Innlent

Ný gestastofa og starfsstöð náttúruverndarsvæða í Mývatnssveit

Ríkissjóður hefur gengið frá kaupum á fasteigninni Hótel Gíg á Skútustöðum í Mývatnssveit. Með því er fengin niðurstaða um framtíðaraðstöðu fyrir meginstarfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á NA landi og starfsaðstöðu annarra stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í Mývatnssveit, sem eru Umhverfisstofnun, Landgræðslan og Rannsóknastöðin við Mývatn (Ramý).

Undirbúningur þessa hefur staðið um hríð, meðal annars í nánu samstarfi við sveitarfélagið Skútustaðahrepp. Það var niðurstaðan að kaup á eldra húsnæði og endurbætur þess væri hagstæður kostur fyrir ríkissjóð og skapaði fjölmörg tækifæri í Mývatnssveit. Þetta hús, sem áður hýsti Skútustaðaskóla, stendur á einstökum útsýnisstað við Mývatn.

Byggingin hentar  vel sem ein af meginstarfsstöðvum Vatnajökulsþjóðgarðs og Hálendisþjóðgarðs, verði frumvarp um hann að lögum. Gestastofu og sýningum í tengslum við þjóðgarðinn og verndarsvæði Mývatns og Laxár er þannig fundinn varanlegur staður í Mývatnssveit.

Tækifæri til að sameina starfsemi nokkurra stofnanna á einum stað

Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er kveðið á um lögbundin áform ríkisins um að halda úti sex meginstarfsstöðvum þjóðgarðsins sem mynda þjónustunet. Þegar hafa meginstarfsstöðvar í Ásbyrgi, Skaftafelli, á Skriðuklaustri og Hornafirði verið settar á laggirnar og bygging meginstarfsstöðvar á Kirkjubæjarklaustri er hafin. Með kaupum á húsnæðinu í Mývatnssveit er því búið að fullnusta uppbyggingu þessa mikilvæga þjónustunets Vatnajökulsþjóðgarðs.

Með kaupunum nú gefst jafnframt tækifæri til að sameina á einum stað starfsemi nokkurra af helstu stofnunum ríkisins á svæðinu og er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (Ramý) og Landgræðslan hafi starfstöðvar í húsnæðinu, auk Vatnajökulsþjóðgarðs. Þá hefur  Skútustaðahreppur áform um að nýta hluta af húsnæðinu undir atvinnuskapandi nýsköpun og þekkingarsetur. Einnig gefst möguleiki á að útbúa þar starfsaðstöðu fyrir opinber störf án staðsetningar, t.d. á vegum annarra stofnana ríkisins, háskóla og rannsóknaraðila.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun á næstu vikum hefja vinnu við skipulagningu á nýtingu húsnæðisins í samvinnu hlutaðeigandi aðila. Þar gerir ráðuneytið ráð fyrir að nýta, til endurbóta á húsnæðinu og til að standa fyrir nauðsynlegum aðlögunum og breytingum, fjármuni sem ráðstafað var til þessa af framlögum til atvinnusköpunar vegna Covid.

„Með kaupum á gamla skólanum á Skútustöðum gefst einstakt tækifæri til þess að aðlaga og endurnýta húsnæði sem fyrir er á besta stað á bakka Mývatns undir gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og fyrir verndarsvæði Mývatns og Laxár. Og þar sem rýmið er nægt skapast heilmikil tækifæri í því að sameina á einum stað starfsaðstöðu nokkurra stofnana og skapa nýsköpunarumhverfi með sveitarfélaginu, allt í einum suðupotti hugmynda. Við horfum líka til þess að aðstaðan geti jafnframt nýst öðrum opinberum starfsmönnum sem kjósa að búa í Mývatnssveit sem getur eflt byggð í Skútustaðahreppi. Þannig höfum við á þessu kjörtímabili lokið fjármögnun við gestastofur á Hellissandi og Kirkjubæjarklaustri og hafið þær framkvæmdir, og svo nú komið gestastofu í Mývatnssveit í góðan farveg líka. Þetta eru stór og mikilvæg skref í náttúruvernd og byggðaþróun,“ sagði Guðmundur Ingi, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Innlent

COVID-19: Aðgerðir á landamærum hertar tímabundið

Stjórnvöld kynna í dag tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu COVID-19 innanlands. Markmiðið er að skapa aðstæður sem gera kleift að aflétta sem mest takmörkunum innanlands þrátt fyrir mikla útbreiðslu faraldursins erlendis. Bólusetningu hér á landi miðar vel og eftir því sem hlutfall bólusettra hækkar skapast forsendur til að slaka á takmörkunum, jafnt innanlands og á landamærunum.

Heilbrigðisráðherra mun leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á gildandi sóttvarnalögum sem felur í sér forsendur fyrir þeim aðgerðum sem boðaðar eru. Meginefni þeirra eru:

Dvöl í sóttkvíarhúsi: Heimilt verður á tímabilinu 22. apríl til 30. júní, að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir tilteknum mörkum, þ.e. 1000 nýsmit/100.000 íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Ef nýsmit eru á bilinu 750-1000 þá verði sóttkvíarhús meginreglan en þó verði heimilt að veita undanþágu, t.d. ef fyrir liggja trúverðug áform um dvöl í fullnægjandi húsnæði. Kveðið verður á um forsendur fyrir dvöl í sóttvarnahúsi í reglugerð heilbrigðisráðherra.

Auknar ferðatakmarkanir: Dómsmálaráðherra fái að auki heimild til þess að leggja bann við ónauðsynlegum ferðum til og frá hááhættusvæðum (nýgengi yfir 1000/100.000) samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis.

Óbreyttar reglur um vottorð og sýnatöku á landamærum til 1. júní

Reglur um framvísun vottorða og um sýnatökur á landamærum verða óbreyttar a.mk. til 1. júní. Þeir sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu skulu sæta einni sýnatöku á landamærunum og sæta reglum um sóttkví meðan beðið er niðurstöðu. Aðrir fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví á milli. Frá og með 1. júní munu vægari kröfur gilda um þau lönd sem skilgreind verða sem lág-áhættusvæði.

Svæðisbundið áhættumat gefið út reglulega: Frá 7. maí verður gefið út hálfsmánaðarlega svæðisbundið áhættumat um stöðu og þróun faraldursins til að byggja á ákvarðanir um landamæraaðgerðir. Við áhættumatið veður m.a. stuðst við litakóðunarflokkun Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.

Kynningarglærur frá blaðamannafundi – uppfærð útgáfa

Halda áfram að lesa

Innlent

Meta ber hæfi sem fyrst eftir að brigður eru bornar á það

Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun um hvort starfsmaður sé vanhæfur svo fljótt sem unnt er eftir að athygli er vakin á ástæðum sem kunna að valda vanhæfi. Ef í ljós kemur á lokastigum máls að starfsmaður er vanhæfur getur það tafið meðferð þess óhæfilega.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland aðili að samstarfsvettvangi um öryggis- og varnarmál

Ísland gerðist í dag aðili að samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í Norður-Evrópu um öryggis- og varnarmál sem Bretar leiða undir merkjum sameiginlegrar viðbragðssveitar (e. Joint Expeditionary Force, JEF). Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London undirritaði samkomulag þessa efnis í dag ásamt Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands. 

Aðild Íslands að samstarfinu byggist á sameiginlegum öryggis- og varnarhagsmunum þátttökuríkjanna  og mun bæta yfirsýn um stöðu og þróun öryggismála í nærumhverfi þeirra. Horft er til þess að samstarfið geti nýst til neyðarviðbragða, vegna almannavarna og mannúðaraðstoðar. Framlag Íslands er á borgaralegum forsendum eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál sem Ísland á aðild að. Ekki er gert ráð að kostnaður fylgi þátttöku Íslands í samstarfinu að öðru leyti en fyrirhugað er að borgaralegur sérfræðingur starfi á vettvangi JEF þegar fram í sækir.

„Það er fagnaðarefni að Ísland taki nú þátt í þessu öryggis- og varnarmálasamstarfi nokkurra af okkar helstu vinaríkjum. Ísland getur lagt sitt af mörkum til samstarfsins en um leið njótum við góðs af aukinni samvinnu við þessi líkt þenkjandi ríki um öryggismál í víðu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Sameiginlega viðbragðssveitin var sett á fót árið 2018 og eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð aðilar að samstarfinu ásamt Eistlandi, Lettlandi, Litáen, Hollandi og Bretlandi. Ísland verður því tíunda ríkið sem tekur þátt í þessu samstarfi. 

Á fundinum ræddu þeir Sturla og Wallace m.a. ástand og horfur í alþjóðamálum og tvíhliða samstarf Íslands og Bretlands í öryggis- og varnarmálum. Rúm tvö ár eru síðan Guðlaugur Þór og Jeremy Hunt, þáverandi utanríkisráðherra Bretlands, undirrituðu samkomulag milli Íslands og Bretlands um að efla tvíhliða samstarf ríkjanna í varnar- og öryggismálum.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin