Innlent

Ríkisstjórnin styrkir flutning Maríu Júlíu

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu forsætisráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um að veita 15 m.kr. af ráðstöfunarfé til að styrkja flutning skipsins Maríu Júlíu BA 36 í slipp á Húsavík.

Skipið María Júlía sem var sjósett árið 1949 var fyrsta björgunarskipið á Vestfjörðum. Slysavarnadeildir á Vestfjörðum hófu söfnunarátak til að kaupa björgunarskip árið 1936. Þannig lögðu sjómenn hluta af afla sínum til verkefnisins og voru kvennadeildir slysavarnarfélaga óþreytandi við að safna fé með margvíslegum hætti.

Ríkisstjórn Íslands kom að verkefninu árið 1945 og gerði samning við landsstjórn Slysavarnafélagsins um smíði á skipi sem skyldi annast björgunarstörf og strandgæslu við Vestfirði. Að ósk slysavarnadeilda á Vestfjörðum hlaut skipið nafnið María Júlía en framlag hjónanna Maríu Júlíu Gísladóttur og Guðmundar B. Guðmundssonar á Ísafirði átti stóra þátt í því að smíði skipsins varð að veruleika.

María Júlía sinnti björgunar-, gæslu- og hafrannsóknarstörfum þar til skipið var selt einkaaðilum árið 1969 og var gert út til ársins 2003. Sama ár var stofnað Áhugamannafélag um Maríu Júlíu en Byggðasafn Vestfjarða og Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti við Patreksfjörð keyptu skipið í því skyni að gera það upp og varðveita. Nokkuð hefur áunnist í því verkefni en síðustu ár hefur skipið legið við bryggju í Ísafjarðarhöfn í slæmu ásigkomulagi.

Hollvinasamtök um Maríu Júlíu voru stofnuð í fyrra í þeim tilgangi að vinna áfram að endurbótum á skipinu. Fyrirhugað er að flytja skipið í slipp á Húsavík. Kostnaður við flutning, hreinsun, botnmálun, frágang í tímabundna geymslu og áætlunargerð um næstu skref í endurgerð skipsins er áætlaður um 30 m.kr. Eins og að framan greinir nemur styrkur ríkisstjórnarinnar til verkefnisins 15 m.kr. og er ráðgert að útgerðarfyrirtæki á svæðinu muni kosta það sem upp á vantar.

Innlent

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 13. – 14. júní 2022

01. júlí 2022

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndin ræddi stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika og helstu áhættuþætti, svo sem þróun efnahagsmála, áhættu fjármálafyrirtækja og fjármálakerfis, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðuna á fasteignamarkaði og eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja. Jafnframt ræddi nefndin um öryggi og skilvirkni fjármálainnviða og mikilvægi þeirra fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. Nefndin fékk upplýsingar um skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka og um gerð opinberrar stefnu um fjármálastöðugleika sem Fjármálastöðugleikaráð vinnur að.

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85% en að halda hlutfallinu fyrir aðra kaupendur óbreyttu í 80%. Nefndin ákvað jafnframt að setja viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Viðmiðið er að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána. Nefndin ákvað jafnframt að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár. Fjármálastöðugleikanefnd ákvað við ársfjórðungslegt endurmat á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi hans óbreyttu en samkvæmt ákvörðun nefndarinnar í september sl. mun hann hækka úr 0% í 2% í lok september 2022.

Þá áréttaði nefndin mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar.

Sjá fundargerðina í heild hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 13. -14. júní 2022 (13.fundur). Birt 1. júlí 2022.

Sjá hér nánari upplýsingar um nefndina og störf hennar

Halda áfram að lesa

Innlent

Tiltekinn fjöldi tapaðra tanna ekki eina forsenda þátttöku sjúkratrygginga vegna slyss

 

Í lögum um sjúkratryggingar er ekki kveðið með tæmandi hætti á um hvaða rétt fólk hefur til fjárhagslegrar aðstoðar vegna tannréttinga. Sama gegndi um reglugerðarákvæði þar að lútandi. 

Halda áfram að lesa

Innlent

Utanríkisráðherra ávarpar sérstaka umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan

Mikilvægi þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum kvenna og stúlkna bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í sérstakri umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan í dag. Ráðherra tók þátt í gegnum fjarfundabúnað. 

„Síversnandi staða mannréttinda kvenna og stúlkna í Afganistan er gífurlegt áhyggjuefni. Ekkert ríki í alþjóðasamfélaginu neitar stúlkum um grunnskólamenntun með aðeins einni undantekningu, Afganistan,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ávarpi fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þá lagði hún áherslu á að alþjóðasamfélagið haldi áfram að styðja við afgönsku þjóðina og hvatti til stofnsetningu réttmæts kjörins stjórnvalds sem fulltrúi þjóðarinnar sem virðir jafnframt mannréttindi allra, þar með talið kvenna og stúlkna. 

Ávarp sem utanríkisráðherra flutti á fundinum í dag má lesa í heild sinni hér.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin