Almannavarnir

Samræmd greining á áhættu og áfallaþoli – Vefgátt Almannavarna

Til þess að einfalda vinnu sveitarfélaga við að greina og leysa þær krísur sem upp koma á Íslandi hafa Almannavarnir útbúið vefgátt þar sem haldið er utan um samræmda greiningu í hverju sveitafélagi.  Í vefgáttinni er hægt að nálgast leiðbeiningar almannavarna fyrir greiningu á áhættu og áfallaþoli. Leiðbeiningarnar eru gerðar til að einfalda vinnu sveitarfélaga og ekki síst að hjálpa til við að greina og draga fram þá vá og/eða verkefni sem upp geta komið.

Á síðustu vikum hafa Almannavarnir kynnt þetta verkefni með ýmsum hætti. M.a. var haldið málþing fyrir ráðuneytin og í kjölfarið á því samráð við þau um leiðbeiningar og skjöl sem þau varða. Einnig hafa verið haldnir kynningarfundir fyrir ráðgjafa og leiðbeinendur sem kenna á námskeiðum sem tengjast verkefninu. Í lok apríl var svo haldin ráðstefnan „Við erum öll almannavarnir“.  

Á starfsmannafundi hjá forsætisráðuneytinu, sem haldinn var í byrjun vikunnar fengu starfsmenn ráðuneytisins kynningu á verkefninu.

Erindið var mjög upplýsandi fyrir starfsfólk og gaf innsýn inn í mikilvæga og sérhæfða vinnu við gerð áhættumats. Vinnu sem ráðuneytin þurfa að kunna og framkvæma“ sagði Eydís Eyjólfsdóttir mannauðsstjóri Forsætisráðuneytis eftir kynningu Elísabetar Pálmadóttir verkefnastjóra hjá Almannavörnum sem leitt hefur verkefnið.

Í vefgáttinni er einnig hægt að nálgast mælaborð með yfirliti yfir niðurstöður sem hægt er að fylgjast með. Þar geta t.d. íbúar hvers sveitafélags fyrir sig séð hver staðan er í sínu sveitafélagi. Vefgáttin er búin að vera í virk í nokkrar vikur og nú þegar hafa mörg sveitafélög nýtt þennan sameiginlega vettvang.  Vefgáttin gefur ekki bara notendum auðveldan aðgang að greina áhættu og áfallaþoli á sínum stað heldur gefur gáttin Almannavörnum einnig tækifæri að fá yfirsýn yfir stöðu áhættugreininga hjá öllum þeim sem þurfa að gera þær.  Sveitarfélög gegna aðalhlutverki í vinnu við að tryggja öryggi borgara og viðbúnað. Þau fara með almannavarnir í héraði sem gerir kröfu til þess að sveitarfélag vinni heildstætt og kerfisbundið að því að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað. Þetta undirstrikar hið mikilvæga hlutverk sem sveitarfélag hefur sem samræmingaraðili og drifkraftur í almannavarnastarfi.

Verkefnið á upptök sín í stefnuverkefni um könnun á áfallaþoli ráðuneyta, ríkisstofnana og sveitafélaga sem aftur tengist stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum en þar er eitt áhersluatriði greining á áhættu og áfallaþoli hjá framangreindum aðilum.

Vinnan við vefgáttina hefur staðið yfir á annað ár. Sú sem hefur leitt vinnuna fyrir hönd Almannavarna er Elísabet Pálmadóttir verkefnastjóri, henni til aðstoðar var Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna sem hefur haldið utan um kynningu á verkefninu gagnvart hagsmunaaðilum og haldið utan um vinnu Hvíta hússins sem hefur séð um útlitshönnun sem jafnframt hefur nýst til að móta skýrsluútlit og glæruviðmót fyrir Almannavarnir. Magga Dóra Ragnarsdóttir hjá Mennsk hélt utan um starf ráðgjafanna sem sáu um vefhönnun í verkefninu sem voru auk Mennsk, Ozio og Metadata.

Almannavarnir

Óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesi aflýst.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum aflýsir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga.  Landris mældist vestan við Þorbjörn á tímabilinu 28. apríl – 28. maí og var mesta hækkun um 5,5 sm.  Samhliða því var aukin skjálftavirkni og mældust um 800 skjálftar á sólahring þegar mesta var. Ástæða landrissins er talin vera myndun innskots á svipuðum slóðum og innskotin þrjú sem urðu til 2020. 

Atburðurinn í maí er áframhald af óróa á Reykjanesskaga sem hófst í lok árs 2019.  Mikil skjálftavirkni hefur verið síðan, nokkur innskot hafa myndast og eldgos varð í Geldingadölum 2021.  Þessi atburðarrás og saga eldvirkni á Reykjanesskaga renna stoðum undir að nýtt eldgosatímabil kunni að vera að hefjast á Reykjanesskaga.  Síðasta tímabil stóð yfir á árunum 800-1240 og urðu 18 gos á 440 árum.  Á þessum tíma runnu hraun frá eldstöðvakerfunum Reykjanesi, Svartsengi, Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum.

Almannavarnir, ríki, sveitarfélög og fyrirtæki á svæðinu munu halda áfram vinnu við áhættumat, mótvægisaðgerðir og viðbragðsáætlanagerðir til þess að vera undirbúin löngu tímabili óróa á Reykjenesskaga. Íbúar á Reykjanesskaganum eru hvattir til þess sama. Nánari upplýsingar um viðbrögð almennings við jarðhræringum er hægt að kynna sér hér á heimasíðu Almannavarna.   

Ef jarðskjálftavirkni eykst á ný samhliða landrisi verður almannavarnastig endurskoðað.

Halda áfram að lesa

Almannavarnir

Umfang og staðsetning kvikusöfnunarinnar áþekk og var 2020.

Vísindaráð almannavarna hélt fund þriðjudaginn 17. maí 2022.  Tilefni fundarins var aukin skjálftavirkni á Reykjanesskaga og hreyfingar sem mælst hafa á svæðinu.  Sunnudaginn 15. maí lýsti Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, yfir óvissustigi almannavarna og á mánudag færði Veðurstofa Íslands fluglitakóðann fyrir eldstöðvakerfi Reykjaness/Svartsengis á gult.

Samkvæmt GPS mælaneti á Reykjanesskaganum og InSAR gervihnattamyndum mælast færslur á yfirborði jarðar sem benda til kvikusöfnunar með miðju skammt norðvestan  Þorbjarnar.  Þenslan byrjaði rólega um mánaðarmótin apríl/maí en er hraðari núna.  Líkanagerð af færslunum bendir til að kvika safnist fyrir á 4-5 km dýpi og er að myndast innskot (silla) en það gerðist einnig þrisvar sinnum árið 2020.  Umfang og staðsetning kvikusöfnunarinnar núna er mjög áþekk því sem var 2020 og veldur kvikusöfnunin umtalsverðri jarðskjálftavirkni.

Jarðskjálftavirkni hefur verið yfir meðallagi á Reykjanesskaga og hafa mælst yfir 3800 skjálftar á svæðinu við Þorbjörn (frá Eldvörpum í vestri að Stóra Skógfelli í austri) undanfarna viku. Frá 15. maí, hafa mælst 17 skjálftar yfir 3 af stærð og tveir yfir 4 af stærð. Stærsti skjálftinn var af stærðinni 4,3 , kl. 17:38 þann 15. maí. Mesta skjálftavirknin er á 4-6 km dýpri. Jarðskjálftavirkni hefur verið veruleg undanfarið og stærsti skjálftinn varð í Þrengslunum 14. maí af stærð 4,8. 

Í aðdraganda eldgossins í Fagradalsfjalli var vakin athygli á því að skjálfti uppá 6,5 gæti orðið í Brennisteinsfjöllum sem hefði veruleg áhrif á Höfuðborgarsvæðinu.  Sú hætta er enn fyrir hendi. Líklegt er að slíkum skjálfta myndi fylgja grjóthrun í bröttum hlíðum og hugsanlega minniháttar skemmdir á innanstokksmunum í allt að 25 km fjarlægð frá upptökunum.  Almennt getur skjálftavirkni verið hrinukennd á meðan kvika er að safnast saman í jarðskorpunni vegna þrýstings frá kvikusöfnun. 

Vísindafólk mun meta hvort mælanet á þessu svæði sé ásættanlegt og koma með tillögur að úrbótum ef þurfa þykir.  Mjög vel er fylgst með öllum hreyfingum á svæðinu og boðað verður aftur til fundar ef breyting verður á atburðarrásinni.

Halda áfram að lesa

Almannavarnir

Óvissustig vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýsir yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga.  Aukin jarðskjálftavirkni hefur verið síðustu vikurnar og hafa skjálftar yfir 4 mælst um helgina. Íbúar eru hvattir til þess að huga að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og huga sérstaklega að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni.  Veðurstofa Íslands hefur einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að sýna aðgát við brattar hlíðar

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila. Á óvissustigi fara viðbragðsaðilar og stofnanir yfir áætlanir sínar og viðbúnað.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin