Innlent

Samtakamáttur hjá viðbragðsteymi bráðaþjónustu

Viðbragðsteymi bráðaþjónustu í landinu fer vel af stað. Megináherslan hefur verið  á að bæta stöðuna á bráðamóttöku Landspítala en samhliða því hefur ýmsum mikilvægum verkefnum til skamms og lengri tíma verið ýtt úr vör.

Heilbrigðisráðherra átti fund með starfsfólki bráðamóttökunnar í Fossvogi 14. júní síðastliðinn ásamt forstjóra Landspítala. Tilgangur fundarins var að upplýsa starfsfólk og ræða  stöðu mála. Ráðherra leggur áherslu á að halda áfram opnu samtali milli ráðuneytisins, viðbragðsteymisins, stjórnenda Landspítala og starfsfólks, sem ber hitann og þungann af álaginu.

Frá því að fundurinn átti sér stað er búið er að ráða tvo erlenda sérfræðinga í bráðalækningum til starfa á bráðamóttökunni frá 1. júlí nk. og önnur úrræði voru kynnt sem nú þegar hafa raungerst og farið verður yfir hér á eftir. 

Fjarþjónusta bráðadagdeildar lyflækninga

Landspítali hefur komið á fót fjarþjónustu lyflækninga sem til að byrja með verður opin frá 8.00 á morgnana til 21.00 á kvöldin alla virka daga. Þar starfa hjúkrunarfræðingar og læknar sem taka við símtölum frá tilvísandi læknum á Læknavakt, heilsugæslum, öldrunarstofnunum og sjúkraflutningafólki. Markmiðið er að meta hvaða farvegur henti einstaklingum best og veita ráðgjöf. Már Kristjánsson, forstöðumaður lyflækninga- og bráðaþjónustu Landspítala segir þetta bæta þjónustu við sjúklinga jafnframt því að jafna álagið á bráðamóttöku spítalans (sjá viðtal við Má um fjarþjónustuna). Talið er að þetta fyrirkomulag geti fækkað komum sjúklinga á bráðamóttökuna um 10 – 15%.

Úrlestur myndrannsókna og greining blóðsýna fyrir ,,kragasjúkrahúsin“

Landspítali hefur tekið að sér að lesa úr myndrannsóknum og greina eftir þörfum blóðsýni fyrir sjúkrasvið heilbrigðisstofnananna á Suðurnesjum, Suðurlandi og Akranesi í sumar þegar þess gerist þörf utan dagvinnutíma til að efla þjónustu þessara heilbrigðisstofnanna. Með þessum aðgerðum dregur úr þörf fyrir flutning sjúklinga á bráðamóttöku Landspítala frá nærliggjandi sjúkrahúsum. Opnun nýrra endurhæfingar- og hjúkrunarrýma

Þann 1. september opnar sérhæfð endurhæfingarþjónusta fyrir aldraða á vegum Sóltúns öldrunarþjónustu ehf. í Sólvangi í Hafnarfirði. Samningur liggur fyrir um þjónustuna milli Sóltúns og Sjúkratrygginga Íslands. Þar geta 39 einstaklingar dvalið til skamms tíma til endurhæfingar. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að veita að minnsta kosti 400 einstaklingum þessa þjónustu (nánari upplýsingar um þjónustuna).

Nýtt hjúkrunarheimili í Árborg verður opnað í byrjun september og verða þar 40 rými ætluð einstaklingum af höfuðborgarsvæðinu. Um svipað leyti verða opnuð 20 ný endurhæfingarrými við hjúkrunarheimilið Eir til viðbótar við þau 5 sem þar hafa þegar verið opnuð. 

Breytt þjónusta á Vífilsstöðum

Auglýst hefur verið eftir rekstraraðila til að sinna þjónustu fyrir aldraða á Vífilsstöðum. Annars vegar verða þar skammtímainnlagnir til að veita einfaldari meðferð sem ekki er hægt að sinna í heimahúsi en krefst ekki spítalainnlagnar. Þannig verður um að ræða legudeild fyrir aldraða sem þurfa á heilbrigðisþjónustu eða aukinni umönnun að halda tímabundið t.d. vegna breytinga á líðan eða félagslegum aðstæðum. Markmiðið er að viðkomandi geti útskrifast heim aftur innan tveggja vikna. Hins vegar verður á Vífilsstöðum boðið upp á líknarþjónustu við aldraða einstaklinga sem geta ekki dvalist heima í lokaskeiði lífsins. Gert er ráð fyrir að Velferðarsvið Reykjavíkur, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Landspítali geti vísað fólki í innlögn á Vífilsstöðum. Markmiðið verður því að Vífilsstaðir verði markviss þjónusta og mikilvægur hlekkur í þjónustukeðju fyrir aldraða sem öflugur bakhjarl fyrir heimahjúkrun og heimahlynningu og millistig milli þess og Landspítala. Þannig er vonast til að reksturinn muni sem best styðja við þjónustu aldraðra einstaklinga í heimahúsi og á sama tíma létta á innlagnarþunga á Landspítalanum. Stefnt er að því að þróa þjónustuna í samvinnu við nýjan rekstraraðila, heimahjúkrun, heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og Landspítala.

Innlent

Lögreglustjóri beðinn um skýringar á takmörkuðu aðgengi barna að gosstöðvum

Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum og skýringum frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum á ákvörðun um að takmarka aðgengi barna að gosstöðvunum í Meradölum.

  

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland hefur frumkvæði að sprengjueyðingarverkefni í Úkraínu

Ísland stendur ásamt hinum norrænu ríkjunum fyrir verkefni sem er fyrirhugað á sviði þjálfunar í sprengjuleit og sprengjueyðingu í Úkraínu. Líklegt er að fleiri lönd muni taka þátt í verkefninu þegar fram í sækir. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra kynnti verkefnatillögu þess efnis á ráðstefnu um stuðning við öryggi og varnir Úkraínu í Kaupmannahöfn í dag. 

Markmið ráðstefnunnar Copenhagen Conference for Northern European Defence Allies of Ukraine sem fram fór í dag var að styrkja samstarf og samráð um hvernig best megi styðja Úkraínu í stríðinu gegn Rússlandi. Áhersla er á viðbótarstuðning til lengri tíma litið, einkum framlög sem styðja við hernaðarlega getu úkraínsku þjóðarinnar til varnar innrás Rússa, fjárframlög, þjálfun hermanna og sprengjueyðingu. 

Á fundinum kynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tillögu að verkefni á sviði sprengjuleitar og sprengjueyðingar í Úkraínu. Það felur annars vegar í sér að veita úkraínskum sprengjusérfræðingum þjálfun á þessu sviði og hins vegar að sjá þeim fyrir nauðsynlegum búnaði. Öll norrænu ríkin hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt í verkefninu sem er í samræmi við þarfir Úkraínu á þessu sviði. Þá skoða fleiri ríki þátttöku. 

„Ég tel ákaflega mikilvægt að Ísland haldi áfram að leita allra leiða til þess að styðja við úkraínsku þjóðina. Við getum ekki stutt við hernaðarmátt Úkraínu en við viljum finna allar þær leiðir sem mögulegar eru til þess að leggja okkar af mörkunum til þess að hjálpa þeim að verja sig gegn árás Rússa og byggja upp samfélagið eftir að sigur hefur unnist og friði komið á. Verkefnið sem við kynntum í dag hefur sérstaka þýðingu fyrir almenna borgara í Úkraínu. Talið er að ósprungnar sprengjur af ýmsu tagi, þar á meðal jarðsprengjur, sé að finna á allt að fimmtungi úkraínsks landssvæðis. Þær geta legið í jörðu árum saman og sprungið þegar minnst varir, löngu eftir að stríðátökum lýkur eða víglínur færst til. Þetta framlag stuðlar því að björgun mannslífa,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Landhelgisgæsla Íslands hefur tekið þátt í viðræðum og undirbúningi verkefnisins en sprengjusérfræðingar á hennar vegum hafa á undanförnum árum sinnt verkefnum á vegum Atlantshafsbandalagsins á sviði þjálfunar sprengjusérfræðinga, meðal annars í Írak og Jórdaníu. 

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði ráðstefnuna. Í ræðu sinni minnti hann á að það hafi verið á Norðurlöndum sem fyrst komst upp um geislavirka mengun vegna Tsjernóbýlslyssins og það hafi gerst meðan sovésk stjórnvöld reyndu enn að hylma yfir atburðinn. Setti hann þetta í samhengi við þá hættu sem nú er í kringum stærsta kjarnorkuver Evrópu í borginni Zaporizhzhia. Þá ræddi hann um mikilvægi fjárstuðnings við daglegan rekstur innviða í Úkraínu, þar á meðal skóla. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, ávarpaði einnig ráðstefnuna og lagði áherslu á að árás Rússa á Úkraínu væri árás á þau sameiginlegu gildi sem evrópsk samfélög byggja velferð sína á.

Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, var gestgjafi fundarins ásamt Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands og Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu. Auk þeirra sóttu ráðstefnuna fulltrúar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Hollands, Póllands, Þýskalands, Tékklands, Slóvakíu, Slóveníu, Bandaríkjanna, Atlantshafsbandalagsins,  Evrópursambandsins, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Georgíu, Rúmeníu og Japans.

Halda áfram að lesa

Hagstofan

Bætt staða á íslenskum vinnumarkaði frá fyrra ári

Helstu niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands fyrir annan ársfjórðung 2022 sýna bætta stöðu vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði frá árinu áður.

Fjöldi starfandi eykst
Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 81,6% á öðrum ársfjórðungi 2022 sem er aukning um 1,4 prósentustig frá sama ársfjórðungi 2021. Fjöldi starfandi á öðrum ársfjórðungi 2022 var 210.600 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 78,1%. Frá öðrum ársfjórðungi 2021 til annars ársfjórðungs 2022 fjölgaði starfandi fólki um 16.100 og hlutfall þess af mannfjölda hækkaði um 4,2 prósentustig. Hlutfall starfandi kvenna var 74,8 % og starfandi karla 81,1%. Starfandi konum fjölgaði um 8.900 og körlum um 7.200.

Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 78,2% og utan höfuðborgarsvæðis 77,9%. Til samanburðar var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 74,9% og 72,1% utan höfuðborgarsvæðisins á öðrum ársfjórðungi 2021.

Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi
Á öðrum ársfjórðungi 2022 töldust að meðaltali 9.500 einstaklingar vera atvinnulausir eða um 4,3% af heildarvinnuafli 16-74 ára. Til samanburðar voru um 16.700 einstaklingar atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2021 og var hlutfall þeirra af vinnuafli þá 7,9%.

Mjög dró úr atvinnuleysi kvenna á milli ára en það mældist nú 3,2% og hafði þá lækkað um 6,1 prósentustig frá öðrum ársfjórðungi 2021. Á sama tímabili lækkaði atvinnuleysi karla úr 7,6% í 5,2% eða um 2,4 prósentustig.

Á öðrum ársfjórðungi hvers árs mælist atvinnuleysi yfirleitt alltaf hæst miðað við aðra fjórðunga ársins og stafar það af því að þá sækir ungt fólk og námsmenn út á vinnumarkaðinn í leit að sumarstörfum. Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 13,9% sem er talsverð lækkun frá sama ársfjórðungi árið 2021 þegar það var 20,0%. Á tímabilinu minnkaði atvinnuleysi hjá þeim sem eru á aldrinum 25 til 54 ára um fjögur prósentustig eða úr 6,5% í 2,5%. Atvinnuleysi minnkaði einnig hjá þeim sem eru á aldrinum 55 til 74 ára eða um 0,8 prósentustig, úr 3,4% á öðrum ársfjórðungi 2021 í 2,5% á öðrum ársfjórðungi 2022.

Talnaefni

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin