Innlent

Orkusalan ehf. sektuð

22.06.2022

Neytendastofu barst kvörtun frá Orku Náttúrunnar ohf. (ON) vegna viðskiptahátta Orkusölunnar ehf. Málið varðaði annars vegar flutning tiltekinna viðskiptavina ON yfir til Orkusölunnar án fyrirliggjandi samþykkis viðskiptavinanna og hins vegar upplýsingagjöf Orkusölunnar til nýrra viðskiptavina.

Í svörum Orkusölunnar kom fram að um tímabundnar markaðsaðgerðir hafi verið að ræða þar sem nýjum notendum var boðið tilboð. Þeir notendur sem þáðu tilboðið og vildu færa sig yfir í viðskipti til Orkusölunnar voru skráðir niður og í framhaldinu leitaði Orkusalan upplýsinga um umrædda notendur og tilkynnti um söluaðilaskiptin til dreifiveitu. Samhliða tilkynningunni um söluaðilaskipti var notendum sendur staðfestingarpóstur þar sem þeir voru boðnir velkomnir í viðskipti við Orkusöluna. Í staðfestingarpóstinum hafi komið fram upplýsingar um félagið ásamt tilvísun til viðskiptaskilmála þar sem væri að finna nánari upplýsingar um fyrirkomulag greiðslna, afhendingu, uppsögn samnings o.fl., þar á meðal að greiðsla fyrsta reiknings væri talin formleg staðfesting á viðskiptasambandinu.

Við úrlausn málsins sýndi Orkusalan ekki fram á að upplýsingagjöf vegna fjarsölunnar hafi verið framkvæmd með fullnægjandi hætti. Þá gat Orkusalan ekki sýnt fram á að notendurnir hafi viljað flytja viðskipti sín.

Í ljósi framangreinds komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að Orkusalan ehf. hafi brotið gegn góðum viðskiptaháttum með því að færa viðskiptavini án upplýsts samþykkis þeirra. Þá komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að félagið hafi brotið gegn góðum viðskiptaháttum með því að fullnægja ekki upplýsingaskyldu sinni gagnvart nýjum viðskiptavinum við og í kjölfar fjarsölu. Loks vísar stofnunin til þess að ekki sé hægt að fallast á sjónarmið Orkusölunnar að með greiðslu fyrsta reiknings sé staðfest gildi samnings.

Taldi stofnuninni rétt að banna félaginu að viðhafa umrædda viðskiptahætti og taldi rétt með hliðsjón af aðstæðum í málinu að leggja á félagið sekt að fjárhæð 400.000 kr.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

Innlent

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 13. – 14. júní 2022

01. júlí 2022

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndin ræddi stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika og helstu áhættuþætti, svo sem þróun efnahagsmála, áhættu fjármálafyrirtækja og fjármálakerfis, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðuna á fasteignamarkaði og eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja. Jafnframt ræddi nefndin um öryggi og skilvirkni fjármálainnviða og mikilvægi þeirra fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. Nefndin fékk upplýsingar um skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka og um gerð opinberrar stefnu um fjármálastöðugleika sem Fjármálastöðugleikaráð vinnur að.

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85% en að halda hlutfallinu fyrir aðra kaupendur óbreyttu í 80%. Nefndin ákvað jafnframt að setja viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Viðmiðið er að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána. Nefndin ákvað jafnframt að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár. Fjármálastöðugleikanefnd ákvað við ársfjórðungslegt endurmat á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi hans óbreyttu en samkvæmt ákvörðun nefndarinnar í september sl. mun hann hækka úr 0% í 2% í lok september 2022.

Þá áréttaði nefndin mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar.

Sjá fundargerðina í heild hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 13. -14. júní 2022 (13.fundur). Birt 1. júlí 2022.

Sjá hér nánari upplýsingar um nefndina og störf hennar

Halda áfram að lesa

Innlent

Tiltekinn fjöldi tapaðra tanna ekki eina forsenda þátttöku sjúkratrygginga vegna slyss

 

Í lögum um sjúkratryggingar er ekki kveðið með tæmandi hætti á um hvaða rétt fólk hefur til fjárhagslegrar aðstoðar vegna tannréttinga. Sama gegndi um reglugerðarákvæði þar að lútandi. 

Halda áfram að lesa

Innlent

Utanríkisráðherra ávarpar sérstaka umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan

Mikilvægi þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum kvenna og stúlkna bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í sérstakri umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan í dag. Ráðherra tók þátt í gegnum fjarfundabúnað. 

„Síversnandi staða mannréttinda kvenna og stúlkna í Afganistan er gífurlegt áhyggjuefni. Ekkert ríki í alþjóðasamfélaginu neitar stúlkum um grunnskólamenntun með aðeins einni undantekningu, Afganistan,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ávarpi fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þá lagði hún áherslu á að alþjóðasamfélagið haldi áfram að styðja við afgönsku þjóðina og hvatti til stofnsetningu réttmæts kjörins stjórnvalds sem fulltrúi þjóðarinnar sem virðir jafnframt mannréttindi allra, þar með talið kvenna og stúlkna. 

Ávarp sem utanríkisráðherra flutti á fundinum í dag má lesa í heild sinni hér.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin