Connect with us

Innlent

Ráðherra sækir Austfirðinga heim í kjölfar aurflóða á Seyðisfirði

Published

on

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, heimsótti Seyðisfjörð í dag og kynnti sér aðstæður í kjölfar skriðufallanna sem þar urðu í síðasta mánuði. Með ráðherra í för voru formaður og starfsmaður Ofanflóðanefndar og sérfræðingar frá snjóflóðasetri Veðurstofu Íslands á Ísafirði og EFLU verkfræðistofu.

Ráðherra kynnti sér einnig varnir  á Eskifirði, Norðfirði og Fáskrúðsfirði en á Eskifirði var líka talin hætta á skriðuföllum í desember sl. Þá fundaði ráðherra með forsvarmönnum Múlaþings og Fjarðarbyggðar og var á fundunum farið yfir helstu verkefni Ofanflóðanefndar, fyrirhugaðar varnir og stöðu framkvæmda.

Ofanflóðavarnir, þ.e. varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Jarðfræðirannsóknir Veðurstofu Íslands, sem unnar voru á árabilinu 2003–2017, sýna að stórar, forsögulegar skriður hafa fallið á Seyðisfirði þar sem suðurhluti kaupstaðarins stendur nú. Endurskoðað og útvíkkað hættumat fyrir Seyðisfjörð var staðfest af umhverfis- og auðlindaráðherra í mars 2020. Unnið er að endurskoðun hættumatsins með hliðsjón af þeim upplýsingum sem munu fást í kjölfar skriðufallanna með vöktun og mælingum. Einnig er unnið að bráðavörnum til varnar byggðinni.

Ummerkin um forsögulegu skriðurnar sýndu að endurskoða þurfti hættumatið frá 2002 undir Neðri-Botnum, hvar skriðuföllin voru í suðurhluta bæjarins og hefur Ofanflóðavakt Veðurstofunnar fylgst sérstaklega með skriðuhættu úr Neðri-Botnum síðan þetta varð ljóst. Ráðstafanir til að bæta öryggi íbúa á þessu svæði felast m.a. í eftirliti og rýmingu húsnæðis þegar þörf krefur, þangað til gripið hefur verið til varanlegra aðgerða til þess að draga úr þessari hættu.

Veðurstofan hefur auk þess sett fram tillögur um frekari vöktun á yfirvofandi skriðuhættu í sunnanverðum Seyðisfirði og er vinna við uppsetningu mælibúnaðar þegar hafin. Meðal tillagna Veðurstofunnar eru daglegar mælingar á hreyfingu jarðlaga með fjölgun spegla í Neðri-Botnum. Niðurstöður mælinganna sendast sjálfvirkt til náttúruvárvaktar Veðurstofunnar í Reykjavík. Einnig eru hafnar tíðari mælingar á vatnsþrýstingi í borholum, en slíkar mælingar voru þegar í gangi á svæðinu vegna vinnu við frumathugun varnarkosta. Þá verði síritandi GPS-mælum komið fyrir á nokkrum stöðvum í Neðri-Botnum.

Varanlegar aðgerðir til að verja byggðina fyrir skriðuföllum eru einnig í undirbúningi og hefur EFLA verkfræðistofa, í samvinnu við svissneska sérfræðinga, unnið að frumathugun varna vegna skriðuhættu fyrir svæðið. Reiknað er með að tillögur að aðgerðum í fyrsta áfanga ofanflóðavarna fyrir Botnasvæðið liggi fyrir í vor. Markmið varnaraðgerðanna er að tryggja öryggi íbúa á svæðinu. Einnig er stefnt að því að hefja framkvæmdir við snjóflóðavarnir í norðanverðum Seyðisfirði á næsta ári.

,,Það er átakanlegt að sjá ummerki þeirra hamfara sem riðu yfir Seyðisfjörð í desember sl. og heyra, frá fyrstu hendi, lýsingar Seyðfirðinga á þessum aðstæðum. Ég er þakklátur fyrir allt okkar færa fólk sem með samstilltum hætti vinnur nú hörðum höndum að því að bregðast við aðstæðunum með því að veita Seyðfirðingum nauðsynlega hjálp og stuðning, vinna að endurskoðuðu hættumati, vöktun og viðbragði til varnar byggðinni. En það er alveg ljóst að atburðirnir á Austurlandi í desember sl. sýna að við þurfum að fylgjast betur með skriðuhættu víðar um land, m.a. í ljósi hækkandi hitastigs og aukinnar úrkomuákefðar í samhengi loftslagsbreytinga“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Innlent

Ísland leggur fram 285 milljónir króna til mannúðaraðstoðar í Jemen

Published

on

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tilkynnti um 285 milljóna króna heildarframlag Íslands, til þriggja ára, á áheitaráðstefnu um Jemen í dag. Framlagið skiptist á milli þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna, sem vænta þess að áheitaráðstefnan skili 3,85 milljörðum bandarískra dala, tæplega 500 milljörðum íslenskra króna. Ekki verður ljóst fyrr en í lok ráðstefnunnar undir kvöld hvort sú fjárhæð náist.

„Jemenska þjóðin er á barmi hungursneyðar sem er sú skelfilegasta sem við höfum séð í áratugi. Þörfin fyrir árangursríka, skilvirka og skipulagða fjármögnun mannúðaraðgerða í Jemen hefur því aldrei verið eins brýn,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi á ráðstefnunni fyrr í dag sem fór fram gegnum fjarfundabúnað með þátttöku rúmlega eitt hundrað fulltrúa ríkisstjórna.

Guðlaugur Þór greindi frá því í ávarpinu að framlag Íslands skiptist á milli þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna sem allar væru áherslustofnanir í stefnu Íslands í mannúðarmálum. Um er að ræða svæðasjóð vegna Jemen hjá samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Af 95 milljóna króna árlegu framlagi næstu þrjú árin ráðstafar UNFPA 40 milljónum, WFP 30 milljónum og svæðasjóður OCHA 25 milljónum.

„Íbúar Jemens hafa þjáðst of mikið og of lengi. Það þarf að binda enda á átökin með varanlegri pólitískri lausn,“ voru lokaorð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á áheitaráðstefnunni í dag.

„Lífið er á þessari stundu óbærilegt fyrir flesta íbúa Jemen,“ sagði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu áður en ráðstefnan hófst. Hann sagði jafnframt að börn í Jemen upplifðu bernskuna sem „sérstaka tegund af helvíti“ og brýnt væri að koma á friði og takast á við afleiðingar átakanna. 

Áheitaráðstefnur sem þessar hafa jafnan verið haldnar árlega frá því stríðið í Jemen hófst fyrir tæplega átta árum. Markmið þeirra er að tryggja nauðsynlegan mannúðarstuðning við óbreytta borgara í Jemen en hvergi í heiminum er neyðarástand talið alvarlegra. Um átta af hverjum tíu íbúum þurfa á mannúðaraðstoð að halda og ástandið versnar dag frá degi.

Á síðasta ári var af hálfu Íslands varið 105 milljónum íslenskra króna til mannúðarmála í Jemen, 65 milljónum var ráðstafað til UNFPA og 40 milljónum til WFP.

Continue Reading

Alþingi

Sérstök umræða um innviði og þjóðaröryggi þriðjudaginn 2. mars

Published

on
1.3.2021Þriðjudaginn 2. mars um kl. 13:45 verður sérstök umræða um innviði og þjóðaröryggi. Málshefjandi er Njáll Trausti Friðbertsson og til andsvara verður forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir.

NjallTrausti_KatrinJak

Continue Reading

Innlent

COVID-19: Upplýsingar um bólusetningar í viku hverri

Published

on

Um 8.900 einstaklingar verða bólusettir á landsvísu í þessari viku, þ.e. dagana 1. – 7. mars. Þetta kemur fram í tilkynningu sóttvarnalæknis í dag sem birtir áætlun um bólusetningar hverrar viku á vef embættis landlæknis. Eins og fram kemur í tilkynningunni verða einstaklingar í aldurshópnum 80 ára og eldri bólusettir með 4.600 skömmtum af bóluefni Pfizer og 4.300 starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila verða bólusettir með bóluefni Astra Zeneca. Allt bóluefni sem fer í dreifingu í vikunni verður notað til að bólusetja fyrri bólusetningu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) annast bólusetningar í sínu heilbrigðisumdæmi. Eins og fram kemur í tilkynningu HH í dag verður öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins sem eru fæddir 1939 eða fyrr boðin bólusetning sem fram fer í Laugardagshöllinni þriðjudaginn 2. mars og miðvikudaginn 3. mars. Nánari upplýsingar um framkvæmdina eru á vef HH.

Continue Reading

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin