Samherji

Samherji á enga aðild að máli norska fjármálaeftirlitsins gagnvart DNB

Samherji á enga aðild að máli norska fjármálaeftirlitsins gagnvart DNB

Greint var frá því í dag að norska fjármálaeftirlitið, Finanstilsynet, hefði sektað norska bankann DNB um 400 milljónir norskra króna. Samherji á enga aðild að þessu máli og hefur engar upplýsingar um þessa sektarákvörðun umfram það sem lesa má um í þeim skjölum sem birst hafa opinberlega um málið.

Eftir því sem ráðið verður af gögnum var þessi sekt lögð á DNB bankann eftir reglubundið eftirlit með peningaþvættisvörnum bankans í febrúar á síðasta ári. Niðurstaða þeirrar athugunar var að almenn kerfi DNB til að greina hugsanlegt peningaþvætti hafi verið ófullnægjandi. Sambærilegar athuganir á öðrum smærri fjármálafyrirtækjum í Noregi hafa einnig leitt til sektarviðurlaga af sömu ástæðu. DNB hefur tekið skýrt fram að norska fjármálaeftirlitið saki bankann ekki um að hafa aðstoðað viðskiptavini sína við peningaþvætti heldur sé bankinn sakaður um það að verkferlar bankans hafi almennt ekki fylgt ítarlegri norskri löggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Norska fjármálaeftirlitið hefur unnið sérstaka skýrslu um viðskiptasamband DNB bankans við Samherja en greint var frá efni hennar í dag. Samherji hefur þrjár athugasemdir við þessa skýrslu sem fyrirtækið vill koma á framfæri:

Í fyrsta lagi ber að geta þess að þótt þessi skýrsla fjalli að nafninu til um samband DNB við Samherja er meginefni hennar um starfshætti DNB bankans sjálfs í ljósi norskrar löggjafar en ekki um Samherja.

Í öðru lagi er skýrslan ónákvæm. Það kemur ekki á óvart þar sem Finanstilsynet hafði aldrei samband við Samherja og beindi aldrei neinum fyrirspurnum til fyrirtækisins við gerð skýrslunnar. Að öllum líkindum er ástæðan fyrir þessu sú staðreynd að Samherji á enga aðild að þessu máli. Engu að síður er það auðvitað mjög óheppilegt að skýrsla sem hefur að geyma trúnaðarupplýsingar um þriðja aðila, og er ónákvæm í þokkabót, sé gerð opinber án þess að fyrirtækið sem þar er nefnt fái tækifæri til að gera athugasemdir eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ónákvæmni í skýrslunni hefur einnig leitt til þess að fréttaflutningur hefur verið villandi og staðreyndir verið afbakaðar. Eitt af mörgum dæmum er sú framsetning að allar greiðslur gegnum bankareikninga í DNB bankanum hafi tengst útgerðinni í Namibíu. Þetta er fjarri því að vera rétt enda var mikill meirihluti millifærslna gerður í tengslum við sölu sjávarafurða og skipa víðs vegar um heiminn. Þar er um að ræða ósköp venjuleg og algjörlega óumdeild viðskipti.

Í þriðja lagi hefur þessi skýrsla, eða samband DNB við Samherja yfir höfuð, ekki nein sérstök áhrif á umrætt mál milli Finanstilsynet og DNB bankans. Sú sektarákvörðun sem beinist að DNB og tilkynnt var um í dag er nákvæmlega sú sama og hin almennta sekt sem lögð var á DNB og greint var frá í desember á síðasta ári. Þá tekur norska fjármálaeftirlitið skýrt fram að viðskiptasamband DNB og Samherja sé ekki afmarkað eða einangrað tilvik. DNB bankinn er sektaður vegna þess að bankinn fylgdi ekki ítarlegum reglum um verklag í tengslum við viðskipti allt að 400 viðskiptavina bankans og Samherji er aðeins einn af þessum 400 viðskiptavinum.

Samherji hefur varið tíma og fjármunum í að upplýsa um helstu staðreyndir þessa máls. Fyrirtækið er reiðubúið að útskýra sína hlið málsins ítarlega gagnvart þar til bærum aðilum ef á reynir og ef þess gerist þörf. Þá ber að halda því til að haga að enginn starfsmaður Samherja, eða fyrirtæki tengt Samherja, hafa sætt ákæru tveimur árum eftir að fyrst var greint frá Fishrot-málinu svokallaða í fjölmiðlum. Ef það gerist síðar að þar til bær stjórnvöld hafa samband við Samherja mun fyrirtækið að sjálfsögðu bregðast við slíku erindi á viðeigandi hátt.

https://www.samherji.is/is/frettir/ekkert-peningathvaetti-i-vidskiptum-dnb-og-samherja

Samherji

Slippurinn á Akureyri annast smíði og uppsetningu á vinnslubúnaði í Oddeyrina EA

Slippurinn á Akureyri annast smíði og uppsetningu á vinnslubúnaði í Oddeyrina EA

– Verðmæti búnaðarins á annað hundrað milljónir króna – Alger nýjung í íslenskum sjávarútvegi

Samherji hefur undirritað samning við Slippinn á Akureyri um smíði og uppsetningu á vinnslubúnaði í Oddeyrina EA. Búnaðurinn er blanda af hefðbundnu og nýju, en breytingarnar ganga m.a. út á að skipið verði í stakk búið til að hefja tilraunir með að koma með lifandi bolfisk að landi til vinnslu. Þeirri aðferð hefur ekki verið beitt við togveiðar áður.

Oddeyrin EA bar áður heitið Western Chieftain. Um er að ræða lítið notað og vel búið 45 metra langt uppsjávarskip sem Samherji festi kaup á með það fyrir augum að breyta því í fyrrnefndum tilgangi. Aðferðin byggist á því að fiski er dælt um borð og tankar eru útbúnir öflugu sjódælukerfi til að tryggja súrefni svo að fiskurinn dafni.

Umfangsmiklum breytingum lokið

Umfangsmiklar breytingar á skipinu fóru fram í Karstensen Skibsværft í Danmörku. Þar var skipið lengt um 10 metra og hefðbundnu vinnsludekki og fiskilest komið fyrir. Upphaflegir kælitankar í skipinu voru látnir halda sér en þeim breytt til að geyma lifandi fisk. Nýju dekkhúsi, sem mun hýsa flokkunaraðstöðu, var komið upp og unnið er að því að koma fyrir búnaði til flokkunar á afla eftir að honum er dælt um borð. Töluverð vinna er enn í gangi í brú þar sem unnið er að því að uppfæra ýmsan búnað og fiskleitartæki sem henta betur til bolfiskveiða. Einnig er unnið að málningarvinnu og öðrum frágangi.

Upphafleg verklok voru áætluð í mars en Covid-heimsfaraldurinn hefur haft sín áhrif til seinkunar. Verkið hefur jafnframt tekið ýmsum breytingum eftir að áhöfn og fleiri komu með þekkingu sína og reynslu að borðinu. Nú er áætlað að skipið sigli heim til Akureyrar eftir um fjórar vikur.

Alveg nýtt fyrir öllum sem að þessu koma

Samningurinn við Slippinn felst, sem fyrr segir, í vinnslubúnaði sem settur verður um borð á Akureyri. Vinnslubúnaðurinn er blanda af hefðbundnu og nýju, er þar helst að nefna nýja tegund af þvottatanki og stórum blóðgunarbrunnum sem Slippurinn hefur hannað. Blóðgunarbrunnarnir ná frá vinnsluþilfari að tanktoppi en þannig næst mikið rúmmál fyrir afla í blæðingu sem eykur gæðin. Þá verður komið fyrir krapavél frá KAPP ehf. sem bæði verður notuð til að kæla afla í vinnslu og í lest. Með þessu er lögð áhersla á blæðingu og kælingu á þeim afla sem slátrað er um borð. Hugmyndin er samt sem áður að sem hæst hlutfall afla fari lifandi í tanka og verði afhent þannig í land. Heildarverðmæti vinnslubúnaðar frá Slippnum er á annað hundrað milljónir króna.

„Verkið gengur almennt mjög vel en það eru margar pælingar í gangi því þetta er alveg nýtt fyrir öllum sem að þessu koma. Við höfum átt í góðu samstarfi við Karstensen Skibsværft og Slippinn á Akureyri og teljum að við séum komnir með góðan grunn til að prófa þessa nýstárlegu aðferð,“ segir Ingi Lár Vilbergsson vélstjóri, sem hefur eftirlit með verkinu í Danmörku fyrir hönd Samherja.

Sjá nánar: https://www.samherji.is/is/frettir/veidar-og-vardveisla-a-lifandi-fiski

Halda áfram að lesa

Samherji

Nýtt myndband um úrskurð siðanefndar

Nýtt myndband um úrskurð siðanefndar

Föstudaginn 26. mars kvað siðanefnd Ríkisútvarpsins upp úrskurð þess efnis að fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins hefði gerst sekur um alvarlegt brot gegn siðareglum með skrifum sínum um Samherja á samfélagsmiðlum. Í ljósi niðurstöðu siðanefndarinnar er óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að fréttamaðurinn hafi verið vanhæfur til að fjalla um Samherja vegna persónulegrar afstöðu gegn fyrirtækinu og stjórnendum þess. Engu að síður ætlar Ríkisútvarpið ekki að bregðast við úrskurðinum og hann mun ekki hafa neinar afleiðingar fyrir fréttamanninn.

Samherji lét vinna stutt myndband til að halda staðreyndum þessa máls til haga. Þar er jafnframt vakin athygli á því að Samherji er alþjóðlegt fyrirtæki í sjávarútvegi og hefur verið í rekstri frá 1983. Í þessi 38 ár hefur Samherji átt í góðum samskiptum við fjölmiðla úti um allan heim. Undantekningin frá þessu er Ríkisútvarpið og umfjöllun þess undanfarinn áratug.

Myndbandið má nálgast hér.

Halda áfram að lesa

Samherji

Nýr Vilhelm er kominn til landsins

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 með Dalvík í baksýn. Mynd: Haukur Arnar Gunnarsson

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 með Dalvík í baksýn.
Mynd: Haukur Arnar Gunnarsson

Vilhelm Þorsteinsson EA 11, nýtt skip til uppsjávarveiða sem var smíðað sérstaklega fyrir Samherja, sigldi inn Eyjafjörðinn í fyrsta sinn í gær. Vilhelm Þorsteinsson er stórt, glæsilegt og fullkomið skip, 89 metrar á lengd og 16,6 metrar á breidd. Burðargetan er vel yfir þrjú þúsund tonn í þrettán lestartönkum þar sem aflinn verður kældur niður til að sem best hráefni komi að landi.

Karstensens skipasmíðastöðin í Skagen Danmörku hannaði og smíðaði skipið eftir þörfum Samherja og naut ráðgjafar starfsfólks Samherja við verkið. Beðið hefur verið eftir skipinu með nokkurri eftirvæntingu en samningar um smíði þess voru undirritaðir 4. september 2018. Þann dag hefðu tvíburarnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinssynir orðið 90 ára. Nýsmíðin leysir af hólmi eldri Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins um síðustu aldamót.

Nýjasta fáanlega tækni um borð

Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, segir að allur aðbúnaður í nýja skipinu sé eins og best verður á kosið. „Skipið er stórt og það er mjög vel útbúið. Um borð er öll sú nýjasta tækni sem er fáanleg við meðferð afla og besta gerð af veiðarfærum sem við þekkjum. Skip af eins og þetta, sem er bæði með troll og nót, er með breytilega notkun á vélarafli. Þannig að við erum með tvær vélar í skipinu. Á heimasiglingunni notuðum við aðeins aðra þeirra og við þær aðstæður eyðir skipið mun minna,“ segir Kristján. Í skipinu eru klefar fyrir fimmtán manns auk sjúkraklefa. Þá er skipið einstaklega rúmgott og má þar nefna borðsal og tvær setustofur. Um borð er einnig líkamsræktaraðstaða og gufubað fyrir skipverja.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sigldi með skipinu heim til Íslands frá Skagen. „Þetta er þriðja kynslóð uppsjávarskipa sem maður tekur þátt í að reka. Við ákváðum að fela Karstensens skipasmíðastöðinni þetta verkefni. Aðalhönnuðir skipsins starfa hjá stöðinni en starfsfólk Samherja hefur komið að þessu ferli með sínar hugmyndir, meðal annars varðandi orkunýtingu. Þannig má segja að skipið sé afrakstur samstarfs stöðvarinnar og okkar starfsfólks. Ég held að útkoman sé mjög góð og það var frábært að sigla með skipinu heim. Tímanum var vel varið með áhöfninni,“ segir Þorsteinn Már.

Endurnýjun er forsenda samkeppnishæfni

Samherji hefur lagt höfuðáherslu á að fjárfesta eins og kostur er í nýjum skipum, búnaði og tækni. Á síðustu árum hefur skipafloti Samherja verið endurnýjaður mikið. Á síðasta ári var nýtt hátæknivinnsluhús á Dalvík tekið í notkun og þá hafa húsnæði og tæki bolfiskvinnslunnar á Akureyri verið endurnýjuð. Samherji ræðst í slíka fjárfestingu til að tryggja að fyrirtækið sé ávallt í stakk búið að mæta ýtrustu kröfum viðskiptavina sinna en einnig svo starfsfólk Samherja vinni við bestu mögulegu aðstæður hverju sinni. Endurnýjun af þessu tagi þarf reglulega að eiga sér stað í íslenskum sjávarútvegi svo fyrirtæki í greininni séu samkeppnishæf.

Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, segir að skipið sé framúrskarandi vel hannað. „Á siglingunni heim prófuðum við að lesta skipið með sjó og prófuðum að snúa því á fullri ferð og hallinn var mjög lítill. Skipið kom einstaklega vel út úr þessari siglingu heim. Ég hef verið skipstjóri í um þrjátíu ár og ég held að það sé óhætt að fullyrða að þetta er eitt besta skip sem ég hef stýrt á mínum ferli,“ segir Guðmundur. Áætlað er að skipið haldi til veiða á fimmtudaginn í næstu viku.

Öll áhöfn skipsins og gestir um borð fóru í skimun vegna Covid-19 áður en lagt var af stað frá Skagen og svo að nýju þegar komið var til landsins í gær. Vegna sóttvarnarráðstafana var ekki mögulegt að bjóða Akureyringum og öðrum gestum að líta um borð eins og venjan er þegar ný skip koma heim en Ásthildur Sturludóttir, bæjarstóri Akureyrarbæjar, færði Guðmundi Jónssyni skipstjóra blómvönd við látlausa athöfn eftir komuna til heimahafnar í morgun.

Dagskrárgerðar- og kvikmyndatökumenn frá sjónvarpsstöðinni N4 sigldu með Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 frá Skagen og tóku upp efni um borð. Mun N4 sýna sérstakan þátt um skipið sem verður á dagskrá stöðvarinnar á annan í páskum, mánudaginn 5. apríl kl. 20:00. Í þættinum verður fjallað ítarlega um skipið, tæknina um borð og aðbúnað skipverja.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin