Ryðja þarf hindrunum úr vegi fjárfestingar – Skattadagur SA, Deloitte og Viðskiptaráðs
Til að hægt sé að auka framleiðslugetu hagkerfisins, skapa nýjar stoðir útflutnings og fjölga störfum til að byggja undir aukinn kaupmátt heimila þarf að fjárfesta í innviðum og framleiðslutækjum. Arðbær fjárfesting er undirstaða framtíðarhagvaxtar. Nauðsynlegt er því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem kunna að standa í vegi aukinnar fjárfestingar. Þannig verður stutt við áframhaldandi lífskjaravöxt.
Fjárfesting í lægð fyrir farsótt
Á árunum fyrir fjármálahrun var mikill kraftur í fjárfestingu enda hagvöxtur mikill. Fjárfesting og hagvöxtur haldast jafnan í hendur. Snarpur samdráttur varð í fjárfestingu í kjölfar hrunsins og varð framlag hennar til hagvaxtar neikvætt um frá 2007 til 2010. Fjárfesting tók við sér á ný í takt við endurreisn efnahagslífsins en náði þó ekki fyrri krafti áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Enn frekari samdráttur varð árið 2020 en ætla má að samdrátturinn nemi 18% milli ára. Það er hins vegar ljóst að þegar var tekið að hægja á. Áhrif veirunnar voru til að reka smiðshöggið á þróun síðustu ára.
Hið opinbera dregur áfram vagninn en meira þarf til
Allajafna eru það atvinnuvegirnir sem fara fyrir megninu af fjárfestingu í hagkerfinu. Síðustu misseri hafa hið opinbera og íbúðafjárfesting hins vegar dregið vagninn. Í ljósi þess að stjórnendur fyrirtækja vænta ekki mikilla fjárfestinga á næstunni og fyrirséð er að enn muni draga úr íbúðafjárfestingu má ætla að hið opinbera muni bera uppi vöxt fjárfestingar á næstu misserum. Þrátt fyrir boðað fjárfestingarátak hins opinbera er þó ekki útlit fyrir að fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu nái langtímameðaltali á næstu árum.
Ísland er gott en margt má bæta
Í alþjóðlegum samanburði kemur Ísland sæmilega út þegar kemur að rekstrarumhverfi fyrirtækja, enda með sterka innviði og hátt menntunarstig. Ísland er hins vegar eftirbátur samanburðarríkja þegar kemur að milliríkjaviðskiptum, öflun byggingarleyfa og öflun lánsfjár. Þá telst íslenska skattkerfið lítt samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði. Fjöldi tvísköttunarsamninga er aðeins tæpur helmingur á við það sem þekkist á Norðurlöndum. Tækifæri til umbóta í fjárfestingarumhverfi liggja víða.
Mörg jákvæð skref hafa verið stigin að undanförnu í því skyni að örva fjárfestingu hérlendis. Þar ber hæst stóraukinn stuðningur við nýsköpun, rannsóknir og þekkingargeira.Slíkur beinn stuðningur er jákvæðurog til þess fallin að auka hagsæld þegar fram líða stundir.Mestu máli skiptirþóað skapa almennt hagfelld skilyrði fyrir rekstur og þar af leiðandi fjárfestingu og atvinnusköpun.
Um árlegan Skattadag SA, Deloitte og Viðskiptaráðs
Skattadagurinn er haldinn árlega í góðu samstarfi Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands. Viðburðurinn hefur fest sig í sessi hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja hlýða á það nýjasta sem er að gerast í skattamálum hverju sinni.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, ræddi um hindranir í vegi fjárfestinga líkt og má sjá í samantektinni hér að ofan, á fundinum. Á meðal annarra ræðumanna voru Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Hrefna Björk Sverrisdóttir, eigandi veitingastaðarins Rok á Skólavörðustíg, Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis, Haraldur I. Birgisson, meðeigandi í Deloitte og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.
Ísland er smáríki – lítið, opið og einhæft hagkerfi – sem byggir lífsgæði sín á fáum útflutningsgreinum. Lengst af treystu Íslendingar nær eingöngu á hrávöruútflutning sjávarafurða og landbúnaðar. Með tíð og tíma hafa aðrar greinar bæst við og vægi landbúnaðar minnkað. Þar vegur hlutur ferðaþjónustu þyngst. Árið 2018 var hlutur greinarinnar í úflutningsverðmætum 42 prósent. Árið 2019 var hlutur hennar í landsframleiðslu 8 prósent. Lítið má út af bregða. Hindranir í vegi fyrir frjálsum alþjóðlegum viðskiptum koma sér afar illa fyrir efnahag þjóðarinnar. Það er ekki síst vegna fábreytileikans sem íslenska hagkerfið hefur orðið illa fyrir barðinu á heimsfaraldri kórónuveiru.
Snertifletir faraldursins eru margir og áhrifin hafa verið misjöfn eftir atvinnugreinum. Afleiðingarnar endurspeglast til að mynda í samsetningu útflutnings vöru og þjónustu. Ferðatakmarkanir og aðrar sóttvarnaraðgerðir á landamærum settu strik í reikninginn. Hlutur ferðaþjónustu í heildarútflutningi nam aðeins 12% á liðnu ári skv. nýjustu upplýsingum Hagstofu Íslands. Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu dróst eðli máls samkvæmt einnig umtalsvert saman og mældist aðeins 3,5%.
Leita þarf aftur til ársins 2010 til að finna viðlíka tölur. Segja má að íslenskur útflutningur hafi þannig farið aftur um heilan áratug með COVID tímavélinni.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá dómi öllum kröfum fjögurra fyrrverandi starfsmanna starfsmannaleigu sem starfað höfðu í nokkra daga fyrir Eldum rétt. Dómurinn telur ótvírætt að laun hafi verið í samræmi við kjarasamninga og greidd að fullu, löglegt hafi verið að draga frá launum útgjöld á borð við húsaleigu og flugfargjöld og lýsing Eflingar á aðbúnaði starfsmanna hafi ekki verið í neinu samræmi við staðreyndir málsins.
Efling stéttarfélag hafði upp stór orð í fjölmiðlum og sakaði fyrirtækið Eldum rétt meðal annars um að nýta sér bágindi verkafólks og skipta við starfsmannaleigu sem framkvæmdastjóri Eflingar kallaði ,,einhvers konar mansalshring.“ Þá var teiknuð upp dökk mynd af fyrirtækinu í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV.
Ljóst er að aðför Eflingar að Eldum rétt og tilefnislausar ásakanir hafa valdið fyrirtækinu miklu tjóni og er eðlilegt að fyrirtækið skoði réttarstöðu sína gagnvart Eflingu. Starfsmönnum var gert að greiða sameiginlega fjórar milljónir í málskostnað til stefndu sem undirstrikar það mat héraðsdóms að málshöfðun Eflingar var tilefnislaus.
Á Menntadegi atvinnulífsins fór fram fjölbreytt og skemmtileg dagskrá þar sem valinkunnir stjórnendur úr atvinnulífinu fjölluðu m.a. um topp tíu færniþætti framtíðar eftir viðmiðum Alþjóðaefnahagsstofnunar fyrir árið 2025.
Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi SAF stýrði umræðum um þessa færniþætti undir yfirskriftinni „Strax í dag“. Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, Sigrún Halldórsdóttir, mannauðsstjóri Bláa Lónsins og Ingvi Hrannar Ómarsson,sérfræðingur í skólaþróunarteymi Menntamálaráðuneytisins töluðu hispurslaust um innslög stjórnendanna og um það sem allar menntastofnanir og vinnustaðir geta ráðist í strax í dag:
Topp tíu færniþættir
1. Greiningar- og nýsköpunarhæfni
Gerum betur með
að vinna með gagnasafn
að vinna í fjölbreyttum teymum til að skapa nýjar lausnir
teymiskennslu
2. Virkni í námi og námsaðgerðum
Gerum betur með
að hvetja til sjálfsnáms t.d. netnámskeiða
að kapa námsumhverfi á vinnustað
röð fræðsluerinda
að deila hugmyndum með öðrum
3. Lausnamiðuð nálgun
Gerum betur með
að takast á við raunveruleg viðfangsefni
að vinna í hópum með ólíka styrkleika
4. Gagnrýnin hugsun og greining
Gerum betur með
að þjálfa rökræðu
að æfa ályktunarhæfni
að koma fram og færa rök fyrir máli sínu
5. Sköpun, frumleiki og frumkvæði
Gerum betur með
að vinna með spuna
að vinna með túlkun í fjölbreyttu listformi
að skapa rými fyrir flæði
að vinna með liðsheild
6. Forysta og félagsleg áhrif
Gerum betur með
að úthluta leiðtogahlutverkum
að æfa lýðræðislega þátttöku
að leggja fram tillögur að breytingum og fylgja þeim eftir
7. Tækninotkun, eftirlit og stjórn
Gerum betur með
að æfa sig að gera mistök
að æfa sig í að reka sig á
að æfa kjark og þor gagnvart hinu óþekkta
8. Tæknihönnun og forritun
Gerum betur með því að
að vinna með óvissu – hvað ef?
að æfa rökhugsun
9. Seigla, streituþol og sveigjanleiki
Gerum betur með
að vinna markvisst að langtímaverkefni með endanlegu markmiði
að æfa sjálfsvinnu
10. Rökhugsun, lausn vandamála og hugmyndaauðgi
Gerum betur með
skapandi hugsun og að leysa verkefni með mismunandi útfærslum
að geta fært rök fyrir því hvers vegna valin leið er góð leið
Horfðu á þáttinn í heild sinni hér:
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.