Innlent

Samið um hagnýtingu ljósleiðaraþráða

Utanríkisráðherra hefur að tillögu nefndar um ráðstöfun ljósleiðaraþráða samið við Ljósleiðarann ehf. um hagnýtingu tveggja þráða í ljósleiðarastreng Atlantshafsbandalagsins. Ákveðið var að ganga til samninga við fyrirtækið að undangengnu auglýstu ferli þar sem óskað var eftir tillögum um samningsbundin afnot af einum eða tveimur þráðum.

Ljósleiðarastrengurinn sem um ræðir, oft kallaður NATO-ljósleiðarinn, var lagður af Póst- og simamálastofnun fyrir rúmum þremur áratugum hringinn í kringum landið og til Vestfjarða. Um er að ræða einn streng með átta ljósleiðaraþráðum. Fimm þeirra eru í eigu Mílu ehf. en hinir þrír eru á eignaskrá Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Upphaflega voru þræðirnir ætlaðir til samskipta á milli stjórnstöðvar Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og ratsjár- og fjarskiptastöðva á landshornunum en vegna tækniþróunar er ekki þörf á öllum strengjunum fyrir þau samskipti í dag.

Utanríkisráðherra er heimilt að veita gegn gjaldi samningsbundin afnot af þráðunum að virtum öryggisreglum og forgangsrétti Atlantshafsbandalagsins. Árið 2010 var í kjölfar útboðs gerður samningur við Vodafone, þá Og fjarskipti ehf., um tíu ára leigu á einum þræði. Gildistími samningsins hefur verið framlengdur í tvígang um ár í senn en hann rennur út þann 31. desember 2022.

Tvö ár eru síðan þáverandi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipaði starfshóp um ljósleiðaramálefni sem gera skyldi gera heildstæða úttekt og mat á ljósleiðaramálum á Íslandi með tilliti til þjóðaröryggis og þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands. Starfshópurinn skilaði skýrslu og skilagrein með tillögum til ráðherra í febrúar 2021.

Á grundvelli skýrslu starfshópsins hófst vinna við undirbúning á ráðstöfun þráðanna í utanríkisráðuneytinu í samráði við önnur ráðuneyti og varnarmálasvið Landhelgisgæslu Íslands sem annast rekstur þráðanna í umboði utanríkisráðuneytisins. Snemma árs 2022 skipaði utanríkisráðherra nefnd um ráðstöfun ljósleiðaraþráða undir forystu Haralds Benediktssonar alþingismanns. Nefndin annaðist auglýsta ferlið þar sem óskað var eftir tillögum um samningisbundin afnot af þráðunum og lagði mat á innsendar tillögur.

Tillaga Ljósleiðarans var með hæstu einkunn af innsendum tillögum í gæðamati þar sem m.a. var lagt mat á hvort tillögur stuðluðu að aukinni samkeppni, jákvæðri byggðarþróun og bættum undirstöðum hugvitsiðnaðar til dæmis með ljósleiðaravæðingu á landsbyggðinni. Jafnframt var litið til þess hvort tillögur stuðluðu að öryggishagsmunum fjarskiptaneta með hliðsjón af þjóðaröryggis- og varnarhagsmunum og hver reynsla þátttakenda af rekstri fjarskiptaneta væri. Þá var lögð áhersla á að leiguverð endurspeglaði verð á markaði.

Samningurinn gildir til allt að tíu ára með möguleika á framlengingu, en að lágmarki fimm ára. Áætlað er að þræðirnir verði afhentir snemma á nýju ári að gildistíma núgildandi leigusamnings liðnum.

Innlent

Lögreglustjóri beðinn um skýringar á takmörkuðu aðgengi barna að gosstöðvum

Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum og skýringum frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum á ákvörðun um að takmarka aðgengi barna að gosstöðvunum í Meradölum.

  

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland hefur frumkvæði að sprengjueyðingarverkefni í Úkraínu

Ísland stendur ásamt hinum norrænu ríkjunum fyrir verkefni sem er fyrirhugað á sviði þjálfunar í sprengjuleit og sprengjueyðingu í Úkraínu. Líklegt er að fleiri lönd muni taka þátt í verkefninu þegar fram í sækir. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra kynnti verkefnatillögu þess efnis á ráðstefnu um stuðning við öryggi og varnir Úkraínu í Kaupmannahöfn í dag. 

Markmið ráðstefnunnar Copenhagen Conference for Northern European Defence Allies of Ukraine sem fram fór í dag var að styrkja samstarf og samráð um hvernig best megi styðja Úkraínu í stríðinu gegn Rússlandi. Áhersla er á viðbótarstuðning til lengri tíma litið, einkum framlög sem styðja við hernaðarlega getu úkraínsku þjóðarinnar til varnar innrás Rússa, fjárframlög, þjálfun hermanna og sprengjueyðingu. 

Á fundinum kynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tillögu að verkefni á sviði sprengjuleitar og sprengjueyðingar í Úkraínu. Það felur annars vegar í sér að veita úkraínskum sprengjusérfræðingum þjálfun á þessu sviði og hins vegar að sjá þeim fyrir nauðsynlegum búnaði. Öll norrænu ríkin hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt í verkefninu sem er í samræmi við þarfir Úkraínu á þessu sviði. Þá skoða fleiri ríki þátttöku. 

„Ég tel ákaflega mikilvægt að Ísland haldi áfram að leita allra leiða til þess að styðja við úkraínsku þjóðina. Við getum ekki stutt við hernaðarmátt Úkraínu en við viljum finna allar þær leiðir sem mögulegar eru til þess að leggja okkar af mörkunum til þess að hjálpa þeim að verja sig gegn árás Rússa og byggja upp samfélagið eftir að sigur hefur unnist og friði komið á. Verkefnið sem við kynntum í dag hefur sérstaka þýðingu fyrir almenna borgara í Úkraínu. Talið er að ósprungnar sprengjur af ýmsu tagi, þar á meðal jarðsprengjur, sé að finna á allt að fimmtungi úkraínsks landssvæðis. Þær geta legið í jörðu árum saman og sprungið þegar minnst varir, löngu eftir að stríðátökum lýkur eða víglínur færst til. Þetta framlag stuðlar því að björgun mannslífa,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Landhelgisgæsla Íslands hefur tekið þátt í viðræðum og undirbúningi verkefnisins en sprengjusérfræðingar á hennar vegum hafa á undanförnum árum sinnt verkefnum á vegum Atlantshafsbandalagsins á sviði þjálfunar sprengjusérfræðinga, meðal annars í Írak og Jórdaníu. 

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði ráðstefnuna. Í ræðu sinni minnti hann á að það hafi verið á Norðurlöndum sem fyrst komst upp um geislavirka mengun vegna Tsjernóbýlslyssins og það hafi gerst meðan sovésk stjórnvöld reyndu enn að hylma yfir atburðinn. Setti hann þetta í samhengi við þá hættu sem nú er í kringum stærsta kjarnorkuver Evrópu í borginni Zaporizhzhia. Þá ræddi hann um mikilvægi fjárstuðnings við daglegan rekstur innviða í Úkraínu, þar á meðal skóla. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, ávarpaði einnig ráðstefnuna og lagði áherslu á að árás Rússa á Úkraínu væri árás á þau sameiginlegu gildi sem evrópsk samfélög byggja velferð sína á.

Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, var gestgjafi fundarins ásamt Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands og Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu. Auk þeirra sóttu ráðstefnuna fulltrúar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Hollands, Póllands, Þýskalands, Tékklands, Slóvakíu, Slóveníu, Bandaríkjanna, Atlantshafsbandalagsins,  Evrópursambandsins, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Georgíu, Rúmeníu og Japans.

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Bætt staða á íslenskum vinnumarkaði frá fyrra ári

Helstu niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands fyrir annan ársfjórðung 2022 sýna bætta stöðu vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði frá árinu áður.

Fjöldi starfandi eykst
Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 81,6% á öðrum ársfjórðungi 2022 sem er aukning um 1,4 prósentustig frá sama ársfjórðungi 2021. Fjöldi starfandi á öðrum ársfjórðungi 2022 var 210.600 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 78,1%. Frá öðrum ársfjórðungi 2021 til annars ársfjórðungs 2022 fjölgaði starfandi fólki um 16.100 og hlutfall þess af mannfjölda hækkaði um 4,2 prósentustig. Hlutfall starfandi kvenna var 74,8 % og starfandi karla 81,1%. Starfandi konum fjölgaði um 8.900 og körlum um 7.200.

Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 78,2% og utan höfuðborgarsvæðis 77,9%. Til samanburðar var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 74,9% og 72,1% utan höfuðborgarsvæðisins á öðrum ársfjórðungi 2021.

Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi
Á öðrum ársfjórðungi 2022 töldust að meðaltali 9.500 einstaklingar vera atvinnulausir eða um 4,3% af heildarvinnuafli 16-74 ára. Til samanburðar voru um 16.700 einstaklingar atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2021 og var hlutfall þeirra af vinnuafli þá 7,9%.

Mjög dró úr atvinnuleysi kvenna á milli ára en það mældist nú 3,2% og hafði þá lækkað um 6,1 prósentustig frá öðrum ársfjórðungi 2021. Á sama tímabili lækkaði atvinnuleysi karla úr 7,6% í 5,2% eða um 2,4 prósentustig.

Á öðrum ársfjórðungi hvers árs mælist atvinnuleysi yfirleitt alltaf hæst miðað við aðra fjórðunga ársins og stafar það af því að þá sækir ungt fólk og námsmenn út á vinnumarkaðinn í leit að sumarstörfum. Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 13,9% sem er talsverð lækkun frá sama ársfjórðungi árið 2021 þegar það var 20,0%. Á tímabilinu minnkaði atvinnuleysi hjá þeim sem eru á aldrinum 25 til 54 ára um fjögur prósentustig eða úr 6,5% í 2,5%. Atvinnuleysi minnkaði einnig hjá þeim sem eru á aldrinum 55 til 74 ára eða um 0,8 prósentustig, úr 3,4% á öðrum ársfjórðungi 2021 í 2,5% á öðrum ársfjórðungi 2022.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin