Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Setningarhátíð ÓL í Tókýó

23.07.2021

Glæsileg setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó fór fram í morgun. Þema hennar var „United by Emotion“ sem mætti þýða sem „Sameinuð af tilfinningu“. 

Á upplýsingasíðu leikanna er inntak hátíðarinnar útskýrt á eftirfarandi hátt (í lauslegri þýðingu): „Fólki um allan heim hefur síðastliðið ár staðið ógn af heimsfaraldri COVID-19 og Ólympíuleikarnir í Tókýó eru haldnir í miðjum þessum áður óþekkta faraldri. Við erum öll á mismunandi aldri, af mismunandi þjóðernum og komum úr öllum áttum. Undanfarið höfum við í ofanálag þurft að halda fjarlægð hvert frá öðru. Þess vegna er óskandi að allir upplifi sömu spennu, gleði og stundum vonbrigði í gegnum frammistöðu keppenda á leikunum. Íþróttir eru alhliða. Það er ómetanlegur fjársjóður, sem við álítum að búi yfir krafti til að sameina heiminn í gegnum tilfinningar – jafnvel þó að við séum aðskilin, tölum mismunandi tungumál eða komum frá mismunandi menningarheimum. Á setningarhátíðinni verður lögð áhersla á hlutverk íþrótta og gildi Ólympíuleikanna, að láta í ljós þakklæti og aðdáun á þeirri viðleitni sem við öll sýndum síðastliðið ár sem og draga fram tilfinningu um von í garð framtíðarinnar. Við vonum að upplifunin miðli því að við höfum öll getu til að fagna mismunandi skoðunum, sýna samhygð, lifa hlið við hlið og sýna hvert öðru hluttekningu. “

Íslenski hópurinn var glæsilegur í inngöngunni á Ólympíuleikvanginum í morgun, ekki síst fánaberarnir, þau Anton Sveinn og Snæfríður Sól. Íslenski hópurinn var þriðji hópurinn til að ganga inn, strax á eftir Grikklandi sem ávallt gengur fremst allra inn á setningarhátíðum Ólympíuleika og flóttamannaliði Alþjóðaólympíunefndarinnar sem fylgdi fast á hæla Grikkjanna. Heiti Íslands á japönsku er Aisurando og því var Ísland fremst þátttökuþjóða í inngöngunni. Guðni Valur Guðnason Pétur Guðmundsson þjálfari, Pétur Einar Jónsson sjúkraþjálfari og Örvar Ólafsson aðstoðarfararstjóri eru enn í Tama City í æfingabúðum og tóku því ekki þátt í setningarhátíðinni.

Það var frábær stemning í hópnum í dag og eru allir orðnir spenntir fyrir leikunum sjálfum. Ásgeir Sigurgeirsson hefur keppni í loftskammbyssu strax á morgun og Snæfríður keppir svo í undanriðlum 26. júlí.

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Afreksbúðir ÍSÍ þann 25. september

24.09.2021

Laugardaginn 25. september verður fyrsti fyrirlesturinn í Afreksbúðum ÍSÍ en sérsambönd ÍSÍ tilnefna íþróttafólk úr sínum röðum á aldrinum 15-18 ára í Afreksbúðir ÍSÍ.

Þátttakendur hafa kost á að mæta í Íþróttamiðstöðina í Laugardal til að fylgjast með fyrirlestrinum en einnig verður hægt að fylgjast með í gegnum Teams. Fleiri fyrirlestrar verða haldnir fyrir ungt og upprennandi íþróttafólk sérsambanda ÍSÍ á næstu mánuðum. 

Íþróttasálfræðingurinn Hreiðar Haraldsson hjá Haus hugarþjálfun verður með fyrsta fyrirlesturinn í lotunni. Fyrirlesturinn fjallar um kvíða fyrir keppnum sem er algengur meðal íþróttafólks og getur haft áhrif á líðan og frammistöðu þess. Mikilvægt er að íþróttafólk hafi verkfæri í sínum verkfærakassa til að takast á við kvíðann svo hann hafi sem minnst áhrif á líðan og frammistöðu. Hreiðar útskýrir á fyrirlestrinum hvað kvíði fyrir keppnum er og hvernig árangursríkast er að takast á við hann.

Áhugasamir geta séð fyrirlestrana frá því 2020-2021 hér á heimasíðu ÍSÍ en marga áhugaverða fyrirlestra er að finna þar sem geta nýst áhugasömu íþróttafólki.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Hreyfum okkur saman í Íþróttaviku Evrópu

23.09.2021

Íþróttavika Evrópu (The European Week of Sport) er haldin 23. – 30. september í yfir 30 Evrópulöndum. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur líkt og undanfarin ár hlotið styrk frá Evrópusambandinu í gegnum Erasmus+ styrkjakerfið vegna Íþróttaviku Evrópu.

Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Sérstök áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og að hvetja Evrópubúa til að sameinast undir slagorðinu #BeActive og til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi.

Íþróttavika Evrópu er nú hafin með fullt af fjölbreyttum og skemmtilegum viðburðum um allt land. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hvetur alla sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið nánar og allt það sem í er boði er með því að kíkjainná www.beactive.is eða á Facebook síðu verkefnisins undir BeActive Iceland. 

ÍSÍ hvetur almenning að skella sér á opna æfingu eða prófa eitthvað alveg nýtt og deila því svo með okkur á @BeActive.is.

Frekari upplýsingar gefur Hrönn Guðmundsdóttur sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ á netfangið [email protected] eða í síma 514 4000. 

 

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Auglýst eftir umsóknum um styrki

23.09.2021

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) auglýsa eftir umsóknum um styrki frá sérsamböndum, íþróttahéruðum og íþrótta- og ungmennafélögum landsins.

Um er að ræða styrk að upphæð 250.000 krónur til að standa fyrir verkefni sem hvetur börn og ungmenni af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra til þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi. Fjórir styrkir eru í boði. Til þess að hljóta styrk þurfa félög að skila áætlun um hvernig þau hyggjast nýta fjármagnið.

Tímarammi verkefnisins er veturinn 2021 – 2022. Eftir að verkefnunum lýkur munu ÍSÍ og UMFÍ taka saman gögn styrkþega og deila reynslunni til annarra íþrótta- og ungmennafélaga. Með þekkingaröflun og miðlun upplýsinga gerum við gott starf enn betra. Þetta er í annað sinn sem ÍSÍ og UMFÍ útdeila styrkjum til aukinnar þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna.

Umsóknarfrestur er til 22. október. Smelltu hér til þess að sækja um.

Vertu með bæklingar

ÍSÍ og UMFÍ minna á bæklinginn Vertu með sem kom út haustið 2018. Markhópur bæklingsins eru foreldrar barna og ungmenna af erlendum uppruna og markmiðið með útgáfu hans er að vekja athygli á mikilvægi þess að börn taki þátt í skipulögðu íþróttastarfi. Í bæklingnum eru hagnýtar upplýsingar um starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga landsins.

  • Upplýsingar um æfingagjöld íþróttafélaga.
  • Frístundastyrki
  • Mikilvægi þátttöku foreldra og kosti þess að hreyfa sig í skipulögðu starfi.

Bæklingurinn er á níu tungumálum, þ.e. á íslensku, ensku, pólsku, taílensku, litháísku, filippseysku, arabísku, víetnömsku og spænsku (væntanlegur).

Smelltu hér til þess að skoða bæklinginn.

 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin