Connect with us

Félag atvinnurekenda

Lyfjaöryggi í hættu stefnt

Published

on

17. desember 2020

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 17. desember 2020. 

Verðlagning lyfja á Íslandi hefur mikla sérstöðu, sökum þess að hún er að stærstum hluta ákveðin af hinu opinbera. Þessu fyrirkomulagi fylgir mikil ábyrgð enda þarf að viðhalda þar eðlilegu jafnvægi á milli þess sem kaupendur vilja greiða og þess verðs sem að seljendur eru tilbúnir til að samþykkja. Fari stjórnvöld fram úr sér við beitingu þessa valds leiðir það augljóslega til þess að seljendum fækkar og skortur verður á lyfjum.

Fyrir nokkrum dögum birti heilbrigðisráðherra í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um verðlagningu lyfja. Markmið reglugerðarinnar eru sögð „að verðlagning lyfja og greiðsluþátttaka í lyfjum byggi á hagkvæmum grunni sem stuðli að jafnvægi milli lyfjaverðs og fullnægjandi framboðs af nauðsynlegum lyfjum.

Þetta eru góð markmið. Vandinn er hins vegar sá að við smíði reglnanna hefur heilbrigðisráðuneytið kastað þannig til höndunum að líklegt er að afleiðingin verði sú að lyfjakostnaður heilbrigðiskerfisins verði hærri en hann þyrfti að vera, um leið og framboð af nauðsynlegum lyfjum verður allsendis ófullnægjandi og lyfjaöryggi íslenzks almennings í raun í hættu stefnt. Svo þversagnakennt sem það kann að hljóma, er líklegt að viðleitni ráðherrans til að pína niður verð á lyfjum muni á endanum leiða til þess að kostnaður vegna lyfja verði hærri en hann þyrfti að vera. Skýrum það nánar.

Í meira en áratug hefur hámarksheildsöluverð á sjúkrahúslyfjum, samkvæmt ákvörðun stjórnvalda, miðazt við lægsta verð í hinum norrænu ríkjunum. Verð á öðrum lyfjum hefur miðazt við meðalverð á Norðurlöndum, nema á veltuminnstu lyfjunum. Samkvæmt reglugerð ráðherra á að fjölga stórlega almennum lyfjum sem eru háð sömu kvöðum og sjúkrahúslyf um að hámarksverð þeirra verði ekki hærra en lægsta verð í viðmiðunarríkjum; á Norðurlöndunum eða á Evrópska efnahagssvæðinu. Viðmiðunarlöndin eru undantekningarlaust margfalt stærri markaðir en sá íslenzki.

Skráðum lyfjum hefur fækkað
Verðstefnan fyrir sjúkrahúslyf hefur þýtt að skráðum lyfjum á Íslandi hefur fækkað. Kostnaður við að skrá lyf á okkar litla markaði er sá sami og við skráningu á margfalt stærri mörkuðum, dreifing er dýrari m.a. vegna mikils fjölda apóteka miðað við höfðatölu, kostnaður vegna ýmiss konar öryggisatriða er að stórum hluta fastur sama hvort um stóran eða lítinn markað er að ræða og loks bætist við kostnaður vegna krafna um að fylgiseðlar með lyfjum séu á íslenzku í þágu öryggis sjúklinga, sem getur þýtt að opna verði hverja einustu lyfjapakkningu og endurinnsigla. Dæmi eru um að þessi kostnaður sé hærri en innkaupsverðið á lyfinu sjálfu. Lægsta verðið á margfalt stærri mörkuðum stendur augljóslega ekki undir öllum þessum kostnaði.

Þetta þýðir að lyfjaframleiðendur hafa afskráð lyf af íslenzka markaðnum og skrá ekki ný lyf. Nokkur Evrópuríki hafa sett skráð lyfjaverð hér á landi inn í sínar „viðmiðunarkörfur“ og lyfjaverð hér skapar því verðþrýsting í þessum ríkjum. Það dregur úr hvata lyfjaframleiðenda til að skrá lyf hér á landi, því að verðið hér á landi getur leitt til lækkunar á verði á öðrum og mun stærri mörkuðum. Markaðssett lyf hér á landi eru nú rúmlega 3.500 en eru til samanburðar yfir 9.000 í Noregi. Miðað við fyrstu viðbrögð erlendra lyfjaframleiðenda við reglugerðardrögum ráðherra má búast við að enn herði á þessari þróun, því miður.

Forsendur fyrir skráningu samheitalyfja brostnar
Í reglugerðardrögunum er ákvæði um að sé velta á lyfi minni en 20 milljónir króna, megi miða við meðalverð í viðmiðunarríkjum í stað lægsta verðs. Þetta er eflaust hugsað til þess að lyfjaframleiðendur viðhaldi skráningum á lyfjum þrátt fyrir litla veltu. Það virðist hins vegar hafa steingleymzt að hugsa út í að á Íslandi ríkir samkeppni á milli samheitalyfja. Ef stjórnvöld fyrirskipa að verð á samheitalyfi, sem veltir meira en 20 milljónum króna, skuli miðast við lægsta verð í viðmiðunarlöndunum verða framleiðendur lyfja með sömu virkni að lækka sitt verð til að verða samkeppnishæfir – og þá eru forsendur fyrir skráningu og markaðssetningu lyfsins á Íslandi brostnar. Notkun samheitalyfja minnkar umtalsvert lyfjakostnað í heilbrigðiskerfinu en reglugerðardrögin stuðla beinlínis að því að framboð á samheitalyfjum dregst saman.

Kostnaðarhagræði og lyfjaöryggi ógnað
Það sem hér hefur verið rakið þýðir tvennt. Annars vegar verða mörg ný lyf, með bætta virkni gegn ýmsum sjúkdómum, ekki í boði á Íslandi. Fólk sem þarf á lyfjameðferð að halda líður fyrir það. Verði drög ráðherra að gildandi reglugerð verður lyfjaöryggi á Íslandi beinlínis ógnað,  sem stríðir gegn markmiðum lyfjalaga. Hins vegar þýðir þetta að ýmis samheitalyf, sem eru hagkvæmari í notkun en frumlyf, verða heldur ekki skráð á Íslandi. Þannig fara tækifæri til að lækka lyfjakostnað „á hagkvæmum grunni“ forgörðum. Ekki verður annað séð en að með þessum reglugerðardrögum séu heilbrigðisyfirvöld að skjóta sig beint í fótinn. Það er hins vegar enn hægt að afstýra því slysi sem það væri ef drögin tækju óbreytt gildi um áramót.

Félag atvinnurekenda

Undirverðlagning á undirverðlagningu ofan

Published

on

27. febrúar 2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 27. febrúar 2021.

Í fjórtán mánuði hefur það ástand ríkt á póstmarkaði að verðskrá ríkisfyrirtækisins Íslandspósts fyrir pakkadreifingu er langt undir raunkostnaði við að veita þjónustuna. Það vegur að rekstrargrundvelli keppinauta fyrirtækisins, vöruflutninga- og póstdreifingarfyrirtækja sem ýmist þjónusta allt landið eða sitt heimasvæði, þá gjarnan í samstarfi við önnur einkafyrirtæki. Lagabreyting um eitt verð á pakkadreifingu fyrir allt landið, sem Pósturinn hefur hengt hatt sinn á, var sögð í þágu byggðastefnu. Það er skrýtnasta byggðastefna sögunnar að grafa undan rekstri fyrirtækja víða um land með undirverðlagningu ríkisfyrirtækis.

Gjaldskrá Póstsins brýtur gegn því skýra ákvæði póstlaganna að verðskrár fyrir alþjónustu skuli miða við raunkostnað við veitingu þjónustunnar, að viðbættum hæfilegum hagnaði.

Alþingismenn átta sig ári síðar
Í Morgunblaðinu á miðvikudag tjáðu formaður og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sig um stöðuna. Báðir tala þeir um að bjóða eigi út alþjónustu á póstmarkaði. Það er ekki galin hugmynd, en gerir ekkert til að bæta úr stöðunni sem lýst er hér að ofan. Það þarf að stöðva undirverðlagningu Íslandspósts áður en hún veldur enn meira skaða á póstmarkaði en orðið er.

Bæði Bergþór Ólason og Jón Gunnarsson segjast vera steinhissa á að verðskrá Póstsins skekki samkeppnisstöðuna á póstmarkaðnum. Félag atvinnurekenda (FA) hefur þó bent á verðskrána, ólögmæti hennar og afleiðingar, síðan í janúar í fyrra. Það er út af fyrir sig jákvætt að alþingismenn eru að byrja að átta sig rúmu ári síðar, en það virðist enn djúpt á hugmyndum um hvernig stjórnvöld geti gripið í taumana.

Jón segist í blaðinu telja að Pósturinn sé í erfiðri stöðu, þar sem hærri verðskrá „myndi hafa neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu Póstsins á höfuðborgarsvæðinu og skilja fyrirtækið eftir með dýrasta reksturinn.“ Hér hefur grundvallaratriði farið framhjá varaformanni samgöngunefndar, sem var þó bent á í minnisblaði sem FA sendi nefndinni fyrir fund hennar 21. janúar síðastliðinn. Þar kom fram að pakkaþjónusta Póstsins var þegar undirverðlögð á árinu 2019; þorra 527 milljóna króna taps af samkeppnisrekstri innan alþjónustu á því ári mátti rekja til pakkasendinga innanlands, samkvæmt því sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) staðfesti við Morgunblaðið 11. desember sl.

Með öðrum orðum var pakkadreifingin undirverðlögð um hundruð milljóna króna á árinu 2019 og ætla má að þótt Pósturinn hefði reiknað út meðalverð fyrir þjónustuna á landinu öllu í ársbyrjun 2020 hefði verðskráin á höfuðborgarsvæðinu áfram verið undir raunkostnaði.

Lagaákvæðið sem gleymdist
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt makalausa ákvörðun sem sagt hefur verið frá hér í blaðinu, þar sem Íslandspósti eru reiknaðar 509 milljónir króna í greiðslur vegna alþjónustubyrði, þar á meðal 126 milljónir króna vegna áðurnefnds lagaákvæðis um eitt verð um allt land og 181 milljón í viðbót vegna þjónustu á svæðum sem PFS hefur tekið sér fyrir hendur að skilgreina sem „óvirk markaðssvæði“ jafnvel þótt þar hafi lengi verið samkeppni í pakkadreifingu. Samtals er því niðurgreiðsla skattgreiðenda á undirverðlagðri pakkaþjónustu Íslandspósts líklega vel á þriðja hundrað milljóna króna.

Í grein undirritaðs hér í blaðinu 16. febrúar síðastliðinn var lýst furðu á fréttum af því að „samtal“ ætti sér stað á milli samgöngu- og fjármálaráðuneyta, PFS og Póstsins um greiðslur vegna alþjónustubyrði. Þetta vakti óneitanlega spurningar um hvort rétt væri að verki staðið, því að útreikningar á alþjónustubyrði eru ekki pólitískt viðfangsefni. Sú virðist þó hafa orðið raunin.

Eftir að FA vakti fyrst athygli á ólögmæti pakkagjaldskrár Póstsins í janúar í fyrra sýndi Póst- og fjarskiptastofnun viðleitni til að sinna eftirlitshlutverki sínu og krafðist þess að fyrirtækið sýndi fram á að hún uppfyllti það ákvæði póstlaganna að verðskrár fyrir alþjónustu taki mið af raunkostnaði. Það gat Pósturinn augljóslega ekki gert. Þetta ákvæði er lykilatriði í póstlögum, ekki bara hér á landi heldur í Evrópulöggjöfinni, og er ætlað að koma í veg fyrir skaðlega undirverðlagningu og óréttmæta samkeppnishætti alþjónustuveitenda. Ekki þarf að fletta lengi í ákvörðunum PFS til að sjá að þetta ákvæði hefur árum saman verið rauður þráður í umfjöllun um gjaldskrár Íslandspósts.

Nú bregður hins vegar svo við að í 41 bls. ákvörðun PFS um niðurgreiðslu skattgreiðenda á kostnaði Íslandspósts er þetta lagaákvæði ekki nefnt einu orði – eins og það hafi bara gufað upp úr lögunum sem stofnunin á að hafa eftirlit með!

Þetta bendir sterklega til þess að Póst- og fjarskiptastofnun sé alls ekki sjálfstæð í störfum sínum eins og hún á að vera, heldur láti hún stjórnmálamenn segja sér fyrir verkum.

Skeytingarleysi, seinagangur og meðvirkni
Viðbrögð ráðuneyta, Alþingis og eftirlitsstofnana við þeirri stöðu sem lýst var hér í upphafi, ólögmætri undirverðlagningu þjónustu ríkisfyrirtækis á kostnað einkarekinna keppinauta, hafa einkennzt af skeytingarleysi, seinagangi og því sem verður líklega bezt lýst sem meðvirkni. Undirritaður hefur spurt áður og spyr nú enn – það mætti til dæmis beina spurningunni til formanns og varaformanns samgöngunefndar Alþingis fyrst nú örlar loks á skilningi hjá þeim – hver ætlar að taka í taumana og stöðva þetta framferði Póstsins?

Continue Reading

Félag atvinnurekenda

Gámaskortur vegna faraldursins margfaldar flutningskostnað frá Asíu

Published

on

25. febrúar 2021

Dæmi eru um að kostnaður við að flytja vörur frá Kína til Íslands hafi þre- til fimmfaldast á milli ára vegna gámaskorts ytra sem rekja má til COVID-19. Það gæti leitt til þess að verð á ódýrari innfluttri matvöru, eins og hrísgrjónum og núðlum, hækki tímabundið um 20–40 prósent. Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við Fréttablaðið í dag.

FA þekkir dæmi þess að kostnaður við að flytja gám frá Kína, sem var á bilinu 400–500 þúsund krónur fyrir ári, sé kominn yfir tvær milljónir. „Þetta hefur óhjákvæmilega áhrif á verðlag vara frá Asíu, einkum og sér í lagi ódýrari vöru, þar sem flutningskostnaðurinn er hærra hlutfall af innflutningsverðinu. Við getum tekið dæmi af matvöru eins og hrísgrjónum eða núðlum. Verð á slíkum vörum gæti hækkað um 20–40 prósent en sú hækkun er væntanlega tímabundin, að því gefnu að ástandið í alþjóðlegum skipaflutningum komist aftur í eðlilegt horf með því að faraldurinn réni í kjölfar bólusetninga,“ segir Ólafur.

Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri Aðfanga, heildsölu í eigu Haga, segir í sömu frétt að kostnaðarverð á mörgum tilbúnum vörum og vöruflokkum hækki hjá þeim sem flytja inn vörur frá Austurlöndum, hvort sem er beint eða í gegnum vöruhús í Evrópu. „Flokkar eins og núðlur, hrísgrjón, túnfiskur, ananas, kókósmjólk og frosnir ávextir, koma fyrst upp í hugann.“

Haft er eftir Braga Þór Marinóssyni, framkvæmdastjóra alþjóðasviðs Eimskips að á fyrri hluta ársins 2020 hafi stóru skipafélögin dregið úr flutningum á milli Asíu og Evrópu vegna minni eftirspurnar. Eftirspurnin hafi hins vegar glæðst síðar á árinu. „Það er ekki sjálfgefið að vöruflutningar séu jafnir í báðar áttir. Það er til að mynda mikið framleitt í Kína og flutt til Evrópu. Það gerði það að verkum að það söfnuðust upp tómir gámar í Evrópu.“

Umfjöllun Fréttablaðsins

Continue Reading

Félag atvinnurekenda

307 milljóna niðurgreiðsla á undirverðlagningu Póstsins

Published

on

22. febrúar 2021

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur úrskurðað Íslandspósti 509 milljónir króna í framlag frá skattgreiðendum vegna alþjónustubyrði ársins 2020. Inni í þeirri tölu eru m.a. 126 milljónir króna vegna taps fyrirtækisins sökum undirverðlagningar á pakkagjaldskrá Póstsins, sem hefur verið í gildi frá ársbyrjun 2020 og 181 milljón króna vegna þjónustu á „óvirkum“ markaðssvæðum þar sem engu að síður ríkir samkeppni. Félag atvinnurekenda ber brigður á ákvörðunina og telur að stjórnvöld geti ekki látið viðgangast að ríkisfyrirtækið undirverðleggi pakkaflutninga og grafi þannig undan rekstri keppinauta um allt land.

Ekki eitt orð um skyldu til að verðleggja í samræmi við raunkostnað
Pakkagjaldskrá Póstsins var breytt með vísan til ákvæðis, sem kom inn í ný póstlög í meðförum Alþingis, þess efnis að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli vera sú sama um allt land. Hún tók hins vegar ekki tillit til þess skýra ákvæðis póstlaga (3. málsgrein 17. greinar) að gjaldskrá vegna alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þetta ákvæði er lykilatriði í löggjöfinni og er ætlað að hindra undirverðlagningu og ósanngjarna samkeppnishætti alþjónustuveitanda. Athygli vekur að í umfjöllun PFS um hina undirverðlögðu gjaldskrá Póstsins er þetta lagaákvæði ekki nefnt einu orði, eins og það sé ekki til í lögunum.

Þvert á móti virðist PFS fallast á rök Póstsins um að það að láta gjaldskrána taka mið af meðalverði um allt land myndi fela í sér „arðránsmisnotkun“ á höfuðborgarsvæðinu af því að þá væri verið að láta viðskiptavini þar niðurgreiða þjónustu við notendur á landsbyggðinni. Stofnunin telur að sú staða hefði mögulega komið upp að verið væri að „okra“ á höfuðborgarsvæðinu. Þá virðist þó horft framhjá því að gjaldskrá fyrir bréfasendingar Póstsins hefur um árabil verið sú sama um allt land og jafnframt eru viðtakendur pakkasendingar frá Evrópuríkjum látnir greiða sama aukagjald og viðtakendur sendinga frá Kína til að greiða niður meint tap Póstins af síðarnefndu sendingunum.

Skotið fast á Alþingi
PFS skýtur hins vegar föstum skotum á umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í ákvörðuninni og segir að nefndin hafi ekki gætt að því að með umræddri breytingu væri hún að auka greiðslur úr ríkissjóði vegna alþjónustu, sem ekki var gert ráð fyrir í fjármálaáætlun ríkisins. Þá virðist engin greining hafa farið fram af hálfu Alþingis um mögulegar fjárhagslegar afleiðingar lagabreytingarinnar fyrir þann aðila sem skylt væri að starfa undir kvöðinni um sama verð fyrir alþjónustu um allt land.

Niðurgreiðsla samkeppni á „óvirkum“ svæðum
Í ákvörðun PFS er jafnframt samþykkt 181 milljónar króna framlag til Póstsins vegna þjónustu á svæðum sem PFS hefur tekið sér fyrir hendur að skilgreina sem „óvirk markaðssvæði“ sem ekki falla undir landpósta. Á öllum þessum „óvirku markaðssvæðum“ starfar engu að síður fjöldi fyrirtækja í samkeppni við Póstinn. Þau fyrirtæki þurfa nú að keppa við ríkisstyrkta samkeppni. Stjórnendur Póstsins hafa tekið þá viðskiptalegu ákvörðun að halda úti fimm daga þjónustu á þessum stöðum, þrátt fyrir að alþjónustuskyldan kveði aðeins á um tveggja daga þjónustu. Sú ákvörðun er til að mæta samkeppni frá einkafyrirtækjum á viðkomandi svæðum.

Stjórnvöld verða að taka í taumana
„Við teljum þessa ákvörðun um 307 milljóna króna niðurgreiðslu skattgreiðenda á undirverðlagningu þjónustu Póstsins með miklum ólíkindum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Staðan er nú sú að stofnunin sem á að hafa eftirlit með póstmarkaðnum fellst á að undirverðlagning, sem bitnar hart á vörudreifingarfyrirtækjum um allt land, sé fjármögnuð úr sjóðum almennings. Ef þessi ákvörðun PFS stendur er stofnunin búin að skuldbinda ríkið til að greiða milljarða króna á komandi árum. Það getur ekki verið að samgönguráðherra eða Alþingi ætli að láta þetta viðgangast. Stjórnvöld verða einfaldlega að taka í taumana.“

Continue Reading

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin