Innlent

Ráðherrar funduðu með krónprinsi Danmerkur og danskri viðskiptasendinefnd

Ráðherrar orkumála og umhverfismála funduðu með danskri viðskiptasendinefnd undir forystu Friðriks krónprins og kynntu fyrir Dönum stefnu og áætlanir íslenskra stjórnvalda í orkumálum og loftslagsmálum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fór yfir orkustefnu Íslands og áherslur Íslands á sviði endurnýjanlegrar orku og orkuskipta. Eitt af lykilmarkmiðum orkustefnu er að fyrir árið 2050 verði Ísland óháð notkun jarðefnaeldsneytis, og að þar með verði orkuskiptum fyrir Ísland lokið. Fór ráðherra yfir leiðir sem eru til skoðunar til að ná því marki, meðal annars hlutverk rafeldsneytis í næstu áföngum í orkuskiptum landsins á sviði þungaflutninga, hafsækinnar starfsemi og í flugi. Jafnframt kom ráðherra inn á farsæla samvinnu milli Íslands og Danmerkur á sviði orku- og loftlagsmála, eins og stofnun Grænvangs er gott dæmi um.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fór yfir stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Hann nefndi markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040, sem hefði verið lögfest árið 2021. Markmið um minnkun losunar hefðu verið efld úr -40% í -55% til 2030 í samfloti með ESB og Noregi. Það skipti þó meginmáli að tryggja að aðgerðir fylgdu markmiðum, en ríkisstjórnin byggði á aðgerðaáætlun frá 2020. Sagði Guðmundur Ingi að rafvæðing íslenska bílaflotans væri nú á fleygiferð og að Ísland væri nú í öðru sæti í heiminum á eftir Noregi varðandi nýskráningar vistvænna bifreiða. Þá hefði stuðningur við náttúrulausnir í loftslagsmálum verið meira en tvöfaldaður á undanförnum árum, en þar væri átt við m.a. skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, sem miðuðu að kolefnisbindingu og minnkun losunar.

Báðir ráðherrarnir bentu á að nýsköpun væri mikilvægur þáttur í að vinna á loftslagsvandanum. Þar væri hægt að benda á lausnir eins og CarbFix, sem bindur kolefni í steindum í basalti. Sú aðferð byði upp á gríðarlega möguleika á Íslandi og á heimsvísu til lengri tíma. Áhugavert væri að horfa til Dana, sem hefðu verið leiðandi á mörgum sviðum grænnar nýsköpunar og tækni, m.a. við nýtingu vindorku. Margt mætti læra af Dönum í orku- og loftslagsmálum og áhugavert að skoða möguleika á samvinnu Íslands og Danmerkur í grænum lausnum.

 

Friðrik krónprins og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur

Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur

Jens Holst-Nielsen stýrði umræðum milli ráðherra og dönsku sendinefndarinnar

Innlent

María Rún kjörin til setu í GREVIO

María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur hjá Ríkislögreglustjóra og aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, hefur fyrst Íslendinga verið kjörin til setu í GREVIO, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með Istanbúl-samningnum um aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Nefndin er skipuð 15 sjálfstæðum og óvilhöllum sérfræðingum frá 34 aðildarríkjum samningsins. 

María Rún tekur þar sæti sérfræðings Tyrkja eftir að Tyrkland sagði sig frá Istanbúl-samningnum fyrr á þessu ári, en alls voru tíu framboð fyrir aðeins eitt sæti. Niðurstaðan er mikilvæg fyrir Ísland sem tekur við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022. 

GREVIO hefur meðal annars það hlutverk að sækja heim aðildarríki Istanbúl-samningsins, vinna greiningar og skýrslur um framkvæmd samningsins í hverju landi og koma með tillögur að úrbótum varðandi stefnu, löggjöf og aðgerðir til þess að sporna gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Vinna nefndarinnar hefur síðustu misseri meðal annars snúið að því að ræða og leggja til aðgerðir gegn stafrænu ofbeldi sem er vaxandi vandamál í Evrópu og í heiminum öllum.

Menntun og bakgrunnur Maríu Rúnar á sviði stafræns ofbeldis og reynsla hennar við innleiðingu nýrrar löggjafar um kynferðislega friðhelgi, mun því vera mikilvægt framlag til starfs GREVIO á næstu misserum og er í samræmi við áherslur Íslands um frekari aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum. 

„Ég hef sjálf séð jákvæð áhrif Istanbúl-samningsins á þróun umræðu og aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi á Íslandi og víðar,“ sagði María eftir kjörið. „Það er því mikill heiður að hljóta stuðning ríkja Evrópuráðsins til að halda áfram því mikilvæga starfi sem fram fer innan GREVIO í þeim tilgangi að vinna gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi í álfunni. Er það ekki síst ánægjulegt að geta byggt á þeirri mikilvægu vinnu sem unnin hefur verið hér á landi til að koma í veg fyrir stafrænt ofbeldi og að geta deilt þeirri reynslu með öðrum aðildarríkjum samningsins.“

Halda áfram að lesa

Innlent

Styrkir til hjálparsamtaka í aðdraganda jóla

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita samtals fimm milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til tíu hjálparsamtaka sem starfa hér á landi. Sú venja hefur skapast á undanförnum árum að ríkisstjórnin styrki slík samtök í aðdraganda jóla.

Um er að ræða Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Íslandi, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Vesturlands, Rauða krossinn á Íslandi og Samhjálp.

Halda áfram að lesa

Innlent

COVID-19: Óbreyttar sóttvarnaráðstafanir næstu tvær vikur

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja óbreytta gildandi reglugerð um samkomutakmarkanir. Almennar fjöldatakmarkanir verða því áfram 50 manns en með möguleika á hraðprófsviðburðum, áfram gilda 1 metra nálægðarmörk, reglur um grímunotkun o.s.frv. Þessi ákvörðun er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem telur nauðsynlegt að viðhalda óbreyttum takmörkunum í ljósi óvissu um þróun faraldursins, ekki síst vegna tilkomu Ómíkron-afbrigðis kórónaveirunnar.

Heilbrigðisráðherra segist sammála sóttvarnalækni um að ekki sé tímabært að slaka á sóttvarnaráðstöfunum í ljósi þessarar óvissu. Grannt sé fylgst með þróun faraldursins hérlendis og erlendis og nánari upplýsinga beðið um eiginleika Ómíkron afbrigðisins og hvort eða hve mikil ógn stafar af því. „Við bindum miklar vonir við að hægt sé að slaka á takmörkunum fyrr ef gögn um Ómíkron benda til þess að það sé óhætt. Þangað til þurfum við að verja heilbrigðiskerfið og tryggja fólki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Við sjáum að nágrannaþjóðir okkar, ekki síst Danir og Norðmenn eiga í vök að verjast þar sem smitum fjölgar nú hratt. Hér er faraldurinn hins vegar á hægri niðurleið sem bendir til þess að herðing á sóttvarnareglum sem tóku gildi 13. nóvember síðastliðinn hafi skilað árangri.” segir ráðherra.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin