Samherji

Samherji stækkar landeldisstöðina í Öxarfirði

Tölvugerð mynd af laxeldisstöðinni eftir stækkun

Tölvugerð mynd af laxeldisstöðinni eftir stækkun

Stjórn Samherja fiskeldis hefur ákveðið að stækka landeldisstöð félagsins í Öxarfirði um helming, þannig að framleiðslan verði um þrjú þúsund tonn af laxi á ári. Áætlaður kostnaður er um einn og hálfur milljarður króna. Framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis segir miðað við að framkvæmdum verði lokið eftir um það bil eitt ár. Sem hluti af hringrásarhagkerfi eldisins, bættri nýtingu og kolefnisjöfnun er landgræðsla og síðar skógrækt áformuð á nærliggjandi jörð, sem Samherji hefur keypt vegna stækkunarinnar.

Samherji fiskeldi hefur í nokkurn tíma kannað möguleika á að stækka landeldisstöðina í Öxarfirði. Jón Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis segir að framkvæmdir hefjist á næstunni, fyrst þurfi að ljúka vinnu við skipulagsmál á svæðinu sem er á lokastigi.

Silfurstjarnan fyrir stækkun

Fimm sinnum stærri ker

„Þetta er nokkuð umfangsmikið verkefni. Kerin sem við byggjum verða alls fimm vegna stækkunarinnar, um helmingi stærri að umfangi en stærstu ker sem fyrir eru. Þá þarf að auka sjótöku, byggja hreinsimannvirki, stoðkerfi og koma fyrir ýmsum tækjabúnaði. Undirbúningsvinnu er nú að mestu lokið, leyfin eru að klárast og næst er að hefjast handa,“ segir Jón Kjartan.

Undanfari landeldis á Reykjanesi

Samherji hefur keypt lóðina þar sem núverandi starfsemi fer fram og einnig jörðina Akursel, sem er vestan við stöðina. Jón segir að þar verði, auk sjótöku, nýttur áburður frá stöðinni til landgræðslu og síðar skógræktar.

„Samherji áformar að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi á laxi á Reykjanesi á næstu árum og þessi stækkun í Öxarfirði tengist þeim áformum. Það má segja að stækkunin fyrir norðan sé á vissan hátt undanfari þessa stóra verkefnis okkar á Reykjanesi. Við ætlum að prófa nýja hluti og í stærri einingum en áður og nýta þá reynslu við hönnun og rekstur á nýju stöðinni.“

Öxarfjörður hentugur staður

Jón Kjartan segir að stækkunin í Öxarfirði komi nærsamfélaginu til góða á ýmsan hátt.

„Já, klárlega. Með helmingi stærri stöð eykst umfangið að sama skapi. Störfum fjölgar, aðflutningar til og frá stöðinni munu aukast og þörf á aðkeyptri þjónustu til rekstrarins verður meiri. Þetta eflir samfélagið og undirstrikar jafnframt trú okkar á landeldi og að Öxarfjörðurinn sé hentugur staður fyrir slíka atvinnustarfsemi.“

Samherji

Helga Steinunn Guðmundsdóttir heiðursfélagi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Helga Steinunn Guðmundsdóttir

Helga Steinunn Guðmundsdóttir

Helga Steinunn Guðmundsdóttir var um helgina gerð að heiðursfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Ísland en Helga hefur unnið ómetanlegt starf í þágu íþrótta á Íslandi. Frá þessu er greint á heimasíðum ÍSÍ og Knattspyrnufélags Akureyrar. Helga Steinunn situr í stjórn Samherja og er stjórnarformaður Samherjasjóðsins sem hefur stutt íþróttahreyfinguna dyggilega.

Nafnbótin Heiðursfélagi ÍSÍ er æðsta viðurkenning íþróttahreyfingarinnar og þeir sem geta hlotið þá nafnbót eru þeir sem hafa þegar hlotið Heiðurskross ÍSÍ, æðstu heiðursviðurkenningu ÍSÍ. Helga Steinunn sat í stjórn ÍSÍ frá árinu 2006 til ársins 2017 og var varaforseti sambandsins 2013 til 2017.

Margvígslegar viðurkenningar

„Helga var sæmd Heiðurskrossi ÍSÍ árið 2017 og Gullmerki ÍSÍ árið 2003 en hún gegndi til að mynda starfi formanns Skipulagsnefndar Smáþjóðaleikanna 2015 og vinnuhóps ÍSÍ um ferðasjóð íþróttafélaga frá upphafi sjóðsins.
Þá hefur Helga Steinunn unnið gríðarlega mikið og gott starf fyrir KA en hún var formaður félagsins frá árinu 1998 til ársins 2005. Einnig hefur hún setið í stjórn knattspyrnudeildar KA til viðbótar við öll þau önnur störf sem hún hefur komið að innan félagsins. Helga var gerð að heiðursfélaga KA árið 2008 og var sæmd gullmerki KA árið 2005,“ segir á heimasíðu KA.

Samherji óskar Helgu Steinunni hjartanlega til hamingju með sæmdarheitið.

Halda áfram að lesa

Samherji

Sjávarútvegsfræðingar áberandi hjá Samherja

Sjávarútvegsfræðingar áberandi hjá Samherja

Tveir nýir stjórnendur, sem eiga það sameiginlegt að vera sjávarútvegsfræðingar frá Háskólanum á Akureyri, hafa verið verið ráðnir til Samherja fiskeldis í Sandgerði. Með þessum ráðningum eru sjávarútvegsfræðingarnir sem starfa hjá Samherja samtals tuttugu og fjórir, enda leitast Samherji við að ráða til sín og hafa í sínum hópi einvalalið starfsmanna. 

Rekstrarstjóri

Halldór Pétur Ásbjörnsson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri vinnslu Samherja í Sandgerði. Halldór Pétur lauk M.Sc. í auðlindafræðum árið 2011, sjávarútvegsfræði árið 2009 frá Háskólanum á Akureyri og fiskeldisfræðum frá Háskólanum á Hólum 2006. Hann hefur starfað sem verk- og verkefnastjóri í fiskiðjuveri Brims í Reykjavík í tíu ár. 

Gæðastjóri

Sunneva Ósk Þóroddsdóttir hefur verið ráðin gæðastjóri í vinnslu Samherja í Sandgerði. Sunneva Ósk er sjávarútvegs- og viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur starfað í sjávarútvegi frá fjórtán ára aldri. Meðfram námi starfaði hún hjá Arion banka. Sunneva Ósk er Sandgerðingur, þannig að hún mun starfa í heimabyggð.

Einstakt nám

Nám í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri er fjölbreytt og krefjandi, segir á heimasíðu skólans. Sjávarútvegsfræðingar eru eftirsóttir til starfa, enda miðast námið við að nemendur takist á við fjölbreytt verkefni að námi loknu.

Segja má að námið sé einstakt í íslenskri námsflóru og veiti góðan grunn til stjórnunarstarfa í öllum greinum sjávarútvegsins, jafnt í sjávarútvegi sem og öðrum greinum atvinnulífsins. 

Nemendur í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri geta einnig fengið gráðu í viðskiptafræði og bæta þá við einu ári í námi, samkvæmt heimasíðu skólans.

Samherji býður þessa nýju starfsmenn velkoma til starfa.

Halda áfram að lesa

Samherji

Rekstur Samherja gekk vel þrátt fyrir heimsfaraldur

Afar fullkomið fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík var tekið í notkun á árinu 2020

Afar fullkomið fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík var tekið í notkun á árinu 2020

Samherji hagnaðist um 7,8 milljarða króna á síðasta ári. Heimsfaraldurinn hafði víðtæk áhrif á reksturinn. Forstjóri félagsins segir að reynt hafi verulega á samstöðu allra og útsjónarsemi, tekist hafi að halda úti skipaflotanum, vinnslum og annarri starfsemi þannig að reksturinn hafi haldist svo að segja óbreyttur. Aðalfundur Samherja var haldinn í gær, ákveðið var að greiða ekki út arð vegna síðasta árs. 

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 46,5 milljörðum króna á árinu 2020 samkvæmt rekstrarreikningi. Hagnaður af rekstri samstæðunnar nam tæplega 8 milljörðum króna.
Ársreikningur Samherja er í evrum en framangreindar upphæðir eru umreiknaðar í íslenskar krónur á meðalgengi ársins 2020. Samherji er áfram í hópi stærstu skattgreiðenda landsins og greiddu Samherji og starfsmenn 5 milljarða króna til hins opinbera á Íslandi á árinu 2021.

Miklar fjárfestingar

Sem fyrr var verulegum fjárhæðum varið til fjárfestinga. Þær veigamestu á árinu voru vegna nýs Vilhelms Þorsteinssonar EA 11 og nýrrar fiskvinnslu á Dalvík. Þessar fjárfestingar endurspegla vilja og metnað félagsins til uppbyggingar, þannig að starfsfólk vinni við bestu aðstæður og framleiði hágæða vörur fyrir kröfuharða markaði.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja:

„Þegar litið er til síðasta árs, má segja að reksturinn hafi verið hálfgerð rússibanareið vegna áhrifa heimsfaraldursins. Vegna þessa reyndi verulega á samstöðu allra og útsjónarsemi. Okkur tókst að halda úti skipaflotanum, vinnslunum og annarri starfsemi, þannig að reksturinn hélst svo að segja óbreyttur. Þetta er afrek samstillts starfsfólks, leyfi ég mér að fyllyrða.

Ágætt dæmi um þær áskoranir sem við tókumst á við er vinnsluhúsið á Dalvík, sem var tekið í notkun fyrir rúmu ári síðan. Með nýjum búnaði og gerbreyttri tækni komu engir utanaðkomandi sérfræðingar í húsið mánuðum saman, áskoranir starfsfólksins voru því margar en samt sem áður var slegið framleiðslumet á síðasta fiskveiðiári. Íslenskt hugvit er áberandi í húsinu, svo og framleiðsla flókins búnaðar. Fiskvinnslurnar okkar vinna að stórum hluta gæða afurðir sem fara beint á borð neytenda veiðs vegar um heiminn.

Annað gott dæmi er koma nýs uppsjávarskips Samherja, Vilhelms Þorsteinssonar EA fyrr á þessu ári, allar aðstæður við smíði skipsins voru krefjandi vegna heimsfaraldursins. Vilhelm er án efa eitt glæsilegasta skip íslenska flotans og íslensk hátækni er áberandi um borð, auk þess að allur aðbúnaður er góður. Með tilkomu þessa skips dregur verulega úr olíunotkun þar sem öll hönnun og búnaður miðast við að minnka kolefnissporið.“

Ársuppgjörið kynnt á aðalfundi – stjórnin endurkjörin – ekki greiddur út arður –

Eigið fé samstæðunnar í árslok 2020 var samtals 78,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 72% , sem undirstrikar að félagið stendur fjárhagslega vel að vígi.

Ársuppgjörið var kynnt á aðalfundi Samherja sem fram fór í gær 30. september. Ársreikningunum hefur verið skilað til ársreikningarskrár. Á aðalfundinum var ákveðið að greiða ekki út arð til hluthafa vegna síðasta árs.

Stjórn félagsins var endurkjörin. Formaður stjórnar er Eiríkur S. Jóhannsson. Auk hans eru í stjórn Dagný Linda Kristjánsdóttir, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Kristján Vilhelmsson og Óskar Magnússon.

Hér fyrir neðan eru lykiltölur úr rekstri Samherja fyrir árið 2020.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin