Innlent

Ríkið og Landsvirkjun semja um endurgjald vegna nýtingar á réttindum á Þjórsársvæði

Fréttatilkynning frá forsætisráðuneytinu og Landsvirkjun

Forsætisráðuneytið og Landsvirkjun hafa náð samningum um endurgjald vegna nýtingar Landsvirkjunar á vatns- og landsréttindum á Þjórsársvæði innan þjóðlendna.

Kveikjan að samningunum er ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA frá 20. apríl 2016 þar sem endurgjaldslaus afnot af landi og auðlindum í eigu hins opinbera eru talin fela í sér ríkisaðstoð sem stangist á við EES-samninginn. Þáverandi ríkisstjórn féllst á ákvörðunina og síðan hefur verið unnið að samningsgerð.

Samkvæmt samningunum greiðir Landsvirkjun íslenska ríkinu árlegt gjald í 65 ár (frá 1. janúar 2017 að telja). Jafnframt er gert ráð fyrir endurskoðun gjaldsins að þeim tíma liðnum. Þá greiðir Landsvirkjun einnig fyrir nýtingu réttinda frá gildistöku þjóðlendulaga og fram til ársloka 2016. Síðar á þessu ári greiðir Landsvirkjun tæpan 1,5 milljarð króna vegna fortíðarinnar en síðan munu árlegar greiðslur nema um 90 milljónum króna auk verðbóta.

Ekki er gert ráð fyrir að þessar samningsgreiðslur hafi áhrif á arðgreiðslur Landsvirkjunar í framtíðinni. Á síðustu fjórum árum hefur Landsvirkjun greitt íslenska ríkinu 22 milljarða króna í arð.

Ákvörðun á endurgjaldi vegna vatnsréttinda byggir á nærtækum viðmiðum um verðmæti réttinda sem þessara og forsögu þeirra virkjana sem um ræðir. Er þar ekki síst litið til dóms Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 þar sem tekist var á um verðmæti réttinda er tengdust Kárahnjúkavirkjun. Tekið er tillit til hagkvæmni virkjunar þannig að gjaldið hækkar eftir því sem stofnkostnaður/orkugeta er lægri. Endurgjald vegna nýtingar landsréttinda tekur mið af niðurstöðum úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta og samningum um sambærileg réttindi.

Gert er ráð fyrir að öðrum orkufyrirtækjum, sem eru í sambærilegri stöðu og Landsvirkjun, þ.e. þar sem ósamið er við ríkið vegna eldri virkjana, verði boðnir hliðstæðir samningar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Ég er ánægð með að það sé loksins komin niðurstaða í þetta mál. Landsvirkjun er mikilvæg almannaeign og með þessu er staða hennar styrkt og botn fenginn í þetta álitamál. Jafnframt er undirstrikuð meginreglan um að eðlilegt gjald skuli greitt fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

Þessi samningur er mikið fagnaðarefni. Þótt Landsvirkjun hafi lögvarinn rétt samkvæmt sérlögum til nýtingar auðlinda á þessu svæði þá hefur ekki áður legið fyrir samkomulag um endurgjald fyrir þá nýtingu. Samningurinn staðfestir nýtingarrétt orkufyrirtækis þjóðarinnar og sá fyrirsjáanleiki er mikilvægur. Vinnsla okkar á orku úr endurnýjanlegum auðlindum þjóðarinnar er mikilvægt framlag til loftslagsmála, auk þess að skapa hagnað. Arðgreiðslur Landvirkjunar í ríkissjóð halda áfram að aukast og við stefnum að því að þær verði 10-20 milljarðar á ári næstu árin.”

Samningur um endurgjald fyrir nýtingu lands- og vatnsréttinda vegna Vatnsfells- og Búðarhálsvirkjunar á Þjórsársvæði innan þjóðlendna

Samningur um endurgjald fyrir nýtingu lands- og vatnsréttinda vegna Sultartangavirkjunar, Hrauneyjarfossvirkjunar, Sigölduvirkjunar og stækkunar Búrfellsvirkjunar á Þjórsársvæði innan þjóðlendna

Alþingi

Forseti Alþingis fellst á flutning ríkisendurskoðanda í embætti ráðuneytisstjóra

27.1.2022

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, féllst í dag á beiðni Lilju Daggar Alfreðsdóttur, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, um að Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi verði fluttur skv. 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, til nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis.

Skúli Eggert verður skipaður ráðuneytisstjóri hins nýja ráðuneytis og hefur störf 1. febrúar nk. Hið nýja ráðuneyti tekur til starfa þann sama dag í samræmi við ályktun Alþingis um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem samþykkt var í dag á 28. fundi 152. löggjafarþings.

Halda áfram að lesa

Alþingi

Opinn fjarfundur umhverfis- og samgöngunefndar þriðjudaginn 1. febrúar um málefni kísilvers í Helguvík

27.1.2022

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis heldur opinn fjarfund þriðjudaginn 1. febrúar kl. 09:00. Tilefnið er umfjöllun nefndarinnar um málefni kísilvers í Helguvík.

Gestir fundarins verða:

  • Kl. 9:00: Friðjón Einarsson frá Reykjanesbæ, Kristján Þór Magnússon og Gaukur Hjartarson frá Norðurþingi og Margrét S. Þórólfsdóttir og Þórólfur J. Dagsson frá Andstæðingum stóriðju í Helguvík.
  • Kl. 10:00: Ásdís Hlökk Theodórsdóttir og Egill Þórarinsson frá Skipulagsstofnun og Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, Þorsteinn Jóhannsson og Sigrún Ágústsdóttir frá Umhverfisstofnun.
  • Kl. 10:40: Ólafur Hrafn Höskuldsson og Þórður Ólafur Þórðarson frá Arion banka.

Vegna takmarkana á fundahaldi fastanefnda er ekki unnt að hafa fundinn opinn með hefðbundnum hætti eða taka á móti fjölmiðlum á nefndasviði Alþingis. Því verður fundinum streymt á vef þingsins og sjónvarpsrás þess.

Að loknum fundi má nálgast upptöku af fundinum hér.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ríkislögreglustjóri leiðir starfshóp innanríkisráðherra um kynferðisbrot og kynbundið ofbeldi

Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra hefur falið Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra að leiða starfshóp um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreiti.  Skal hópurinn styðja við uppbyggingu á samstarfi lögreglu og samstarfsaðila gegn ofbeldi og afleiðingum þess, þar á meðal í formlegri þjónustu við þolendur kynferðisbrota. Starfshópurinn mun einnig standa fyrir almennri vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi í samfélaginu.

Kærum til lögreglu vegna kynferðisbrota fjölgaði um 24% frá 2020 til 2021. Heimilisofbeldismál af hendi maka eða fyrrum maka síðustu tvö árin hafa aldrei verið fleiri skv. málaskrá lögreglunnar, eða í kringum 750 talsins bæði árin.  Áhrifaríkustu aðferðirnar í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi eru virkar forvarnir, vitundarvakning og þróun á þverfaglegri samvinnu lögreglu við aðra lykilaðila.  Lögð er áhersla á slíkt í hinum ýmsu aðgerðaáætlunum stjórnvalda gegn ofbeldi og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi kjörtímabil.

Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra: „Til þess að ná alvöru tökum á kynferðisbrotum verður að virkja samfélagið.  Við berum öll ábyrgð á að uppræta það mein sem kynferðisbrot og kynbundið ofbeldi er í íslensku samfélagi.  Best væri að brotin ættu sér aldrei stað og virkar forvarnir og vitundarvakning eru lykilþættir í að stuðla að því. Þegar brotin eiga sér hins vegar stað þurfum við að þróa samvinnu lögreglu og annarra lykilaðila til að styðja sem best við þolendur.“

Í vinnu hópsins verður hugað sérstaklega að viðkvæmum hópum fólks sem reynslan hefur sýnt að eru í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Lagt er fyrir starfshópinn að gæta að samræmi við tillögur aðgerðaáætlana stjórnvalda í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og skal starfshópurinn leggja áherslu á viðtækt samráð innan þess sviðs.

Aðrir fulltrúar í starfshópnum eru Guðfinnur Sigurvinsson, verkefnastjóri, Hildur Sunna Pálmadóttir frá dómsmálaráðuneyti og Eygló Harðardóttir hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Starfshópurinn hefur þegar tekið til starfa og er skipunartími hans til 31. desember 2022.  Skal hópurinn skila af sér reglulegum áfangaskýrslum til ráðherra, ásamt lokaskýrslu um árangur af störfum hópsins í desember 2022.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin