Innlent

Seðlabanki Íslands hættir reglulegri gjaldeyrissölu

logo-for-printing

30. apríl 2021

Bygging Seðlabanka Íslands

Frá og með mánudeginum 3. maí nk. verður reglubundinni gjaldeyrissölu Seðlabanka Íslands hætt.

Seðlabankinn hóf reglulega sölu á gjaldeyri til viðskiptavaka á gjaldeyrismarkaði 14. september 2020. Á þeim tíma hafði innlendur gjaldeyrismarkaður ekki farið varhluta af áhrifum COVID-19-farsóttarinnar. Gengi krónunnar hafði veikst töluvert vegna mikils samdráttar útflutningstekna og fjármagnshreyfinga, og verðmyndun á gjaldeyrismarkaði var óskilvirk. Það var mat Seðlabankans að aukið og stöðugt framboð gjaldeyris úr gjaldeyrisforða bankans myndi að öðru óbreyttu leiða til aukins stöðugleika á gjaldeyrismarkaðnum með aukinni dýpt og bættri verðmyndun.

Samtals seldi Seðlabankinn 453 milljónir evra (71,2 ma.kr.) með reglubundnum hætti frá 14. september. Framkvæmd gjaldeyrissölunnar var þannig að Seðlabankinn seldi viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði 3 m. evra hvern viðskiptadag. Hinn 7. apríl sl. var dregið úr umfangi og tíðni sölunnar með fækkun viðskiptadaga úr fimm í þrjá, en fjárhæð hverrar gjaldeyrissölu var óbreytt. Reglubundin gjaldeyrissala nam 50,8% af heildarveltu bankans með gjaldeyri á tímabilinu 14. september 2020 til 30. apríl 2021, og 22,2% af heildarveltu gjaldeyrismarkaðarins.

Með hliðsjón af gengisstyrkingu íslensku krónunnar undanfarnar vikur og betra jafnvægi á gjaldeyrismarkaði telur Seðlabankinn ekki lengur þörf fyrir reglulega gjaldeyrissölu. Henni verður því hætt frá og með næstu viku.

Seðlabankinn mun eftir sem áður grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að draga úr sveiflum eftir því sem hann telur tilefni til, í samræmi við yfirlýsingu peningastefnunefndar frá 17. maí 2017.

Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í síma 569 – 9600.

Sjá hér nánar fréttir bankans frá 9. september 2020 og 31. mars 2021.

Nr. 13/2021
30. apríl 2021

Til baka

Almannavarnir

Óvissustig vegna hættu á gróðureldum á Norðurlandi Vestra

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjórana á Norðurlandi Vestra hafa ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Þessi ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði. Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112. Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/ og einnig inn á https://www.grodureldar.is/

Halda áfram að lesa

Alþingi

Forsætisnefnd afgreiðir erindi um siðareglumál

12.5.2021

Forsætisnefnd afgreiddi á fundi sínum 10. maí erindi sem henni barst 18. apríl sl. frá Birni Leví Gunnarssyni alþingismanni þar sem hann óskaði álits forsætisnefndar á því hvort ummæli hans í grein í Morgunblaðinu 3. apríl sl. stæðist siðareglur alþingismanna. Niðurstaða forsætisnefndar er birt í meðfylgjandi bréfi til Björn Levís Gunnarssonar

Var niðurstaðan sú að skilyrði brysti til þess að nefndin tæki erindið til athugunar á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn, sbr. 1. málslið 1. mgr. 18. gr. siðareglnanna.

Halda áfram að lesa

Innlent

Landlæknir spurður út í bólusetningar vegna COVID-19

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir að landlæknir veiti upplýsingar um hvernig staðið hefur verið að leiðbeiningum og upplýsingagjöf vegna COVID-19 bólusetningar. Einkum með tilliti til þeirra sem, af heilsufarslegum ástæðum, telja ekki öruggt að þiggja tiltekið bóluefni.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin