Félag atvinnurekenda

Pósturinn láti sem fyrst af skaðlegri undirverðlagningu

24. júní 2021

Alþingi samþykkti, á lokaspretti þingstarfa fyrir þinglok, að afnema það ákvæði laga um póstþjónustu að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli vera sú sama um allt land. Þar með er 17. grein póstlaganna breytt til fyrra horfs og kveður eingöngu á um að gjaldskrá fyrir bréfapóst skuli vera sú sama um allt land, en sú kvöð nær ekki til gjaldskrár fyrir pakkasendingar. FA fagnar breytingunni og bindur vonir við að breytingar á pakkagjaldskrá Póstsins muni leiða til þess að hún verði í samræmi við ákvæði póstlaga um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Í tæpa 18 mánuði hefur pakkagjaldskrá Póstsins verið gróflega undirverðlögð, sem hefur komið hart niður á ýmsum einkareknum keppinautum ríkisfyrirtækisins í pakkaflutningum.

Breytingarnar á póstlögunum taka gildi 1. júlí nk. og skal ákvæðið um að pakkagjaldskrá þurfi ekki að vera sú sama um allt land vera komið til framkvæmda eigi síðar en 1. nóvember nk. FA hefur sent Póst- og fjarskiptastofnun, sem á að hafa eftirlit með gjaldskrá Póstsins, erindi og hvatt til þess að stofnunin gangi eftir því að gjaldskrá Póstsins verði breytt hið fyrsta og látið af undirverðlagningunni.

Dregið verði úr samkeppnislegum skaða
„Núgildandi gjaldskrá hefur haft gríðarlega slæm áhrif á önnur fyrirtæki á póstmarkaðnum enda felur hún í sér undirverðlagningu. Að mati FA hefur gjaldskráin allt frá ársbyrjun 2020 verið ólögmæt, enda gengur hún beint gegn 3. mgr. 17. gr. póstlaga, um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Það er því brýnt að Póst- og fjarskiptastofnun fylgi því eftir við Íslandspóst að gjaldskránni sé breytt hið fyrsta enda engin rök fyrir að draga breytingu  á langinn þó lögbundinn frestur sé til 1. nóvember. Þannig má draga úr hinum samkeppnislega skaða, sem ólögmæt gjaldskrá Íslandspósts hefur valdið,“ segir í bréfi lögfræðings FA til Póst- og fjarskiptastofnunar.

Eftirlitsstofnanir brugðust hlutverki sínu
Í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, að lagabreytingin breyti engu um að í þá tæplega 18 mánuði sem undirverðlögð pakkagjaldskrá Íslandspósts hefur verið í gildi hafi fyrirtækið brotið gróflega gegn ákvæði laganna um að verð skuli taka mið af raunkostnaði. „Þær stofnanir sem áttu að taka í taumana, þ.e. Póst- og fjarskiptastofnun, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samkeppniseftirlitið, brugðust algjörlega skyldum sínum og höfðu uppi lagatúlkanir sem stóðust engan veginn. Það mál allt er hneyksli, sem ég vonast enn til að umboðsmaður Alþingis muni taka til rækilegrar skoðunar þannig að slíkt endurtaki sig ekki,“ segir Ólafur í Morgunblaðinu.

Ólafur segir ennfremur í samtali við blaðið að PFS hljóti að efla eftirlit sitt með því að Pósturinn virði ákvæðið um raunkostnað hvað varðar gjaldskrána fyrir bréfasendingar, enda sé búið að opna fyrir samkeppni í bréfasendingum. Feli gjaldskrá bréfa í sér undirverðlagningu hindri það samkeppni.

Erindi FA til Póst- og fjarskiptastofnunar

Félag atvinnurekenda

Þegar stjórnmálamenn grafa undan fyrirtækjum

22. júlí 2021

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 21. júlí 2021.

Nokkur dæmi um niðurgreidd námskeið endurmenntunardeilda háskólanna, í beinni samkeppni við sambærileg námskeið hjá félagsmönnum FA. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Stjórnmálamenn taka stundum ákvarðanir, sem eru sennilega fallega hugsaðar og kunna við fyrstu sýn að vera í þágu almennings, en reynast síðan valda fyrirtækjum í rekstri miklum skaða og ógna getu þeirra til að skapa verðmæti og störf. Tökum tvö dæmi, sem Félag atvinnurekenda hefur látið til sín taka undanfarin misseri.

Þegar frumvarp til breytinga á póstlögum var til meðferðar á Alþingi í árslok 2019 fékk einhver þingmaður þá snilldarhugmynd að skylda veitanda alþjónustu til hafa sama verð fyrir pakkaflutninga um allt land. Þetta var sagt byggðaaðgerð og breytingartillaga meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um eitt verð um allt land var samþykkt.

Það sem gerðist næst var að alþjónustuveitandinn, Íslandspóstur, lækkaði verðskrá sína fyrir pakkaflutninga út um land niður í verðið sem gildir fyrir pakkasendingar innan höfuðborgarsvæðisins. Þannig var verð, sem þegar var líkast til undir kostnaði við að veita þjónustuna, komið tugi prósenta undir verð einkarekinna fyrirtækja sem annast vöru- og pakkasendingar – og þau eru mörg og starfa víða um land. Nýja verðskráin var augljóst brot á öðrum ákvæðum póstlaganna, um að verð fyrir alþjónustu verði að taka mið af raunverulegum kostnaði við að veita þjónustuna og undirverðlagning sé þannig í raun bönnuð. Pósturinn heimtaði niðurgreiðslur úr ríkissjóði til að standa undir undirverðlagningunni og af einhverjum ástæðum sem greinarhöfundur hefur enn ekki skilið, stóðu fjármálaráðuneytið, samgönguráðuneytið og Póst- og fjarskiptastofnun með ríkisfyrirtækinu i lögbrotunum og niðurgreiðslurnar fékk það.

Á pakkaflutningamarkaðnum urðu afleiðingarnar að ógerningur var að keppa við verð ríkisfyrirtækisins og fyrirtæki sem mörg hver skapa atvinnu í héraði töpuðu viðskiptum til Póstsins. Þetta reyndist einhver misheppnaðasta byggðaaðgerð sögunnar, enda var með undirverðlagningunni grafið undan rekstri fyrirtækja á landsbyggðinni. Eftir 18 mánaða baráttu FA og fleiri hagsmunasamtaka fyrir því að annað hvort yrði lögum breytt eða farið að gildandi lögum, flutti meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis (svo lítið bar á) nýja breytingartillögu um að afnema eitt verð um allt land í pakkaflutningum.

Annað dæmi er af sumarnámi í framhalds- og háskólum, sem menntamálaráðuneytið greip til vegna lélegs atvinnuástands af völdum heimsfaraldursins. Það verkefni er að flestu leyti góðra gjalda vert. Það er alls ekki óeðlilegt að gera atvinnuleitendum kleift að fara í nám eða námsmönnum, sem ekki fá sumarvinnu, kleift að bæta við sig einingum yfir sumarið. FA gerði hins vegar, fyrir hönd aðildarfyrirtækja sinna á fræðslumarkaði, alvarlegar athugasemdir við þann hluta ríkisstyrkjanna sem rann til endurmenntunardeilda háskólanna. Þær starfa að mörgu leyti í beinni samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki.

Bæði í fyrrasumar og nú í sumar bjóða endurmenntunardeildirnar upp á alls konar námskeið, sem eru alls ekki sérstaklega ætluð atvinnuleitendum eða háskólanemum, heldur þvert á móti öllum almenningi. Þessi námskeið, sem áður kostuðu tugi þúsunda, eru í sumar í boði á 3.000 krónur. Þetta eru sambærileg námskeið og einkarekin fræðslufyrirtæki bjóða, t.d. á sviði tölvufærni, viðskipta, mannlegra samskipta o.s.frv.

Aftur er það svo að við þetta niðurgreidda verð ríkisháskóla eða ríkisstyrktra háskóla geta einkarekin fræðslufyrirtæki ekki keppt og hafa misst mikil viðskipti, sem kemur til viðbótar við tjón þeirra vegna heimsfaraldursins. Það er einfaldlega staðreynd og gildir þá einu að Eftirlitsstofnun EFTA hafi komizt að þeirri niðurstöðu fyrr í mánuðinum að ríkisstyrkirnir hafi rúmazt innan ákvæða EES-samningsins. Ákvarðanir menntamálaráðherrans ollu einkareknum fyrirtækjum miklu tjóni, sem hefði mátt forðast.

Nú eru kosningar framundan og má gera ráð fyrir að menntamálaráðherrann, fjármálaráðherrann, samgönguráðherrann og aðrir þingmenn hafi á vörum falleg orð um mikilvægi þess að búa fyrirtækjum hagstætt rekstrarumhverfi. Það væri nú ekki úr vegi að kjósendur spyrðu þetta fólk af hverju það lét þá klúður eins og það sem lýst er hér að framan viðgangast á sinni vakt.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Málsvari fólks sem er ekki í vinnu?

17. júní 2021

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 17. júní 2021. 

Þeir sem héldu að Alþýðusamband Ísland væri málsvari vinnandi fólks hljóta að vera hissa á framgöngu forystumanna þess undanfarið.

Atvinnurekendum, sem hafa boðið fólki á atvinnuleysisskrá vinnu í samstarfi við Vinnumálastofnun og fengið t.d. þau svör að það henti betur að vera á bótum en að þiggja starfið, hefur þótt sérkennilegt að sjá forystu ASÍ taka upp hanzkann fyrir þennan hóp. Rétt er að taka fram að hér er ekki verið að tala um nein undirboð heldur laun samkvæmt kjarasamningum og góðan aðbúnað. ASÍ virðist þannig líta á sig sem sérstakan málsvara fólks sem er ekki raunverulegir atvinnuleitendur heldur kýs að þiggja bætur á kostnað félagsmanna ASÍ og annars vinnandi fólks þótt það eigi kost á öðru. Það er skrýtið að ASÍ vilji ekki tala um þennan vanda eins og hann er.

Það er líka sérkennilegt að sjá forystu ASÍ beita sér af mikilli hörku gegn fyrirtæki sem hyggst byggja upp atvinnustarfsemi af krafti og búa til hundruð starfa af því að samningar þess og stéttarfélaga passa ekki inn í sniðmát ASÍ. Framganga ASÍ gegn flugfélaginu Play og starfsfólki þess hefur verið með miklum ólíkindum. Sambandið hefur þannig hvatt neytendur til að sniðganga Play, sem er nánast einsdæmi í íslenzkri viðskiptasögu.

ASÍ beitir sér gegn félagi sem mun ekki sízt fjölga störfum á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysi er hvað mest. Sambandið vinnur um leið gegn virkri samkeppni á flugmarkaði, sem er mikið hagsmunamál almennings.

Getur verið að ASÍ hafi misst sjónar á því grundvallaratriði að atvinnuuppbygging er frumforsenda þess að félagsmenn þess hafi vinnu og njóti góðra kjara? Getur verið að þeir hinir sömu félagsmenn styðji þá stefnu forystunnar að verja fremur atvinnuleysisskrána en að fjölga störfum eftir eina erfiðustu kreppu í manna minnum?

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Varan okkar er ekki samkeppnisfær – kaupið hana samt

16. júní 2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Markaðnum 16. júní 2021. 

Íslenzk matvælafyrirtæki þurfa mörg hver að nota mjólkur- og undanrennuduft í framleiðslu sína, sum í stórum stíl. Þessi hráefni eru notuð t.d. í súkkulaði og annað sælgæti, ís, kex og kökur og unnar kjötvörur.

Tvær aðgerðir stjórnvalda ráða því að innlendur matvælaiðnaður er þvingaður til að kaupa þessar vörur af einu fyrirtæki, Mjólkursamsölunni, á verði sem er langt yfir heimsmarkaðsverði. Annars vegar hefur undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum leitt af sér algjöra yfirburðastöðu MS og Kaupfélags Skagfirðinga á mjólkurmarkaðnum. Það er engin innlend samkeppni í sölu mjólkur- og undanrennudufts. Hins vegar eru gífurlega háir tollar á innfluttu mjólkurdufti þar sem Bændasamtökin náðu á sínum tíma „frábærum“ samningi við stjórnvöld um að tollarnir skyldu hækkaðir duglega. Það er engin erlend samkeppni heldur.

Hver sá sem rekur fyrirtæki getur sett sig í þau spor að vera þvingaður til að kaupa aðföng af einu fyrirtæki eingöngu. Viðskiptavinir MS kaupa ekki mjólkurduft vegna verðsins eða gæðanna eftir að hafa skoðað aðra kosti. Þeir kaupa vöruna af því að valdhafarnir hafa rænt þá öllum eðlilegum valkostum. Það er í hæsta máta óeðlileg staða.

Sættir matvælaiðnaðurinn sig við mismunun?
Við þetta bætist að verðið sem Mjólkursamsalan lætur innlenda viðskiptavini sína greiða fyrir mjólkurduft er hátt í tvöfalt hærra en það sem erlendir viðskiptavinir sama fyrirtækis þurfa að borga. Þar er um að ræða erlend matvælafyrirtæki, sem oft og tíðum eru í beinni samkeppni við íslenzk matvælafyrirtæki.

Sú spurning vaknar óneitanlega hversu lengi íslenzkur matvælaiðnaður geti þolað þessa mismunun. Nú er t.d. stutt síðan erlendir fjárfestar, í matvælaiðnaði á Norðurlöndum, keyptu allt hlutaféð í stærsta sælgætisframleiðanda landsins. Hvernig ætli gangi að útskýra fyrir þeim að íslenzka mjólkurduftið sem þeir geta keypt ódýrt erlendis sé dýrara á Íslandi, þar sem það er framleitt? Að það sé í raun ódýrara að framleiða úr íslenzku hráefni erlendis og líklega allra bezt að framleiða bara erlendis úr erlendu hráefni?

Því hefur verið haldið fram að undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, sem leiddi af sér sameiningu allra mjólkurafurðastöðva í eina samstæðu, hafi leitt af sér gríðarlega hagræðingu í mjólkuriðnaðinum. Sú hagræðing dugar greinilega ekki til að mjólkuriðnaðurinn treysti sér til að selja öðrum matvælaiðnaði aðföng á samkeppnishæfu verði.

Mjólkuriðnaðurinn vill ekki skipta við sjálfan sig
Ýmislegt bendir til að íslenzkur mjólkuriðnaður líti ekki einu sinni svo á sjálfur að íslenzkar prótínvörur eins og undanrennuduftið og skyrið séu alþjóðlega samkeppnisfærar. Á sínum tíma þrýsti mjólkuriðnaðurinn mjög á um að fá stærri tollfrjálsan innflutningskvóta í löndum Evrópusambandsins fyrir íslenzka skyrið. Hins vegar ber svo við að eftir að tollasamningur Íslands og ESB, þar sem skyrkvótinn rúmlega tífaldaðist, tók gildi árið 2018 hefur útflutningur á skyri til ESB minnkað. Ástæðan er sú að Mjólkursamsalan kýs fremur að framleiða skyr samkvæmt „íslenzkri uppskrift“ í aðildarríkjum ESB úr þarlendri mjólk. Líklegasta skýringin á því, þótt forsvarsmenn MS fáist ekki til að segja það opinberlega, er að íslenzku hráefnin til framleiðslunnar séu einfaldlega of dýr.

Félag atvinnurekenda greindi frá því á dögunum að í viðræðum um fríverzlunarsamning Íslands og Bretlands hefðu brezk stjórnvöld boðið umtalsverðan tollfrjálsan innflutningskvóta fyrir íslenzkt undanrennuduft, á móti auknum innflutningsheimildum fyrir brezkar búvörur á Íslandi. FA furðaði sig á að í landbúnaðinum hefðu menn ekki viljað grípa þetta tækifæri, þar sem þá hefði hin nýja skyrverksmiðja Íseyjar Skyr í Wales getað unnið skyr úr íslenzku hráefni.

Guðmundur Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sagði um þetta í grein í Bændablaðinu: „Ef þetta hefði nú allt gengið eftir þá átti að flytja út iðnaðarvöru fyrir fullunnar landbúnaðarvörur í skiptum. Hvaða heilvita manni hefði dottið í hug að flytja út störf svo mögulegt væri að koma út iðnaðarvöru á verði sem hefði aldrei staðist samkeppni í hinum stóra heimi?“ Þar höfum við það – meira að segja formaður Bændasamtakanna staðfestir að íslenzka undanrennuduftið sé ekki samkeppnisfært. Hann virðist hins vegar ekki átta sig á því að með núverandi fyrirkomulagi er einmitt verið að flytja út störf frá innlendum framleiðslufyrirtækjum sem eru í lakari samkeppnisstöðu vegna þessarar sérhagsmunagæzlu í þágu einokunar og okurs.

Stjórnvöld verða að stíga inn í
Meðal hagsmunaaðila í landbúnaðinum virðist eindregin samstaða um að það skuli pína íslenzkan iðnað til að kaupa aðföng á ósamkeppnisfæru verði. Það er ekki við því að búast að Mjólkursamsalan skipti að eigin frumkvæði um stefnu í þessu máli og reyni að bjóða innlendum viðskiptavinum sínum verð sem stenzt alþjóðlegan samanburð. Hér verða stjórnvöld að stíga inn í, annars vegar með því að afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, og hins vegar með því að lækka tolla þannig að matvælaiðnaðurinn geti nálgazt aðföng á skynsamlegu verði.

Núverandi staða er algjörlega óviðunandi. Það verður forvitnilegt að sjá, nú þegar kosningar nálgast, hverjir vilja breyta henni og hverjir vilja óbreytt ástand.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin