Innlent

Ríkisstjórnin samþykkir tillögu dómsmálaráðherra um kaup á nýlegu skipi í stað varðskipsins Týs

Nýlega kom í ljós alvarleg bilun í vél varðskipsins Týs. Landhelgisgæslan á ekki nauðsynlega varahluti, smíði þeirra er tímafrek og ekki yrði um varanlega viðgerð að ræða. Reynt var að fá varahluti úr varðskipinu Ægi en þá kom í ljós að sama bilun var í vél hans. Einnig kom í ljós við slipptöku í janúar að tveir af tönkum skipsins eru ónýtir sökum tæringar og sjókælikerfi skipsins lekur. Slíkur leki ógnar öryggi skips og áhafnar. Varðskipið Týr er 46 ára gamalt og ástand þess orðið bágborið. Ómögulegt er að sjá fyrir næstu alvarlegu bilanir. Kostnaður við að gera skipið siglingarhæft er talinn nema meiru en sem svara verðmæti skipsins eða um 100 milljónum króna.

Staða á mörkuðum fyrir kaup á nýlegum skipum, t.d. þjónustuskipum úr olíuiðnaðinum, er talin einkar góð um þessar mundir. Um er að ræða skip sem henta vel til að sinna verkefnum Landhelgisgæslunnar með mikla dráttargetu, góða stjórnhæfni, gott dekkpláss og fullkominn slökkvibúnað. Skip þessi eru vel útbúin til björgunarstarfa og til aðstoðar við almannavarnir. Þá eru þau mun umhverfisvænni en eldri skip.

Í ljósi þess um hve brýnt mál er að ræða sem varðar þjóðaröryggi, almannavarnir, öryggi sjófarenda og auðlindagæslu hefur ríkisstjórnin samþykkt tillögu dómsmálaráðherra þess efnis að þegar verði hafist handa við kaup á nýlegu skipi. Geta má þess að skv. 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2021 kemur fram að heimilt sé að selja varðskipin Tý og Ægi og leigja eða kaupa hagkvæmari skip í staðinn. Starfshópur þriggja sérfræðinga sem skipaður verður fulltrúum dómsmálaráðuneytis, Landhelgisgæslunnar og Ríkiskaupa mun vinna að undirbúningi og framkvæmd kaupanna.   

„Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin varðandi ástand varðskipsins Týs er afar brýnt að grípa án tafar til ráðstafana í því skyni að tryggja öryggi landsmanna með öflugu skipi til hliðar við varðskipið Þór. Ekki er unnt að halda uppi viðunandi öryggisstigi með aðeins einu varðskipi þótt öflugt sé og því lagði ég til og ríkisstjórnin samþykkti að hefjast þegar handa við kaup á nýlegu skipi sem mun koma í stað varðskipsins Týs sem hefur þjónað landsmönnum með glæsibrag í næstum hálfa öld,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.

,,Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar er stigið mikilvægt framfaraskref í björgunarmálum þjóðarinnar. Við hjá Landhelgisgæslunni fögnuð því að stjórnvöld hafi brugðist hratt og örugglega við þeirri stöðu sem upp kom. Varðskipið Týr á sér glæsta sögu og hefur þjónað þjóðinni og Landhelgisgæslunni afar vel í áranna rás. Öllu er afmörkuð stund og allt á sér sinn tíma. Kröfur nútímans eru aðrar og meiri en uppi voru fyrir hart nær hálfri öld. Samþykkt tillögunnar markar tímamót fyrir sjófarendur og íslensku þjóðina.“ segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands.

Innlent

COVID-19: Aðgerðir á landamærum hertar tímabundið

Stjórnvöld kynna í dag tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu COVID-19 innanlands. Markmiðið er að skapa aðstæður sem gera kleift að aflétta sem mest takmörkunum innanlands þrátt fyrir mikla útbreiðslu faraldursins erlendis. Bólusetningu hér á landi miðar vel og eftir því sem hlutfall bólusettra hækkar skapast forsendur til að slaka á takmörkunum, jafnt innanlands og á landamærunum.

Heilbrigðisráðherra mun leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á gildandi sóttvarnalögum sem felur í sér forsendur fyrir þeim aðgerðum sem boðaðar eru. Meginefni þeirra eru:

Dvöl í sóttkvíarhúsi: Heimilt verður á tímabilinu 22. apríl til 30. júní, að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir tilteknum mörkum, þ.e. 1000 nýsmit/100.000 íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Ef nýsmit eru á bilinu 750-1000 þá verði sóttkvíarhús meginreglan en þó verði heimilt að veita undanþágu, t.d. ef fyrir liggja trúverðug áform um dvöl í fullnægjandi húsnæði. Kveðið verður á um forsendur fyrir dvöl í sóttvarnahúsi í reglugerð heilbrigðisráðherra.

Auknar ferðatakmarkanir: Dómsmálaráðherra fái að auki heimild til þess að leggja bann við ónauðsynlegum ferðum til og frá hááhættusvæðum (nýgengi yfir 1000/100.000) samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis.

Óbreyttar reglur um vottorð og sýnatöku á landamærum til 1. júní

Reglur um framvísun vottorða og um sýnatökur á landamærum verða óbreyttar a.mk. til 1. júní. Þeir sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu skulu sæta einni sýnatöku á landamærunum og sæta reglum um sóttkví meðan beðið er niðurstöðu. Aðrir fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví á milli. Frá og með 1. júní munu vægari kröfur gilda um þau lönd sem skilgreind verða sem lág-áhættusvæði.

Svæðisbundið áhættumat gefið út reglulega: Frá 7. maí verður gefið út hálfsmánaðarlega svæðisbundið áhættumat um stöðu og þróun faraldursins til að byggja á ákvarðanir um landamæraaðgerðir. Við áhættumatið veður m.a. stuðst við litakóðunarflokkun Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.

Kynningarglærur frá blaðamannafundi – uppfærð útgáfa

Halda áfram að lesa

Innlent

Meta ber hæfi sem fyrst eftir að brigður eru bornar á það

Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun um hvort starfsmaður sé vanhæfur svo fljótt sem unnt er eftir að athygli er vakin á ástæðum sem kunna að valda vanhæfi. Ef í ljós kemur á lokastigum máls að starfsmaður er vanhæfur getur það tafið meðferð þess óhæfilega.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland aðili að samstarfsvettvangi um öryggis- og varnarmál

Ísland gerðist í dag aðili að samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í Norður-Evrópu um öryggis- og varnarmál sem Bretar leiða undir merkjum sameiginlegrar viðbragðssveitar (e. Joint Expeditionary Force, JEF). Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London undirritaði samkomulag þessa efnis í dag ásamt Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands. 

Aðild Íslands að samstarfinu byggist á sameiginlegum öryggis- og varnarhagsmunum þátttökuríkjanna  og mun bæta yfirsýn um stöðu og þróun öryggismála í nærumhverfi þeirra. Horft er til þess að samstarfið geti nýst til neyðarviðbragða, vegna almannavarna og mannúðaraðstoðar. Framlag Íslands er á borgaralegum forsendum eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál sem Ísland á aðild að. Ekki er gert ráð að kostnaður fylgi þátttöku Íslands í samstarfinu að öðru leyti en fyrirhugað er að borgaralegur sérfræðingur starfi á vettvangi JEF þegar fram í sækir.

„Það er fagnaðarefni að Ísland taki nú þátt í þessu öryggis- og varnarmálasamstarfi nokkurra af okkar helstu vinaríkjum. Ísland getur lagt sitt af mörkum til samstarfsins en um leið njótum við góðs af aukinni samvinnu við þessi líkt þenkjandi ríki um öryggismál í víðu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Sameiginlega viðbragðssveitin var sett á fót árið 2018 og eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð aðilar að samstarfinu ásamt Eistlandi, Lettlandi, Litáen, Hollandi og Bretlandi. Ísland verður því tíunda ríkið sem tekur þátt í þessu samstarfi. 

Á fundinum ræddu þeir Sturla og Wallace m.a. ástand og horfur í alþjóðamálum og tvíhliða samstarf Íslands og Bretlands í öryggis- og varnarmálum. Rúm tvö ár eru síðan Guðlaugur Þór og Jeremy Hunt, þáverandi utanríkisráðherra Bretlands, undirrituðu samkomulag milli Íslands og Bretlands um að efla tvíhliða samstarf ríkjanna í varnar- og öryggismálum.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin