Samtök Atvinnulífsins

Mikilvægu stefnumáli fylgt úr hlaði

Mikilvægu stefnumáli fylgt úr hlaði

Síðastliðið vor lagði Bankasýsla ríkisins fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að hefja söluferli að eignarhlut sínum í Íslandsbanka. Viku eftir að tillagan var lögð fram dundi sögulegt áfall yfir hlutabréfamarkaði víða um heim og var hún því dregin til baka. Nú hefur Bankasýslan metið sem svo að ákjósanlegur tími sé til að kanna á ný hvort ásættanlegt verð gæti fengist fyrir um fjórðungshlut í bankanum.

Það er tæpast hægt að segja að málið hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti líkt og fram kom í máli nokkurra þingmanna í vikunni. Að minnsta kosti ekki fyrir þá sem á annað borð hafa kært sig um að kynna sér það. Þvert á móti hefur tillaga Bankasýslunnar, sem komið var á fót árið 2009, átt sér áralangan aðdraganda. Það hefur verið skýr stefna núsitjandi ríkisstjórnar að draga úr vægi hins opinbera í fjármálakerfinu enda heyrir það til undantekninga að þróuð ríki séu meirihlutaeigendur að bankakerfinu. Mikil og vönduð vinna hefur farið fram á kjörtímabilinu, meðal annars með gerð Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Hundruð blaðsíðna um efnið liggja fyrir og fjölmargar ræður í þingsal verið fluttar.

Þess er vert að geta að öll önnur vestræn ríki hafa komist að þeirri niðurstöðu að afskipti ríkisvaldsins af bankakerfinu eigi fyrst og fremst að fara fram í gegnum regluverk og eftirlit en ekki eignarhald. Veigamesta ástæða þess að ríkið sé óheppilegur eigandi að bönkum er sú að áhættusamur samkeppnisrekstur á einfaldlega ekki erindi í efnahagsreikning ríkissjóðs. Slíkur rekstur felur í sér óásættanlega áhættu fyrir skattgreiðendur og óeðlileg afskipti ríkisvaldsins af samkeppnismarkaði.

Má selja banka í miðjum heimsfaraldri?

Fáa hefði grunað síðastliðið vor að fjármálamarkaðir myndu standa storminn eins vel af sér og raun ber vitni. Aðgerðir yfirvalda víða um heim hafa leitt til þess að hlutabréfaverð er víða í hæstu hæðum. Hið sama gildir á Íslandi. Margir óttuðust um stöðugleika bankakerfisins en íslensku viðskiptabankarnir standa styrkum fótum þrátt fyrir hið þunga högg heimsfaraldursins. Hlutabréfaverð Arion banka hefur raunar aldrei verið hærra, sem er skýrasta og augljósasta birtingarmynd þess að hagfelld skilyrði séu til sölu hlutar í Íslandsbanka.

Fyrir þá sem hafa áhyggjur af því að verið sé að fórna framtíðararðgreiðslum er vert að hafa í huga að ríkið mun eftir sem áður vera viðtakandi nær allra þeirra arðgreiðslna sem koma munu til frá bönkunum tveimur þar til annað er ákveðið. Að því sögðu eru arðgreiðslur í framtíð sem tveir fuglar í skógi á meðan afrakstur sölu hluta er fugl í hendi. Arðgreiðslur liðinna ára, sem einkennst hafa af sölu eigna í kjölfar bankahrunsins, heyra sögunni til. Væntingar um framtíðararðsemi eru hins vegar grundvöllur virðismats þess hlutar sem boðinn verður til sölu.

Verður nýjum eigendum treystandi?

Ýjað hefur verið að því að nýir eigendur Íslandsbanka gætu viljað knýja fram fjöldagjaldþrot í ferðaþjónustu til að minnka óvissu um lánasafn bankans. Fyrir utan þá staðreynd að ríkið verður eftir sem áður stór meirihlutaeigandi bankans eru slíkar aðdróttanir hæpnar í ljósi þess að engri óvissu yrði eytt með því að ganga að veðum í stórum stíl í því efnahagsástandi sem nú ríkir. Hversu mikils virði eru annars eignir atvinnugreinar sem enn er í frosti? Um það hlýtur að ríkja þó nokkur óvissa. Hagsmunum eigenda bankans hlýtur að vera betur borgið með því að unnið sé að farsælli endurræsingu fyrirtækja viðskiptavina um leið og birtir til.

Almennt útboð hluta, eins og Bankasýslan leggur til, er vel til þess fallið að tryggja opið og gagnsætt söluferli. Engin ástæða er til annars en að ætla að eignarhald bankanna muni samræmast þeim ströngu lögum og reglum sem um það gilda. Þá eru í gildi lög frá árinu 2012 sem fjalla sérstaklega um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Það er reyndar sérstakt umhugsunarefni að til séu þeir, sem munu líklega aldrei telja réttan tíma til sölu bankans, sem leggi sig fram við að rýra traust almennings á bankakerfinu og mögulegum framtíðareigendum þess. Ætla mætti að það væri gert einmitt í þeim tilgangi að viðhalda eignarhlutnum í skauti ríkissjóðs um ókomna tíð.

Þarft skref inn í framtíðina

Að sjálfsögðu ríkir óvissa um lánabók bankans. Útlánastarfsemi er í eðli sínu áhætturekstur. Það er staðreynd sem fæst ekki breytt, óháð því hver lánveitandinn er. Lykilspurningin er hvort unnt verði að fá ásættanlegt verð fyrir eignarhlutinn í bankanum með tilliti til þeirrar áhættu sem við blasir. Munu vera kaupendur að hlutnum á því verði sem ríkissjóður er tilbúinn til að láta hann af hendi? Til að fá svar við þeirri spurningu þarf að leggja af stað í leiðangurinn.

Með sölu væri fyrsta skrefið stigið í átt að dreifðara og heilbrigðara eignarhaldi á bankakerfinu, nú þegar það stendur frammi fyrir miklum áskorunum meðal annars vegna stórstígra tækniframfara. Ríkissjóður gæti samhliða dregið úr lánsfjárþörf og minnkað áhættu á efnahagsreikningi sínum. Nýr valmöguleiki yrði til staðar fyrir almenning til að ávaxta sinn sparnað í því lágvaxtaumhverfi sem nú ríkir. Kostirnir eru margir og ótvíræðir.

Þeir sem telja að eignarhaldi bankakerfisins sé best fyrir komið hjá ríkissjóði mega gjarnan vera heiðarlegir með það svo hægt sé að eiga þá umræðu grímulaust. Þeim sem hyggjast aftur á móti bíða af sér óvissuna þegar kemur að sölu á hinum umfangsmikla eignarhlut ríkisins í fjármálakerfinu má benda á hið augljósa, sem er það að biðin mun reynast óendanleg.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Markaðnum.

Samtök Atvinnulífsins

Vinnutími byggingar-, tölvunar-, tækni- og verkfræðinga samræmdur við vinnutíma skrifstofufólks

Vinnutími byggingar-, tölvunar-, tækni- og verkfræðinga samræmdur við vinnutíma skrifstofufólks

Samkomulag var gert um breytingu á kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins við Stéttarfélag byggingarfræðinga, Stéttarfélag tölvunarfræðinga og Verkfræðingafélag Íslands fyrr í dag. Með breytingunni eru vinnutímaákvæði kjarasamningsins aðlöguð að vinnutímaákvæðum kjarasamninga skrifstofufólks á almennum vinnumarkaði. Í framkvæmd hefur dagvinnutími víða verið samræmdur milli þeirra starfsmanna sem starfa eftir kjarasamningi þessum og þeirra sem starfa eftir kjarasamningum skrifstofufólks.

Vinnutímastytting kemur einungis til framkvæmda þar sem virkur vinnutími (sá tími sem starfsmaður er við störf) er lengri en 35,5 stundir að jafnaði á viku. Neysluhlé og önnur hlé frá vinnu vegna ýmiss konar persónulegra erinda teljast ekki til virks vinnutíma í þessu sambandi. Vinnutímastyttingin á að koma til framkvæmda, þar sem við á, eigi síðar en 1. apríl nk.

Margir stjórnendur og sérfræðingar hafa alla jafna töluvert svigrúm til að skipuleggja vinnutíma sinn og eru fyrst og fremst ráðnir til að sinna tilteknum verkefnum og fá fyrir það föst mánaðarlaun. Yfirvinna er oft innifalin í mánaðarlaunum og/eða vinnutími sveigjanlegur. Rétt er að samtal eigi sér stað þar sem svo háttar til um bætta nýtingu vinnutíma gegn styttri viðveru svo samræma megi betur vinnu og fjölskyldulíf.

Hér má sjá breytingar á kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins við Stéttarfélag byggingarfræðinga, Stéttarfélag tölvunarfræðinga og Verkfræðingafélag Íslands.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Kosningaskjálfti og yfirboð

Kosningaskjálfti og yfirboð

Í síðustu viku samþykkti bandaríska þingið 1,9 billjóna dollara innspýtingu, sem nefnd hefur verið „örvunarpakki Biden“. Umfang aðgerðanna er um 9% af landsframleiðslu Bandaríkjanna og bætist við aðrar aðgerðir sem ráðist var í til að örva þarlent hagkerfi á umliðnu ári.

Töluverður skjálfti hefur verið á mörkuðum ytra. Markaðsaðilar hafa áhyggjur af afleiðingum þess að ráðast í slíka útþenslustefnu á sama tíma og staða bandaríska hagkerfisins er að vænkast, á undan flestum öðrum vestrænum hagkerfum.

Hagfræðingurinn Larry Summers, fyrrverandi efnahagsráðgjafi Bills Clinton og Baracks Obama, hefur varað við því að aðgerðirnar muni takmarka svigrúm til nauðsynlegra, og um leið þjóðhagslega hagkvæmra, innviðaframkvæmda. Þær geti einnig leitt til verðbólgu sem svipar til þeirrar sem sást síðast á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Hér heima eru kosningar til Alþingis framundan. Fyrirséð er að margir flokkar muni stíga fram með tillögur um frekari björgunarpakka sem leið út úr kreppunni. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að ríkisfjármálum var beitt af fullum þunga til að draga úr efnahagssamdrætti síðasta árs. Beinar mótvægisaðgerðir vegna faraldursins eru metnar á sjö prósent af landsframleiðslu. Þá bætist við sjálfvirkt viðbragð eins og aukin útgjöld til atvinnuleysistrygginga sem er óvíða meira en hér, m.a. því atvinnuleysisbætur eru almennt hærri en í nágrannaríkjum okkar.

Viðbrögð stjórnvalda og vaxtalækkanir Seðlabankans áttu vissulega þátt í því að innlend efnahagsumsvif síðasta árs drógust minna saman en spár gerðu ráð fyrir. Aftur á móti hefur stærsta útflutningsgrein landsins legið í dvala og 17 þúsund manns misst vinnuna. Forgangsmál er að endurheimta þau störf hið fyrsta.

Komandi kosningabarátta á að snúast um hvaða lausnir eru raunhæfar í þeim efnum. Yfirboð á Alþingi hafa afleiðingar í för með sér. Í því samhengi verður áhugavert að fylgjast með þróun mála í Bandaríkjunum á næstu misserum.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Opnað fyrir umsóknir um viðspyrnustyrki

Opnað fyrir umsóknir um viðspyrnustyrki

Opnað hefur verið fyrir móttöku á umsóknum um viðspyrnustyrki vegna tekjufalls rekstraraðila á tímabilinu nóvember 2020 til og með maí 2021, borið saman við árið 2019.  Þeir einstaklingar og lögaðilar sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem hófst fyrir 1. október 2020 og hafa orðið fyrir a.m.k. 60% tekjufalli, sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveiru, eiga rétt á viðspyrnustyrk úr ríkissjóði að uppfylltum ýmsum skilyrðum.

Eins og áður er sótt um í gegnum þjónustusíður umsækjenda á skattur.is. Ef umsækjandi um viðspyrnustyrk er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu. Allt er þetta með sama hætti og verið hefur vegna annarra styrkumsókna.

Skilyrði fyrir viðspyrnustyrk eru nokkuð mörg og fleiri en ein leið til að reikna út bæði tekjufall, rekstrarkostnað og stöðugildi. Allt eru þetta þættir sem skipta sköpum um útreikninga á styrkjunum. Reynt er að fylla út fyrirfram allar þær upplýsingar sem Skattinum er unnt en jafnframt þurfa umsækjendur sjálfir að gefa upp tilteknar upplýsingar.

Athugið að í þetta skipti þarf að sækja um fyrir hvern almanaksmánuð í senn og verður umsækjandi að fullklára umsókn sína með rafrænni undirskrift áður en unnt er að sækja um fyrir annan mánuð. Sé t.d. sótt um fyrir nóvember 2020 þarf að fullklára þá umsókn áður en unnt er að sækja um fyrir desember 2020, o.s.frv.

Bent er á að ítarlegar leiðbeiningar er að finna á www.skatturinn.is.

Eftir að fullbúin umsókn berst Skattinum á almennt ekki að taka langan tíma að afgreiða hana. Greiðsla á að geta borist umsækjanda innan nokkurra daga. Séu á hinn bóginn einhverjir annmarkar á umsókn getur afgreiðsla tafist.

Rétt er að ítreka að umsókn er ekki fullbúin fyrr en búið er að undirrita hana með rafrænum skilríkjum en nokkur brögð hafa verið að því að dregist hefur hjá umsækjendum um aðra styrki að ganga frá þeim þætti málsins.

Hægt er að fá aðstoð við greiningu og val á úrræðum fyrir reksturinn með því að bóka tíma í rekstrarráðgjöf SA.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin