Almannavarnir

Óvissustig vegna hættu á gróðureldum á Norðurlandi Vestra

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjórana á Norðurlandi Vestra hafa ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Þessi ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði. Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112. Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/ og einnig inn á https://www.grodureldar.is/

Almannavarnir

Ákveðið að aðhafast ekki frekar í nágrenni eldgossins.

Eldgosið sem hófst í Geldingadölum 19. mars hefur nú staðið viðstöðulaust í nær þrjá mánuði. Á þeim tíma hefur gosið skipt um takt nokkrum sinnum.  Nýir gígar opnast og lokast, hraunrennslið aukist og samsetningu þess breyst.

Engir mikilvægir innviðir eru beint við gosstöðvarnar sjálfar en Suðurstrandavegur og ljósleiðari eru sunnan við gosstöðvarnar. Ljóst var að þeir innviðir gætu verið í hættu ef gosið héldi áfram. Vegna þessa var gripið til mótvægisaðgerða með því að setja upp varnarvegg ofan við Nátthaga. Sú aðgerð fólst í því að tefja framgang hraunsins og seinka því að það kæmist að Suðurstrandarvegi. Á þeim tíma jókst hraunflæðið frá gosinu um 100% og mikið magn af hrauni kom að görðunum. Viku síðar fór hraun að renna yfir vestari garðinn og nokkru síðar þann eystri. Þrátt fyrir það standa báðir garðarnir enn og er það merki um að sú hönnun virki vel við þessar aðstæður.

Núverandi hættumat gerir ráð fyrir því að um langtímaatburð sé að ræða og að gosið muni halda áfram í mánuði eða ár. Miðað við það er ljóst að enn fleiri innviðir geta verið í hættu. Er þá sérstaklega verið að horfa til svæðisins út frá Nátthagakrika. Hermanir gefa til kynna að þaðan geti verið leið fyrir hraunið til norðurs, vesturs og suðurs.

Frekari varnargarðar hafa verið til skoðunar í Nátthaga og hefur þá verið horft til þess að safna upp hrauni í dalnum og veita því ákveðna leið til sjávar. Töluvert stór mannvirki þyrfti til þess að ná árangri og ljóst að það mun bara halda í ákveðinn tíma. Miðað við umfang framkvæmda og óvissu um árangur var ákveðið að aðhafast ekki frekar á þessu svæði. Áherslur varðandi frekar mótvægisaðgerðir munu því beinast að Nátthagakrika.

Nú þegar hefur verið reistur leiðigarður sunnan við Geldingadali í þeim tilgangi að bæja hraunrennsli frá Nátthagakrika. Á sama tíma verður farið í að skoða útfærslur varðandi frekari mótvægisaðgerðir vegna mikilvægra innviða sem geta verið í hættu.

Halda áfram að lesa

Almannavarnir

Almannavarnir auglýsa eftir sumarstarfsmanni

Almannavarnir auglýsa eftir aðstoðarmanni við texta- og námsefnisgerð. Verkefnið felst í að aðstoða starfsmenn almannavarna við yfirlestur skýrslna og leiðbeininga og að gera texta þeirra samræmdan, auðlæsilegan og aðgengilegan. Auk þess að undirbúa texta fyrir birtingu og að útbúa glæruefni upp úr textanum til notkunar á námskeiðum.

Menntunar- og hæfniskröfur: Viðkomandi stundi háskólanám í íslensku og hafi að lágmarki lokið BA gráðu í íslensku. Einnig þarf starfsmaðurinn að hafa reynslu af textagerð. Geti sýnt frumkvæði og unnið sjálfstætt.Umsóknarfrestur er til 21. júní nk.

Umsóknir um sumarstörf | Vinnumálastofnun (vinnumalastofnun.is)

Halda áfram að lesa

Almannavarnir

Nýr leiðigarður í Geldingadölum

Í gær fór hraun að renna úr syðsta hluta Geldingadala, yfir gönguleið A og áfram niður í Nátthaga. Þessi framvinda var fyrirséð en nokkru fyrr en búist var við. Í kjölfarið var farið betur yfir hermanir á hraunflæði frá þessu svæði. Út frá því má reikna með frekara hraunflæði á þessu svæði og líka niður í Nátthagakrika en þaðan er opið svæði í norður, vestur og suður.

Því var ákveðið eftir samráð við Grindavíkurbæ og aðgerðarstjórn að ráðast í gerð leiðigarðs syðst í Geldingadölum og varnargarðs sem minnki líkur á, eða seinki verulega, að hraun fari niður í Nátthagakrika. Leiðigarðurinn verður með sömu hönnun og varnargarðarnir sem voru reistir ofan við Nátthaga á sínum tíma. Hann verður fyrst um sinn settur í fjóra metra hæð en lengd hans liggur ekki alveg fyrir á þessum tímapunkti. Framkvæmdir eru þegar hafnar en byrjað verður á því að setja neyðarruðning upp við núverandi hraunrönd til að stöðva frekari framgang. Framkvæmdatíminn liggur ekki alveg fyrir en búast má við að framkvæmdir taki nokkra daga. Sem fyrr verður notast við efni sem er fyrir á svæðinu og því engir efnisflutningar inn á svæðið. Öll framkvæmd á svæðinu er með þeim hætti að hægt verður að slétta úr þeim aftur og færa svæðið til fyrra horfs.

Aðgerðin í dag er eins og áður, til að verja mikilvæga innviði á Reykjanesi. Það er verkfræðistofan VERKÍS sem var fengin til að halda utan um þessa vinnu fyrir almannavarnir.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin