Samherji

Ótrúleg vinnubrögð saksóknara og dómara

Ótrúleg vinnubrögð saksóknara og dómara

Í úrskurði Landsréttar hinn 28. janúar síðastliðinn gerði rétturinn sérstakar aðfinnslur við að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði samþykkt kröfu héraðssaksóknara um afhendingu gagna um Samherja í vörslum endurskoðunarfyrirtækisins KPMG og heimilað húsleit án þess að nein rannsóknargögn lægju til grundvallar kröfunni. Héraðsdómari tók kröfuna til greina án nokkurra sönnunargagna og greindi ranglega frá því í úrskurði og þingbók að slík gögn hefðu legið frammi við uppkvaðningu úrskurðarins.

Málið kom upp í desember síðastliðnum þegar héraðssaksóknari krafðist þess að KPMG og dótturfélagi þess yrði gert skylt að afhenda embættinu upplýsingar og gögn vegna þjónustu umræddra fyrirtækja við Samherja og dótturfélög í samstæðu fyrirtækisins á árunum 2011 til 2020 vegna vinnu við reikningsskil félaganna. Ekki er hér um að ræða bókhaldsgögn, eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum, heldur er um að ræða svokölluð endurskoðunargögn sem endurskoðendum er skylt að geyma, lögum samkvæmt, í sjö ár hið minnsta.

KPMG lét sig ekki málið varða í fyrstu

Með kröfu sinni krafðist héraðssaksóknari þess að lögbundinni þagnarskyldu sem hvílir á endurskoðendum yrði aflétt. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði um afhendingu gagnanna hinn 3. desember 2020. Með úrskurðinum var í reynd ekki aðeins rofinn trúnaður milli endurskoðenda og fyrrverandi skjólstæðinga þeirra heldur einnig trúnaður lögmanna enda beindist krafan að gögnum sem voru í vörslum bæði endurskoðenda og lögmanna hjá KPGM og dótturfélögum.

KPMG virðist í fyrstu ekkert hafa látið sig málið varða þegar endurskoðendur félagsins fengu spurnir af því. Samherji fékk fyrst vitneskju um þetta mál í janúar síðastliðnum enda krafðist héraðssaksóknari þess að krafan hlyti meðferð fyrir dómi án þess að þeir aðilar sem hún beindist að yrðu kvaddir á dómþing.

Þegar vitneskja um málið lá fyrir beindi Samherji kæru til Landsréttar þar sem þess var krafist að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Í úrskurði Landsréttar, sem var kveðinn upp 28. janúar, var kærunni vísað frá því Samherji hefði ekki átt aðild að málinu fyrir héraðsdómi, aðeins KPMG. Í úrskurði Landsréttar eru hins vegar gerðar aðfinnslur við málsmeðferð héraðsdóms. Þar segir að samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms hafi rannsóknargögn málsins legið fyrir við fyrirtöku þess. Rannsóknargögnin hafi hins vegar ekki fylgt með kærunni til Landsréttar. Þegar Landsréttur hafi kallað eftir gögnunum hafi héraðsdómur upplýst að engin gögn hefðu legið frammi við fyrirtöku málsins. Þetta þýðir í reynd að dómarinn í málinu, Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari, hafði engin sönnunargögn til stuðnings kröfu héraðssaksóknara þegar hún kvað upp úrskurð sinn. „Í því skyni að ganga úr skugga um hvort lagaskilyrði væru uppfyllt fyrir því að fallast á kröfu sóknaraðila hefði héraðsdómara verið rétt að krefja sóknaraðila um þessi gögn áður en hann tók kröfuna til úrskurðar. Er aðfinnsluvert að svo var ekki gert,“ segir í úrskurði Landsréttar.

Þá ber að vekja sérstaka athygli á því að héraðsdómara var ekki heimilt að fjalla um kröfu saksóknara, án þess að þeir sem hún beindist að yrðu kvaddir á dómþing, nema dómarinn teldi „nægilega rökstutt“ að vitneskja um aðgerðina gæti spillt fyrir rannsókn. Dómari í málinu taldi sig bæran til þess taka ákvörðun um þetta án sönnunargagna. Þá er fjarstæðukennt að vitneskja um aðgerðina hefði getað spillt fyrir rannsókn varðandi gögn í vörslum endurskoðenda enda hvílir lögbundin skylda á þeim að geyma þau gögn sem hér um ræðir, líkt og getið er framar.

Vinnubrögð sem hljóta að kalla á viðbrögð

Þau vinnubrögð sem hér er lýst og Landsréttur gerir aðfinnslur við hljóta að kalla á viðbrögð frá hagsmunasamtökum bæði endurskoðenda og lögmanna. Þá hlýtur KPMG að líta það alvarlegum augum þegar rofinn er mikilvægur trúnaður endurskoðenda og lögmanna við skjólstæðinga sína. Sú staðreynd að Finnur Þór Vilhjálmsson, fulltrúi héraðssaksóknara, lagði ekki fram nein sönnunargögn, þegar krafa hans um afhendingu gagna var tekin fyrir hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, en hélt því engu að síður fram gegn betri vitund að slík gögn lægju frammi, hlýtur jafnframt að gefa tilefni til viðbragða hjá ríkissaksóknara sem hefur lögbundið eftirlitshlutverk um framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum og héraðssaksóknara.

Kvörtun hefur verið beint til nefndar um dómarastörf vegna vinnubragða Ingibjargar Þorsteinsdóttur héraðsdómara í framangreindu máli. Þá hefur einnig verið kvartað til nefndar um eftirlit með lögreglu vegna framferðis Finns Þórs Vilhjálmssonar saksóknara. Það var talið mikilvægt og brýnt að koma upplýsingum á framfæri við þessar nefndir, með þar til bærum leiðum, því heilindi dómstóla og ákæruvalds þurfa að vera hafin yfir vafa.

Samherji

Enginn í áhöfn Vilhelms Þorsteinssonar í land. Loðnan orðin hæf til manneldis.

Vilhelm Þorsteinsson við bryggju í Neskaupstað/mynd:Hákon Ernuson

Vilhelm Þorsteinsson við bryggju í Neskaupstað/mynd:Hákon Ernuson

Vilhelm Þorsteinsson EA landaði í gær 2.060 tonnum í Neskaupstað og fer hluti aflans til manneldis í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Þetta var annar loðnutúr Vilhelms á árinu, skipið hélt aftur á loðnumiðin í morgun.

Til þessa hefur öll loðna sem borist hefur til Síldarvinnslunnar á vertíðinni farið til framleiðslu á mjöli og lýsi en eftir því sem loðnan stækkar er hægt að frysta loðnuna til manneldis. Birkir Hreinsson skipstjóri segir að bræla á miðunum hafi gert flotanum erfitt fyrir síðustu sólarhringana.

Loðnan að stækka

„Veiðin hefur verið skást á morgnana og seinni partinn. Stærsta holið í þessum öðrum túr ársins var um 450 tonn, annars voru þau um og yfir 100 tonn. Þannig að þetta var nudd á okkur. Loðnan er hins vegar að stækka, sem þýðir að hægt er að vinna hana til manneldis og hluti aflans var frystur.“

Skipið sóttkví, enginn í land

Um tíu klukkustunda sigling er á miðin og fór Vilhelm af stað aftur á miðin, strax og búið var að dæla aflanum í land til vinnslu.

„Enginn í áhöfninni fór í land, skipið er í raun og veru sóttkví. Löndunargengið þurfti að athafna sig á framdekkinu, annars kom enginn um borð. Við förum eins varlega og hægt er á tímum Covid-19. Þetta er náttúrulega erfið og snúin staða en það er ekkert annað í boði,“ segir Birkir Hreinsson.

Halda áfram að lesa

Samherji

Tölvur gegna lykilhlutverki í eftirlitinu

Sigmar Harðarson Völkumaður á Dalvík/myndir samherji.is

Sigmar Harðarson Völkumaður á Dalvík/myndir samherji.is

Segja má að hátæknibúnaðurinn frá Völku sé hjartað í fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík. Búnaðurinn og öll tæknin hafa vakið mikla athygli, enda um að ræða eitt fullkomnasta vinnsluhús í heiminum í bolfiskvinnslu. Sigmar Harðarson fylgist grannt með öllum búnaðinum frá Völku og sér til þess að hann þjóni sínu hlutverki í hvívetna. Tölvur gegna lykilhlutverki í því sambandi.

Mikil nákvæmni

„Vinnsla hefst klukkan átta á morgnana, þannig að ég er mættur tveimur klukkustundum áður til þess að tryggja að vélar og allur búnaður gangi eins og til er ætlast. Stundum þarf að skipta um slöngur eða þétta svo eitthvað sé nefnt. Búnaðurinn er afskaplega nákvæmur og þess vegna þarf að fylgjast náið með öllum stillingum, enda eins gott þar sem mikil verðmæti fara í gegnum vélarnar á hverjum degi. Það getur verið ansi dýrkeypt ef til dæmis vatnsskurðarvélarnar eru ekki nákvæmlega rétt stilltar eða róbótarnir á pökkunarlínunni grípa ekki kassana eins og til er ætlast.“

Góður undirbúningur

Heimsfaraldurinn hafði eðlilega umtalsverð áhrif á starfsemi hátækni fiskvinnsluhúss Samherja á Dalvík. Með nýjum búnaði og gerbreyttri tækni komu engir utanaðkomandi sérfræðingar inn í húsið mánuðum saman, meðal annars frá Völku. Sigmar segir að áskoranirnar hafi því verið ansi margar, góður og hnitmiðaður undirbúningur við byggingu hússins hafi skipt sköpum. Hann hefur unnið í fiskvinnslu í um áratug.

„Ég hafði starfað við hátæknibúnað á Fáskrúðsfirði og áður en ég futti hingað til Dalvíkur fékk ég góða þjálfun í fiskvinnsluhúsi ÚA á Akureyri, þar er líka vélbúnaður frá Völku. Ég kom hingað sem sagt þokkalega vel undirbúinn, sem var eins gott. Þetta hefur allt saman gengið vonum framar með samstilltu átaki allra.“

Ekki oft þurft að stöðva vinnsluna

„Á daginn fer mikill tími í að fylgjast með öllu saman í gegnum tölvur, sem gegna lykilhlutverki í eftirlitinu. Stundum þurfum við að hægja á búnaðinum eða auka hraðann, stærð fisksins ræður því hverju sinni. Helsta ógnin er líklega rafmagns- eða vatnsskortur en sem betur fer eru þau mál komin í ágætis horf og ekki hefur oft þurft að stöðva vélarnar vegna bilana.“

Dalvík stærsta framfaraskrefið

„Já, þetta er fjölbreytt starf, enda ég daglega í samskiptum við ansi marga. Framfarirnar í fiskvinnslu hafa verið örar á þessum átatug sem ég hef unnið í greininni og allur þessi búnaður í vinnsluhúsinu á Dalvík er örugglega stærsta skrefið sem stigið hefur verið í þeim efnum. Þetta er klárlega fullkomnasta fiskvinnsluhús heimsins í bolfiski,“ segir Sigmar Harðarson Völkumaður.

Halda áfram að lesa

Samherji

Aflaverðmæti skipa Samherja og ÚA 11,7 milljarðar

Systurskipin Björg, Kaldbakur og Björgúlfur / myndir samherji.is

Systurskipin Björg, Kaldbakur og Björgúlfur / myndir samherji.is

Bolfiskskip Samherja og ÚA veiddu samtals 34,3 þúsund tonn á nýliðnu ári og afli uppsjávarskipsins Vilhelms Þorsteinssonar var 42,5 þúsund tonn. Verðmæti afla bolfiskskipanna var 9,3 milljarðar króna og Vilhelms Þorsteinssonar 2,4 milljarðar. Heildarverðmæti afla skipa félaganna var því samtals 11,7 milljarðar króna. Framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja segir að veiðarnar hafi heilt yfir gengið vel, enda valinn maður í hverju rúmi og skipaflotinn góður og vel búinn. 

Afli og verðmæti eftir skipum

Byrjum á bolfiskskipunum, afli Björgúlfs EA var 7.536 tonn og aflaverðmætið 2,1 milljarður króna.

Afli Kaldbaks EA var á árinu 7.264 tonn og verðmætið tæpir tveir milljarðar króna.

Afli Björgvins EA var á nýliðnu ári 6.461 tonn og verðmætið 1,7 milljarðar króna.

Afli Harðbaks EA var 5.890 tonn og verðmætið 1,5 milljarðar króna.

Afli Bjargar EA var 6.186 tonn og verðmætið 1,7 milljarðar króna.

Tvö önnur skip, Oddeyrin og Bergur veiddu samtals 1.010 tonn og var verðmætið samtals 349 milljónir króna.

Eins og fyrr segir var afli uppsjávarskipsins Vilhelms Þorsteinssonar EA 42.500 tonn og verðmætið 2,4 milljarðar. Vilhelm kom nýr til landsins á síðasta ári og hóf veiðar í lok apríl.

Þorskurinn vegur þungt

Langmest var veitt af þorski, þegar litið er á einstaka tegundir. Alls voru veidd 22,2 þúsund tonn af þorski á árinu. Þar á eftir kemur gullkarfi, 3,8 þúsund tonn. Í þriðja sæti er svo ýsa 3,3 þúsund tonn og þar á eftir ufsi, 3,2 þúsund tonn.

Valinn maður í hverju rúmi

„Við þurftum á ýmsan hátt að hafa meira fyrir veiðunum á síðasta ári vegna óveðurs, sérstaklega í haust og vetur. Heilt yfir gengu veiðarnar þó vel, enda valinn maður í hverju rúmi og skipaflotinn góður og vel búinn. Þegar verið er að gera upp aflatölur er ekki síður mikilvægt að líta á verðmætið. Markmiðið er alltaf að framleiða gæðaafurðir, meðferð aflans er einmitt stór þáttur í þeirri viðleitni og sjómenn eru vel með á nótunum í þeim efnum,“ segir Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin