Connect with us

Stjórnarráðið

Plastmengun, loftslagsmál og orkuskipti í flugi til umræðu á fundi norrænna umhverfisráðherra

Birt

on

Síaukin plastmengun er sá umhverfisvandi sem enn hefur ekki verið tekið á með samtakamætti á alþjóðavísu, en á það atriði leggja umhverfisráðherrar Norðurlandanna mikla áherslu á og kalla eftir nýjum alþjóðlegum samningi. Þau funduðu í dag með rafrænum hætti í ljósi Covid-19 kórónuveirufaraldursins.  Auk plastmengunar voru vistvænar skemmtiferðasiglingar og möguleikar til orkuskipta í flugsamgöngum líka á dagskrá ráðherranna. Þá nýttu þeir einnig fundinn til að fjalla um setningu nýrra landsmarkmiða um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 og aukinn metnað í þeim efnum sem nú er til umræðu á alþjóðavísu og meðal Evrópuríkja.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fagnaði yfirlýsingu Evrópuríkja um væntanlegan aukinn metnað í loftslagsmálum og þakkaði norrænum kollegum sínum fyrir að halda þeim áherslum á lofti innan Evrópusambandsins. Hann benti á að orkuskipti í samgöngum væru nú á fleygiferð á Norðurlöndunum og eins stæðu löndin framarlega hvað endurnýjanlega orku varðaði. „En að sama skapi tel ég mikilvægt að auka áherslu á aðgerðir til þess að draga úr losun frá þungaflutningum, sjávarútvegi og landbúnaði.“ Draga þyrfti úr losun innan þessara geira ef uppfylla ætti markmið landanna í loftslagsmálum.

Samkvæmt uppfærðri aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum, sem kom út í júní sl, er gert ráð fyrir meiri samdrætti í losun hér á landi en krafa er gerð um skv. núgildandi skuldbindingum Íslands. Ísland hefur metnað til að auka þær skuldbindingar sínar, en samkvæmt Parísarsamningnum eiga öll ríki að senda inn uppfærð landsmarkmið á 5 ára fresti og er nú unnið að uppfærslu landsmarkmiðs Íslands.

Norðurlöndin hafa frá 2016 talað fyrir samræmdum aðgerðum á heimsvísu til að takast á við plastmengun í hafi. Á fundi sínum í Reykjavík í apríl í fyrra samþykktu ráðherrarnir að hvetja til og vinna að því að koma á fót nýjum alþjóðlegum samningi til að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið.

Ráðherrarnir kynntu fyrr í þessum mánuði skýrslu sem norræna ráðherranefndin lét vinna og er þar meðal annars lagt til að mögulegur nýr samningur kveði á um gerð landsbundinna áætlana sem grundvalla skuldbindingar einstakra ríkja. Þess má geta að umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti aðgerðaáætlun vegna plastmengunar hérlendis í september síðastliðnum.

 Á fundi umhverfisráðherra Norðurlandanna í dag samþykktu ráðherrarnir síðan yfirlýsingu þar m.a. er lögð áhersla á að virkja stjórnvöld, atvinnulíf og neytendur í sameiginlegu átaki til að koma í veg fyrir plastmengun, sem og að sett verði sjálfbærniviðmið fyrir plastvörur, sem spanna allan líftíma þeirra.

Danir hafa gegnt formennsku í Norrænu ráðherranefndinni þetta árið og eitt af verkefnum þeirra hefur verið að greina leiðir til notkunar annars eldsneytis en jarðefnaeldsneytis í flugi. Niðurstöður greiningarinnar voru kynntar ráðherrunum í dag og þær ræddar í kjölfarið. Guðmundur Ingi sagði m.a. að Norðurlöndin væru suðupottur nýjunga á mörgum sviðum loftslagsmála, og þegar kæmi að orkuskiptum í flugi væri mikilvægt að þau tækju fullan þátt í að hraða þeim svo draga megi úr losun í þessum geira. Ísland gæti líka orðið lykilaðili í sölu á vistvænu eldsneyti til flugvéla vegna staðsetningar sinnar í Atlantshafinu, t.d. vetnis. 

Lesa meira

Innlent

Flugsamgöngur til Boston tryggðar út árið

Birt

on

By

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur framlengt samning við Icelandair um að tryggja lágmarksflug til Bandaríkjanna út árið. Samningurinn gerir ráð fyrir að flogið verði minnst tvisvar í viku til Boston á tímabilinu. 

Samningur við Icelandair um að tryggja millilandaflug til Bandaríkjanna með flugi til Boston hefur verið framlengdur í þrígang í ár. Nýr viðauki gildir til og með 31. desember. Allar tekjur Icelandair af flugi til Boston munu lækka greiðslur vegna samningsins.

Markmiðið er sem fyrr að tryggja lágmarks flugsamgöngur til og frá landinu vegna þess ástands sem skapast hefur vegna Covid-19 faraldursins. Það voru Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sem undirrituðu samninginn með rafrænum hætti.

Lesa meira

Innlent

Lög á deilu flugvirkja

Birt

on

By

Dómsmálaráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frumvarps sem lagt verður fyrir alþingi í dag sem bindur enda á verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Landhelgisgæsla Íslands er ein af grunnstoðum öryggis- og almannavarna í landinu. Þörfin fyrir öfluga björgunarþjónustu er hvað brýnust á þessum tíma árs þegar dimmasta skammdegið fer í hönd. Hættulegar veðurfarslegar aðstæður geta skapast víða um land og þá ekki síst fyrir sjófarendur á miðunum í kringum landið. Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru ekki aðeins nauðsynlegar við leit og björgun á sjó og landi heldur sinna þær einnig sjúkraflugi og eru þannig einnig mikilvægur hlekkur í heilbrigðis- og öryggisþjónustu fyrir allan almenning. Verkfall flugvirkja hefur stefnt þessu öryggi í mikla tvísýnu. Staðan er óviðunandi og ég tel ekki rétt að ein stétt hjá Landhelgisgæslunni geti haft þessi gífurlegu áhrif á öryggismál þjóðarinnar, einkum og sér í lagi þegar haft er í huga að öðrum mikilvægum starfsmönnum stofnunarinnar er óheimilt að fara í verkfall með vísan til almannahagsmuna.Samninganefnd ríkisins hefur boðið flugvirkjum Gæslunnar nýjan samning með sömu hækkunum og aðrir hafa fengið en ekki samþykkt eldra fyrirkomulag með tengingu við kjarasamning Icelandair. Þessar viðræður hafa nú siglt í strand og flugvirkjar hafa hafnað sáttatillögu ríkissáttasemjara um eins árs samning. Kjaradeilan varðar almannahagsmuni og almannaöryggi. Starfsemi flugdeildar Landhelgisgæslunnar verður einfaldlega að komast í eðlilegt horf án tafar.Ég hef því lagt það til og ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi frumvarp að lögum til að stöðva verkfallið og gerðardómi verði falið að ákveða kaup og kjör flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hafi samningar ekki tekist fyrir 4. janúar nk. Einnig verður gerðardómi ætlað að taka til meðferðar útfærslu á tengingu kjarasamnings flugvirkja við aðrar sambærilegar starfsstéttir á almennum vinnumarkaði. Allt er þetta skýrt mun nánar í greinargerð með frumvarpinu sem ég mun mæla fyrir í þinginu í dag.“

Lesa meira

Innlent

Brandenburg valið úr hópi umsækjenda í hönnun og þróun einkennis Fyrirmyndaráfangastaða

Birt

on

By

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs auglýstu á dögunum eftir hönnuði eða hönnunarteymi til að vinna að hönnun og þróun einkennis og kynningarefnis fyrir nýtt kerfi áfangastaðastjórnunar, sem ber vinnuheitið Fyrirmyndaráfangastaðir í ferðaþjónustu.

Alls bárust 13 umsóknir um að taka verkefnið að sér en að lokum var það niðurstaða valnefndar að bjóða auglýsingastofunni Brandenburg verkefnið. 

„Ég vil þakka Miðstöð hönnunar og arkitektúrs fyrir að leiða valferlið og við hlökkum til að vinna að mótun ásýndar Fyrirmyndaráfangastaða með Brandenburg, í þágu íslenskrar ferðaþjónustu”, segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- ,iðnaðar – og nýsköpunarráðherra.  „Undanfarin ár hefur uppbygging innviða á áfangastöðum ferðamanna um land allt verið í fyrirrúmi, með áherslu á náttúruvernd og öryggismál. Með þessu verkefni höldum við áfram á þeirri braut en með nýrri nálgun á áfangastaðastjórnun, sem tekur aukið tillit til upplifunar gesta og sérkenna hvers staðar. Það er okkar von að Fyrirmyndaráfangastaðir efli jákvæða ímynd Íslands sem lands sjálfbærrar þróunar, í takt við framtíðarsýn og leiðarljós ferðaþjónustunnar til 2030.” 

Markmiðið með Fyrirmyndaráfangastöðum er að skapa umgjörð utan um hugmyndafræði heildstæðrar nálgunar í áfangastaðastjórnun. Hægt er lesa nánar um verkefnið hér.

Við á Brandenburg erum einstaklega ánægð með að hafa verið valin úr sterkum hópi umsækjenda og mjög spennt fyrir þessu mikilvæga verkefni. Við tökum glöð við þeirri ábyrgð sem það felur í sér. Okkar hlutverk verður að skapa bæði merki og umgjörð Fyrirmyndaráfangastaða með skírskotun í allt hið sérstæða sem gerir Ísland að spennandi áfangastað ásamt því að finna verkefninu viðeigandi heiti,“ segir Rúna Dögg Cortez, viðskiptastjóri hjá Brandenburg „Við sóttumst eftir því að taka þátt í verkefninu því það vakti áhuga okkar og sameinaði ástríðu okkar fyrir hönnun og Íslandi. Fyrirmyndaráfangastaðir er verkefni sem augljóslega hefur verið lögð mikil vinna í að undirbúa og er ánægjulegt að vera hluti af áframhaldandi vinnu við að styrkja sjálfbæra þróun ferðaþjónustunnar.“

Í valnefnd sátu María Reynisdóttir, sérfræðingur, fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Einar Á. E. Sæmundssen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Magnús Hreggviðsson, grafískur hönnuður, fulltrúi Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin