Stjórnarráðið

Ráðherra skipar í embætti þriggja skrifstofustjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu

Nýtt skipurit atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins tók gildi í þessum mánuði en með breytingunum urðu til þrjár nýjar fagskrifstofur í stað tveggja áður. Um er að ræða skrifstofu landbúnaðarmála, skrifstofu matvælaöryggis og fiskeldis og skrifstofu sjávarútvegsmála.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað skrifstofustjóra fyrir hinar nýju fagskrifstofur. Það eru þau Ása Þórhildur Þórðardóttir, skrifstofustjóri landbúnaðarmála, Áslaug Ýr Hólmgeirsdóttir, skrifstofustjóri sjávarútvegsmála og Kolbeinn Árnason, skrifstofustjóri matvælaöryggis- og fiskeldis. Þau taka öll til starfa á næstunni.

Embættin voru auglýst laus til umsóknar þann 18. júlí sl.  en alls bárust 93 umsóknir. Ráðgjafandi hæfnisnefnd mat 10 umsækjendur mjög vel hæfa.

Ása Þórhildur Þórðardóttir hefur verið skipuð í embætti skrifstofustjóra landbúnaðarmála.
Hún er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Ása Þórhildur hefur starfað innan Stjórnarráðsins frá árinu 2011 þegar hún hóf störf í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Hún starfaði í velferðarráðuneytinu á árunum 2014-2018 en kom til starfa í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á árinu 2018. Frá 2019 hefur Ása Þórhildur verið settur skrifstofustjóri á skrifstofu matvæla og landbúnaðar.

Alls bárust 27 umsóknir um starfið. Ráðgefandi hæfnisnefnd mat Ásu Þórhildi mjög vel hæfa til að gegna embættinu.


Kolbeinn Árnason hefur verið skipaður í embætti skrifstofustjóra matvælaöryggis- og fiskeldis
Hann er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og AMP gráðu frá IESE Business School í Barcelona. Á árum áður gegndi Kolbeinn starfi skrifstofustjóra alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins, hann var fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins hjá fastanefnd Íslands við Evrópusambandið í Brussel, skrifstofustjóri á skrifstofu fiskveiðistjórnunar í sjávarútvegsráðuneytinu, yfirlögfræðingur og framkvæmdastjóri lögfræðideildar skilanefndar og slitastjórnar Kaupþings og framkvæmdastjóri samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Síðustu ár hefur Kolbeinn starfað sem lögmaður.

Alls bárust 34 umsóknir um starfið. Ráðgefandi hæfnisnefnd Kolbein mjög vel hæfan til að gegna embættinu.


Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir hefur verið skipuð í embætti skrifstofustjóra sjávarútvegsmála.
Hún er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í sjávarútvegsfræði frá sama skóla. Hún hefur lokið diplómanámi í hafrétti frá Rhodes Academy. Áslaug Eir hefur starfað hjá Fiskistofu frá árinu 2007. Frá árinu 2010 til 2013 starfaði Áslaug Eir sem deildarstjóri hjá stofnuninni og frá 2014 hefur hún gegnt stöðu sviðsstjóra veiðieftirlits- og lögfræðisviðs og verið staðgengill fiskistofustjóra.

Alls bárust 32 umsóknir um starfið. Ráðgefandi hæfnisnefnd mat Áslaugu Eir mjög vel hæfa til að gegna embættinu.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ungir Íslendingar geti búið og starfað í Bretlandi

Samkomulag er í höfn milli Íslands og Bretlands sem gerir ungu fólki frá Íslandi, á aldrinum 18 til 30 ára, mögulegt að búa og starfa í Bretlandi í allt að tvö ár. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samkomulagið í dag en það gerir ungum Bretum að sama skapi mögulegt að búa og starfa á Íslandi. 

Viðræður um framtíðarsamband Íslands og Bretlands hafa verið afar umfangsmiklar. Í byrjun júlí undirritaði ráðherra nýjan fríverslunarsamning við Bretland og þá hefur einnig verið skrifað undir samkomulag við bresk stjórnvöld um samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda

Guðlaugur Þór fagnar samkomulaginu sem hann segir afar mikilvægt. „Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að tryggja tækifæri ungs fólks til þess að búa, starfa og mennta sig í Bretlandi, sem sést meðal annars í þeirri staðreynd að Ísland er fyrsta ríkið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu til að gera samning við Bretland um vinnudvöl ungs fólks frá því landið gekk úr Evrópusambandinu. Ég er sannfærður um að sterk tengsl ríkjanna muni styrkjast enn frekar með þessum samningi,“ segir Guðlaugur Þór. 

Eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu þurfa allir sem vilja flytja til Bretlands að sækja um dvalarleyfi og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi Bretlands, en nýja samkomulagið mun auðvelda ungu fólki frá Íslandi ferlið til muna. 

Áætlað er að nýja fyrirkomulagið taki gildi í byrjun árs 2022 að undangengnum nauðsynlegum lagabreytingum. 

Halda áfram að lesa

Innlent

Ríkisstjórnin styrkir Norræna félagið á Íslandi

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita Norræna félaginu á Íslandi 5 milljóna króna styrk í tilefni 100 ára afmælis félagsins á næsta ári.

Félagið hyggst setja á laggirnar tímabundinn afmælissjóð sem nýttur verður til að fjármagna viðburði og ýmis verkefni á afmælisárinu sem verður helgað norrænni menningu, vitund og norrænu samstarfi.

Markmið Norræna félagsins á Íslandi sem var stofnað 29. september 1922 er að efla samstarf og vináttutengsl Íslendinga og annarra Norðurlandabúa en félagið starfar í 30 deildum um allt land.

Halda áfram að lesa

Innlent

Reglugerð um skyldu flugrekenda til að kanna vottorð vegna COVID-19 tekur breytingum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn