Veður

Mannskaði í óvenjulegu jökulhlaupi í Dólómítafjöllum á Ítalíu

jökulhlaup-dólómítafjöllum

Marmolada Jökull í ítölsku ölpunum eftir jökulhlaupið


6.7.2022

Sunnudaginn 3. júlí féll jökulhlaup úr Marmolada jökli í Dólómítafjöllum í ítölsku Ölpunum. Hlaupið, sem í fréttum er ýmist nefnt snjóflóð, skriðufall eða vatnsflóð, virðist hafa átt upptök þar sem leysingarvatn safnaðist fyrir undir jöklinum. Vatnið gerði það að verkum að jökullinn varð óstöðugur og leiddi til þess að fremsti hluti sporðsins brast og steyptist niður bratta hlíðina ásamt vatninu, sem og grjóti og aur sem hlaupið hreif með sér. Af myndböndum að dæma var stór hluti hlaupsins vatn, þannig að eðlilegast er að líta svo á að um jökulhlaup hafi verið að ræða. Vinsæl gönguleið liggur um hlíðina neðan við jöklulinn og fórust a.m.k. sjö göngumenn í hlaupinu og þrettán er enn saknað. Nokkrir ferðalangar til viðbótar, sem staddir voru nærri farvegi hlaupsins, sluppu naumlega. Hlaup úr jaðarlónum eða lónum sem stíflast upp við jökulbotn í bröttum fjöllum, geta verið mjög hættuleg. Mannskætt hlaup úr Tête Rousse jökli í frönsku Ölpunum árið 1892 féll á þorpið Saint-Gervais-les-Bains og fórust þar 175 manns. Í fréttum um jökulhlaupið í Dólómítafjöllum á Ítalíu hefur verið nefnt að aukin leysing vegna hlýrra loftslags sé mikilvægur þáttur í aðdraganda hlaupsins. Aukin hlýindi í fjöllum eru talin leiða til vaxandi óstöðugleika sífrera og jökla í miklum bratta og er þess að vænta að skriðuföll og hlaup séu að verða algengari af þessum sökum víða um heim.

Hætta getur stafað af ískriðum úr jöklum í bröttu fjalllendi án þess að vatn komi þar við sögu og eru mörg dæmi um það í Ölpunum, Himalayafjöllum og víðar að hluti sporða verði óstöðugur og losni frá meginjöklinum sem eins konar skriða. Slík skriðuföll eru stundum nefnar „jökulíshlaup“ á íslensku. Nokkuð stórt hlaup af þessum toga féll úr jökli norðan í fjallstindi milli Lambatinds og Gagnheiðarhnjúks í Fáskrúðsfirði árið 1927. Það féll langa leið og stíflaði Dalsá og bárust aur og íshröngl niður fyrir bæinn Dali sem er um fjóra km neðan hlaupstaðarins. Hlaup þetta olli engu tjóni. Ekki er vitað um mörg önnur dæmi um hlaup af þessum toga hér á landi enda ekki margir jöklar í svo miklum bratta að jökulíshlaupa sé að vænta.

Eldgos undir jöklum geta valdið vatnssöfnun við jökulbotn og leitt til óstöðugleika í jöklinum og mjög hættulegra hlaupa sem eru blanda af vatni, ís, gosefnum og lausum jarðefnum úr farvegi hlaupsins. Frægust slíkra hlaupa hér á landi eru úr Öræfajökli í tengslum við eldgosin 1362 og 1727 en þá greina sögulegar heimildir frá því að stór hluti jökulsins hafi steypst niður á láglendið við fjallsræturnar og eru ummerki um þessar hamfarir greinileg á mörgum stöðum undir Öræfajökli.

Í tengslum við loftslagsbreytingar af mannavöldum hefur á síðari árum athygli beinst að vaxandi hættu af völdum jökulhlaupa úr jarðarlónum við hörfandi jökulsporða í Himalayafjöllum. Þúsundir slíkra lóna hafa verið kortlögð og þau geta valdið hlaupum sem berast tugi og jafnvel yfir hundrað km niður þrönga dali þar sem þorp og bæir standa á dalbotninum. Árið 2013 varð mannskætt slys í þorpinum Kedarnath á Indlandi af völdum slíks hlaups þar sem yfir 6000 manns fórust. Jökulhlaup í Himalayafjöllum hafa einnig valdið miklu tjóni á margs konar innviðum, m.a. vatnsaflsvirkjunum, vegum og brúm. Áframhaldandi hörfun jökla samfara auknum hlýindum mun vafalaust auka hættu af völdum jökulhlaupa af þessum toga í Himalayafjöllum og víðar. Við Íslendingar þurfum að fylgjast vel með breytingum á jökulhlaupahættu hér á landi af þessum sökum vegna þess að jökullón myndast nú víða á nýjum stöðum og aðstæður breytast við jökuljaðra vegna hörfunar jökla.

Veður

Eldgos hafið að nýju á Reykjanesskaga

Fyrsta myndin sem við birtum af nýju sprungunni við Fagradalsfjall. Hún er staðsett við norðurjaðar nýja hraunsins um 1,5 km norður af Stóra-Hrúti.


3.8.2022

Eldgos er hafið í vestanverðum Merardölum um 1,5 km norður af Stóra-Hrút og jarðeldurinn virðist koma upp um norðuraustur suðvestur sprungu á þeim stað. Við fyrstu skoðun á vefmyndavélum virðist kvika hafa komið upp á yfirborð kl 13:18.

Út frá fyrstu myndum sem Halldór Björnsson á Veðurstofu Íslands tók úr eftirlitsflugi með Landhelgisgæslunni er sprungan staðsett í norður jaðri nýja hraunsins sem kom upp í síðasta gosi.

Sprungan virðist um 300 m löng út frá fyrstu mælingum.


Kort sem sýnir grófa staðsetningu á sprungunni út frá fyrstu myndum. Sprungan er staðsett í norður jaðri hraunsins sem myndaðist í gosinu sem hófst í mars í fyrra.

Halda áfram að lesa

Veður

Jarðskjálftahrina á Reykjanesi

Jarðskjálftahrina NA við fagradalsfjall

Mikil smáskjálftavirkni hefur átt sér stað Norðaustan við Fagdralsfjall í dag


30.7.2022

Í hádeginu í dag hófst kröftug jarðskjálftahrina með mikilli smáskjálfta virkni rétt norðaustan við Fagradalsfjall skammt norðan við Fagradalshraun. Stærsti skjálfti hrinunnar mældist af stærð 4,0 kl. 14:03. Skjálftarnir eru nú að mælast á um 5-7 km dýpi. Skjálftarnir hafa fundist í Reykjanesbæ, Grindavík, á Höfðuborgarsvæðinu og allt upp í Borgarnes. Talið er þetta stafi vegna kvikuhlaups sem er að eiga sér stað norðaustan við Fagradalsfjall á 5-7 km dýpi.

Vegna hrinunnar er aukin hætta á grjóthruni. Nú þegar hafa nokkrir skjálftar mælst yfir 3 stigum og í jarðskjálftum sem þessum getur grjóthrun orðið og jafnvel skriður fallið. Enn hafa ekki borist tilkynningar um nýlegt grjóthrun á svæðinu. Ef öflugri skjálftar verða, aukast líkur á grjóthruni. Fólk er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum, nálægt bröttum sjávarbjörgum og forðast svæði þar sem grjót getur hrunið. Ríkislögreglustjóri í samvinnu við Lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur lýst yfir óvissustigi

 Almannavarna og eins hefur VONA tilkynning verið gefin út og færð yfir á gult fyrir Krísuvík. Veðurstofan mun fylgjast náið með framvindu.

Halda áfram að lesa

Veður

Fundur um þróun mála við Öskju

Sentinel-1 bylgjuvíxlmynd frá Öskju - tímabilið frá 27. júlí 2021 til 22. júlí 2022

Sentinel-1 bylgjuvíxlmynd frá Öskju – tímabilið frá 27. júlí 2021 til 22. júlí 2022. Bylgjuvíxlmyndin sýnir yfirborðsfærslur við Öskju undanfarina 12 mánuði en litirnir sýna hvar landrisið hefur átt sér stað siðan 2021 fram til dagsins í dag. Breytingar á yfirborði tengjast grunnstæðu kvikuinnstreymi (á um 2 km dýpi) sem hófst samkvæmt mælingum í byrjun ágústmánaðar 2021. GPS mælistöð veðurstofunar OLAC er merkt inn á myndina sem svartur þríhyrningur. Þar hefur þennslan mælst um 35 cm á þessu 12 mánaða tímabili.


26.7.2022

Veðurstofa Íslands fundaði mánudaginn 25. Júlí með vísindamönnum frá Jarðvísindastofnun HÍ ásamt fulltrúum almannavarna. Fundarefnið var þróun mála í Öskju síðustu mánuði þar sem landbreytingar og jarðskjálftagögn voru rædd. Land hefur risið frá því í ágúst í fyrra. Skýrari mynd hefur nú fengist á landrisið á svæðinu með úrvinnslu og túlkun gervitunglamynda eftir að snjóa hefur leyst á svæðinu. Landrisið mælist nú mest um 35 cm og er miðja þess skammt vestan við Öskjuvatn. Landrisið stafar af þrýstiaukningu í rótum eldstöðvarinnar og er ástæða þess talin vera söfnun kviku grunnt í jarðskorpunni. Líkanreikningar benda til þess að dýpi kvikusöfnunarinnar sé um 2 km og að kvikan dreifi sér þar lárétt í jarðskorpunni í miðju eldstöðvarinnar. Rishraðinn er óvenjumikill sé m.v. sambærileg eldfjöll í heiminum. Skjálftavirkni hefur ekki verið mikil samfara þessu, hugsanlega vegna þess að áður en núverandi ristímabil hófst þá var viðvarandi landsig í Öskju síðastliðna áratugi. Einnig getur hluti aflögunar orðið á öskjusprungum sem geta hreyfst að hluta án skjálftavirkni.

Sviðsmyndir eru óbreyttar. Ef kvikustreymi verður viðvarandi kann risferlið að halda áfram með svipuðum hætti í nokkurn tíma. Búist er við að aukin skjálftavirkni verði skýr aðdragandi að frekari kvikuhreyfingum neðanjarðar eða eldgosi. Líklegasta sviðsmynd ef til eldgoss kemur er sprungugos í nærumhverfi öskjunnar. Mælingar á eldfjöllum með þroskuðum öskjum, eins og í tilfelli Öskju, sýna að þar geta orðið miklar jarðskorpuhreyfingar án þess að til eldgoss komi, jafnvel þannig að hreyfingar nemi meir en einum metra áður en til eldgoss komi. Ekki er þó hægt að útiloka að í tilfelli Öskju verði fyrirvarinn verði stuttur, jafnvel talinn í nokkrum klukkustundum.

Óvissustig Almannavarna er í gildi við Öskju og Veðurstofan fylgist áfram vel með svæðinu í samstarfi við Almannavarnir, lögregluna og Vatnajökulsþjóðgarð.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin