Samherji

Pottar með hreinu og köldu Atlantshafi ryðja sér til rúms

Magnús Sævarsson kokkur á Björgu EA 7 í ísköldum pottinum / myndir samherji.is/björn Steinbekk

Magnús Sævarsson kokkur á Björgu EA 7 í ísköldum pottinum / myndir samherji.is/björn Steinbekk

Störfin til sjós eru á köflum erfið og mikilvægt að áhöfnin hugi að líkamlegri heilsu. Því skiptir miklu máli að aðbúnaður um borð sé sem bestur.

Í flestum stærri togurum er líkamsræktaraðstaða og gufubað, sem áhafnirnar nýta sér óspart. Nýjasta nýtt í þessum efnum eru ískaldir pottar, einn slíkur er einmitt um borð í Björgu EA 7, ísfisktogara Samherja. Pottinum hefur verið haganlega komið fyrir í stefninu á trolldekkinu og segir Magnús Sævarsson kokkur að notkunin hafi aukist jafnt og þétt, enda allra meina bót að fara í ískalt sjóbað. Sömuleiðis er pottur um borð í Harðbak EA 3, sem hannaður er fyrir bæði kaldan sjó og heitt vatn.

Helmingur áhafnarinnar fer reglulega í pottinn

“Við vorum lengi með venjulegt kar en í fyrra fengum við sérsmíðaðan pott og í kjölfarið hefur notkunin aukist jafnt og þétt. Tandurhreinn sjór úr Atlantshafinu er einfaldlega settur í pottinn og til þess að kæla sjóinn er ískrapa úr vinnslukerfinu dælt í hann, sérstaklega yfir sumartímann. Mér er sagt að sjóböð bæti ónæmiskerfi líkamans, þannig að hann geti unnið betur á ýmsum kvillum, svo sem slitgigt og bólgum. Ég giska á að rúmlega helmingur áhafnarinnar fari í pottinn reglulega enda er þetta afskaplega hollt og gott, um það eru allir sammála sem ánetjast pottinum,” segir Magnús Sævarsson kokkur á Björgu.

Ávanabindandi

Sjálfur segist Magnús gjarnan fara snemma á morgnana í pottinn, venjulega eftir að hafa afgreitt morgunkaffið.

“Þegar menn eru lengi í aðgerð er fátt betra en að skella sér í ískaldan pottinn og kannski í gufu eða líkamsræktina á eftir. Við getum kallað þetta frost og funa, fara í íspottinn og síðan í vel heitt gufubaðið. Svona pottur er líka um borði í Kaldbaki EA og ég er nokkuð viss um að pottum fjölgi í flotanum í framtíðinni. Ég finn jákvæðan mun á mér eftir að hafa legið í pottinum í þrjár til fimm mínútur, þetta er hreinlega ávanabindandi.”

Heitt og kalt í Harðbak EA

Um borði Harðbak EA er sömuleiðis pottur, sem ýmist er fylltur með heitu vatni eða köldu og hreinu Atlantshafinu. Guðmundur I. Guðmundsson skipstjóri segir að potturinn sé ágætlega nýttur.

„Strákarnir fara venjulega í pottinn í upphafi frívaktar og flestum þykir gott að dýfa sér ofan í hreint og kalt Atlantshafið. Potturinn hjá okkur er einangraður, þannig að hann hentar undir bæði kalt og heitt vatn sem er ákveðinn kostur. Fyrir nokkrum árum síðan datt sjálfsagt engum í hug þægindi á borð við slíka potta, ég er ekki frá því að svona pottar verði taldir sjálfsagðir eftir nokkur ár. Maður les ekki annað út úr orðum sérfræðinga en að þetta geri fólki gott, ég tala nú ekki um sjómenn sem stunda líkamlega erfiða vinnu,“ segir Guðmundur skipstjóri á Harðbak.

Íspottum fjölgi í framtíðinni

“ Nýjustu skipin í flotanum eru hönnuð með það í huga að búa sem best að áhöfn og gera lífið sem þægilegast eftir því sem slíkt er hægt. Eftir nokkur ár verða svona pottar staðalbúnaður,“ segja þeir Magnús Sævarsson og Guðmundur I. Guðmundsson.

Samherji

Landslag, nýtt útilistaverk Brynhildar Þorgeirsdóttur við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík

Brynhildur Þórarinsdóttir listakona / myndir Þórhallur Jónsson/samherji.is

Brynhildur Þórarinsdóttir listakona / myndir Þórhallur Jónsson/samherji.is

Útilistaverk eftir listakonuna Brynhildi Þorgeirsdóttur hefur verið sett upp við fiskvinnsluhús Samherja hf. á Dalvík. Verkið nær yfir þrjú beð og mynda eina heild sem ber titilinn Landslag. Brynhildur segir líklega einsdæmi að einkafyrirtæki láti gera eins viðamikið listaverk og Landslag er.

Hvalbak þungamiðja verksins

Brynhildur Þorgeirsdóttir hefur á löngum ferli sínum sem listakona skapað sitt eigið steinaríki og verk hennar eru í flestum söfnum landsins auk safna í ýmsum löndum austan og vestan hafs. Hún vinnur mikið með sandsteypt gler sem lýtur sömu lögmálum og hraunrennsli og eru verkin oftast lífrænir skúlptúrar, sem bera sterk einkenni höfundar. Brynhildur leitar gjarnan til japanskrar garðamenningar við gerð útilistaverka sinna en þar er lögð áhersla á að skapa jafnvægi og kyrrð, þar sem grunnurinn byggir á formi þríhyrnings og píramíta.

Hvalbak kemur ítrekað fyrir í listsköpun Brynhildar. Hvalbak er í jöklafræði klöpp, sem skriðjökull hefur sorfið þannig að hún líkist helst baki á hval. Hvalbak er einmitt þungamiðjan í nýja útilistaverkinu á Dalvík.

Stærra en til stóð í upphafi

„Ég er komin með um fjörutíu ára starfsreynslu, þannig að reynslubankinn er orðinn nokkur digur, skulum við segja,“ segir Brynhildur er hún var spurð um þetta nýjasta listaverk sitt.

„Á teikningum fiskvinnsluhússins gerir Fanney Hauksdóttir arkitekt ráð fyrir útilistaverki og það var síðan Helga Steinunn Guðmundsdóttir, sem er í stjórn Samherja hf., sem hafði samband við mig og óskaði eftir minni aðkomu að gerð útilistaverks sem á endanum varð reyndar mun stærra og umfangsmeira en til stóð í upphafi. Það er ögrandi að takast á við svona stórt verkefni utanhúss og á vel við mig, enda má segja að ég hafi alla tíð verið tengd landslagi í minni listsköpun. Við þrjár náðum strax vel saman og útkoman er sem sagt að líta dagsins ljós þessar vikurnar.“

Melgresið tekið úr sjávarkambinum skammt frá fiskvinnsluhúsinu

Útilistaverkið nær yfir þrjú beð við fiskvinnsluhúsið og inniheldur þrjú fjöll, sjö steina, klett og sex form sem þakin eru melgresi, sem óx skammt frá húsinu. Saman mynda þessi listaverk eina heild.

„Hryggjarstykkið í listaverkinu er hvalbak, ljós skúlptúr sem brýst upp úr steinöldunni og stefnir í suðaustur og á haf út. Hvalbakið fæðir svo af sér lögun melgresisformana. Fjöllin sem eru nokkuð áberandi eru sett saman úr átta einingum og tindarnir eru úr plastefni, ljós kviknar svo á þeim er skyggja tekur. Steinabeðið við inngang hússins sem rammar sig inn með fíngerðari möl er einskonar skrautbeð í þessum skúlptúrgarði en steinarnir þar eru steyptir í sandmót með sömu aðferð og gler er steypt í sand og innfelld í steinana eru form úr plastefni. Í beðunum vex einungis ein gróðurtegund, sem er melgresi, en það á sér langa og merkilega sögu hér á landi. Starfsmenn Steypustöðvarinnar á Dalvík sáu um alla jarðvinnu og aðstoðuðu mig við að hlaða upp sandformin, melgresið var tekið í sjávarkambinum skammt frá sjálfu fiskvinnsluhúsinu. Útkoman er lifandi mynd sem á eftir að vaxa og dafna hérna, en auðvitað þarf að hugsa vel um melgresið og hjálpa því að róta sig í manngerðum sandhólunum. Samstarfið við starfsmenn Steypustöðvarinnar á Dalvík var einstakt og sömuleiðis var allt starfsfólk fiskvinnsluhússins alltaf boðið og búið til að rétta fram hjálparhönd.“

Speglarnir stór landslagsmynd

„Já, ég er mikil hálendismanneskja, þannig að það kom aldrei til greina að hafa mikinn gróður, heldur tengja saman fjöruna og hálendið.

Framhlið hússins er líka skemmtileg, stórir gluggarnir spegla umhverfið. Í raun má segja að framhliðin sé stór landslagsmynd og fyrir innan er matsalur starfsfólksins. Þegar skyggni er lítið eða myrkur úti, er alltaf útsýni til fjallanna tveggja með upplýstum demantstindum og úr fjarlægð má svo sjá fljótandi fjallahringi.“

Góður staður til að staldra við og hugleiða

„Ég er ánægð með verkið og þetta er stór pakki. Það er í raun einstakt að einkafyrirtæki leggi í svona stórt verkefni. Flest láta sér nægja að kaupa málverk sem er komið fyrir á skrifstofum og göngum. Þetta listaverk er algjörlega sér á báti. Fyrir mér er þessi skúlptúrgarður skemmtileg viðbót við athafnarsvæðið hér á Dalvík og verður vonandi góður staður til að staldra við og hugleiða,“ segir Brynhildur Þorgeirsdóttir.

Á næstunni verða sett upp upplýsingaskilti við fiskvinnsluhúsið, þar sem sagt er frá útilistaverkinu.

Halda áfram að lesa

Samherji

Makrílvertíðin: Stærsta holið 660 tonn

Hjörtur Valsson skipstjóri í brúnni á Vilhelm Þorsteinssyni í morgun/ myndir; Samherji.is/Stefán Pét…

Hjörtur Valsson skipstjóri í brúnni á Vilhelm Þorsteinssyni í morgun/ myndir; Samherji.is/Stefán Pétur Hauksson

Uppsjávarskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, er á leiðinni til Neskaupstaðar með 1.580 tonn af makríl. Stærsta holið var um 660 tonn, sem er jafnframt hið stærsta á vertíðinni. Hjörtur Valsson skipstjóri segir ómögulegt að áætla hvernig vertíðin þróast, makríllinn syndi hratt til norðurs.

Landað var úr skipinu í Færeyjum síðasta sunnudag og haldið var aftur áleiðis á miðin um kvöldið. Þau eru norður af Jan Mayen, siglingin var um 600 sjómílur. Hjörtur Valsson segir að veiðarnar hafi gengið vel og hráefnið gott til vinnslu.

Innan við sólarhring að fylla skipið

„Fyrsta holið skilaði okkur um 260 tonnum eftir að hafa dregið í fjóra tíma. Við köstuðum þrisvar sinnum, auk þess sem dælt var yfir til okkar einu holi úr Beiti NK. Þetta er ágætis fiskur eða um 480 grömm. Síðasta holið var mjög stórt, 660 tonn. Samtals vorum við nítján klukkustundir á veiðum í þessum túr. Allur búnaður í skipinu er öflugur og vel gekk að dæla hráefninu í tankana og kæla, þannig að það haldist sem best til vinnslu.“

Makríllinn á hraðferð

„Veiðin hefur verið ágæt síðasta hálfa mánuðinn en það er með öllu ómögulegt að sjá fyrir sér hvernig vertíðin þróast. Makríllinn er á hraðferð norður, færir sig um 30 til 50 mílur á sólarhring. Miðin eru austan við Jan Mayen, norðan við 72. gráðu, þannig að siglingin á miðin lengist í raun með hverjum deginum sem líður. Ég held að flotinn hafi aldrei áður sótt svona norðarlega. Þetta þýðir að megnið af túrunum fer í að sigla fram og til baka en á móti kemur að veiðin er nokkuð góð, svo og hráefnið.“

Unnið alla verslunarmannahelgina í Neskaupstað

„Það er blíða þessa stundina og sléttur sjór en ég býst við mótvindi á leiðinni. Siglingin til Neskaupstaðar er um 550 sjómílur og við löndum á föstudaginn, sem þýðir að það verður unnið alla verslunarmannahelgina í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Mér skilst að það taki hátt í tvo sólarhringa að vinna hráefnið sem við komum með.“

Strax á miðin að lokinni löndun – Mikilvægi öflugs flota

„Það er alltaf gaman þegar vel gengur eins og núna. Siglingin á miðin er löng og þá er líka eins gott að flotinn sé öflugur, vel búinn og skili góðu hráefni. Olíukostnaðurinn hefur hækkað mikið og þá kemur sér vel að hafa skip sem nýtir afl vélanna sem best. Við erum átta í áhöfn, allt saman hörku karlar. Skipið er frábært og við erum að landa góðu hráefni. Á vertíð eins og þessari er ekkert verið að spá í verslunarmannahelgina, við höldum á miðin strax að lokinni löndun,“ segir Hjörtur Valsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11.

Halda áfram að lesa

Samherji

Ákvað snemma að feta í fótspor forfeðranna

Hreinn Egget Birkisson í brúnni á Björgu EA 7. Myndir/samherji.is/einkasafn/Björn Steinbekk

Hreinn Egget Birkisson í brúnni á Björgu EA 7. Myndir/samherji.is/einkasafn/Björn Steinbekk

„Já, það má klárlega segja að sjómennska sé í blóðinu og þá sérstaklega skipstjórn. Pabbi er skipstjóri, annar afi minn stundaði sjóinn í nokkur ár og hinn var skipstjóri, einnig langafar og frændur sem voru skipstjórar og einn vélstjóri þannig að ég er á vissan hátt að feta í fótspor forfeðranna í Bolungarvík,“ segir Hreinn Eggert Birkisson fyrsti stýrimaður á Björgu EA 7, togara Samherja.

Sex ára og hauga bræla

„Fyrsti túrinn minn var með Guðmundi frænda skipstjóra á frystitogaranum Baldvin Þorsteinssyni EA. Við vorum tveir, ég sex ára gutti og frændi minn Heiðmar Guðmundsson, níu ára, sem fengum að fara með og þetta var náttúrulega heilmikið ævintýri fyrir okkur. Pabbi var þá á öðru skipi Samherja, Þorsteini EA, og vorum við ferjaðir yfir til hans eftir viku úthald með Guðmundi og hans áhöfn. Ég man ágætlega eftir þessum túr, varð sjóveikur og í minningunni var hauga bræla sem ég er nú ekki viss um að hafi verið kórrétt.“

Framtíðin ákveðin

Árin liðu og sautján ára var Hreinn munstraður sem háseti á Baldvin Þorsteinsson. Þar var stefnan varðandi framtíðina ákveðin. Sjómennskan heillaði sem sagt.

„Þegar ég hafði verið tvö sumur á sjó fann ég að sjómennskan átti ágætlega við mig. Góðu heilli stóðu foreldrar mínir með mér og úr varð að ég fór í Skipstjórnarskólann, sem síðar breyttist í Tækniskólann. Þaðan útskrifaðist ég svo með full skipstjórnarréttindi. Þau sögðu heillavænlegast að ég menntaði mig í sjómennsku, fyrst ég vildi fara á þessa braut í lífinu.“

Valinn maður í hverju rúmi

Hreinn hefur aðallega verið á Björgu frá því togarinn kom nýr til landsins, fyrir um fimm árum síðan. Fyrst sem annar stýrimaður og síðustu árin sem fyrsti stýrimaður.

„Já, ég náði í skipið til Tyrklands. Það eru viss forréttindi að taka við nýju skipi, móta og þróa alla verkferla um borð í samvinnu við áhöfnina. Öll sú vinna hefur gengið ótrúlega vel enda vanir menn í hverju rúmi. Það hjálpaði mér klárlega að hafa verið annar stýrimaður í upphafi, þannig náði ég að kynnast öllum þáttum á millidekkinu í þaula. Í raun má segja að togarinn sé fljótandi tölvuver, sjálfvirknin er ansi mikil sama hvert litið er. Allur aðbúnaður er góður, sjóhæfnin er gríðarleg og skipið fer vel með mannskapinn. Skoðanir um skrokklagið eru nokkuð skiptar en sjálfum finnst mér það fallegt enda belgurinn á stefninu hrein snilld.“

Ekki einhver stráklingur

Hreinn er í yngri hluta áhafnar Bjargar. Reyndar er það svo að einn í áhöfninni var einmitt á Þorsteini EA þegar þeir frændur fóru á milli skipa í sínum fyrsta túr.

„Þetta er ekkert vandamál í mínum huga enda er sjómennska fyrst og fremst sameiginlegt verkefni allra í áhöfninni, þar sem traustið er í forgrunni. Nei, ég verð ekkert var við að það sé litið á mig sem einhvern strákling, síður en svo. Áhöfnin er einstaklega samheldin enda hafa flestir verið hérna frá upphafi og það segir sína sögu.“

Gott heilræði

Hreinn segist ekki hafa komið sér upp alvöru hjátrú, kannski gerist eitthvað slíkt með tíð og tíma. Birkir Hreinsson, faðir Hreins, gaf honum heilræði fyrir fyrsta túrinn sem fyrsti stýrimaður.

„Hann hefur reyndar gaukað að mér nokkrum góðum og hagnýtum ráðum í gegnum tíðina. Hans fyrsta heilræði þegar ég fór fyrst í brú var að yfirgefa aldrei brúna nema þar væri einhver til að taka við stjórn. Þetta er gott ráð,“ segir Hreinn Eggert Birkisson fyrsti stýrimaður á Björgu EA 7.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin