Veður

Samtalið hafið um aðlögun sveitarfélaga að breyttum heimi


Vel sóttur fundur um áherslur sveitarfélaga í aðlögun að loftslagsbreytingum

5.9.2022

Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á íslenskt samfélag og lífríki bæði með beinum og afleiddum hætti og byggja þarf upp þekkingu á því hver möguleg áhrif loftslagsbreytinga gætu orðið á byggðir landsins. Þetta var meðal umræðuefna á fundinum Aðlögun að breyttum heimi – hefjum samtalið, sem haldin var á Grand hótel í dag.

Það voru umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og innviðaráðuneytið sem stóðu að fundinum, ásamt Veðurstofu Íslands, Byggðastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Var áherslan á aðlögun að loftslagsbreytingum í sveitarfélögum og ætlað að vekja umræðu um mikilvægi þess að hefja skipulagningu aðlögunaraðgerða á sveitarstjórnarstigi. Meðal umfjöllunarefna var hvað áhrif loftslagsbreytingar þýða fyrir mismunandi landshluta, atvinnugreinar og hópa fólks og hverjar mögulegar afleiðingar kunni að vera fyrir samfélögin, atvinnuvegi, innviði, efnahag og umhverfi, sem og hvernig áhættumat og aðlögunaraðgerðir geti lágmarkað skaðleg áhrif loftslagsbreytinga og hjálpað til við að grípa möguleg tækifæri.

Ný skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands mun veita ríki, sveitarfélögum, fyrirtækjum og almenningi aðgang að bestu mögulegu upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga.

Vinna hafin við undirbúning fyrstu landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum

Adlogunarfundur-Gudlaugur-Thor„Við verðum við öll að læra á næstu árum að hugsa um áhrif loftslagsbreytinga þegar við byggjum húsin okkar, skipuleggjum byggðir, hugum að líffræðilegri fjölbreytni og tökum ákvarðanir innan fyrirtækjanna okkar sem móta framtíð atvinnuvega og þjóðarhag,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í ávarpi sínu. Ísland sé hins vegar ekki á byrjunarreit, því hér sé til staðar umtalsverð þekking er komi að því að vakta náttúruna og bregðast við þegar vá ber að garði.

Vinna við undirbúning fyrstu landsáætlunar íslenskra stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum er hafin í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Með áætluninni verður Íslandi búinn rammi utan um þá mikilvægu vinnu sem þarf að fara fram í öllu samfélaginu, meðal almennings, stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga.

„Jafnframt er ég að skipa í fyrsta skipti stjórn yfir samráðsvettvang um þekkingarsköpun um áhrif loftslagsbreytinga, þar sem tilgangurinn er að öðlast yfirsýn yfir þá þekkingu sem við höfum. En ekki síður hvaða þekkingu okkur vantar svo að við getum unnið markvisst að því að efla rannsóknir á áhrifum og afleiðingum loftslagsbreytinga á Íslandi,“ sagði Guðlaugur Þór.

Mikilvægt að málaflokkar aðlögunar og mótvægisaðgerða tali saman

Adlogunarfndur-Sigurdur-Ingi„Við þurfum að öðlast dýpri skilning á því hvernig þær breytingar sem vænta má munu snerta okkar helstu atvinnugreinar, byggðirnar okkar, innviðina, skipulagsmálin, fráveitukerfin og hvernig við vinnum saman að laga okkur að þeim. Þótt tími aðlögunar sé runninn upp, gefur það þó okkur ekki leyfi til þess að slá slöku við í aðgerðum til samdráttar í losun. Þvert á móti, því um er að ræða tvo málaflokka með fjölmarga snertifleti og mikilvægt að þeir tali saman, bæði hjá ríki og sveitarfélögum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Styðji við loftslagsþolna þróun

„Loftslagsbreytingar eru stærsta áskorun okkar tíma“, segir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. „Það er mikilvægara en áður að þróun samfélaga um heim allan sé með þeim hætti að þau auki þanþolsitt gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga og styðji þannig við loftslagsþolna þróun, eins og það er kallað. En til þess að ná því markmiði þá þarf aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga að vera þáttur í heildarstefnu samfélaga“ segir Árni.

Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands, var ein af þeim sem var með erindi á fundinum í dag. „Það er mikilvægt að hefjast handa strax þar sem bæði mótvægisaðgerðir og aðlögun taka tíma og vegna þess að horfur um árangur í loftslagþolinni þróun versna með hlýnandi heimi. Sérstaklega ef horft er til þess möguleika að hlýnun jarðar fari fram úr 1,5 °C í nálægri framtíð“, segir Anna Hulda. „Ef viðbrögð við loftslagsbreytingum eru vandlega ígrunduð og byggja á upplýstri og samhæfðri ákvarðanatöku geta þau haft jákvæð áhrif á þjóðarhag”.

Myndband um hvað felst í aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga

Upptaka frá fundinum á Grand Hótel í Reykjavík, 5. september 2022.

Veður

Eldgosið í Fagradalsfjalli ólíkt fyrri gosum í heiminum

Eldstöðvarnar í apríl 2021


Jarðvísindafólk á Íslandi með tvær greinar í nýjasta hefti Nature

14.9.2022

Undanfari eldgossins í Fagradalsfjalli í fyrra var ólíkur undanfara margra gosa í heiminum og efnasamsetning hraunsins breyttist eftir því sem leið á gosið. Þetta er meðal niðurstaðna í tveimur vísindagreinum eftir fræðimenn við Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands og samstarfsfólk sem birtust í dag í nýjasta hefti vísindatímaritsins Nature.

Vísindamenn hér á landi fylgdust afar náið með jarðhræringunum á Reykjanesi sem segja má að hafi hafist í desember 2019 en náðu ákveðnu hámarki í gosinu sem hófst 19. mars 2021 og stóð í um hálft ár. Þéttriðið net mælitækja og nánd við byggð á suðvesturhorninu gerðu vísindamönnum kleift að kortleggja ítarlega framvinduna en ekki hefur gosið á þessum slóðum í um 800 ár.

Dró úr skjálftavirkni skömmu fyrir gos

Önnur greinin sem birtist í Nature í dag ber yfirskriftina „Deformation and seismicity decline before the 2021 Fagradalsfjall eruption“ en þar er fjallað um aðdragandann að gosinu og hvernig hann greinir sig frá undanfara margra gosa í heiminum. Greinin var unnin undir forystu Freysteins Sigmundssonar, vísindamanns við Jarðvísindastofnun Háskólans, og Michelle Parks, sérfræðings í jarðskorpuhreyfingum við Veðurstofu Íslands, en að henni kom einnig fjöldi annarrra vísindamanna við stofnanirnar tvær og Íslenskar orkurannsóknir ásamt vísindafólki í Bretlandi, Nýja-Sjálandi og Tékklandi.

Eins og flestum landsmönnum er eflaust kunnugt skalf jörð töluvert á Reykjanesi og víðar vikurnar áður en gosið hófst. Tímabilið einkenndist af spennulosun í jarðskorpunni en síðustu dagana fyrir gosið dró hins vegar úr jarðskorpuhreyfingum og skjálftavirkni á svæðinu í kringum gosstöðvarnar. Þetta er ólíkt aðdraganda eldgosa víða í heiminum, sem einkennast oft af stigvaxandi jarðskorpuhreyfingum og jarðskjálftum skömmu fyrir gos þegar kvika þrýstir sér upp á yfirborðið.

Samspil kvikuhreyfinga og spennulosunar

Vísindamennirnir sem standa að greininni benda á að þessa ólíku hegðun eldstöðvarinnar í Fagradalsfjalli megi skýra með samspili kvikuhreyfinga og þeirra krafta sem finna megi í jarðskorpunni og tengjast hreyfingum jarðskorpuflekanna. Þegar kvika þrýsti sér upp í gegnum jarðskorpuna í aðdraganda eldgosa geti þessir kraftar losnað úr læðingi með tilheyrandi jarðskjálftum og jarðskorpuhreyfingum í upphafi. Ef dragi úr jarðhræringum bendi það mögulega til þess að þessu ferli sé að ljúka og að kvika muni komast upp á yfirborð jarðar.

Á rúmlega þriggja vikna tímabili fyrir gosið í Fagradalsfjalli varð bæði mikil aflögun á jörðu og margir jarðskjálftar. Hvort tveggja tengdist myndun lóðrétts kvikugangs sem náði frá yfirborði og niður á rúmlega 8 km metra dýpi. Um leið losnaði orka úr jarðskorpunni sem hafði byggst upp vegna  hreyfinga jarðskorpuflekanna. Jarðskjálftar urðu á nærliggjandi svæðum, þeir stærstu allt að 5,6 að stærð, sem einnig losuðu orku úr jarðskorpunni.

Vísindamennirnir benda einnig á í greininni að vægari skjálftavirkni síðustu dagana fyrir gosið megi mögulega rekja til þess að kvikan hafi þá verið komin nærri yfirborðinu, þar sem jarðskorpan er veikust og átökin í skorpunni því minni.

Skjamynd-2022-09-14-132121

Jarðskorpuhreyfingar og jarðskjálftar í aðdraganda eldgossins sem hófst 19. mars 2021. 

a) Líkan af jarðskorpuhreyfingum 24. febrúar – 19. mars sem sýnir láréttar færslur (horizontal displacements) sem örvar, og lóðréttar færslur (vertical displacements) með litaskala. Rauð lína sýndir hvar kvikugangurinn liggur og brotin svört lína hvar meginás flekaskilanna liggur b) Fjöldi jarðskjálfta á klukkustund sem fall af tíma (blátt) og heildarfjöldi skjálfta (rauð lína fyrir allt rannsóknasvæðið). c) Færslur á þremur landmælingapunktum sem fall af tíma. Eftir því sem líður á atburðarásina hægir á jarðskorpuhreyfingunum og jarðskjáltavirkni minnkar síðustu dagana áður en eldgos hefst. Úr grein Freysteins Sigmundssonar, Michelle Parks o.fl.

„Niðurstaða rannsóknarinnar er mjög mikilvæg því að öllu jöfnu sjáum við stigvaxandi  jarðskjálftavirkni og stigvaxandi jarðskorpuhreyfingar áður en til eldgoss kemur, en síðustu dagana fyrir gosið við Fagradalsfjall 2021, dró hins vegar úr jarðskorpuhreyfingum og skjálftavirkni á svæðinu í kringum gosstöðvarnar“, segir Michelle Maree Parks, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum á Veðurstofu Íslands og einn höfunda greinarinnar í Nature. „Niðurstöður rannsóknarinnar hafa þýðingu fyrir alþjóðasamfélagið og geta nýst stofnunum, sem sinna eldfjallavöktun víða um heim, við túlkun gagna tengdum jarðhræringum“, segir Michelle.

Rannsóknin sýnir jafnframt, að sögn vísindamannanna, að taka þurfi tilliti til samspils eldstöðva og krafta í jarðskorpunni sem tengjast flekahreyfingum þegar spáð er fyrir um möguleg eldgos. Spennulosun í jarðskorpuflekum og minnkandi aflögun og tíðni jarðskjálfta geti verið undanfari ákveðinna tegunda eldgosa.

20210503_150946Hraunið kom af miklu dýpi

Í hinni greininni, sem ber heitið „Rapid shifting of a deep magmatic source at Fagradalsfjall volcano, Iceland“, er fjallað um þær breytingar sem urðu á efnasamsetningu hraunsins sem kom upp í Geldingadölum og nágrenni eftir því sem leið á gosið. Sæmundur Ari Halldórsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, leiddi vinnuna við rannsóknina en að henni stendur stór hópur vísindamanna, bæði við Háskóla Íslands, Veðurstofuna og virtar vísindastofnanir í Frakklandi, Bandaríkjunum, Englandi, Svíþjóð og Ítalíu.

Vísindamenn tóku vikulega sýni úr hrauninu fyrstu 50 daga gossins en einnig fönguðu þeir agnir í loftinu í kringum gosstaðinn og rannsökuðu þær gastegundir sem streymdu upp úr gígum eldstöðvarinnar. Markmiðið með þessu var m.a. að leita svara við því hversu djúpt í möttli jarðar kvikan átti uppruna sinn, á hve miklu dýpi kvikuhólfið hefði verið fyrir gosið og hvaða ferli væru ríkjandi í hólfinu bæði fyrir og á meðan á gosinu stóð. Síðast en ekki síst var leitast við að svara þeirri spurningu hvort fleiri en eitt kvikuhólf ættu hlut að máli. Svörin við þessum spurningum má finna í samsetningu gosefnanna sem koma upp á yfirborðið en ítarleg greining á bæði efnasamsetningu hraunsins, kristallanna í því og eldfjallagösunum hefur þegar farið fram.

Greiningar vísindamannanna leiddu snemma í ljós að hraunið í Fagradalsfjalli átti uppruna sinn í kvikuhólfi á miklu dýpi á mótum jarðskorpu og möttuls. Gosið var því ólíkt flestum öðrum gosum sem rannsökuð hafa verið á jörðinni en þar hefur kvika í langflestum tilfellum komið úr kvikuhólfum á litlu dýpi í jarðskorpunni. Hingað til hefur því skort upplýsingar um dýpstu hluta eldstöðvarkerfa en með gosinu í Fagradalsfjalli öðlast vísindasamfélagið nýja þekkingu á ferlum sem eru þar að verki.

20210331_154655Fylgst með kvikusöfnun og kvikublöndun í rótum eldstöðvar í rauntíma

Í upphafi gossins reyndist hraunið t.d. tiltölulega magnesíumríkt í samanburði við hraun úr öðrum gosum á sögulegum tíma á Íslandi og þá reyndist mikið magn koltvíoxíðs í eldfjallagasinu sem streymdi úr gosopinu. Þetta bendir til þess, að sögn vísindamanna, að litlar breytingar hafi orðið á kvikunni á leið hennar upp í gegnum jarðskorpuna og upp á yfirborð jarðar. Samtúlkun ólíkra þrýstimæla, sem m.a. meta við hve mikinn þrýsting og hita hraunið og kristallar þess mynduðust, gaf til kynna að kvikan hafi komið úr kvikuhólfi neðst í jarðskorpunni, nánar tiltekið á um 15 km dýpi. Þannig má í raun líkja þessu við eins konar háhraðatengingu beint neðan úr möttli og að gosinu hafi verið viðhaldið í gegnum slíka tengingu.

Rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að efnasamsetning hraunsins í Fagradalsfjalli breyttist eftir því sem leið á gostímabilið. Það bendir til þess að kvika hafi streymt inn í kvikuhólfið meðan á gosinu stóð og að hún hafi að öllum líkindum myndast dýpra í möttli en kvikan sem fyrir var í hólfinu.

Vísindamennirnir benda á að lengi hafi því verið haldið fram að mismunandi tegundir kviku geti blandast saman djúpt í eldstöðvakerfum fyrir eldgos en hér sé á ferðinni skýrasta rannsóknin á þessu ferli meðan á því stendur. Breytingarnar sem verði á efnasamsetningu gosefnanna sýni að ný kvika geti borist í djúpsætt kvikuhólf tiltölulega hratt, eða á 20 daga tímabili, og að hún geti blandast þeirri kviku sem fyrir er í hólfi á þessum sama tímabili. Niðurstöðurnar færi með sér aukinn skilning á hegðun eldstöðva og jarðefnafræði möttuls jarðar og geti stutt við þróun líkana fyrir eldstöðvarkerfi um allan heim.

IMG_3820_CropStaða jarðvísindarannsókna sterk á Íslandi

Afar sjaldgæft er að tvær vísindagreinar eftir íslenska vísindamenn birtist í sama hefti Nature, enda samkeppni um birtingu efnis þar afar hörð og kröfur sem gerðar eru um efnið afar miklar.

„Birtingin undirstrikar vel sterka stöðu jarðvísindarannsókna á Íslandi í alþjóðlegu samhengi“, segir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. „Þetta er jafnframt staðfesting á því hversu öflugt og gott samstarfið er á milli Háskóla Íslands og Veðurstofunnar þegar kemur að vöktun og rannsóknum á náttúruöflum landins“, segir Árni.

Alls eru átta vísindamenn af Veðurstofu Íslands sem koma að greinunum tveimur, sjö í þeirri fyrri, en einn í seinni greininni sem má nálgast á þessum hlekkjum á vef Nature.

Deformation and seismicity decline before the2021 Fagradalsfjall eruption

Rapid shifting of a deep magmatic source atFagradalsfjall volcano, Iceland

Halda áfram að lesa

Veður

Metfjöldi viðvarana að sumarlagi


8.9.2022

Frá því að nýtt viðvörunarkerfi var tekið í notkun á Veðurstofu Íslands hafa aldrei verið gefnar út jafn margar viðvaranir að sumarlagi og í ár eða 50 talsins. Af þeim voru flestar gefnar út vegna vindhraða eða 32. Viðvaranir vegna mikillar rigningar voru 15 en þrjár viðvaranir voru gefnar út vegna snjókomu. Sumarið fór vel af stað og voru einungis 5 viðvaranir gefnar út í júní og voru þær allar vegna vinds.

Júlí mánuður var aftur á móti viðburðaríkari eða umhleypingarsamari með 27 útgefnum viðvörunum, 19 vegna vinds en 8 vegna rigningar eða snjókomu. Veðrið var heldur rólegra í ágúst en þá voru 18 viðvaranir gefnar út, meirihluti þeirra eða 10 voru vegna rigningar. Engin viðvörun var gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið í sumar, en annars dreifðust þær nokkuð jafnt milli spásvæða. Flestar viðvaranir voru gefnar út fyrir Suðurland (7), en fæstar fyrir Breiðafjörð (2).

Sumarauki, en tími haustlægðanna er að renna upp

Haustið fer vel af stað með dálitlum sumarauka, en það segir þó ekkert til með framhaldið og því rétt að byrja að ganga frá sumarhúsgögnum, trampolínum og öðru því sem getur fokið áður en fyrstu haustlægðirnar mæta.

Gular viðvaranir vegna vinds gefnar út 16. júní í sumar fyrir þrjú spásvæði, Suðurland, Suðausturland og Austfirði. Flestar viðvaranir í sumar voru gefnar út fyrir Suðurland.

Halda áfram að lesa

Veður

Tíðarfar í ágúst

Stutt yfirlit

2.9.2022

Ágústmánuður var að tiltölu kaldur um allt land. Þó voru hlýindi um norðaustanvert landið undir lok mánaðar og hæsti hiti sumarsins mældist á Mánárbakka þ.30. Fremur sjaldgæft er að hæsti hiti ársins mælist svo síðla árs. Mánuðurinn var almennt þurrari og sólríkari en í meðalári bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Hiti

Í júlí var meðalhiti í Reykjavík 10,2 stig sem er 0,9 stigum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 1,1 stigi undir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri var meðalhitinn 10,0 stig eða 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,9 stigum undir meðallagi undanfarinna tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 10,1 stig og á Höfn í Hornafirði var hann 10,2 stig.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2012-2021 °C
Reykjavík 10,2 -0,9 96 152 -1,1
Stykkishólmur 10,1 -0,4 63 177 -0,5
Bolungarvík 9,1 -0,5 65 125 -0,7
Grímsey 8,3 -0,5 54 149 -0,7
Akureyri 10 -0,7 66 142 -0,9
Egilsstaðir 10,2 -0,2 31 68 -0,1
Dalatangi 9,5 0,3 21 84 0,0
Teigarhorn 9,7 0,0 27 til 29 150 -0,1
Höfn í Hornaf. 10,2 -0,3
Stórhöfði 9,8 -0,6 78 146 -0,6
Hveravellir 6,1 -1,2 42 til 43 58 -1,4
Árnes 10,3 -0,7 82 til 83 143 -0,7

Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2022

Ágúst var kaldur um allt land. Meðalhiti í ágúst var lægri en meðalhiti ágústmánaðar undanfarinn áratug á nánast öllum veðurstöðvum landsins. Jákvætt hitavik miðað við undanfarin tíu ár var mest 0,1 stig í Seley . Neikvætt hitavik var mest -1,8 stig í Bláfjallaskála.

Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í ágúst miðað við síðustu tíu ár (2012 til 2021)

Meðalhiti mánaðarins mældist hæstur 11,5 stig á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur 4,0 stig á Þverfjalli. Lægsti mánaðarmeðalhiti í byggð mældist 7,4 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 25,0 stig á Mánárbakka þ. 30., en það er jafnframt hæsti mældi hiti sumarsins. Fremur sjaldgæft er að hámarkshiti sumars mælist svo seint á árinu. Lægsti hiti mánaðarins mældist -4,3 stig á Þingvöllum þ.16.

Úrkoma

Heildarúrkoma mánaðarins mældist 54,8 mm í Reykjavík, eða um 85% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 28,6 mm í ágúst, en það er 69% af meðalúrkomu ágústmánaðar á tímabilinu 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældust 66,4 mm og 107,9 mm á Höfn í Hornafirði.

Úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri 8 daga mánaðarins í Reykjavík, eða þremur dögum sjaldnar en í meðalári á tímabilinu 1991 til 2020. Fjöldi daga þegar úrkoma mældist 1,0 mm á Akureyri var 9 sem er einum degi oftar en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Í Reykjavík mældust sólskinsstundir mánaðarins 189,2 en það er 24,4 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 164,8 sólskinsstundir í ágúst, sem er 26,8 stundum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020.

 Vindur

Vindur á landsvísu var 0,3 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Hvassast var þ. 30 (SSA-átt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1008,1 hPa og er það 0,5 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1028,5 hPa á Teigarhorni þ. 30. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 982,1 hPa á Höfn í Hornafirði þ.19.

Sumarið það sem af er (júní til ágúst)

Sumarið var kalt, sér í lagi þegar sumur þessarar aldar eru skoðuð. Mjög hlýir dagar voru fáir.

Meðalhiti í Reykjavík var 10,1 stig sem er 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sumarið (júní til ágúst) í Reykjavík var það næstkaldasta á þessari öld, það var kaldara sumarið 2018. En á langa listanum er meðalhiti sumarmánaðanna þriggja í 84. til 85.sæti á lista 152 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 10,3 stig, 0,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 60. sæti á lista 142 ára. Meðalhiti sumarsins (júní til ágúst) á Akureyri er 2,5 stigum lægri en meðalhiti sumarsins í fyrra, en það sumar var það hlýjasta á Akureyri frá upphafi mælinga.

Úrkoma í Reykjavík mældist 193,4 mm sem er 23% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoma sumarmánaðanna þriggja 96,0 mm sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 4 fleiri en í meðalári í Reykjavík og einnig 4 fleiri en í meðalári á Akureyri.

Sólskinsstundir mældust 537,8 í Reykjavík sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 478,2 sem er 2 færri en að meðaltali áranna 1991 til 2020.

Fyrstu átta mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu átta mánuði ársins var 5,7 stig sem er við meðallag áranna 1991 til 2020 og 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 37. sæti á lista 152 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna átta 5,1 stig. Það er 0,2 stigum yfir meðallagi sama tímabils á árunum 1991 til 2020 en 0,2 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Þar raðast meðalhitinn í 22. til 23. sæti á lista 142 ára.

Úrkomusamt hefur verið í Reykjavík það sem af er ári, en heildarúrkoman þar mældist 774,3 mm fyrstu átta mánuði ársins. Það er 47% umfram meðallag sömu mánaða árin 1991 til 2020. Heildarúrkoma hefur aðeins tvisvar sinnum mælst meiri í Reykjavík yfir fyrstu 8 mánuði ársins en nú, en það var árið 1921 (788,5 mm ) og 1925 (778,0 mm). Heildarúrkoma fyrstu átta mánuða ársins mældist 344,8 mm á Akureyri, en það er 12% yfir meðallagi 1991 til 2020.

Skjöl fyrir ágúst

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2022 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin