföldun í endurheimt votlendis.

Ísland vinnur nú að endurnýjun stefnu um líffræðilega fjölbreytni.

Vakti athygli á friðlýsingaátaki stjórnvalda

Ráðherra vakti sérstaklega athygli á friðlýsingarátaki íslenskra stjórnvalda, en 22 svæði hafa bæst við á síðustu þremur árum eða verið stækkuð. Mörg þeirra fela í sér frekari vernd viðkvæmra tegunda og vistkerfa og eiga meðal annars að tryggja vernd og viðgang líffræðilegrar fjölbreytni hérlendis. Unnið er að fleiri friðlýsingum en stærsta verkefnið er Hálendisþjóðgarður sem áfram verður unnið að á vegum stjórnvalda.

Innlent

Um grímuskyldu

Nokkurrar óvissu hefur gætt um framkvæmd reglugerðar nr. 587/2021frá 25. júlí s.l. um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Óvissan hefur einkum beinst að því hversu langt skyldan til að bera andlitsgrímur nær.

SVÞ finnst því ástæða til að skýra þessi atriði frekar.

Samkvæmt skýru ákvæði reglugerðarinnar er einungis um að ræða skyldu til að bera andlitsgrímu inni í verslunum og öðrum sambærilegum stöðum, þegar ekki er hægt að tryggja a.m.k eins metra fjarlægð milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Ákvæði sem upphaflega var í reglugerðinni þess efnis að einnig bæri að bera anliltsgímur þegar loftræsting væri ófullnægjandi, hefur verið felld út.

Eftir þessu er það lagt í hendur hvers fyrirtækis fyrir sig að meta hvenær ekki er hægt að tryggja nálægðartakmörkun með fullnægjandi hætti.

Halda áfram að lesa

Innlent

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 28. – 29. júní

27. júlí 2021

Fjármálastöðugleikanefnd ásamt ritara nefndarinnar
Fjármálastöðugleikanefnd ásamt ritara nefndarinnar

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands 28. – 29. júní 2021 hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndarmenn ræddu meðal annars um stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika, stöðu efnahagsmála, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, stöðu og áhættu í fjármálakerfinu og í rekstri einstakra fjármálafyrirtækja, vanskil, fasteignamarkaðinn, álagspróf, kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, fjármálasveifluna, ný heildarlög um gjaldeyrismál, sveiflujöfnunaraukann og takmörkun á fasteignalánum.

Sjá hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 28. – 29. júní 2021 (8.fundur). Birt 27. júlí 2021.

Sjá nánari upplýsingar um nefndina hér.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ungir Íslendingar geti búið og starfað í Bretlandi

Samkomulag er í höfn milli Íslands og Bretlands sem gerir ungu fólki frá Íslandi, á aldrinum 18 til 30 ára, mögulegt að búa og starfa í Bretlandi í allt að tvö ár. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samkomulagið í dag en það gerir ungum Bretum að sama skapi mögulegt að búa og starfa á Íslandi. 

Viðræður um framtíðarsamband Íslands og Bretlands hafa verið afar umfangsmiklar. Í byrjun júlí undirritaði ráðherra nýjan fríverslunarsamning við Bretland og þá hefur einnig verið skrifað undir samkomulag við bresk stjórnvöld um samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda

Guðlaugur Þór fagnar samkomulaginu sem hann segir afar mikilvægt. „Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að tryggja tækifæri ungs fólks til þess að búa, starfa og mennta sig í Bretlandi, sem sést meðal annars í þeirri staðreynd að Ísland er fyrsta ríkið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu til að gera samning við Bretland um vinnudvöl ungs fólks frá því landið gekk úr Evrópusambandinu. Ég er sannfærður um að sterk tengsl ríkjanna muni styrkjast enn frekar með þessum samningi,“ segir Guðlaugur Þór. 

Eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu þurfa allir sem vilja flytja til Bretlands að sækja um dvalarleyfi og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi Bretlands, en nýja samkomulagið mun auðvelda ungu fólki frá Íslandi ferlið til muna. 

Áætlað er að nýja fyrirkomulagið taki gildi í byrjun árs 2022 að undangengnum nauðsynlegum lagabreytingum. 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin