Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Nóg um að vera á fjórða keppnisdegi EYOF

28.07.2022

Í dag kepptu íslensku ungmennin í sundi, badminton, frjálsíþróttum, judo og hjólreiðum. 

Sundfólk Íslands byrjaði daginn með 50 metra skriðsundi karla, en þar synti Ýmir Chatenay Sölvasson á 24.51 sekúndum, aðeins 0.07 sekúndu frá sínum besta árangri. Þar á eftir synti Sunna Arnfinnsdóttir 100 metra baksund á 1:10.33 mínútum. Hún hefur nú synt sitt síðasta sund á mótinu. Birnir Freyr Hálfdánarson synti 100 metra flugsund og komst inn í 16 manna úrslit sem fóru fram eftir hádegi og þar synti hann á 55.73 sekúndum, aðeins 0.01 sekúndu frá sínu besta, og er þriðji inn í úrslit sem fara fram á morgun. Ýmir Chatenay stakk sér seinast til sunds í morgun og synti 200 metra skriðsund á tímanum 1:58.01 mínútum sem er 1.81 sekúndu bæting á hans besta árangri og hafnaði hann í 22. sæti. Þar með lauk hann sinni keppni á EYOF.

Í badmintoninu kepptu þau Lilja Bu og Máni Berg Ellertsson í tvenndaleik á móti sterkum keppendum frá Danmörku, þeim Salomon Thomasen og Maria Hojlund Tommerup. Lilja og Máni Berg töpuðu fyrri lotunni 21/6 og seinni lotunni 21/10. Þau hafa því lokið keppni á þessu sterka móti. 

Sigríður Dóra keppti í götuhjólreiðum en hjólaðir voru samtals 57,8 km sem eru tveir hringir í brautinni. Sigríður náði að halda ágætlega í hópinn megnið af fyrri hringnum en undir lok hans var hún komin með verk í bakið og hitinn var farinn að segja til sín og var tekin sú ákvörðun að fara ekki af stað í seinni hringinn. 

Þeir Brynjar Logi Friðriksson og Ísak Gunnlaugsson kepptu einnig í götuhjólreiðum í dag.  Það voru farnir samtals 2 heilir hringir í brautinni eða 65,8 km. Brynjar Logi og Ísak komu sér vel fyrir í rásmarkinu en því miður lenti Ísak í því í rásmarkinu að detta fram fyrir sig og missa keðjuna og var því strax búin að missa af fremsta hóp en hann fékk hjálp við að laga keðjuna og rauk af stað og náði aftast í hópinn. Brynjar kláraði fyrri hringin en fór ekki af stað í seinni hringinn.  Ísak hélt í hópinn með þessum sömu aðilum mest af hring tvö og kláraði keppnina með stæl á 1:46:03, virkilega góður árangur.

Þeir Skarphéðinn Hjaltason og Jakub Óskar Tomczyk kepptu í judo í dag. Skarphéðinn keppti í -90 kg flokki og Jakub í -81 kg flokki. Báðir lentu þeir á móti mjög sterkum andstæðingum sem höfðu betur gegn okkar strákum sem því féllu úr keppninni. Þess má geta að báðir voru þeir að keppa við þá sem enduðu sem sigurvegarar mótsins í sýnum þyngdarflokki. 

I frjálsíþróttum kepptu þau Ísold Sævarsdóttir og Birna Jóna Sverrisdóttir. Ísold keppir í sjöþraut og átti frábæran dag. Ísold bætti sig í þrem greinum af fjórum  og er í 6. sæti eftir fyrri dag með 3081 stig. Á morgun er seinni dagur sjöþrautarinnar þar sem langstökk, spjótkast og 800m fara fram. Birna Jóna keppti í sleggjukasti og kastaði lengst 47.22m en hún á lengst 51.65m í greininni. Arnar Logi Brynjarsson sem keppti í 100m fyrr á þessu móti og náði þar 15. sæti var einnig skráður í 200m í dag en hóf ekki keppni. Þess ber að geta að allir íslensku iðkendurnir í frjálsíþróttum eru á yngra ári og eiga möguleika á að koma aftur á EYOF að ári liðnu.

Myndir af leikunum má nálgast hér á myndasíðu ÍSÍ.

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Evrópumeistarar unglinga í klassískri bekkpressu

11.08.2022

Á nýafstöðnu Evrópumóti í bekkpressu og klassískri bekkpressu kraftlyftinga í Búdapest var keppt í öllum aldursflokkum. Í unglingaflokki kepptu ríkjandi heimsmeistarar í sínum flokkum, þær Alexandrea Rán Guðnýjardóttir í -63 kg flokki og Matthildur Óskarsdóttir í +85 kg flokki. Þær gerðu sér lítið fyrir og lönduðu báðar Evrópumeistaratitlum í klassískri bekkpressu í sínum þyngdarflokkum. Alexandrea Rán jafnaði sitt Íslandsmet í greininni en Matthildur bætti Íslandsmetið og er það jafnframt Íslandsmet í opnum flokki.

Í stigakeppni kvenna þá varð Matthildur stigahæst allra og Alexandrea Rán varð í þriðja sæti.

Alexandrea Rán hlaut einnig silfurverðlaun í bekkpressu í búnaði. Hún lyfti jafnþungu og sigurvegarinn í færri tilraunum en keppinautur hennar hreppti gullið á líkamsþyngd.

Þess má geta að Íslendingar eignuðust Evrópumeistara í kraftlyftingum í -74kg flokki á Evrópumeistaramóti öldunga í júlímánuði, Sæmund Guðmundsson, sem fæddur er 1952. Það má því segja að íslenskt kraftlyftingafólk á öllum aldri sé að gera það gott um þessar mundir.

Mynd/KRAFT

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Framkvæmdanefnd um uppbyggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum hefur störf

10.08.2022

 

Í dag kom framkvæmdanefnd um uppbyggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum saman í fyrsta skipti en nefndin hóf formlega störf í dag. Fundur nefndarinnar var haldinn i fundarsal framkvæmdastjórnar ÍSÍ í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Fyrir fundinn funduðu mennta- og barnamálaráðherra og borgarstjóri með nefndinni, fulltrúum úr starfshópi um uppbyggingu þjóðarleikvanga í íþróttum og fleiri aðilum og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.
Hlutverk nefndarinnar er að leiða vinnu vegna hönnunar, útboðs og hvernig staðið verður að fjármögun þjóðarhallar sem og að undirbúa ákvörðun um útfærslu og rekstrarform. Nefndinni er falið að útbúa tímasetta framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hallarinnar. Stefnt er að því að framkvæmdum verði lokið árið 2025.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu mennta- og barnamálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar er vísað í ráðherra og borgarstjóra:

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra: „Með stofnun framkvæmdanefndar færumst við skrefi nær því að hefja framkvæmdir á nýrri þjóðarhöll. Ég tel að við séum með öflugan hóp fagfólks sem eigi eftir að skila góðu verki.”

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri: „Það er mjög mikilvægt að koma undirbúningi þjóðarhallar af stað. Henni er ekki bara ætlað að stórbæta umgjörð landsliða og leikja og vera fjölnota hús fyrir þjóðina. Megintilgangurinn með aðkomu borgarinnar að verkefninu er að auka og stórbæta aðstöðu til æfinga og keppni fyrir börn og unglinga í Laugardal. Þróttur og Ármann og skólarnir í hverfinu verða eftir þetta með fyrsta flokks aðstöðu.“

Ríki og Reykjavíkurborg undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu um uppbyggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal hinn 6. maí sl. Framkvæmdanefndin skilar reglulega upplýsingum um framgang verkefnisins til starfshóps um uppbyggingu þjóðarleikvanga í íþróttum. Hún starfar í samráði við ráðgjafaráð skipað hagsmunaaðilum og öðrum notendum hallarinnar til að hún uppfylli þarfir sem flestra.

Framkvæmdanefnd um þjóðarhöll í innanhússíþróttum skipa: Gunnar Einarsson formaður, Jón Viðar Guðjónsson fulltrúi ríkisins, Þórey Edda Elísdóttir fulltrúi ríkisins, Ólöf Örvarsdóttir fulltrúi Reykjavíkurborgar og Ómar Einarsson fulltrúi Reykjavíkurborgar.
Ráðinn verður starfsmaður sem vinnur með framkvæmdanefnd.

Myndirnar sem fylgja fréttinni eru fengnar af vefsíðu ráðuneytisins.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Vel heppnað þjálfaranámskeið í bogfimi í samstarfi við Ólympíusamhjálpina

10.08.2022

 

Þjálfaranámskeið á stigi eitt hjá World Archery (WA -Alþjóðabogfimisambandið) var haldið af Bogfimisambandi Íslands (BFSÍ) í Bogfimisetrinu dagana 2.-7. ágúst. Þjálfari á námskeiðinu var Grikkinn Christos Karmoiris sem valinn var af WA og var hann einnig prófdómari ásamt Guðmundi Erni Guðjónssyni, íþróttastjóra BFSÍ.

Aðildarfélög BFSÍ voru hvött til að velja þátttakendur á námskeiðið sem eru nú þegar virkir í starfi innan félaganna, til þess að þekkingin skili sér sem best til iðkenda í íþróttinni. Þetta skilaði sterkum og áhugasömum þátttakendum sem allir stóðust kröfur námskeiðsins með sóma. Alls sátu 11 þátttakendur námskeiðið, á aldrinum 14 ára til rúmlega sextugs. 

Christos Karmoiris var mjög ánægður með aðstöðuna í Bogfimisetrinu og það grasrótarstarf sem þar er unnið og taldi það einsdæmi á heimsvísu. Hann bað um leyfi til að nota Ísland sem gott fordæmi og sniðmát fyrir Grikkland og aðrar þjóðir í grasrótarstarfi þar sem hann vinnur að uppbyggingu og þróun. 

Námskeiðið var styrkt af Ólympíusamhjálpinni með aðstoð ÍSÍ.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin