Félag atvinnurekenda

Rýmkað um tollfrjálsan innflutning á grænmeti – vonandi minni líkur á skorti

29. desember 2021

Lagabreytingin fækkar vonandi þeim tilvikum sem háir tollar eru lagðir á innflutning á sama tíma og ekkert íslenskt grænmeti er til.

Alþingi samþykkti í gær breytingu á búvörulögum, bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að rýmkað verður um tollfrjálsan innflutning á grænmeti á árinu 2022. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gerði tillögu til þingsins um þessa breytingu eftir að Félag atvinnurekenda og Bændasamtök Íslands höfðu sent ráðuneytinu sameiginlegar tillögur um breytingu á þeim tímabilum, sem tollar eru lagðir á innflutt grænmeti.

Þingið þrengdi tímabil tollfrjáls innflutnings
Forsaga málsins er sú að 2019 flutti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frumvarp sem fól í sér ýmar breytingar á tollaumhverfi innflutnings búvara. Felld voru niður ákvæði sem heimiluðu ráðherra að gefa út svokallaðan skortkvóta ef innlenda framleiðslu vantar á markaðinn en þess í stað skilgreind fastákveðin tímabil, sem flytja má inn viðkomandi vöru, aðallega grænmeti, án tolla. FA gagnrýndi þau ákvæði frumvarpsins og lagði til verulega rýmkun á tímabilunum. Í meðförum atvinnuveganefndar Alþingis þrengdust þau hins vegar. FA varaði þá þegar við afleiðingunum og benti á að reglulega myndi koma upp skortur á tilteknum grænmetistegundum. Niðurstaðan yrði annaðhvort að þær yrðu ófáanlegar eða innflutningur yrði á miklu hærra verði en þyrfti að vera, þótt engin innlend vara væri til. Það hefur síðan komið á daginn varðandi ýmsar grænmetistegundir, t.d. kartöflur og gulrætur. Síðastliðið haust keyrði um þverbak þegar ekkert sellerí var til í búðum á tímabili og sáralítið af blómkáli og spergilkáli, vegna þess að vörurnar voru ekki til hjá innlendum framleiðendum og tollar svo háir að innflytjendur treystu sér ekki til að flytja grænmetið inn.

Stefnt að beinum stuðningi við grænmetisrækt í stað tollverndar
FA og Bændasamtök Íslands voru í hópi samtaka, sem á sínum tíma skoruðu á þáverandi landbúnaðarráðherra að vinna betur frumvarpið sem varð að lögum í árslok 2019. Þeirri áskorun var ekki svarað. Í framhaldi af því að grænmetisskortur kom upp í haust, settust FA og Bændasamtökin sameiginlega yfir málið og áttu í framhaldinu sameiginlegan fund með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, þar sem ákveðið var að samtökin myndu senda ráðuneytinu tillögur, sem miðuðu að því að rýmka um tollfrjálsan innflutning á árinu 2022 með það að markmiði að minnka líkur á að svipað ástand kæmi upp, enda væru það sameiginlegir hagsmunir neytenda, innflutningsfyrirtækja og bænda. Ástæða þess að bráðabirgðaákvæðið, sem nú hefur verið sett í lög, gildir aðeins fyrir árið 2022, er að á árinu stendur til að gera nýjan búvörusamning ríkisins og garðyrkjubænda, þar sem eitt af markmiðunum samkvæmt núverandi búvörusamningi er að taka upp uppskerutengdar greiðslur vegna útiræktaðs grænmetis og kartaflna, á móti mögulegri lækkun eða niðurfellingu tollverndar fyrir þessar afurðir.

Í töflunni hér að ofan má sjá breytinguna; tímabilin sem tollar verða lagðir á árið 2022 (grænir reitir) í samanburði við tímabilin eins og þau hafa verið undanfarin tvö ár (rauðir reitir). Tímabil tollverndar fyrir blómkál styttist um tvær vikur, fyrir gulrætur um tíu vikur, fyrir hvítkál um sex vikur, fyrir kartöflur um mánuð (júní), fyrir kínakál og rauðkál um tvær vikur og fyrir spergilkál um átta vikur. Tollvernd fyrir sellerí (selju) fellur alfarið niður.

FA gerði þann fyrirvara við tillögu sína og BÍ til ráðuneytisins að endurskoða þyrfti tollfrjálsa „gluggann“ fyrir kartöflur á meðan málið væri í meðförum þingsins, m.a. vegna kartöflumyglu sem kom upp í Þykkvabæ í haust. FA lagði til við efnahags- og viðskiptanefnd að tollvernd fyrir kartöflur yrði felld niður strax í maí, en BÍ hélt sig við að „glugginn“ næði aðeins til júnímánaðar og varð það niðurstaðan.

Markmiðið að stuðningur færist úr tollvernd í beingreiðslur
„Það er einkar ánægjulegt að þessi tímabundna lausn fannst á þeim vandkvæðum, sem gölluð löggjöf skapaði á grænmetismarkaðnum, í góðu samstarfi okkar, Bændasamtakanna og stjórnvalda,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Það er mikið hagsmunamál neytenda og ekki síður fyrirtækja sem flytja inn grænmeti að háir tollar séu ekki lagðir á innfluttar vörur á sama tíma og innlendir framleiðendur eiga þær ekki til hjá sér. Við höfum fundið vel að það er heldur ekki vilji garðyrkjubænda að vörur vanti í verslanir. Þessi breyting dregur því vonandi úr þeim tilvikum þar sem gölluð löggjöf olli beinlínis vöruskorti í verslunum. Markmiðið til lengri tíma á klárlega að vera að stuðningur við innlenda grænmetisrækt færist sem allra mest úr tollum og yfir í beinar greiðslur. Það gaf góða raun varðandi tómata, gúrkur og paprikur á sínum tíma og enginn vafi er á að sama mun eiga við um útiræktað grænmeti.“

Félag atvinnurekenda

Ráð gegn innfluttri verðbólgu

17. maí 2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Fréttablaðinu 17. maí 2022.

Svokölluð innflutt verðbólga, þ.e. hækkanir á innfluttum vörum vegna mikilla verðhækkana á alþjóðlegum mörkuðum, er áhyggjuefni margra, ekki sízt vegna áhrifa á matarverð. Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins komst þó að þeirri áhugaverðu niðurstöðu að innlend matvæli, til dæmis mjólkurvörur og kjöt, hefðu hækkað mun meira en innfluttar vörur undanfarið og nefndi hagfræðingur ASÍ skort á samkeppni sem eina skýringuna á því.

Innlend búvöruframleiðsla nýtur þess að háir verndartollar eru lagðir á innfluttar búvörur. Heimildir til að flytja inn búvörur á lægri eða engum tolli, svokallaðir tollkvótar sem samið er um í alþjóðasamningum, eru takmarkaðar. Auk þess fer íslenzka ríkið þá leið að bjóða upp kvótana og slagar verðið, sem innflytjendur greiða fyrir þá, stundum upp í fullan toll á vörunni. Allt takmarkar þetta samkeppni.

Stjórnmálamenn hafa velt upp leiðum til að milda áhrif hækkandi matarverðs á almenning. Matvælaráðherrann sagði í viðtali að henni fyndist ekki útilokað að fella niður virðisaukaskatt á matvælum tímabundið. Sú leið hefði vissulega áhrif á verð, en þýddi um leið mikið tekjutap ríkissjóðs. Tekjur ríkisins af tollum eru hins vegar mjög litlar. Nærtækari leið væri því að lækka tolla. Ef kjúklingur hækkar til dæmis í verði um 500 krónur á alþjóðlegum mörkuðum, myndi lækkun tolla um 500 krónur þýða sömu vernd fyrir innlenda framleiðslu, í stað þess að innlendir framleiðendur geti hækkað sínar vörur í skjóli aukinnar verðverndar.

Í vikunni benti Félag atvinnurekenda á að sumir innlendir búvöruframleiðendur stunda þá vafasömu viðskiptahætti að bjóða hátt í tollkvóta fyrir vörur, sem eru fluttar inn í samkeppni við framleiðslu þeirra, fá þannig meirihluta kvótans í sinn hlut og geta ráðið verðinu. Önnur leið sem mætti fara til að lækka matarverð er að úthluta tollkvótum fyrir búvörur án endurgjalds, í stað uppboðanna. Samkeppniseftirlitið hefur mælt með slíkri leið, enda þýddi hún að alþjóðleg samkeppni veitti innlendu framleiðslunni meira aðhald.

Grein Ólafs á vef Fréttablaðsins

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Svínað á neytendum

16. maí 2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA á Vísi 16. maí 2022.

Innflutningur tollfrjálsra búvara frá ríkjum Evrópusambandsins eflir samkeppni á íslenzkum búvörumarkaði og stuðlar að lægra verði til neytenda. Eða það var að minnsta kosti meiningin, þegar þáverandi ráðherrar utanríkis- og landbúnaðarmála gerðu samning við Evrópusambandið árið 2015 um að stækka gagnkvæmar innflutningsheimildir án tolla, svokallaða tollkvóta. Ávinningur neytenda af þessum samningi hefur verið umtalsverður, en gæti verið enn meiri.

Borga skatt fyrir að fá niðurfelldan skatt
Íslenzk stjórnvöld úthluta hinum tollfrjálsu innflutningsheimildum með aðferð, sem gengur gegn bæði bókstaf og tilgangi samningsins. Tollkvótarnir eru boðnir upp og innflutningsfyrirtæki verða þannig að greiða skatt – svokallað útboðsgjald – fyrir að fá annan skatt, innflutningstollinn, felldan niður! Það þýðir að íslenzkir neytendur fá ekki að njóta ávinnings tollfrelsisins til fulls og innflutta varan hækkar í verði sem nemur útboðsgjaldinu.

Stækkun tollkvótanna samkvæmt samningnum við ESB var að mestu leyti komin til framkvæmda árið 2019. Félag atvinnurekenda hefur síðan fylgzt með framkvæmd samningsins, meðal annars niðurstöðum útboða á tollkvóta. Reynslan frá 2019 sýnir að hvað sumar búvörur varðar nýta innlendir bændur og framleiðendur kerfið, sem stjórnvöld hafa sett upp í kringum útboð á tollkvótunum, til að hindra að þeir þurfi að takast á við samkeppni frá innflutningi.

Innlendir framleiðendur með 74-91% innflutningskvótans
Á myndinni hér fyrir neðan sést hversu hátt hlutfall tollkvótans fyrir svínakjöt frá ESB innlendir bændur og afurðastöðvar hafa fengið í sinn hlut undanfarin þrjú ár og það sem af er þessu ári.  Hlutfallið er allt frá rúmlega 74% árið 2021 og upp í tæplega 91% í þeim útboðum sem fram hafa farið það sem af er árinu 2022.

Ástæðan fyrir því að innlendir svínabændur og kjötframleiðendur fá svona hátt hlutfall tollkvótans er að þeir bjóða hátt verð í hann, hærra en flestir aðrir. Á næstu mynd sjáum við þróun útboðsgjaldsins, sem innflytjendur svínakjöts hafa að meðaltali greitt fyrir að fá að flytja inn hvert kíló án tolla frá því í árslok 2018.

Þessi mynd segir sína sögu; gjaldið fer hækkandi. Þegar hún er skoðuð í samhengi við fyrri myndina fer ekkert á milli mála að það eru innlendir framleiðendur sem leiða hækkanirnar.

Hér eru stjórnmálamenn búnir að búa til kerfi sem gerir innlendum framleiðendum búvöru kleift að bjóða hátt í tollfrjálsan innflutningskvóta á sömu vöru, ná til sín megninu af kvótanum, hækka þannig verðið á innflutningnum og hindra samkeppni við sjálfa sig. Þetta heitir auðvitað að svína á neytendum og þarf meðal annars að skoðast í því ljósi að nú á tímum hækkandi matvælaverðs ættu stjórnvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna gegn verðhækkunum.

Samkeppniseftirlitið taki viðskiptahættina til skoðunar         
Samkeppnisyfirvöld hafa áður lagt til að tollar verði felldir niður á svína- og kjúklingakjöti, enda er þar um að ræða vernd fyrir iðnaðarframleiðslu sem á lítið skylt við hefðbundinn landbúnað. Samkeppniseftirlitið hefur líka lagt til að útboð á tollkvótum verði felld niður eða kvótunum úthlutað án endurgjalds. Nú virðist full ástæða til að Samkeppniseftirlitið taki þá viðskiptahætti sem viðgangast í þessu kerfi til skoðunar.

Sú þróun sem hér er lýst með tölulegum gögnum sýnir vel hvernig hagsmunaaðilum í landbúnaði hefur tekizt að nýta gallað kerfi úthlutunar tollkvóta til að koma í veg fyrir samkeppni við sjálfa sig. Hún sýnir líka vel fram á hversu vitlaust væri að láta þessa sömu hagsmunaaðila hafa undanþágur frá samkeppnislögum, eins og tillögur eru uppi um innan stjórnarliðsins. Það þarf að auka samkeppnina í innlendri búvöruframleiðslu, ekki draga úr henni.

Grein Ólafs á Vísi

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Netverslun við Kína – hvernig kem ég vörunni minni á framfæri? Morgunverðarfundur ÍKV og Íslandsstofu 24. maí

12. maí 2022

Frummælendur á fundinum. Joakim, Valdís, Ágúst, Óskar og David.

Kínverjar eru duglegir að selja Íslendingum vörur á netinu en viðskiptin í hina áttina eru ekki eins mikil. Mörg íslensk fyrirtæki telja vörurnar sínar eiga erindi við kínverska markaðinn en flestir reka sig á að málið er mun flóknara en að opna bara sölusíðu á netinu. Hvað þarf að gera til að koma vörunni sinni á framfæri við kínverska neytendur? Um það fjöllum við á morgunverðarfundi Íslandsstofu og Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins (ÍKV) sem haldinn verður í tengslum við aðalfund ÍKV þriðjudaginn 24. maí næstkomandi, kl. 8.30.

Dagskrá

8.30 Cracking the complex code – how to succeed with e-commerce in China
Joakim Abeleen, viðskiptafulltrúi og markaðsstjóri Business Sweden í Kína

9.00 Víðtæk aðstoð við vöxt erlendis – Samstarf Íslandsstofu og Business Sweden
Ágúst Sigurðarson, fagstjóri útflutningsþjónustu hjá Íslandsstofu

9.20 Er hægt að selja Kínverjum fisk á netinu?
Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Breiðar þróunarfélags og áður framkvæmdastjóri Blámars

9.40 Frá hugmynd til netverslunar í Kína
Óskar Þórðarson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Omnom Chocolate

10.00 How to make an Icelandic brand work in the China market
David Tong Li, stjórnarformaður Ísmoli Marketing Group

Fundurinn verður haldinn í fundarsal Félags atvinnurekenda á 9. hæð í Húsi verslunarinnar kl. 8.30-10.15. Léttur morgunverður er í boði. Sætafjöldi er takmarkaður og því nauðsynlegt að skrá sig hér að neðan.

Notice: JavaScript is required for this content.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin