Síðastliðið vor lagði Bankasýsla ríkisins fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að hefja söluferli að eignarhlut sínum í Íslandsbanka. Viku eftir að tillagan var lögð fram dundi sögulegt áfall yfir hlutabréfamarkaði víða um heim og var hún því dregin til baka. Nú hefur Bankasýslan metið sem svo að ákjósanlegur tími sé til að kanna á ný hvort ásættanlegt verð gæti fengist fyrir um fjórðungshlut í bankanum.
Það er tæpast hægt að segja að málið hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti líkt og fram kom í máli nokkurra þingmanna í vikunni. Að minnsta kosti ekki fyrir þá sem á annað borð hafa kært sig um að kynna sér það. Þvert á móti hefur tillaga Bankasýslunnar, sem komið var á fót árið 2009, átt sér áralangan aðdraganda. Það hefur verið skýr stefna núsitjandi ríkisstjórnar að draga úr vægi hins opinbera í fjármálakerfinu enda heyrir það til undantekninga að þróuð ríki séu meirihlutaeigendur að bankakerfinu. Mikil og vönduð vinna hefur farið fram á kjörtímabilinu, meðal annars með gerð Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Hundruð blaðsíðna um efnið liggja fyrir og fjölmargar ræður í þingsal verið fluttar.
Þess er vert að geta að öll önnur vestræn ríki hafa komist að þeirri niðurstöðu að afskipti ríkisvaldsins af bankakerfinu eigi fyrst og fremst að fara fram í gegnum regluverk og eftirlit en ekki eignarhald. Veigamesta ástæða þess að ríkið sé óheppilegur eigandi að bönkum er sú að áhættusamur samkeppnisrekstur á einfaldlega ekki erindi í efnahagsreikning ríkissjóðs. Slíkur rekstur felur í sér óásættanlega áhættu fyrir skattgreiðendur og óeðlileg afskipti ríkisvaldsins af samkeppnismarkaði.
Má selja banka í miðjum heimsfaraldri?
Fáa hefði grunað síðastliðið vor að fjármálamarkaðir myndu standa storminn eins vel af sér og raun ber vitni. Aðgerðir yfirvalda víða um heim hafa leitt til þess að hlutabréfaverð er víða í hæstu hæðum. Hið sama gildir á Íslandi. Margir óttuðust um stöðugleika bankakerfisins en íslensku viðskiptabankarnir standa styrkum fótum þrátt fyrir hið þunga högg heimsfaraldursins. Hlutabréfaverð Arion banka hefur raunar aldrei verið hærra, sem er skýrasta og augljósasta birtingarmynd þess að hagfelld skilyrði séu til sölu hlutar í Íslandsbanka.
Fyrir þá sem hafa áhyggjur af því að verið sé að fórna framtíðararðgreiðslum er vert að hafa í huga að ríkið mun eftir sem áður vera viðtakandi nær allra þeirra arðgreiðslna sem koma munu til frá bönkunum tveimur þar til annað er ákveðið. Að því sögðu eru arðgreiðslur í framtíð sem tveir fuglar í skógi á meðan afrakstur sölu hluta er fugl í hendi. Arðgreiðslur liðinna ára, sem einkennst hafa af sölu eigna í kjölfar bankahrunsins, heyra sögunni til. Væntingar um framtíðararðsemi eru hins vegar grundvöllur virðismats þess hlutar sem boðinn verður til sölu.
Verður nýjum eigendum treystandi?
Ýjað hefur verið að því að nýir eigendur Íslandsbanka gætu viljað knýja fram fjöldagjaldþrot í ferðaþjónustu til að minnka óvissu um lánasafn bankans. Fyrir utan þá staðreynd að ríkið verður eftir sem áður stór meirihlutaeigandi bankans eru slíkar aðdróttanir hæpnar í ljósi þess að engri óvissu yrði eytt með því að ganga að veðum í stórum stíl í því efnahagsástandi sem nú ríkir. Hversu mikils virði eru annars eignir atvinnugreinar sem enn er í frosti? Um það hlýtur að ríkja þó nokkur óvissa. Hagsmunum eigenda bankans hlýtur að vera betur borgið með því að unnið sé að farsælli endurræsingu fyrirtækja viðskiptavina um leið og birtir til.
Almennt útboð hluta, eins og Bankasýslan leggur til, er vel til þess fallið að tryggja opið og gagnsætt söluferli. Engin ástæða er til annars en að ætla að eignarhald bankanna muni samræmast þeim ströngu lögum og reglum sem um það gilda. Þá eru í gildi lög frá árinu 2012 sem fjalla sérstaklega um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Það er reyndar sérstakt umhugsunarefni að til séu þeir, sem munu líklega aldrei telja réttan tíma til sölu bankans, sem leggi sig fram við að rýra traust almennings á bankakerfinu og mögulegum framtíðareigendum þess. Ætla mætti að það væri gert einmitt í þeim tilgangi að viðhalda eignarhlutnum í skauti ríkissjóðs um ókomna tíð.
Þarft skref inn í framtíðina
Að sjálfsögðu ríkir óvissa um lánabók bankans. Útlánastarfsemi er í eðli sínu áhætturekstur. Það er staðreynd sem fæst ekki breytt, óháð því hver lánveitandinn er. Lykilspurningin er hvort unnt verði að fá ásættanlegt verð fyrir eignarhlutinn í bankanum með tilliti til þeirrar áhættu sem við blasir. Munu vera kaupendur að hlutnum á því verði sem ríkissjóður er tilbúinn til að láta hann af hendi? Til að fá svar við þeirri spurningu þarf að leggja af stað í leiðangurinn.
Með sölu væri fyrsta skrefið stigið í átt að dreifðara og heilbrigðara eignarhaldi á bankakerfinu, nú þegar það stendur frammi fyrir miklum áskorunum meðal annars vegna stórstígra tækniframfara. Ríkissjóður gæti samhliða dregið úr lánsfjárþörf og minnkað áhættu á efnahagsreikningi sínum. Nýr valmöguleiki yrði til staðar fyrir almenning til að ávaxta sinn sparnað í því lágvaxtaumhverfi sem nú ríkir. Kostirnir eru margir og ótvíræðir.
Þeir sem telja að eignarhaldi bankakerfisins sé best fyrir komið hjá ríkissjóði mega gjarnan vera heiðarlegir með það svo hægt sé að eiga þá umræðu grímulaust. Þeim sem hyggjast aftur á móti bíða af sér óvissuna þegar kemur að sölu á hinum umfangsmikla eignarhlut ríkisins í fjármálakerfinu má benda á hið augljósa, sem er það að biðin mun reynast óendanleg.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Markaðnum.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá dómi öllum kröfum fjögurra fyrrverandi starfsmanna starfsmannaleigu sem starfað höfðu í nokkra daga fyrir Eldum rétt. Dómurinn telur ótvírætt að laun hafi verið í samræmi við kjarasamninga og greidd að fullu, löglegt hafi verið að draga frá launum útgjöld á borð við húsaleigu og flugfargjöld og lýsing Eflingar á aðbúnaði starfsmanna hafi ekki verið í neinu samræmi við staðreyndir málsins.
Efling stéttarfélag hafði upp stór orð í fjölmiðlum og sakaði fyrirtækið Eldum rétt meðal annars um að nýta sér bágindi verkafólks og skipta við starfsmannaleigu sem framkvæmdastjóri Eflingar kallaði ,,einhvers konar mansalshring.“ Þá var teiknuð upp dökk mynd af fyrirtækinu í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV.
Ljóst er að aðför Eflingar að Eldum rétt og tilefnislausar ásakanir hafa valdið fyrirtækinu miklu tjóni og er eðlilegt að fyrirtækið skoði réttarstöðu sína gagnvart Eflingu. Starfsmönnum var gert að greiða sameiginlega fjórar milljónir í málskostnað til stefndu sem undirstrikar það mat héraðsdóms að málshöfðun Eflingar var tilefnislaus.
Á Menntadegi atvinnulífsins fór fram fjölbreytt og skemmtileg dagskrá þar sem valinkunnir stjórnendur úr atvinnulífinu fjölluðu m.a. um topp tíu færniþætti framtíðar eftir viðmiðum Alþjóðaefnahagsstofnunar fyrir árið 2025.
Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi SAF stýrði umræðum um þessa færniþætti undir yfirskriftinni „Strax í dag“. Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, Sigrún Halldórsdóttir, mannauðsstjóri Bláa Lónsins og Ingvi Hrannar Ómarsson,sérfræðingur í skólaþróunarteymi Menntamálaráðuneytisins töluðu hispurslaust um innslög stjórnendanna og um það sem allar menntastofnanir og vinnustaðir geta ráðist í strax í dag:
Topp tíu færniþættir
1. Greiningar- og nýsköpunarhæfni
Gerum betur með
að vinna með gagnasafn
að vinna í fjölbreyttum teymum til að skapa nýjar lausnir
teymiskennslu
2. Virkni í námi og námsaðgerðum
Gerum betur með
að hvetja til sjálfsnáms t.d. netnámskeiða
að kapa námsumhverfi á vinnustað
röð fræðsluerinda
að deila hugmyndum með öðrum
3. Lausnamiðuð nálgun
Gerum betur með
að takast á við raunveruleg viðfangsefni
að vinna í hópum með ólíka styrkleika
4. Gagnrýnin hugsun og greining
Gerum betur með
að þjálfa rökræðu
að æfa ályktunarhæfni
að koma fram og færa rök fyrir máli sínu
5. Sköpun, frumleiki og frumkvæði
Gerum betur með
að vinna með spuna
að vinna með túlkun í fjölbreyttu listformi
að skapa rými fyrir flæði
að vinna með liðsheild
6. Forysta og félagsleg áhrif
Gerum betur með
að úthluta leiðtogahlutverkum
að æfa lýðræðislega þátttöku
að leggja fram tillögur að breytingum og fylgja þeim eftir
7. Tækninotkun, eftirlit og stjórn
Gerum betur með
að æfa sig að gera mistök
að æfa sig í að reka sig á
að æfa kjark og þor gagnvart hinu óþekkta
8. Tæknihönnun og forritun
Gerum betur með því að
að vinna með óvissu – hvað ef?
að æfa rökhugsun
9. Seigla, streituþol og sveigjanleiki
Gerum betur með
að vinna markvisst að langtímaverkefni með endanlegu markmiði
að æfa sjálfsvinnu
10. Rökhugsun, lausn vandamála og hugmyndaauðgi
Gerum betur með
skapandi hugsun og að leysa verkefni með mismunandi útfærslum
að geta fært rök fyrir því hvers vegna valin leið er góð leið
Horfðu á þáttinn í heild sinni hér:
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
Samtök atvinnulífsins bjóða félagsmönnum sínum upp á fræðslufundi um starfsmannamál og kjarasamninga sem gagnast öllum sem hafa starfsmannamál á sinni könnu. Fundurinn fer fram í gegnum fjarfundarforrit. Félagsmönnum gefst færi á að senda spurningar í gegnum spjallþráð forritsins, en slóðin á fundinn verður send út með tölvupósti þegar nær dregur.
Meðal þess sem verður fjallað um:
Ráðning starfsmanna
Vinnutímaákvæði kjarasamninga
Helstu réttindi og skyldur starfsmanna og vinnuveitanda
Uppsagnir og starfslok
Orlofsréttur
Veikindi og vinnuslys
Lögfræðingar á vinnumarkaðssviði Samtaka atvinnulífsins sjá um fræðsluna.
Fundirnir eru aðeins opnir starfsfólki aðildarfyrirtækja SA
Vinsamlegast skráið þátttöku á viðeigandi hnöppum.
Ráðningarstyrkur
Þriðjudagur 24. febrúar kl. 9:00-10:00
Sérfræðingar Vinnumálastofnunar og Samtaka atvinnulífsins fara yfir úrræði stjórnvalda um ráðningarstyrk. Farið verður í gegnum skilyrði úrræðisins og markmið, samspil þess við úrræði stjórnvalda um stuðning launa á uppsagnarfresti og hlutabótaleiðina. Síðast en ekki síst verður farið yfir umsóknarferlið og framkvæmdina.