Innlent

Mögulegt að auka útflutningsverðmæti sjávarútvegs og fiskeldis verulega

Mikil tækifæri eru til vaxtar í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum og mögulegt að auka útflutningsverðmæti þessara atvinnugreina verulega á næstu árum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um stöður og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi. Að gefnum forsendum, sem lýst er nánar í skýrslunni, gæti virði framleiðslu allra þessara greina aukist í um 440 milljarða kr. árið 2025 og í 615 milljarða kr. árið 2030. Virði framleiðslunnar árið 2030 yrði þannig 85% meira en virði framleiðslunnar árið 2019.

Skýrslan var unnin að beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ritstjóri hennar var Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllun um núverandi stöðu sjávarútvegs og fiskeldis og áskoranir og tækifæri til framtíðar.

Skýrsluna má finna hér. 

Fremst í skýrslunni er fjallað um viðfangsefni skýrslunnar með hliðsjón af stoðum sjálfbærrar þróunar, þar sem bæði er fjallað um stöðu sjávarútvegs- og fiskeldis í dag og áskoranir og tækifæri til framtíðar. Hér eru dregin saman helstu atriði:

  • Aðgangur að auðugum fiskimiðum, jarðvarma og orku fallvatna hefur mótað hagþróun Íslands og skapað forsendur fyrir þeirri velsæld sem Íslendingar búa við í dag. Lífskjör þjóðarinnar hljóta áfram að byggja að verulegu leyti á skynsamlegri og sjálfbærri hagnýtingu þeirra auðlinda sem hún ræður yfir. Með sjálfbæri þróun er átt við að hægt verði hverju sinni að mæta þörfum samtímans án þess að dregið sé úr möguleikum komandi kynslóða. Það er almennt viðurkennt að sjálfbær þróun hvíli á þremur meginstoðum; efnahag, umhverfi og samfélagi. Allar tengjast þessar stoðir innbyrðis.
  • Árið 2019 var samanlagt virði framleiðslu í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum um 332 milljarðar kr. Þar af námu útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða 260 milljörðum kr. og höfðu hækkað um 60% á tveimur áratugum. Á tímabilinu 2009 til 2019 jókst aflaverðmæti um 45 milljarða kr. og útflutningsverðmæti um 97 milljarða kr. á föstu gengi. Ríflega helming aukinna útflutningsverðmæta má rekja til aukinnar verðmætasköpunar í vinnslu, en tæplega helming til hærra aflaverðmætis.
  • Íslenskur sjávarútvegur hefur brugðist við sífellt harðnandi alþjóðlegri samkeppni og breytingum á mörkuðum með því að nýta og taka þátt í að þróa nýjustu tækni á flestum stigum virðiskeðjunnar, þ.e. veiðum, vinnslu, flutningum og síðast en ekki síst í markaðssetningu. Margt í þeirri þróun byggist á því að í íslenskum sjávarútvegi séu fjárhagslega sterk fyrirtæki sem hafa bolmagn til að fjárfesta í tækniþróun og tækninýjungum. Þeim við hlið standa lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa komið fram með ýmsar nýjungar. Sveigjanleiki íslensks sjávarútvegs til að bregðast við breytingum grundvallast þannig á þessum tveimur stoðum; annars vegar stórum og stöndugum fyrirtækjum og hins vegar mikilvægum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Engu að síður eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þó lítil í alþjóðlegum samanburði.
  • Í helstu samkeppnislöndum Íslands í sjávarútvegi eru til staðar ríkisstyrkir til handa sjávarútvegsfyrirtækjum. Íslenskur sjávarútvegur sker sig úr hópi helstu samkeppnislanda hvað þetta varðar enda greiða íslensk sjávarútvegsfyrirtæki veiðigjald. Ísland er þannig eina landið innan OECD þar sem sjávarútvegur greiðir meira til hins opinbera en greinin fær greitt úr opinberum sjóðum. Sú staðreynd að íslenskur sjávarútvegur geti þrátt fyrir þetta staðist samkeppnina jafn vel og raun ber vitni er til merkis um styrkleika íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins í alþjóðlegu samhengi.

Hreinn stuðningur við sjávarútveg í löndum OECD sem hlutfall af heildargreiðslum hins opinbera til greinarinnar

Heimild: OECD (e.d.) og eigin útreikningar.

  • Stjórnkerfi fiskveiða hefur haft áhrif á alla virðiskeðju íslensks sjávarútvegs. Bætt gagnasöfnun og skipulag hefur auðveldað sjávarútvegsfyrirtækjum að stýra veiðum þannig að fiskur er veiddur á þeim árstíma og svæðum þar sem gæði hans eru mest og markaðsaðstæður hagkvæmastar. Samfara minni sókn til að ná sama afla hefur dregið úr álagi veiða á vistkerfið og vert er að nefna að mjög hefur dregið úr olíunotkun og með því úr kolefnisspori sjávarútvegs.
  • Hagstæð viðskiptakjör og gott aðgengi að erlendum mörkuðum eru forsendur árangurs í markaðsstarfi. Mikilvægt er að Íslendingar nái áfram góðum kjörum í viðskiptasamningum og viðhaldi sömu eða betri kjörum inn á markaði í löndum Evrópusambandsins. Aðrir þættir sem hafa áhrif á samkeppnishæfni eru að haldið sé vel á matvælaöryggismálum til að tryggja útflutning og verja orðspor íslenskra afurða. Þá er ónefnt að þróun samgangna og flutninga hefur mikil áhrif á þessar atvinnugreinar.
  • Ríki og sveitarfélög hafa umtalsverðar tekjur af fyrirtækjum í sjávarútvegi og uppbygging fiskeldis mun einnig skila ríki og sveitarfélögum á tilteknum svæðum tekjum. Þessar tekjur nýtast við uppbyggingu þjónustu og framkvæmda. Sterk sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtæki eru ekki síst mikilvæg fyrir byggðir sem standa höllum fæti og þar sem atvinnulífið er oft og tíðum einhæft. Skattspor íslensks sjávarútvegs er mjög stórt, en áætlað er að árið 2018 hafi það verið 77 milljarðar króna.
  • Mikil tækifæri eru til vaxtar í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum og mögulegt að auka útflutningsverðmæti þessara atvinnugreina verulega á næstu árum. Að gefnum forsendum, sem lýst er nánar í skýrslunni, gæti virði framleiðslu allra þessara greina aukist í um 440 milljarða kr. árið 2025 og í 615 milljarða kr. árið 2030. Virði framleiðslunnar árið 2030 yrði þannig 85% meira en virði framleiðslunnar árið 2019.

Útflutningsverðmæti til framtíðar (mynd 0-1)

  • Hafrannsóknir verða áfram grundvallarforsenda fyrir ábyrgum fiskveiðum hér við land og rannsóknaráætlanir Hafrannsóknastofnun mun þurfa jöfnum höndum að viðhalda vöktun fiskistofna og bregðast við breytingum í hafinu sem skapa nýjar áskoranir.

Innlent

Grein um fullveldi og peningastefnu birt í nýjustu útgáfu Efnahagsmála

24. júní 2021

Ritið Efnahagsmál nr. 10 með greininni „Fullveldi og peningastefna“ eftir Arnór Sighvatsson hefur verið birt á vef Seðlabanka Íslands. Í greininni er fjallað um peningalegt fullveldi, hvernig hugmyndir um það hafa þróast í gegnum aldirnar og því verið beitt til tekjuöflunar, eflingar viðskipta eða hagstjórnar.

Þá er fjallað um takmörk peningalegs fullveldis, m.a. í ljósi óheftra fjármagnshreyfinga og alþjóðavæðingar viðskiptalífsins, hvernig þróun hagfræðikenninga hefur haft áhrif á skilning stjórnvalda og fræðimanna á hlutverki peningalegs fullveldis, togstreitu sem myndast getur á milli trúverðugleika peningastefnu og þarfar fyrir sveigjanleika í hagsstjórn, valið á milli leiða samtryggingar og sjálfstryggingar og samband fullveldis og athafnafrelsis einstaklinga og fyrirtækja.

Efnahagsmál nr. 10 með umfjöllun Arnórs Sighvatssonar um fullveldi og peningastefnu má nálgast hér: Efnahagsmál nr. 10 – Fullveldi og peningastefna.

Sjá hér nánari upplýsingar um útgefin rit Seðlabanka Íslands: Rit og skýrslur

Halda áfram að lesa

Innlent

Hvað með trukkana?

Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur SVÞ

Trukkur, samkvæmt orðabók, er stór og kraftmikill vörubíll. Trukkar eru okkur mikilvægir þó flest okkar leiði hugann sjaldnast að þeim. Trukkar eru ekki bara öskubílar, olíubílar og mjólkurbílar heldur flutningabílar sem færa vörur milli staða. Trukkar færa t.d. matinn í verslanirnar, byggingarefnið á byggingastað og fiskinn í útflutning. Sérstakir trukkar flytja túrista en eru þá kallaðir rútur, sem væntanlega á að vísa til dálítils kassa af öli. Í þessu ljósi má t.d. ímynda sér að heiti trukksins, sem er frábær réttur á matseðli Gráa Kattarins, vísi til gagnsemi trukksins enda er hann samansettur úr fjölmörgum hráefnum og fullnægir daglegum þörfum afar vel. Það er sennilega ekki tilviljun að þegar rætt er um að taka eitthvað með trukki er gjarnan skírskotað til þess að gera eitthvað að afli, almennilega, fara alla leið.

Tökum það með trukki

Stjórnvöld hafa sett fram afar metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Í gildandi aðgerðaáætlun er m.a. fjallað um hvernig megi draga úr losun koltvísýrings í samgöngum. Ein af aðgerðunum snýr að því hvernig draga megi úr losun í þungaflutningum innanlands, m.ö.o. hvernig tökum við trukkana með trukki án þess að missa trukkið.

Trukkaland

Hér á landi eru margir trukkar í notkun miðað við höfðatölu eða a.m.k. finnst mér rökrænt að álykta á þennan hátt. Samkvæmt Wikipedíu er Ísland 16. stærsta ríki heims, miðað við höfðatölu. Ef íbúaþéttleiki á Íslandi væri hinn sami og í Mónakó byggju hér tæplega 2 milljarðar Íslendinga. Ef íbúaþéttleiki í Mónakó væri hinn sami og hér á landi byggju þar 8 manns. Ef við gefum okkur að nokkuð margir trukkar séu í notkun í okkar stóra, strjálbýla, veðurbarða og mishæðótta landi, miðað við höfðatölu, má jafnframt álykta sem svo að fjarlægðir manna á milli kalli á töluverðan trukkaakstur.

Réttu trukkarnir

Nýverið keypti ég mér rafmagnsbíl. Kaupin voru ekki sérlega frumleg enda fer hver að verða síðastur að kaupa bensín- eða dísilbíl. Bílinn losar ekki gróðurhúsalofttegundir í akstri og nú kaupi ég eingöngu innlenda orku. Umskiptin voru einföld. Fólksbílar knúnir rafmagni eru vel þróaðir, framleiddir á nokkuð hagkvæman máta og hleðsluinnviðir til staðar, bæði heima hjá mér og víða um landið. En ekki eru allir eins. Hyggist eigandi trukks kaupa nýjan trukk, sem gengur fyrir öðru en dísilolíu, vandast málið. Valkostirnir eru fáir og þeir sem eru þó til staðar kosta svo heiftarlega mikið að kaupin ganga ekki upp. Þá er drægi sumra kostanna enn takmörkuð og flutningagetan óljós. Sé trukki stungið í samband er hætt við að það verði ekki margar innstungur eftir fyrir aðra.

Við þurfum öll á trukkunum að halda. Eigendur trukkanna vilja eiga trukka til að þjónusta okkur. Helst vilja þeir aka trukkunum á innlendri orku. Þar liggur vandinn því slíkir trukkar standa enn vart til boða en eru þó á leiðinni, í framtíðinni og vonandi þeirri nánustu. Að hanna og smíða trukk tekur mörg ár, jafnvel fyrir reyndustu menn, og þegar hann hefur verið smíðaður þarf að prófa hann við ýmsar aðstæður. Þar að auki þarf að koma upp tækjum til að koma orkugjafa á trukkinn, þ.e. hliðstæðu olíudælunnar.

Trukkar í loftslagsvísi atvinnulífsins

Hinn 23. júní var Loftslagsvísir atvinnulífsins gefinn út. Eins og önnur fyrirtæki hafa flutningafyrirtæki verulegan áhuga á að taka virkan þátt í orkuskiptum í samgöngum. Þegar kemur að akstri trukka á lengri leiðum virðist vetnisvæðing helsta lausnin framundan. Nokkrir trukkaframleiðendur eru að prófa sína trukka erlendis en það er enn nokkuð í að hægt verði að kaupa þá. Það er hins vegar ljóst að trukkarnir verða ekki bara dýrir í innkaupum heldur verður það töluvert vesen að fara að nota þá. Til dæmis vantar okkur fjölda vetnisstöðva.

Púslin í nýorkuveruleika trukka eru sannarlega mörg en það er búið að taka lokið af öskjunni. Wasgij-púslið blasir við, menn eru búnir að klóra sér svolítið í hausnum en eru sannfærðir um að þetta muni klárast.

Að lokum skora ég á Gráa köttinn að breyta nafninu á trukknum í vetnistrukkinn, svona til að taka af allan vafa.

Benedikt S. Benediktsson
lögfræðingur SVÞ

Greinin birtist fyrst á Vísi.is, fimmtudaginn 24. júní 2021.

Halda áfram að lesa

Innlent

Heimsókn fulltrúa Geðhjálpar

Formaður og framkvæmdastjóri Geðhjálpar fóru yfir ýmis hagsmunamál umbjóðenda sinna, einkum hvað snertir réttarstöðu þeirra sem vistaðir eru á lokuðum deildum geðheilbrigðisstofnana, á fundi með umboðsmanni í dag.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin