Samtök Atvinnulífsins

Menntaverðlaun Atvinnulífsins – Tilnefningar óskast

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent miðvikudaginn 2. febrúar 2022 á Menntadegi atvinnulífsins.

Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála fyrir 21. janúar nk. Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum, menntafyrirtæki og menntasproti ársins 2022, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

  • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
  • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
  • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
  • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

  • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu-innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja
  • samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu-innan sem utan fyrirtækja

Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf en skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta verkefni. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

Tilnefningar og fylgiskjöl sendist rafrænt í tölvupósti á [email protected] – eigi síðar en föstudaginn 21. janúar nk. Ekki er tekið við tilnefningum eða gögnum eftir þann tíma.

Verðlaunin verða veitt á Menntadegi atvinnulífsins 2. febrúar 2022 en þetta er í níunda sinn sem dagurinn er haldinn.

Samtök Atvinnulífsins

Takmarkanir án trúverðugra lausna

Síðustu misseri hafa verið atvinnulífinu þungbær. Þrátt fyrir afléttingu á sóttkví hjá þríbólusettum og styttingu einangrunar er ljóst að íþyngjandi aðgerðir sóttvarna hafa haft gífurleg áhrif á daglega starfsemi margra íslenskra fyrirtækja.

Nú þegar standa fyrir dyrum enn frekari herðingar, fækkun á hámarksfjölda í rými ásamt lokun á starfsemi, er ljóst að stjórnvöld verða að koma fram með frekari lausnir gagnvart fyrirtækjum sem verst verða fyrir barðinu. Flest þau úrræði sem hafa gefist vel á síðustu árum vegna faraldursins hafa nú runnið sitt skeið. Fjöldi fyrirtækja er þrátt fyrir þetta enn að troða marvaðann og lítið má bregða útaf. Útvíkkun á lokunarstyrkjum og öðrum úrræðum fyrir atvinnulífið er eðlileg krafa til að koma til móts við þá starfsemi sem sætir áfram takmörkunum, en ljóst má vera að tíu manna samkomutakmarkanir eru í raun og veru gífurleg takmörkun á starfsemi fjölmargra fyrirtækja.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa talað um mikilvægi þess að hleypa súrefni inn í atvinnulífið með það að markmiði að viðspyrnuþróttur þess sé til staðar þegar faraldurinn er á braut. Skjót viðbrögð stjórnvalda og aðgerðir á fyrri hluta faraldurins báru vissulega þess merki og því eru vonbrigði að frekari stuðningsaðgerðir hafi ekki verið kynntar samfara herðingu sóttvarnaaðgerða sem kynntar voru í dag.

Ríkisstjórnin verður að koma fram með trúverðugar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum samhliða hertum sóttvarnartakmörkunum, án tafar. Það er allra hagur.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Daglegur launakostnaður atvinnulífsins um 100 milljónir vegna sóttvarnaraðgerða

Í síðustu viku tilkynntu stjórnvöld um breytingar á reglum um sóttkví gagnvart einstaklingum sem eru þríbólusettir og einstaklingum sem hafa jafnað sig af staðfestu Covid-smiti og eru tvíbólusettir. Breytingarnar koma til móts við kröfur atvinnulífsins en rekstur margra fyrirtækja hefur raskast vegna fjölda starfsmanna í sóttkví eða einangrun. Fækkun starfsfólks í sóttkví skiptir atvinnulífið miklu en breytir ekki þeirri staðreynd að kostnaður atvinnulífsins á næstu mánuðum mun hlaupa á milljörðum króna vegna mikils fjölda starfsfólks sem sætir takmörkunum sóttvarnaryfirvalda sem hafa veruleg neikvæð áhrif á samfélagið allt.

Mat Samtaka atvinnulífsins er að kostnaður atvinnulífsins vegna launakostnaðar starfsfólks í sóttkví eða einangrun nemi ríflega 100 milljónum króna, dag hvern. Auk þess hafa fjölmörg fyrirtæki orðið fyrir miklu rekstrartapi vegna sóttvarnaraðgerða stjórnvalda vegna skertrar starfsemi.

Ríkið kemur til móts við fyrirtæki er varðar greiðslu launa í sóttkví. Enginn stuðningur er þó veittur vegna einangrunar en staðreyndin er sú að mikill meirihluti einstaklinga í einangrun er ekki veikur. Þrátt fyrir þetta er sú ábyrgð lögð á atvinnurekendur að greiða laun eins og um veikindi væri að ræða.

Í Svíþjóð er lögbundinni sóttkví ekki beitt. Sænska ríkisstjórnin ákvað í ljósi Ómíkrón afbrigðisins að endurgreiða launagreiðendum greidd veikindalaun frá 1. desember 2021 eftir ákveðinni reiknireglu. Dönsk stjórnvöld fara sambærilega leið, beita sóttkví í takmörkuðum mæli og ríkið greiðir launafólki sjúkradagpeninga frá fyrsta veikindadegi með sambærilegum hætti og gert er í tilviki sóttkvíar á Íslandi. Norðmenn fara sambærilega leið og Íslendingar hvað varðar sóttkví en endurgreiða einnig atvinnurekendum hluta veikindalauna vegna einangrunar.

Ísland er þannig eftirbátur í samanburði við Norðurlöndin. Þau hafa flest horfið frá beitingu sóttkvíar og koma auk þess til móts við atvinnulífið með endurgreiðslu hluta launakostnaðar vegna Covid-einangrunar. Íslensk fyrirtæki búa nú við minnstan opinberan stuðning hvað varðar greiðslu launakostnaðar í norrænum samanburði vegna íþyngjandi áhrifa sóttvarnaraðgerða.

Reglur landanna má finna á eftirfarandi vefslóðum:
Danmörk hér og hér
Svíþjóð hér
Noregur hér

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Skattadagur SA, VÍ og Deloitte – Upptaka

Samtök atvinnulífsins eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs með sex aðildarsamtökum sem starfa á grunni atvinnugreina. Yfir 2.000 fjölbreytt fyrirtæki eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins, allt frá sjálfstætt starfandi frumkvöðlum til stærstu fyrirtækja landsins. Hjá aðildarfyrirtækjum SA starfa um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði. Við erum Samtök atvinnulífsins.

Sjá nánar

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin