Heilsa

Marea hlýtur Bláskelina fyrir framúrskarandi plastlausa lausn 

Mynd: Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis–, orku– og loftslagsráðherra, Julie Encausse, stofnandi og framkvæmdastjóri Marea og Eliza Reid, forsetafrú.

15. september 2022 | 20:09

Marea hlýtur Bláskelina fyrir framúrskarandi plastlausa lausn 

Sprotafyrirtækið Marea ehf. hlýtur Bláskelina 2022, viðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins fyrir framúrskarandi plastlausa lausn og gott fordæmi. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, afhenti Julie Encausse, stofnanda og framkvæmdarstjóra Marea, viðurkenninguna á málþingi Plastlauss septembers í Veröld-húsi Vigdísar í dag.   

Marea er tilnefnt til Bláskeljarinnar fyrir þróun á náttúrulegri filmu úr þörungahrati sem ætluð er fyrir grænmeti og ávexti. Efninu er spreyjað á matvæli og myndast þá filma sem stjórnar raka á yfirborðinu og ver matvælin svo geymsluþolið eykst. Notkun filmunnar dregur því úr matarsóun án þess að plast komi við sögu. Filmuna má svo hreinlega borða með eða skola af matvælunum og því enginn óþarfa úrgangur sem verður til.  

„Það að fá hvatningu frá stofnunum sem eru á bak við Bláskelina og fagfólkinu sem tók þátt í dómnefndinni er afar þýðingarmikið og það segir okkur að við erum allavega að vinna í rétta átt“ sagði Julie Encausse, stofnandi og framkvæmdastjóri Marea.   

Fimm manna dómnefnd skipuð fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Samtökum iðnaðarins, Sorpu, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og Ungum umhverfissinnum valdi verðlaunahafann.  

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Marea hafi uppfyllt öll skilyrði sem dómnefndin lagði til grundvallar mati sínu. Fyrirtækið hefur:  

  • Haft nýsköpun að leiðarljósi  
  • Stuðlað að hringrásarhagkerfinu með því að nýta aukaafurð frá öðru fyrirtæki sem hráefni 
  • Þróað lausnir sem koma í stað hefðbundinna plastumbúða og nýtast fyrir grænmeti og ávexti 
  • Stuðlað að minni plastnotkun án þess að það auki matarsóun 

„Kastljósið í baráttunni gegn plastmengun beinist að okkur öllum og enginn er stikkfrí.  Þar þurfa ríki, sveitarfélög, atvinnulíf og almenningur öll að vinna saman ef árangur á að nást.  Við þurfum að draga úr plastnotkun, flokka og endurvinna meira plast og hreinsa það plast sem er komið út í umhverfið. Þess vegna er sérlega ánægjulegt að veita Bláskelina fyrirtæki sem kemur með athyglisverða og nýstárlega lausn sem hjálpar okkur að draga úr plastnotkun,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis–, orku– og loftslagsráðherra. 

Tveir aðrir aðilar komust í úrslit Bláskeljarinnar í ár, en það voru Krónan og SPJARA. Krónan leggur áherslu á að draga úr umbúðum og að stuðla að hringrás plasts í sínum rekstri. SPJARA er fataleiga sem hannað hefur margnota umbúðir úr afskurði frá Seglagerðinni og afgangstextíl frá Rauða krossinum.  

Bláskelin er nú veitt í fjórða sinn. Veiting verðlaunanna er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum; Úr viðjum plastsins og er þeim ætlað að vekja athygli á nýsköpun í plastmálefnum og plastlausum lausnum.   

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2019, þegar brugghúsið Segull 67 hlaut þau fyrir bjórkippuhringi úr lífrænum efnum. Árið 2020 hlaut Matarbúðin Nándin Bláskelina fyrir að stuðla að sjálfbæru matvælakerfi með hringrás fyrir glerumbúðir og í fyrra var það Pure North Recycling sem fæst við innlenda endurvinnslu plasts sem knúin er af jarðvarma.  

Tengt efni:

Heilsa

Hulda Hjartardóttir endurráðin í stöðu yfirlæknis fæðingarteymis

Hulda Hjartardóttir hefur verið endurráðin í stöðu yfirlæknis fæðingarteymis í kvenna- og barnaþjónustu aðgerðasviðs Landspítala.

Hulda lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1988 og stundaði sérnám í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp á kvennadeild Landspítala 1989-1991 og við sjúkrahús í Leeds og Bradford á árunum 1991-1998. Hún lauk MRCOG prófi árið 1994 og fékk sérfræðiréttindi á Íslandi 1997 og í Bretlandi 1998. Frá því ári hefur hún starfað sem sérfræðilæknir á kvennadeild Landspítala með aðaláherslu á fósturgreiningu og áhættumæðravernd auk fæðingarhjálpar. Hún var settur yfirlæknir á meðgöngu- og fæðingadeildum 2007-2009 og hefur verið yfirlæknir fæðingateymis frá því í maí 2017.

Hulda hefur sinnt kennslu og vísindastörfum samhliða starfi og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands í maí 2021. Ritgerðin fjallaði um ómskoðanir í fæðingum. Gæðastörf deildarinnar eru ávallt í fyrirrúmi og hefur Hulda lagt áherslu á áframhaldandi þróun í þeim efnum. Að auki er sífellt reynt að auka samstarf við heilsugæslu, önnur sjúkrahús og stofnanir á Norðurlöndunum í því augnamiði að tryggja sem besta meðferð í meðgöngu og fæðingu.

Halda áfram að lesa

Heilsa

Framlenging á starfsleyfi Reykjagarðs hf. Ásmundarstöðum

23. september 2022 | 14:51

Framlenging á starfsleyfi Reykjagarðs hf. Ásmundarstöðum

Umhverfisstofnun hefur fallist á að framlengja gildistíma starfsleyfis Reykjagarðs hf., Ásmundarstöðum Ásahreppi, sem gildir fyrir þéttbæru eldi alifugla, allt að 156.000 fuglastæðum holdakjúklinga og 23.000 fuglastæðum stofnhæna. Reykjagarður ehf. sótti um nýtt starfsleyfi þann 7. mars sl. og var umsóknin samþykkt sem fullnægjandi þann 8. september sl.

Samkvæmt. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir má útgefandi starfsleyfis framlengja gildistíma starfsleyfis meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu, að hámarki til eins árs, hafi fullnægjandi umsókn borist útgefanda. Áform um framlengingu voru auglýst á heimasíðu Umhverfisstofnunar 9. september til og með 18. september.

Starfsleyfi Reykjagarðs hf. gildir til 23. september 2022 og mun því framlengingin sem hér er veitt gilda þar til nýtt starfsleyfi er gefið út eða í síðasta lagi til 23. september 2023.
Ákvörðun Umhverfisstofnunar um framlengingu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu hennar.

Tengd skjöl
Ákvörðun um framlengingu starfsleyfis
Starfsleyfi Reykjagarðs hf

Halda áfram að lesa

Heilsa

Hjartasund 24. september til stuðnings fólki með gang- eða bjargráð – áheitasund fyrir yngsta hópinn

Í tilefni af alþjóðlega hjartadeginum 29. september 2022 vekja starfsmenn hjartarannsóknarstofu Landspítala athygli á fólki sem er með gang- eða bjargráð og ætlar að stinga sér til sunds laugardaginn 24. september því til stuðnings.  Söfnunarfé áheitasunds rennur til að yngsta hópsins sem þarf á hjartaaðstoð að halda

Starfsfólk hjartarannsóknarstofu Landspítala hefur mikið við og tileinkar hátíðarhald vegna alþjóða hjartadagsins gang- og bjargráðsfólkinu sem er í eftirliti hjá því.

Göngudeild gangráða, eða „gangráðseftirlitið“ eins og það er kallað í daglegu tali, er hluti af hjartarannsóknarstofunni 10G. Á deildinni starfa 9 lífeindafræðingar, náttúrufræðingur, lífeindafræðinemi, 5 sjúkraliðar, 4 geislafræðingar og ritari við margvíslegar rannsóknir.

Í september taldist starfsfólki gangráðseftirlitsins til að þar væru 2.685 með gangráð og 462 með bjargráð í virku eftirliti eða alls 3.147 einstaklingar. Því fer fjarri að skjólstæðingarnir séu allt aldraðir, aldursbilið spannar allt frá ungabörnum til elstu manna.

  • Starfsmenn hjartarannsóknarstofu hyggjast stinga sér til sunds í Sundhöll Reykjavíkur kl. 10:00 laugardagsmorguninn 24. september og synda boðsund, 5 metra fyrir hvern einstakling með gang- eða bjargráð sem er í eftirliti þar eða alls 15.750 metra. Þangað er hægt að koma og hvetja sundfólkið og busla sig þannig í sameiningu í gegnum þetta fram eftir degi!
  • Hægt er að heita á sundhópinn með frjálsum fjárframlögum inn á reikning, bankanúmerið er 537-14-408511 kt: 281058-2829.
  • Söfnunarfé áheitasundsins rennur til að yngsta hópsins sem þarf á hjartaaðstoð að halda: Neistans, styrktarfélags hjartveikra barna. 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin