Innlent

Samstarf um eflingu á sjóbjörgunargetu björgunarsveita á Flateyri og Húsavík

Dómsmálaráðuneytið leggur Slysavarnafélaginu Landsbjörg til 115 milljóna króna styrk til eflingar á sjóbjörgunargetu björgunarsveita á Flateyri og Húsavík.
Styrknum verður skipt þannig að 76,5 m. kr. er veitt til kaupa á björgunarbát á Flateyri og 38,5 m. kr. er veitt í kaup á björgunarbát á Húsavík. Þetta er gert með hliðsjón af fenginni reynslu og þarfagreiningu á staðsetningu björgunarskipa og báta. Markmiðið er efling á sjóbjörgunargetu á miðunum við landið en einnig að tryggja öryggi íbúa á Flateyri við þær aðstæður sem geta skapast vegna ofanflóðarhættu.
Bátarnir verða af gerðinni Rafnar 1100 PRO SAR og eru framleiddir af samnefndu íslensku fyrirtæki. Slysavarnafélagið Landsbjörg er eigandi tveggja báta af sömu gerð og hefur reynslan af þeim verið afar góð, sérstaklega er varðar sjóhæfni. Vonir standa til að bátarnir verði afhentir fyrir áramót.

Snjóflóðahætta á Flateyri

Í snjóflóðunum á Flateyri í ársbyrjun 2020 voru engar leiðir færar til sjúkra- eða aðfangaflutninga nema sjóleiðina inn Önundarfjörð. Með því að staðsetja björgunarbát á Flateyri verður hægt að sigla með sjúklinga eða aðföng inn og út Önundarfjörð. Þá verður björgunarbáturinn geymdur á landi á milli útkalla og æfinga og er þar með öruggur fyrir frekari snjóflóðaáföllum sem kunna að hafa áhrif á höfnina á Flateyri. Eins og gerðist þegar flóðið féll og margir bátar eyðilögðust.

Auknar siglingar á Skjálfanda

Í niðurstöðum skýrslu vinnuhóps um staðsetningu björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá 2017 segir að leita verði allra leiða til að auka viðbragð á Skjálfanda með hraðskreiðu björgunarskipi eða bát sem staðsett yrði á Húsavík. Mikil umferð farþegabáta sé um Skjálfanda þar sem stærri skip hafa farþegaleyfi fyrir um 100 manns í senn. Björgunarbátur á Húsavík þurfi að geta bjargað sem nemur þeim fjölda sem er leyfilegt hámark hjá þeim farþegabátum sem gera þaðan út. Þá þyrfti björgunarbáturinn að vera það öflugur að hann geti dregið vélarvana fley.

Björgunarbátarnir verða eign Slysavarnafélagsins Landsbjargar en félagið gerir samninga um afnot björgunarbátanna við björgunarsveitirnar Sæbjörg á Flateyri og Garðar á Húsavík. Landsbjörg skuldbindur sig til þess að tryggja staðsetningu björgunarbátsins á Flateyri í a.m.k. 15 ár eða þar til fullnægjandi snjóflóðavörnum hefur verið komið fyrir og samgöngur til og frá Flateyri teljast viðunandi samanborið við aðra staði á Vestfjörðum. Slysavarnafélagið Landsbjörg skal áfram reglulega meta þörfina á staðsetningu björgunarskipa og báta við Ísland.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra:
,,Það er mikilvægt að björgunarsveitir landið um kring hafi yfir að ráða öflugum björgunarskipum og bátum því þörfin á betra viðbragði eykst með breyttum atvinnuháttum og aukningu á farþegaflutningum, eins og við sjáum við Skjálfanda, og tómstundaiðkun á sjó. Fyrir Flateyringa er þetta sérstaklega mikilvægt öryggistæki því við höfum séð hvernig lokast hefur fyrir samgöngur á landi þegar hættuástand hefur skapast. Þetta er því mikilvægur áfangi og fagnaðarefni að geta áfram treysta á öflugt og gott samstarf við Landsbjörg og björgunarsveitir landsins í þessum mikilvægu öryggismálum.”

Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar:
„Það er ánægjulegt að finna það traust sem borið er til félagsins til að tryggja öryggi íbúa og sjófarenda á þessum svæðum. Til að tryggja mikla björgunargetu þarf öflug tæki og vel þjálfaðan mannskap. Það er vart á færi minni björgunarsveita að standa undir kostnaði við slíkt án aðstoðar frá almenningi og ríkinu. Þess vegna skiptir félagið miklu máli að fá þennan styrk til að geta keypt ný öflug sjóbjörgunartæki sem tryggja hratt viðbragð og aukið öryggi á Flateyri og Húsavík.“

(Mynd/Þorsteinn Sigurbjörnsson)

Innlent

Fréttir frá félagsfólki SVÞ | Waldorfsskólinn hlaut foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Mbl.is birtir í dag frétt um foreldraverðlaun Heimilis og skóla sem Waldorfsskólinn hlaut frá samtökum.

For­eldra­verðlaun Heim­il­is og skóla voru af­hent í 27. sinn í Safna­hús­inu við Hverf­is­götu. Waldorf­skól­inn í Lækj­ar­botn­um hlaut verðlaun­in í ár fyr­ir verk­efnið „Vinnu­dag­ar Lækj­ar­botna og gróður­setn­ing plantna á skóla­setn­ingu“.

Fram fór hátíðleg at­höfn í Safna­hús­inu við Hverf­is­götu og mættu þau Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, og El­iza Reid for­setafrú til að ávarpa sam­kom­una og af­henda verðlaun­in.

SMELLIÐ HÉR FYRIR FRÉTT Á MBL.IS

Ljósmynd: Stjórnarráðið

Halda áfram að lesa

Innlent

Tuttugu og þrír nemendur útskrifast frá Jafnréttisskóla GRÓ

Jafnréttisskóli GRÓ (GRÓ-GEST) útskrifaði 23 sérfræðinga frá 15 löndum á föstudag, en þá var útskrift fjórtánda nemendahóps skólans frá upphafi fagnað í hátíðarsal Háskóla Íslands. Alls hafa nú 195 nemendur, frá 34 löndum útskrifast frá Jafnréttisskólanum með diplóma á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum. Í ár voru í fyrsta sinn nemendur við skólann frá Moldóvu, Pakistan og Simbabve.

Í útskriftinni fengu tveir nemendur verðlaun fyrir lokaverkefni sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur verndara Jafnréttisskólans. Að þessu sinni féllu verðlaun fyrir rannsóknarverkefni í skaut Nicole Wasuna. Verkefni hennar fjallar um morð á konum í heimalandi hennar Kenía og hún setti þar fram tillögur að stefnumótun sem snúa meðal annars að þjálfun starfsmanna lögreglu, dómsstóla og fjölmiðla. Verðlaun fyrir lokaverkefni hlaut Sandani N. Yapa Abeywardena, en hún fjallaði um meðferð kynferðisbrotamála fyrir dómstólum í Sri Lanka. Hún skoðaði dóma í nauðgunarmálum, alvarlegum kynferðisafbrota- og áreitnimálum og hvernig dómarar líta á kynferði við túlkun laga um kynbundið ofbeldi og trúverðugleika fórnarlamba.

Ávörp fluttu Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sem færði nemendum hamingjuóskir Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, en Jafnréttisskólinn er hýstur af hugvísindasviði Háskólans, og Dr. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskóla GRÓ. Diana Motsi, nemandi frá Zimbabwe flutti áhrifamikið ljóð, sem hún samdi sjálf og Maame Adwoa Amoa-Marfo frá Gana flutti ávarp fyrir hönd nemenda. Nemendur tóku við skírteinum sínum frá Ólöfu Garðarsdóttur, forseta Hugvísindasviðs HÍ, og Nínu Björk Jónsdóttir, forstöðumanni GRÓ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu.

Jafnréttisskólinn er einn fjögurra skóla sem GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfrækir á Íslandi undir merkjum UNESCO. Hinir skólarnir eru Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Landgræðsluskólinn, en GRÓ er hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Samtals hafa nú 1.536 nemendur, frá rúmlega 100 löndum, lokið námi við skólana fjóra. Að auki hafa fjölmörg styttri námskeið verið haldin á vettvangi. Einnig veitir GRÓ skólastyrki til útskrifaðra nemenda til meistara- og doktorsnáms við íslenska háskóla.

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Launavísitala hækkaði um 1,6% í apríl

Flýtileið yfir á efnissvæði